Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 514  —  307. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Með frumvarpinu er lagt til að héraðsdómurum verði fjölgað um fimm og að heildarfjöldi þeirra verði tímabundið 43. Þá er lagt til að ekki skuli skipa í embætti dómara sem losna eftir 1. janúar 2013 fyrr en þess gerist þörf til að ná þeirri tölu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 12. gr. laganna.
    Markmið frumvarpsins er að mæta þeim aukna málafjölda sem er tilkominn sérstaklega vegna þeirra atburða er leiddu til falls bankanna haustið 2008. Fyrir liggur að hjá embætti sérstaks saksóknara eru til meðferðar umfangsmikil og tímafrek mál auk fjölda rannsóknarúrskurða. Þá hefur þingfestum einkamálum fjölgað mikið sem og sakamálum hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra. Til viðbótar þessu hefur dómstólum nýlega verið falið mikilvægt hlutverk við gerð nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og við tímabundna greiðsluaðlögun fasteignalána.
    Í 61. gr. stjórnarskrár er kveðið á um sjálfstæði dómara og því er ekki unnt að ráða þá tímabundið til starfa. Með frumvarpinu er því lögð til þessi tímabundna fjölgun og gert ráð fyrir að ekki verði skipað að nýju í embætti dómara fyrr en fjöldi þeirra fer undir 38, eins og gildandi lög gera ráð fyrir.
    Nefndin hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að tryggja að dómstólarnir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki og telur því óhjákvæmilegt að fjölga dómurum svo unnt sé að mæta þessum mikla málafjölda. Nefndin telur það einnig til mikilla bóta að gert skuli vera ráð fyrir fjölgun aðstoðarmanna dómara í þingmáli sem einnig er til meðferðar í nefndinni og varðar sameiningu héraðsdómstóla (þskj. 104 – 100. mál).
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Birgir Ármannsson, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Alþingi, 18. des. 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Vigdís Hauksdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.



Ólöf Nordal.


Róbert Marshall.