Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 587  —  338. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans vegna Icesavereikninganna.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Guðmundur Steingrímsson, Siv Friðleifsdóttir,
Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson,
Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari.


    Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi nýja ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Spurningin sem lögð yrði fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu hljóði svo: „Á Alþingi Íslendinga að samþykkja breytingar á ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009.“

Greinargerð.


    Tillaga þessi, sem nú er endurflutt, gerir ráð fyrir að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort veita eigi ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna í kjölfar viðaukasamninga sem ríkisstjórnin hefur gert við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um lyktir Icesave-deilunnar.
Enn liggur ekki ljóst fyrir hverjar endanlegar skuldbindingar ríkissjóðs verða enda fer það eftir virði eignasafns Landsbanka Íslands hf. Aftur á móti er ljóst að heildarfjárhæð sem íslenska ríkið þarf að greiða gæti numið 700–750 milljörðum kr. Um er að ræða gríðarlega hagsmuni sem geta haft veruleg áhrif á hag þjóðarinnar og afkomu hennar til langs tíma og því er rétt að þjóðin taki sjálf þessa ákvörðun.
    Sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið til lausnar á Icesave-deilunni er umdeild. Nægir að nefna álitsgerðir Lárusar Blöndal hæstaréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar prófessors í lögum við Háskóla Íslands. Telja þeir að ríkissjóður beri ekki fjárhagslega ábyrgð á atburðarás þeirri sem varð við hrun íslensku bankanna. Hafa þeir fært rök fyrir því að galli í reglugerðarsetningu hjá Evrópusambandinu geri íslenska ríkið skaðlaust. Þá hafa fjölmargir fræðimenn innlendir sem erlendir sett fram skoðanir í svipuðum dúr. Enn fremur hafa komið fram sjónarmið, til að mynda hjá Ragnari H. Hall hæstaréttarlögmanni, um að útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans séu ekki í samræmi við túlkun á gjaldþrotalögunum sem almennt hefur verið uppi, þ.e. það ákvæði í samningunum sem áréttar að tryggingarsjóðirnir njóti jafnræðis og fái upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum. Undir þetta sjónarmið hefur Eiríkur Tómasson lagaprófessor jafnframt tekið.
    Lög nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., voru samþykkt á Alþingi 28. ágúst 2009. Með þeim var fjármálaráðherra veitt heimild til ríkisábyrgðar með skýrum fyrirvörum, þar á meðal að hollensk og bresk stjórnvöldum mundu samþykkja þá. Það gerðu þau ekki og þar með er óhjákvæmilegt annað en líta svo á að lögin séu úr gildi fallin. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að ganga til samningsviðræðna að nýju við Breta og Hollendinga og gerðir voru viðaukasamningar 19. október sl. til að reyna að samræma lánasamninga frá 5. júní 2009 lögum nr. 96/2009. Afrakstur þessa er að finna í lagafrumvarpi til breytinga á fyrrnefndum lögum, sbr. þskj. 76, 76. mál, sem nú liggur fyrir þinginu. Af þessu er ljóst að ekki er til staðar ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna, nema hollensk og bresk stjórnvöld gangi að fyrirvörum Alþingis samkvæmt lögum nr. 96/2009. Er því sú spurning sem sett er fram í tillögunni nánast samhljóða þeirri sem lögð var fram á 137. löggjafarþingi, sbr. þskj. 185, 132. mál. Spurningin orðist svo: „Á Alþingi Íslendinga að samþykkja breytingar á ríkisábyrgð vegna skuldbindinga Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave- reikninganna, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009.“ Er hér um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sbr. þskj. 76, 76. mál.
    Mikilvægt er að spurningin sjálf komi fram í tillögugreininni svo að framsetning spurningarinnar vefjist ekki fyrir þeim þingmönnum sem greiða tillögunni atkvæði sitt og færi spurningin því óbreytt í dóm þjóðarinnar.
    Ljóst er að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu ekki bindandi í sjálfu sér. Þó má telja að Alþingi og ríkisstjórnin mundu í kjölfarið lúta niðurstöðu hennar, eins og títt er í nágrannalöndum okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru bindandi fyrir stjórnvöld. Lagt er til að atkvæðagreiðslan fari fram eins fljótt og auðið er og í samræmi við frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem nú er til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd þingsins, sbr. þskj.5, 5. mál.