Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 593  —  283. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um fundi við erlenda aðila um Icesave-málið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu marga fundi, símtöl/samtöl, hefur ráðherra eða aðrir á hans vegum átt við erlenda aðila um Icesave-málið frá því að lög um ríkisábyrgð voru samþykkt 28. ágúst sl. og við hverja? Hvaða fundargerðir, formlegar eða óformlegar, minnisblöð, skriflegar frásagnir eða önnur skrifleg gögn liggja fyrir af þeim fundum? Stendur til að birta þau gögn?

    Ráðherra hefur gert grein fyrir þeim fundum sem hann átti á tímabilinu í sérstöku svari til Alþingis við munnlegri fyrirspurn (sbr. þskj. 308, 270. mál á yfirstandandi þingi). Ráðherra átti á tímabilinu formlega fundi með 21 evrópskum utanríkisráðherra, fjórum varautanríkisráðherrum, tveimur Evrópuráðherrum og þremur þjóðhöfðingjum. * Auk þess átti ráðherra fund með aðalframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stækkunar- og félagsmálastjórum ESB.
    Á næstum öllum þessum fundum ræddi ráðherra Icesave-málið og tengd mál.
    Ráðherra hefur auk þess gert grein fyrir Icesave-málinu á fundum með sendiherrum Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands, Þýskalands, Bretlands, Frakklands, Hollands, Írlands, Portúgals, Eistlands, Litháen, Rúmeníu og Belgíu. Þá hefur hann útskýrt málið fyrir öðrum forsvarsmönnum sendiskrifstofa á Íslandi og tekið upp á fundi með sendiherra Evrópusambandsins, tilvonandi yfirmanni sendiskrifstofu ESB á Íslandi og fyrrverandi sendiherra ESB á Íslandi en hann er sérlegur erindreki forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins. Þá gerði ráðherra grein fyrir Icesave-málinu á fundi með forseta sænska þingsins og sendinefnd sænskra þingmanna.
    Ráðherra hefur einnig átt önnur „símtöl/samtöl … við erlenda aðila“ um Icesave-málið á þessum tíma, svo sem við framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, forsætisráðherra Noregs og utanríkisráðherra Króatíu, auk nokkurra framangreindra utanríkisráðherra.
    Samtímis hefur málið borið hátt á fundum embættismanna ráðuneytisins og fulltrúar þess heima og erlendis átt fjölda funda og „símtöl/samtöl“ við fulltrúa erlendra stjórnvalda þar sem Icesave-málið hefur verið rætt.
    Eins og fram kom í svari utanríkisráðherra við áðurnefndri fyrirspurn (þskj. 308) voru ekki teknar formlegar fundargerðir, samþykktar af báðum aðilum, en af sumum fundum teknir saman minnispunktar. Engin hefð er fyrir því að einhliða minnispunktar séu birtir opinberlega enda mundi slík birting geta grafið undan trausti í samskiptum við erlend ríki.
Neðanmálsgrein: 1
    * Fundir utanríkisráðherra voru með utanríkisráðherrum Svíþjóðar, Spánar, Danmerkur, Finnlands, Hollands, Austurríkis, Möltu, Rúmeníu, Lúxemborgar, Kýpur, Ungverjalands, Slóvakíu, Slóveníu, Bretlands, Noregs, Liechtenstein, Ítalíu og Belgíu (núverandi forsætisráðherra), Eistlands, Lettlands og Litháen, tveimur varautanríkisráðherrum Þýskalands, varautanríkisráðherrum Ítalíu og Búlgaríu, Evrópumálaráðherrum Spánar og Frakklands og utanríkisviðskiptaráðherrum Svíþjóðar og Finnlands. Þá tók ráðherra þátt í fundum forseta Íslands með þjóðhöfðingjum Tékklands, Póllands og Finnlands.