Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 613  —  342. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal,


Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Ásbjörn Óttarsson, Jón Gunnarsson.


1. gr.

    19., 22., 24., 26. og 27. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Megintilgangurinn með lagafrumvarpi þessu er að draga úr millifærslukerfi í landbúnaði og gera verðlagningu gagnsærri. Ætla má að með þessu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Þá mun skilgreindur opinber stuðningur við landbúnað lækka um allt að 400 millj. kr.
    Frumvarp um skylt mál var flutt á 135. löggjafarþingi (þskj. 218, 203. mál). Málið fékk jákvæðar viðtökur fulltrúa tveggja af þremur þeirra stjórnmálaflokka sem til máls tóku í 1. umræðu. Fram kom það sjónarmið þingmanns Samfylkingarinnar að ganga ætti lengra í átt til frjálsrar verðlagningar. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, taldi hinn bóginn að verið væri „að fella niður eina af þeim stoðum sem settar voru til að standa undir félagslega uppbyggðu landbúnaðarkerfi, bæði framleiðslu, úrvinnslu og dreifingu á mjólk og mjólkurvörum …“.
    Því miður hlaut málið ekki endanlega afgreiðslu. Það frumvarp sem nú er flutt byggist að talsverðu leyti á þeim hugmyndum sem þá voru settar fram en er þó sett fram í nokkuð öðrum búningi.
    Hér verður gerð grein fyrir núgildandi fyrirkomulagi þessara mála og þess freistað að varpa ljósi á hvernig þau hafa þróast. Í upphafi skal dreginn fram munur á verðmiðluninni annars vegar og verðtilfærslunni hins vegar.

1. Verðmiðlunargjaldið.
    Í 19. gr. laganna segir m.a. um verðmiðlunargjald.
    „Tekjum af verðmiðlunargjaldi skal m.a. varið þannig:
     a.      til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöðvum í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna og til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum afurðum, sbr. 60. gr.,
     b.      til að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva,
     c.      til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað.“
    Samkomulag var um það í verðlagsnefnd, við verðlagningu 1. janúar 2006, að beina því til stjórnvalda að hætta innheimtu verðmiðlunargjalds, með breytingu á lögum þar sem ekki væri þörf á því eftir sameiningu fyrirtækja í mjólkuriðnaði. Fulltrúar ráðuneytis, launþegahreyfingarinnar (ASÍ/BSRB), fulltrúar bænda og fulltrúar afurðastöðva voru sammála um þessa ráðstöfun. Þetta var hluti af verðlagsákvörðun nefndarinnar 1. janúar 2006.

2. Verðtilfærslan.
    Samkvæmt búvörulögum er ákvæðum um verðtilfærslu mjólkurvara er skipt í tvennt. Í fyrsta lagi er um að ræða hinn lögbundna þátt skv. 22. gr. laganna (2,65 kr. á lítra innan greiðslumarks). Þennan lögbundna hluta verðtilfærslunnar verður að framkvæma með innheimtu samkvæmt lögum (2,65 kr. á lítra) og útgreiðslu miðað við lítra og/eða kíló vöru samkvæmt verðskrá verðlagsnefndar búvöru eins og nefndin ákveður hverju sinni. Innheimtan samsvarar um 310–320 millj. kr. á ári. Greitt er úr sjóðnum með vörum eins og nýmjólk, smjöri og undanrennudufti o.fl., þ.e. vörum sem eru undirverðlagðar. Þannig er verðlagningu á þessum vöruflokkum haldið niðri með því að verðleggja aðra vöruflokka hærra. Fjárreiðum og rekstri þessara sjóða er haldið aðskildum frá öðru og er ársreikningur staðfestur af löggiltum endurskoðanda sendur Fjársýslu ríkisins ár hvert. Þessi upphæð kemur inn í fjárlög (inn- og útgreiðslur) án þess þó að vera eiginleg ríkisútgjöld. Engu síður eru þessar greiðslur túlkaðar sem opinber stuðningur þegar metinn er opinber stuðningur við íslenskan landbúnað vegna samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og tilkynninga þar að lútandi. Ástæðan er sú að þessi ráðstöfun er gerð fyrir tilstilli hins opinbera með löggjöf, jafnvel þótt að hér sé eingöngu verið að færa til rekstrarfé afurðastöðva milli vöruflokka mjólkur. Ríkið leggur ekki til fjármuni úr ríkissjóði til þessa verkefnis, eins og fyrr segir.
    Hitt ákvæðið sem varðar verðmiðlun er svokölluð frjáls verðmiðlun skv. 13. gr. laganna þar sem innheimt er af seldum lítrum og/eða kílóum af tilteknum vörum með háa framlegð og greitt út á vörur með lága eða neikvæða framlegð eftir seldu magni.
    Tekjustofn þessa hluta og útgreiðslur eru eftirfarandi: Sjóðurinn hefur tekjur af vöruflokkum með háa framlegð svo sem rjómaís, jógúrtvörum og sérostum. Gjöld sjóðsins felast í því að greitt er með vörum sem hafa lága/neikvæðaframlegð. Magur ostur, skyr og drykkjarmjólk undangengin ár.
    Í 13. gr. laganna, sem heimilar þessa tilfærslu, segir:
    „Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.“
    Á undangengnum árum hefur verðlagsnefnd, í samkomulagi við mjólkuriðnaðinn, nýtt þennan hluta verðtilfærslu til að greiða niður drykkjarmjólk (nýmjólk) þar sem tekjustofn lögbundins hluta hefur verið fullnýttur og ekki svigrúm til frekari gjalda. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á þessum hluta verðmiðlunar, þ.e. hinni frjálsu verðmiðlun sem á sér stað innan afurðastöðvanna sjálfra, án atbeina ríkisvaldsins.
    Lagt er til í frumvarpinu að 19. gr. búvörulaga um álagningu verðmiðlunargjalds verði felld brott. Breytingunni er ætlað að færa form og ábyrgð rekstrar til afurðastöðvanna. Sú breyting sem hefur orðið á rekstrarumhverfi fyrirtækja í mjólkuriðnaði gerir þetta verðmiðlunarkerfi þess utan óþarft. Lagt er til að verðtilfærslugjald skv. 22. gr. búvörulaga verði afnumið og form og ábyrgð rekstrar þannig fært til afurðastöðvanna. Nokkur forsaga er að baki verðtilfærslu milli einstakra mjólkurafurða. Á sínum tíma voru niðurgreiðslur á verði mjólkur og mjólkurafurða mjög breytilegar sem hlutfall af verði hverrar afurðar. Niðurgreiðslur voru afnumdar árið 1992 en þess í stað teknar upp beinar greiðslur til bænda og var ákveðið, til að valda ekki röskun á markaði, að heimila tilfærslur á milli verðs einstakra afurða. Verðtilfærsla milli mjólkurafurða hefur verið stunduð síðan þá. Ljóst er hins vegar að þetta fyrirkomulag stuðlar að umdeilanlegri verðmyndun og tekur ekki nægjanlegt tillit til raunverulegs framleiðslukostnaðar. Allt að einu er það ekki talið eðlilegt að opinber stýring af þessu tagi stýri verðlagningu einstakra vörutegunda og vöruflokka þar sem verðlagning á einni vörutegund er notuð til þess að lækka eða hækka verð á annarri vörutegund.
    Jafnframt er lagt til að felldar verði brott greinar sem fjalla um framkvæmd verðmiðlunar og verða óþarfar að samþykktum þeim breytingum sem í frumvarpinu felast.