Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 642  —  200. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2009–2013.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Á sumarþingi 2009 olli vinnulag meiri hluta umhverfisnefndar þegar þingsályktunartillaga um náttúruverndaráætlun var afgreidd út úr nefndinni án efnislegrar umfjöllunar hörðum viðbrögðum minni hlutans. Málið náði ekki fram að ganga á því þingi og kom því að nýju til umfjöllunar í umhverfisnefnd á yfirstandandi þingi. Við fyrri umræðu málsins vöktu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins athygli á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð höfðu verið á sumarþingi og gagnrýndu þá smánarlegu málsmeðferð sem málið fékk og kölluðu jafnframt eftir vandaðri og faglegri umfjöllun um tillöguna í nefndinni. Sjónarmið sjálfstæðismanna fengu ágætar undirtektir við umræðuna, m.a. frá umhverfisráðherra sem sagði: „Ég vil að lokum lofa þingmönnum því að ég er talsmaður þess að náttúruverndaráætlun fái ítarlega og góða vinnu í umhverfisnefnd og vænti mikils af þeirri vinnu.“
    Miðað við viðbrögð umhverfisráðherra við gagnrýninni var búist við ítarlegri og málefnalegri umfjöllun um málið. Það gekk hins vegar ekki eftir og var málið að nýju afgreitt frá umhverfisnefnd nánast án umfjöllunar. Því er enn á ný þörf á að gagnrýna málsmeðferð og vinnubrögð stjórnarmeirihlutans á Alþingi.
    Minni hlutinn telur óviðunandi að engir hagsmunaaðilar skuli hafa verið kallaðir á fund nefndarinnar þrátt fyrir fjölmargar umsagnir og margs konar athugasemdir í þeim umsögnum sem rétt hefði verið að fjalla um og fá nánari skýringar á.
    Að mati minni hlutans er ástæðulaust að taka öll mál út úr nefndum þingsins í ósætti og telur minni hlutinn dapurlegt að ekki sé hægt að standa við fögur fyrirheit, fylgja eftir vilja umhverfisráðherra og fjalla ítarlega um málið í umhverfisnefnd. Mikilvægt er að Alþingi leiti leiða til að skapa sem breiðasta sátt um efni náttúruverndaráætlunar.
    Almennt gerir minni hlutinn þá athugasemd að alger samráðsskortur virðist vera við vinnslu þessa máls. Sveitarfélögin sem málið varðar hafa í umsögnum sínum bent á skort á samráði og svo virðist sem athugasemdir þeirra séu alfarið virtar að vettugi. Jafnframt birtist í tillögunni viðleitni til þess að fara inn á valdsvið sveitarfélaganna sem fara með skipulagsvaldið í landinu samkvæmt lögum.

Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar.
    Nýtt aðalskipulag Fljótsdalshéraðs var undirritað af umhverfisráðherra 21. desember sl. Í aðalskipulaginu kemur m.a. fram tillaga Fljótsdalshéraðs um hvaða svæði er lagt til við umhverfisráðherra að verði friðlýst. Við gerð aðalskipulagsins fór sveitarfélagið eftir tillögum Helga Hallgrímssonar, náttúrufræðings á Egilsstöðum, um svæði til friðlýsingar og eru Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar ekki þar á meðal. Jafnframt hafa ábúendur Egilsstaða sent inn umsögn vegna málsins þar sem þessum kafla tillögunnar að náttúruverndaráætlun er mótmælt. Tillagan er því í algerri andstöðu við vilja bæði ábúenda og bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og sætir furðu þrátt fyrir vandaðan undirbúning heimamanna að þessi tillaga sé enn til umfjöllunar á Alþingi.
    Á 136. löggjafarþingi lagði umhverfisnefnd til að áform um friðlýsingu Egilsstaðaskógar og Egilsstaðakletta yrðu felld brott úr tillögu að náttúruverndaráætlun þar sem skorti á samráð við heimamenn. Miðað við umsögn Fljótsdalshéraðs og landeigenda Egilsstaða hefur sú staða ekki breyst og því ekki forsvaranlegt að samþykkja tillögu um friðun þessa svæðis.

Skaftárhreppur.
    Í tillögunni er lagt til að svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti verði friðuð sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Á því svæði er staðan sú að mikill aurburður hefur valdið miklum spjöllum á landi og ljóst er að sá vandi kallar á framkvæmdir sem hafa í för með sér rask. Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur skipað sérstakan vinnuhóp til að gera tillögur um aðalskipulag á þessum svæðum, þar á meðal með tilliti til þeirra ágreiningsmála sem uppi eru um verndun og nýtingu þeirra. Vinnuhópurinn á bráðlega að skila niðurstöðu. Verkið hefur verið tímafrekt enda er viðfangsefnið viðamikið og flókið en það er unnið í samráði við Landgræðsluna sem óskað hefur verið eftir að vinni tillögur að því hvernig megi sporna við aurburðinum. Að mati minni hlutans er mikilvægt að vinnu heimamanna verði lokið áður en Alþingi tekur afstöðu til þess hversu stórt svæði á Síðuafrétti og í Skaftártungum verði friðað enda hefur sveitarstjórn óskað eftir því í umsögn sinni.
    Sveitarfélögin í landinu fara samkvæmt lögum með skipulagsvaldið og þess vegna er ávallt viðkvæmt þegar ríkið er að gera áætlanir sem þessa sem fela í sér stefnumótandi áherslur varðandi friðun svæða. Náttúruverndaráætlun er slík áætlun og þess vegna er eðlilega rík ástæða til að viðhafa umtalsvert og náið samráð við þau sveitarfélög sem málið varðar. Sveitarfélögin hafa mikinn metnað í þessum málaflokki og því er full ástæða til að taka mark á því áliti sem sveitarfélögin hafa á því efni sem sett er fram í náttúruverndaráætlun. Skipulagsvaldið er þeirra og íbúar sveitarfélaganna sem lifa með landinu þekkja best hvaða áherslur þarf að leggja við náttúruvernd.
    Á 136. löggjafarþingi var fjallað um náttúruverndaráætlun sem var að flestu leyti samhljóða þeirri tillögu sem lögð er fram hér. Sú tillaga náði ekki fram að ganga en umhverfisnefnd hafði fjallað um þessi atriði er varða Skaftárhrepp og taldi nefndin mikilvægt að mikið og náið samráð yrði haft við heimamenn um þetta atriði.
    Full ástæða hefði verið til þess að fara yfir þessi álitaefni í umhverfisnefnd til að fá betur fram afstöðu heimamanna til friðunarinnar og leita leiða til að skapa sátt um efni náttúruverndaráætlunarinnar. Þar sem það hefur ekki verið gert telur minni hlutinn ekki forsvaranlegt að þeim kafla er lýtur að friðun svæðis í Skaftártungum og á Síðuafrétti verði haldið í áætluninni enda óásættanlegt að slík ákvæði komi inn í náttúruverndaráætlun án samráðs við heimamenn.

Hvannstóð undir Reynisfjalli.
    Minni hlutinn fagnar þeirri breytingartillögu meiri hlutans að falla frá áformum um friðlýsingu verndarsvæðis brekkubobba í hvannstóði undir Reynisfjalli enda mættu þær fyrirætlanir harðri andstöðu heimamanna og óásættanlegt að slík ákvæði komi inn í náttúruverndaráætlun án samráðs við heimamenn.

Stærra friðland í Þjórsárverum.
    Mikilvægt er að leitað verði leiða til að skapa sátt um útfærslu stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum. Umhverfisráðuneytið skipaði sérstakan starfshóp árið 2006 til að fara yfir og kanna möguleika á stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, endurskoða mörk friðlandsins og skilmála friðlýsingar. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum sveitarfélaganna á svæðinu auk fulltrúa Umhverfisstofnunar. Starfshópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu í mars 2007 og má því segja að sátt hafi náðst við heimamenn um útfærslu stækkunar friðlandsins. Í tillögu þeirri sem hér liggur fyrir er vikið verulega frá niðurstöðu starfshópsins en friðlandið er stækkað umtalsvert til suðurs miðað við niðurstöðu starfshópsins en ekki er ljóst á hvaða rökum það byggist.
    Samkvæmt tillögunni er auk þess ætlunin að leggja bann við röskun innan svæðisins og kveða á um það í friðlýsingarskilmálum. Umfjöllun um þetta atriði í tillögunni er með nokkrum ólíkindum og ljóst að hér birtist á beinan hátt virðingarleysi gagnvart þeirri staðreynd að sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið.
    Mikilvægt hefði verið að umhverfisnefnd fjallaði um skörun efnis náttúruverndaráætlunar við þá vinnu sem unnin er við gerð rammaáætlunar. Heppilegra hefði verið að ný náttúruverndaráætlun hefði litið dagsins ljós að lokinni rammaáætlun þar sem ljóst er að efni hennar skarast að miklu leyti við efni náttúruverndaráætlunar.
    Þá telur minni hlutinn að skýra þurfi nánar rökstuðning og afmörkun þess svæðis sem lagt er til að friðað verið við Orravatnsrústir.

Náttúrustofur.
    Náttúrustofurnar eru grónar og góðar vísindastofnanir á landsbyggðinni. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt á því sviði sem þær starfa. Þær eru líka einn af hornsteinum þeirrar uppbyggingar á vísinda- og rannsóknarsviði sem hefur átt sér stað utan höfuðborgarsvæðisins. Það hefur hins vegar reynst nauðsynlegt að berjast mjög fyrir tilveru þeirra. Einn liður í því að treysta forsendur þeirra væri að ætla þeim meira hlutverk í náttúruverndaráætlunum, enda falla þær algjörlega að því lögformlega hlutverki sem stofunum er ætlað.
    Einar K. Guðfinnsson tók þessi mál upp á Alþingi 17. nóvember sl. þegar mælt var fyrir tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun. Er skemmst er frá því að segja að umhverfisráðherra brást afar vel og jákvætt við og sagði: „Ég þakka sérstaklega hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa ádrepu um Náttúrustofurnar og mikilvægi þeirra því að ég sannarlega deili þeirri upplifun og þeirri skoðun að mikilvægi þeirra er gríðarlegt. Þetta eru ekki bara umsagnaraðilar heldur ekki síður mikilvægar burðarstoðir oft og einatt í sveitarfélögunum.“
    Enn fremur sagði ráðherra í ræðu sinni: „Ég mun ekki gera neitt annað … en styðja og standa með þingmanninum í því að Náttúrustofurnar hafi meiri hlutverk og ef það er verkefni sem umhverfisnefnd getur tekið að sér í umfjöllun og meðförum varðandi náttúruverndaráætlun sé ég ekkert því til fyrirstöðu, þ.e. að samstarfið við náttúrustofurnar sé aukið og styrkt að því er varðar framkvæmdina á náttúruverndaráætlun og að það sérstaklega nefnt í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd út úr þinginu finnst mér bara eðlilegt og jákvætt.“
    Þess vegna vekur furðu sú afstaða meiri hlutans að sniðganga þessar mikilvægu vísindastofnanir á landsbyggðinni þegar kemur að því að móta verklag við náttúruverndaráætlanir. Brýnt er því að bæta úr þessu og hrinda í framkvæmd því stefnumarkandi atriði sem umhverfisráðherra lagði áherslu í ræðu sinni. Það getur varla hafa verið ætlun meiri hlutans að virða tilmæli ráðherrans að vettugi.

Niðurstaða.
    Mikilvægt er að náttúruverndaráætlun fái ítarlega og vandaða umfjöllun á Alþingi og að hagsmunaaðilar fái að rökstyðja sjónarmið sín fyrir þeirri nefnd þingsins sem um málið fjallar. Vinnubrögð meiri hlutans valda miklum vonbrigðum í ljósi forsögu málsins og þess anda sem m.a. kom fram í ræðu umhverfisráðherra við flutning tillögunnar á þessu þingi. Minni hlutinn telur brýnt að umhverfismálum sé sýnd sú virðing að ekki sé gefinn afsláttur af vönduðum vinnubrögðum þegar jafnmikilvæg mál eins og hér um ræðir koma til afgreiðslu á Alþingi. Jafnframt telur minni hlutinn ljóst að við undirbúning málsins af hálfu umhverfisráðuneytis hefði átt að leita frekara samráðs við heimamenn og hagsmunaaðila.
    Þar sem fram hefur komið:
     a.      að umtalsverðir gallar eru á málsmeðferðinni,
     b.      að ekki var leitað fullnægjandi samráðs við hagsmunaaðila og þær sveitarstjórnir sem fara með skipulagsvaldið þar sem tilgreind friðunarandlög eru staðsett, og
     c.      að mjög óheppilegt er að afgreiða jafnmikilvægt mál í ósætti Alþingis, sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila
leggur minni hlutinn til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að taka upp samráð á nýjan leik við sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila. Leitað verði eftir hugmyndum þeirra að friðlýsingum með það fyrir augum að skapa sem mesta sátt um tillöguna.

Alþingi, 1. febr. 2010.

Birgir Ármannsson.