Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 399. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 710  —  399. mál.




Álit fjárlaganefndar



á ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2008.


    Fjárlaganefnd hefur fjallað um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2008 og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig.
    Skýrslan er í senn starfsskýrsla til þingsins og samantekt á upplýsingum um þau mál sem stofnunin hefur fjallað um á árinu 2008 og telur rétt að kynna.
    Ríkisendurskoðun endurskoðar ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur annast stofnunin eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Ríkisendurskoðun er sjálfstæð og óháð stofnun sem starfar í umboði Alþingis. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.
    Eins og ársskýrslan ber með sér eru viðfangsefnin fjölbreytt. Eftirfarandi tafla sýnir hlutfallslega skiptingu virkra vinnustunda eftir viðfangsefnum.

Hlutfall virkra vinnustunda
  2008
Fjárhagsendurskoðun 45,0
Stjórnsýsluendurskoðun 16,0
Innri endurskoðun 8,0
Úttektir á upplýsingakerfum 6,0
Önnur verkefni 9,0
Yfirstjórn, rekstur og stoðþjónusta 16,0
100,0

    Undir önnur verkefni falla eftirlit með framkvæmd fjárlaga, lögfræðilegar álitsgerðir, eftirlit með fjárreiðum sjálfseignarstofnana og eftirlit með fjárreiðum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Þá hafði stofnun nýrra banka í eigu ríkisins í för með sér ný verkefni fyrir stofnunina, en þar sem hún hafði ekki yfir að ráða þeirri sérfræðiþekkingu sem þarf til að endurskoða viðskiptabanka var ákveðið að bjóða út það verkefni. Engu að síður áritar stofnunin stofnefnahagsreikninga og fyrsta ársreikning nýju bankanna og mun fylgjast með endurskoðuninni sem kaupandi þjónustunnar.
    Einnig hefur Ríkisendurskoðun hrint af stað átaksverkefnum til að efla enn frekar eftirlit með framkvæmd fjárlaga, virkni innra eftirlits, framkvæmd sparnaðaraðgerða og til að meta áhrif skertra fjárveitinga á gæði og magn þjónustu sem ríkisaðilar veita. Þar sem reynslan hefur sýnt að almennt er meiri hætta á fjármálamisferli á tímum efnahagsþrenginga hefur stofnunin sent forstöðumönnum ríkisstofnana bréf og hvatt þá til að kynna sér þessi mál.
    Hjá stofnuninni voru unnin 47,5 ársverk og er það svipaður fjöldi og árið áður. Fjöldi virkra vinnustunda við endurskoðunar- og eftirlitsstörf var svipaður og árið áður. Mestur tími fór í að endurskoða og hafa eftirlit með fjárlagaliðum sem heyra undir fjármálaráðuneytið (um 25%), menntamálaráðuneytið (14%), heilbrigðisráðuneytið (13%) og dómsmálaráðuneytið (11%).
    Afköst fjárhagsendurskoðunar hafa verið metin út frá fjölda áritaðra ársreikninga og fjölda endurskoðunarbréfa og skilvirknin metin með því að deila fjölda virkra vinnustunda með samanlögðum fjöldanum. Á milli áranna 2008 og 2007 fækkaði árituðum reikningum og endurskoðunarbréfum. Skilvirknin jókst á sama tíma. Ríkisendurskoðun hefur leitast við að meta árangur stjórnsýsluendurskoðunar með því að kanna viðbrögð stjórnvalda og stofnana við ábendingum sem fram koma í skýrslum. Að teknu tilliti til fyrirvara um að áhöld geta verið um hvort eða að hve miklu leyti farið hefur verið eftir ábendingum þá telur stofnunin að um 90% þeirra hafi verið framkvæmdar, að fullu eða að hluta til, þremur árum eftir að ábendingar voru settar fram. Til að meta árangur innri endurskoðunar kannar Ríkisendurskoðun hvernig stofnanir bregðast við ábendingum skýrslna. Árangurinn var metinn 65% árið 2008.
    Á síðasta ári gengu í gildi ný lög um endurskoðendur, 79/2008, sem eiga rætur sínar að rekja til tilskipunar Evrópusambandsins. Í þeim er hert á lögboðnum kröfum sem gerðar eru til endurskoðenda og munu lögin hafa áhrif á fjárhagsendurskoðun Ríkisendurskoðunar.
    Á árinu varð 30 m.kr. tekjuafgangur af rekstri stofnunarinnar og nemur uppsafnaður tekjuafgangur, sem eru ónotaðar fjárheimildir, 75,4 m.kr. Er það um 16,1% af framlagi á fjárlögum ársins. Helsta skýringin á góðri afkomu er sú að ekki var ráðið í laus störf fyrr en undir haust.
    Hjá stofnuninni var lokið við nýja starfsáætlun á fyrri helmingi ársins 2009 sem gildir fyrir tímabilið 2009–2011.
    Fjárlaganefnd telur mikilvægt að lagt verði mat á hvort Ríkisendurskoðun sé í stakk búin til að takast á við ný verkefni sem tengjast hruninu. Ríkisendurskoðun þarf að vera reiðubúin til að leggja ítarlegt mat á þær stofnanir sem mest mæddi á í aðdraganda hrunsins. Starfsskýrslan vekur spurningar um hvort stofnunin hefur lagt réttar áherslur í verkefnum sínum við þessar erfiðu aðstæður og hvort Alþingi fyrir atbeina forsætisnefndar ætti að hafa virkara frumkvæði varðandi verkefni Ríkisendurskoðunar.
    Það er mikilvægt fyrir fjárlaganefnd og þingmenn að fá með skýrslu sem þessari innsýn í eftirlitsstarfsemi Ríkisendurskoðunar, en slíkar upplýsingar eru til þess fallnar að styrkja það sjálfstæða eftirlitshlutverk sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Alþingi setti snemma árs 2008 reglur um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar og er í þeim gert ráð fyrir að þær séu sendar viðeigandi fagnefndum þingsins til umfjöllunar. Síðan þá hefur stofnunin gefið út um 10 skýrslur, en aðeins um helmingur þeirra hefur verið kynntur í þingnefnd. Fjárlaganefnd tekur undir það mat ríkisendurskoðanda að skýrslur Ríkisendurskoðunar mundu nýtast þinginu betur við eftirlit þess með framkvæmdarvaldinu ef ávallt væri fjallað skipulega um þær í nefndum. Þá er það mat nefndarinnar að eðlilegt sé að hún komi til með að fjalla um mun fleiri skýrslur Ríkisendurskoðurnar en nú er.

Alþingi 16. febrúar 2010.


Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Kristján Þór Júlíusson.


Oddný G. Harðardóttir.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.

Þór Saari,


með fyrirvara.

Þuríður Backman.