Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 368. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 712  —  368. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Erlu Óskar Ásgeirsdóttur um fríverslunarviðræður.

     1.      Hver er staða fríverslunarviðræðna milli Íslands og Kína og hvenær er áætlað að samningum verði lokið?
    Fríverslunarviðræður á milli Íslands og Kína hófust í apríl 2007. Fjórar samningalotur hafa verið haldnar, sú fyrsta í apríl 2007, önnur í júní 2007, þriðja í október 2007 og sú fjórða í apríl 2008.
    Í viðræðunum hefur komið fram að talsvert ber enn á milli samningsaðila á nokkrum sviðum, t.d. hvað varðar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir, þjónustuviðskipti og aðgang að íslenskum vinnumarkaði.
    Bæði ríkin hafa lagt fram tilboð á sviði vöruviðskipta. Í tilboði Íslands er boðin niðurfelling tolla á sjávarafurðum og iðnaðarvörum, svo og lækkun eða niðurfelling tolla á tilteknum landbúnaðarvörum. Tilboð Kína felur í sér niðurfellingu tolla á vörum að undanskildum nokkrum vörutegundum. Þá hefur Kína farið fram á fimm eða tíu ára aðlögunartíma á niðurfellingu tolla af tilteknum vörutegundum, m.a. á tilteknum sjávarafurðum og iðnaðarvörum sem framleiddar eru hér á landi. Íslenska samninganefndin hefur sótt fast að fá Kína til að falla frá kröfu sinni um aðlögunartíma en án árangurs. Af Íslands hálfu hefur verið lögð rík áhersla á niðurfellingu allra tolla á sjávarafurðum og iðnaðarvörum sem framleiddar eru á Íslandi þegar við gildistöku samningsins.
    Bæði ríkin hafa enn fremur gert kröfur og lagt fram tilboð á sviði þjónustuviðskipta, en þar ber enn nokkuð á milli samningsaðila. Af hálfu Kína hafa verið gerðar kröfur um tímabundinn aðgang að íslenskum vinnumarkaði.
    Á þessu stigi máls er erfitt að segja til um hvenær samningaviðræðunum lýkur. Frá síðustu samningalotu árið 2008 hefur ekki fengist samþykki Kína fyrir að hefja næstu lotu.

     2.      Hver er staða fríverslunarviðræðna EFTA við Hong Kong, Perú, Indland, Tæland, Alsír og Úkraínu og hvenær er áætlað að samningum verði lokið?
    Fríverslunarviðræður við Hong Kong hófust í janúar 2010. Vonast er til að þeim ljúki á þessu ári.
    Samningaviðræðum um fríverslunarsamning við Perú er lokið og er unnið að lokafrágangi samningsins. Vonast er til að hann verði undirritaður á næstu mánuðum.
    Fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og Indlands var ýtt úr vör á árinu 2008 og hafa fjórar samningalotur verið haldnar. Ljóst er að viðræðurnar verða tímafrekar og erfitt er að áætla hvenær þeim lýkur.
    Samningaviðræður um fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Tælands hófust árið 2005. Þegar herforingjastjórn tók völdin í Bangok í september 2006 var ákveðið að fresta viðræðum um óákveðinn tíma. Þingkosningar fóru fram í Tælandi í desember 2007 og hafa EFTA-ríkin lýst því yfir að þau séu reiðubúin að hefja viðræður að nýju.
    Fríverslunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og Alsír hófust í nóvember 2007 og hafa fjórar samningalotur verið haldnar. Á þessu stigi máls er erfitt að segja til um hvenær samningaviðræðum lýkur. Erfið mál eru óleyst og samningafundir hafa ekki verið haldnir í rúmt ár.
    Fríverslunarviðræður hófust milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu í apríl 2009. Samningafundir hafa gengið vel fyrir sig og stefna ríkin að því að viðræðunum ljúki á fyrri hluta þessa árs.

     3.      Ætlar ríkisstjórnin að eiga frumkvæði að slíkum fríverslunarviðræðum eða tvíhliða viðræðum við önnur ríki á þessu ári?
    Á ráðherrafundum EFTA-ríkjanna sem haldnir eru tvisvar á ári eru teknar ákvarðanir um fríverslunarviðræður.
    Sameiginlegur starfshópur EFTA-ríkjanna og Rússlands mælti með því árið 2008 að hefja viðræður um fríverslunarsamning. Á ráðherrafundi EFTA í desember 2009 ræddu ráðherrarnir framvindu mála varðandi Rússland og samþykktu að ljúka undirbúningi að samningaviðræðum svo að þær gætu hafist á árinu 2010. Rússland stofnaði tollabandalag með Hvíta- Rússlandi og Kasakstan 1. janúar 2010. EFTA-ríkin og Rússland ræða nú hvaða áhrif tollabandalagið getur haft á framþróun mála.
    EFTA-ríkin og Indónesía luku í árslok 2006 sameiginlegri könnun á því hvort hefja ætti fríverslunarviðræður. Niðurstaðan var sú að mæla með gerð fríverslunarsamnings og er vonast til að viðræður hefjist á þessu ári.
    Búist er við að EFTA-ríkin og Víetnam hefji á þessu ári sameiginlega hagkvæmnikönnun um gerð fríverslunarsamnings.
    Unnið er að gerð sameiginlegra yfirlýsinga um samstarf EFTA-ríkjanna við Malasíu og Panama. Slíkar yfirlýsingar geta í einhverjum tilvikum verið fyrstu skref í átt að samningaviðræðum.
    Síðastliðin ár hafa íslensk stjórnvöld lýst yfir áhuga á að gera fríverslunarsamning við Japan og hefur það reglulega verið áréttað gagnvart Japan. Það var síðast gert á tvíhliða fundi ríkjanna 11. febrúar sl.
    Á undanförnum árum hefur Ísland lýst yfir áhuga á að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin en möguleiki á gerð slíks samnings hefur verið kannaður ítarlega, fyrst og fremst á vettvangi EFTA. Þar sem ekki náðist að koma á viðræðum milli EFTA-ríkjanna og Bandaríkjanna lýsti Ísland yfir áhuga á gerð tvíhliða samnings. Í kjölfarið kannaði Ísland möguleikann á að gera fríverslunarsamning milli ríkjanna.
    Niðurstaða þeirra kannana sem gerðar hafa verið er sú að ekki sé til staðar grundvöllur til að hefja fríverslunarviðræður við Bandaríkin, hvorki á vettvangi EFTA né tvíhliða. Ræður tvennt þar mestu um. Í fyrsta lagi hafa Bandaríkin á undanförnum árum margsinnis gefið til kynna í viðræðum við íslensk stjórnvöld að í ljósi takmarkaðra viðskiptahagsmuna hafi þau ekki áhuga á tvíhliða fríverslunarsamningi við Ísland. Í öðru lagi hafa Bandaríkin gefið skýrt til kynna að forsenda fríverslunarsamnings væri sú að markaðsaðgangur fyrir landbúnaðarvörur, þ.m.t. viðkvæmar landbúnaðarvörur svo sem kjöt- og mjólkurvörur, yrði bættur mjög verulega frá því sem nú er. Hin skýra afstaða Bandaríkjanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur hefur leitt til þess að ekki hefur verið talið raunhæft af hálfu EFTA-ríkjanna eða Íslands að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin.