Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 713  —  337. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur um þvinganir gegn Íraelsríki vegna mannréttindabrota í Palestínu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Telur ráðherra að nauðsynlegt geti verið að beita Ísraelsríki viðskiptaþvingunum vegna mannréttindabrota í Palestínu og ólöglegrar landtöku Ísraela þar? Hver er skoðun ráðherra á þeirri fullyrðingu að nú sé orðið tímabært að beita slíkum þvingunum?

    Viðskiptaþvingunum er einungis beitt þegar önnur úrræði hafa verið fullreynd. Í málefnum Ísraels og Palestínu hafa viðskiptaþvinganir á Ísrael ekki komið til alvarlegrar skoðunar, a.m.k. enn sem komið er, hvorki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, innan Evrópusambandsins eða í öðrum ríkjahópum sem Ísland á samstarf við. Alþjóðasamfélagið hefur því ekki talið tímabært að beita slíkum þvingunum og hefur Ísland, sem og önnur Norðurlönd, verið því samstiga. Þess í stað hefur megináhersla verið lögð á að endurvekja friðarviðræðurnar og að fá Ísrael til að stöðva landtöku á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum, þ.m.t. í Austur- Jerúsalem. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessa nálgun og í því samhengi lagt þunga áherslu á skyldu Ísraelsríkis að virða mannréttindi Palestínumanna og uppfylla skyldur sínar sem hernámsaðila samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þessu hefur verið komið á framfæri bæði tvíhliða við Ísraelsstjórn og einnig í málflutningi á alþjóðavettvangi, m.a. í ræðu utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York síðastliðið haust og á fundum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Einnig tók utanríkisráðherra þá ákvörðun í janúar 2009, þá sem starfandi utanríkisráðherra, að afþakka heimsókn þáverandi menntamálaráðherra Ísraels við þær aðstæður að loftárásir ísraelska hersins gengu yfir Gaza-svæðið á sama tíma. Með því undirstrikaði ráðherra harða fordæmingu íslenskra stjórnvalda á óverjandi og óásættanlegum loftárásum Ísraela á Gaza fyrir réttu ári síðan.
    Viðskiptaþvinganir eru úrræði sem alþjóðasamfélagið getur beitt gegn einstökum ríkjum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Fjallað er um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir í lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93 frá 12. júní 2008. Þar eru taldar upp þær aðgerðir sem til greina koma, m.a. bann við viðskiptum, fjárfestingum o.fl.
    Í málflutningi sínum um málefni Ísrael og Palestínu hefur Ísland lagt áherslu á eftirfarandi:
     *      Brýnt er að endurvekja friðarferlið og friðarviðræður þurfa að hefjast þegar í stað.
     *      Kringumstæður krefjast þess að alþjóðasamfélagið taki virkari þátt í friðarferlinu.
     *      Landtökustefnu Ísraels verður að stöðva. Hún er ólögleg samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og kemur í veg fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.
     *      Umsátursástandinu um Gaza verður að aflétta. Mannúðarástandið þar er óþolandi og hóprefsingar, sem eru ólögmætar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, eru aldrei réttlætanlegar.
     *      Aflétta verður takmörkunum á ferðafrelsi, bæði á Gaza og Vesturbakkanum.
     *      Aðskilnaðarmúrinn svokallaði, sem Ísrael hefur byggt á Vesturbakkanum og er nær að 90% hluta byggður á palestínsku landi, er ólöglegur og torveldar friðarsamninga. Auk þess brýtur múrinn gegn ferðafrelsi Palestínumanna með afdrifaríkum hætti, og hefur afar neikvæð efnahagsleg áhrif.
     *      Stöðva þarf niðurrif húsa og útburð Palestínumanna frá heimilum sínum á hernumdu svæðunum, þ.m.t. í Austur-Jerúsalem.
     *      Gagnrýna ber Ísraelsstjórn fyrir að neita að vinna með rannsóknarnefnd Richards Goldstone, sem mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna setti á fót til að kanna ásakanir um stríðsglæpi í hernaðinum á Gaza í desember 2008 og janúar 2009.
    Auk málflutnings á alþjóðavettvangi hafa íslensk stjórnvöld, líkt og önnur Norðurlönd, látið málstað stofnana Sameinuðu þjóðanna á svæðinu sig miklu varða. Má þar sérstaklega nefna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA). Íslenska friðargæslan hefur undanfarin missiri sent sérfræðinga til starfa á hernumdu svæðunum, þ.m.t. Austur-Jerúsalem. Á vegum hennar starfar þar í dag sérfræðingur í alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum við Skrifstofu samþættingar mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum (UN OCHA), sem vinnur með Palestínumönnum sem sæta ofbeldi, ólöglegri eignaupptöku og útburði vegna hernámsins. Framlög sem þessi eru þýðingarmikil, enda starfa slíkir sérfræðingar að því að stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og mannúðarlögum og upplýsa alþjóðasamfélagið um brot á þeim.
    Brýnt er að alþjóðasamfélagið, ekki síst Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, beiti sér með virkari hætti í friðarferlinu. Takist ekki að endurvekja friðarviðræðurnar og sýna fram á raunverulegan árangur á næstu missirum er ekki útilokað að alþjóðastofnanir eða ríkjahópar horfi til þess að beita nýjum úrræðum til að knýja fram niðurstöðu í málinu og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og mannúðarlögum.