Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 233. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 751  —  233. mál.
Nefndin.




Nefndarálit



um frv. til l. um framhaldsfræðslu.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Þórhall Vilhjálmsson, skrifstofustjóra lagasviðs í mennta- og menningarmálaráðuneyti, Stefán Stefánsson frá skrifstofu menntamála í mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðrúnu S. Eyjólfsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Tryggva Þórhallsson og Ingu Rún Ólafsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Árna Stefán Jónsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ragnheiði Lindu Skúladóttur, forstöðumann Hringsjár, sem kom fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands, Huldu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra, og Ingu Dóru Halldórsdóttur, formann, sem komu fyrir hönd Kvasa, Guðbjörgu Aðalbergsdóttur, formann Félags íslenskra framhaldsskóla, Sigríði Dísu Gunnarsdóttur sem kom frá Félagi náms- og starfsráðgjafa og Elnu Katrínu Jónsdóttur, varaformann Kennarafélags Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi íslenskra framhaldsskóla, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Framhaldsskólanum í Austur- Skaftafellssýslu, Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum, Kennarasambandi Íslands, Kvösum – samtökum fræðslu- og símenntunarstöðva, Menntaskólanum við Sund, Miðstöð símenntunar í Hafnarfirði, Mími – Símenntun ehf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Frumvarpi þessu er ætlað að styrkja lagalegan grundvöll framhaldsfræðslu hér á landi og gera hana að fimmtu grunnstoð íslensks menntakerfis. Stuðlar frumvarpið þannig að vexti almenns menntunarstigs þar sem einstaklingar með stutta formlega skólagöngu afli sér frekari menntunar. Jafnframt markar frumvarpið lokaáfanga í heildarendurskoðun á lagaumhverfi íslensks menntakerfis sem byggist á því að veita einstaklingum tækifæri til náms alla ævi. Þannig er horft á menntakerfið sem eina heild frá leikskóla til háskóla, til framhaldsfræðslu og til óformlegrar menntunar sem fer fram utan skólakerfisins. Á undanförnum árum hefur framhaldsfræðslu vaxið fiskur um hrygg og er hún nú margháttuð og umfangsmikil. Með frumvarpi þessu er lagður grunnur að heildstæðu kerfi framhaldsfræðslunnar þar sem einstaklingum er veittur stuðningur óháð stéttarfélagsaðild.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra fari með yfirstjórn málefna framhaldsfræðslunnar og beri ábyrgð á almennri stefnumótun hennar í samráði við hagsmunaaðila. Enn fremur ber hann ábyrgð á almennri stjórnsýslu, málefnum Fræðslusjóðs, stuðningi við þróun og nýsköpun sem og eftirliti og mati. Ráðherra getur samkvæmt frumvarpinu falið öðrum aðila að votta einstakar námskrár og námslýsingar, veita fræðsluaðilum viðurkenningu, annast fjárreiður og umsýslu með Fræðslusjóði og annast söfnun og miðlun upplýsinga um framhaldsfræðslu, sbr. 15. gr. Í III. kafla er fjallað um fjárveitingar til framhaldsfræðslu og Fræðslusjóðs. Fræðslusjóður hefur það hlutverk, skv. 10. gr., að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga og að skapa skilyrði fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér slík tækifæri. Munu starfsmenntamál opinberra starfsmanna einnig vera á meðal verkefna sjóðsins. Samkvæmt frumvarpinu skipar ráðherra Fræðslusjóði átta manna stjórn til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum frá aðilum vinnumarkaðarins (ASÍ, SA, BSRB), félags- og tryggingamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem tilnefna sameiginlega. Formaður stjórnarinnar er þó skipaður án tilnefningar. Í IV. kafla er fjallað um mat og eftirlit með gæðum en frumvarpið gerir ráð fyrir að fræðsluaðilar meti sjálfir árangur og gæði fræðslustarfsins, birti opinberlega upplýsingar um innra gæðamat sitt og áætlanir um umbætur. Aftur á móti hefur ráðherra umsjón með úttektum, könnunum og rannsóknum sem miða að því að tryggja almenn gæði framhaldsfræðslu og almennan skilning og þekkingu á málefnum er henni tengjast. Að jafnaði skal slík framkvæmd vera falin óháðum aðila. Er hér um sambærilega uppbyggingu að ræða og finna má í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
    Það er álit nefndarinnar að mikið og gott starf hafi verið unnið í gegnum Fræðslumiðstöð atvinnulífsins af aðilum vinnumarkaðarins (ASÍ og SA), í samstarfi við stjórnvöld, á sviði framhaldsfræðslu. Hafa einstaklingar sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldsskóla fengið tækifæri til að afla sér menntunar og bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Verði frumvarpið að lögum telur nefndin að árangurinn muni aukast og undirstöður framhaldsfræðslustarfs með starfsemi símenntunarstöðva styrkjast. Með frumvarpinu er lagður grunnur að hærra menntunarstigi þjóðarinnar sem er samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar OECD lágt í alþjóðlegum samanburði. Enn fremur er talið að bætt menntun ófaglærðra hafi jákvæð áhrif á efnahagslífið og auki lífsgæði þeirra er sækja sér slíka þekkingu.
    Nefndin fagnar þeirri áherslu í frumvarpinu að nám sem fram fer innan framhaldsfræðslunnar verði metið að verðleikum. Áréttar nefndin mikilvægi þess að einstaklingar fái tækifæri til að ljúka einingabæru námi sem tryggir viðkomandi rétt til áframhaldandi náms. Það er álit nefndarinnar að svo skapa megi heildstætt menntakerfi hér á landi verði að brúa þau bil sem kunna að vera á milli mismunandi grunnstoða þess. Verði frumvarp þetta að lögum hefur fimmta grunnstoð menntakerfisins fengið lagalegan grundvöll og leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að flæði milli framhaldsfræðslunnar og til að mynda framhaldsskólakerfisins sé tryggt en það gerir frumvarpið ekki að óbreyttu. Nefndin telur að með aukinni samvinnu aðila frá hinu almenna skólakerfi og framhaldsfræðslunnar náist aukið flæði milli þessara grunnstoða. Þar mun þekking og reynsla úr almenna skólakerfinu nýtast vel til dæmis við mat á einingum milli kerfa, upplýsingagjöf o.fl. Leggur nefndin því til að Félag íslenskra framhaldsskóla fái fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs.
    Nefndin fjallaði ítarlega um menntun þeirra sem sinna framhaldsfræðslu en ekki er gerð krafa um ákveðna menntun eða aðra hæfni þeirra samkvæmt frumvarpinu. Það er álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að kveða á um hæfni þeirra sem sinna þessari kennslu. Áréttar nefndin þó að ekki sé alltaf rétt að krefjast hefðbundinnar kennaramenntunar enda getur verið mikill akkur í að leita í reynslu og þekkingu faglærðra sem starfað hafa á viðkomandi sviði í langan tíma. Leggur nefndin því til breytingar á 7. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur jafnframt til aðrar smávægilegar breytingar er varða lagatæknileg atriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Eygló Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. mars 2010.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Ásmundur Einar Daðason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Lilja Mósesdóttir.


Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir.