Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 453. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 780  —  453. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2009.

1. Inngangur.
    Það sem stóð upp úr af vettvangi Evrópuráðsþingsins árið 2009 var eftirfarandi: Í fyrsta lagi var beiðni Íslandsdeildar um að taka til skoðunar lögmæti þess að beita breskum hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi samþykkt á fundi Evrópuráðsþingsins í janúar. Í samræmi við beiðnina var málinu vísað til laga- og mannréttindanefndar og efnahagsnefndar. Er nefndunum m.a. ætlað að taka til skoðunar aðgreiningu á milli löggjafar sem nær til hryðjuverka og löggjafar sem tekur til viðbragða við annars konar vá, eins og hættu á fjármálakreppu. Á fundi laga- og mannréttindanefndar 24. mars var finnski þingmaðurinn Kimmo Sasi valinn skýrsluhöfundur. Rússneski þingmaðurinn Viktor Pleskachevskiy var valinn til að semja álit efnahagsnefndar. Skýrslan var enn í vinnslu í lok árs. Því er við að bæta að Íslandsdeild átti fund með þingmönnum bresku landsdeildarinnar á fundi Evrópuráðsþingsins í október til að ræða stöðu mála með tilliti til skuldbindinga ríkissjóðs vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi. Beiting hryðjuverkalaganna var ekki til umræðu á þeim fundi.
    Í öðru lagi fagnaði Evrópuráðið 60 ára afmæli sínu og mannréttindadómstóll Evrópu 50 ára afmæli sínu. Af því tilefni var haldin ráðstefna á Íslandi 16. október að frumkvæði þingmanna Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Auk Íslandsdeildar stóðu ráðuneyti dóms- og mannréttindamála, utanríkisráðuneytið og alþjóðamálastofnun og mannréttindastofnun Háskóla Íslands að ráðstefnunni sem hafði það að markmiði að vekja athygli á starfsemi Evrópuráðsins og dómstólsins.
    Í þriðja lagi var Thorbjørn Jagland, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og forseti norska Stórþingsins, kjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsins til næstu fimm ára. Tók hann við embætti af Terry Davis 1. október 2009.
    Í fjórða lagi fór fram mikil umræða um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) fyrir árið 2008–2009 þar sem alþjóðlega fjármálakreppan var í forgrunni og Ísland kom nokkuð til sögu. Ísland var m.a. notað sem dæmi um ríki sem OECD hafi hrósað árið 2006 fyrir hversu vel hefði gengið að einkavæða bankakerfið og afnema viðskiptahindranir. Framkvæmdastjóri OECD, Angel Gurría, viðurkenndi að stofnunin hefði ekki getað spáð fyrir um hversu vanmáttugar eftirlitsstofnanir í löndum eins og Íslandi og jafnvel Írlandi voru eða hvers konar áhætta var tekin með starfsemi bankanna.
    Í fimmta lagi fór nokkur umræða fram um beiðni sem sett var fram um að ógilda kjörbréf þingmannasendinefndar Rússlands vegna stöðu mála í Georgíu eftir að átökunum þar lauk milli þarlendra og rússneskra stjórnvalda. Ákveðið var að halda að sér höndum að sinni en taka málið upp að nýju á fyrsta fundi Evrópuráðsþingsins árið 2010.
    Í sjötta lagi var samþykkt á fundi þingsins í júní að veita Hvíta-Rússlandi aftur fyrri stöðu sem sérstakur gestur Evrópuráðsþingsins eftir 12 ára hlé með því skilyrði að afnám dauðarefsinga yrði lögfest.
    Að lokum var Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar, kosin í embætti varaforseta á Evrópuráðsþinginu í stað Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi formanns, á fundi þingsins í júní.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn í allri Evrópu að Hvíta-Rússlandi undanskildu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Til þess beitir ráðið sér fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu. Þess ber þó að geta að samþykkt var á fundi Evrópuráðsþingsins í júní að veita Hvíta-Rússlandi aftur stöðu sérstaks gests eftir 12 ára hlé með því skilyrði að dauðarefsing yrði afnumin með lögum.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu fastanefndum og 24 undirnefndum þeirra en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Stjórnarnefnd kemur saman til fundar á sama tíma og þing eru haldin og á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða álitum er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árinu 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Í upphafi árs 2009 tók til starfa sérfræðinganefnd á grundvelli samningsins sem mun hafa eftirlit með því að aðildarríki uppfylli skuldbindingar sínar. Eins og stendur er sérstakur vinnuhópur að störfum sem stofnaður var til að vinna að gerð samnings um aðgerðir til að stemma stigu við heimilisofbeldi. Gerð samningsins er í samræmi við ályktun Evrópuráðsþingsins.
    Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum ólíkt því sem á við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hefur hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins, m.a. fyrir íslenska hagsmuni.

3. Skipan Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi árs 2009 voru aðalmenn Íslandsdeildar Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ellert B. Schram varaformaður, þingflokki Samfylkingar, og Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingar, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Eftir kosningar til Alþingis 25. apríl og kosningu Alþingis í nefndir 15. maí urðu eftirfarandi breytingar á skipan Íslandsdeildar. Aðalmenn voru kosnir Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Mósesdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru kosnir Eygló Harðardóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingarinnar, og Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á fundi Íslandsdeildar 18. maí var Lilja Mósesdóttir kosin formaður og Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður deildarinnar. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2009 var sem hér segir:
         Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Lilja Mósesdóttir.
         Stjórnarnefnd: Lilja Mósesdóttir.
         Stjórnmálanefnd: Lilja Mósesdóttir.
         Laga- og mannréttindanefnd: Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
         Jafnréttisnefnd: Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
         Efnahags- og þróunarmálanefnd: Lilja Mósesdóttir.
         Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Birkir Jón Jónsson.
         Menningar-, mennta- og vísindanefnd: Birkir Jón Jónsson.
         Félags- og heilbrigðismálanefnd: Birkir Jón Jónsson.
         Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2009.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í þingfundum Evrópuráðsþingsins var undirbúin. Hvað viðvíkur trúnaðarstörfum fyrir Evrópuráðsþingið þá var Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar, kosin í embætti varaforseta á Evrópuráðsþinginu í stað Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi formanns, á fundi Evrópuráðsþingsins í júní. Íslandsdeildin kom því til leiðar að laga- og mannréttindanefnd kannaði lögmæti þess að beita breskum hryðjuverkalögum gagnvart útibúi Landsbankans í Bretlandi og átti frumkvæði að því að fram fór tvíhliða fundur með breskum þingmönnum á Evrópuráðsþinginu um meinta ábyrgð íslenskra stjórnvalda á innstæðum sparifjáreigenda Landsbankans í Bretlandi.
    Þá var Íslandsdeildin gestgjafi norræns kvöldverðar sem Norðurlöndin halda til skiptis ár hvert í Strassborg og átti frumkvæði að því að haldin var ráðstefna hérlendis 16. október í tilefni 60 ára afmælis Evrópuráðsins og 50 ára afmælis mannréttindadómstóls Evrópu. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við ráðuneyti dóms- og mannréttindamála, utanríkisráðuneytið, og alþjóðamálastofnun og mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Tilgangur ráðstefnunnar var að vekja athygli á starfsemi Evrópuráðsins og dómstólsins. Fundarstjóri var Björg Thorarensen, prófessor og forseti lagadeildar HÍ, en fyrirlesarar auk formanns Íslandsdeildar, sem flutti framsögu um hlutverk Evrópuráðsþingsins á sviði mannréttinda, voru Hörður H. Bjarnason, sendiherra og fyrrverandi fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, sem fjallaði um hlutverk ráðherranefndar Evrópuráðsins; Davíð Þór Björgvinsson, dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu, sem hélt erindi um vanda Mannréttindadómstóls Evrópu; Pétur Hauksson, fulltrúi Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og annar varaforseti nefndarinnar, sem fjallaði um hlutverk nefndarinnar og hvort þörf væri á eftirliti hennar hérlendis; Baldur Kristjánsson, fulltrúi Íslands í sérfræðinganefnd Evrópuráðsins gegn kynþáttamisrétti, sem fjallaði um hlutverk nefndarinnar; Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu og sérfræðingur hjá Evrópuráðinu, sem gerði grein fyrir framlagi Íslands í réttindamálum barna; og Hjörtur Torfason, fulltrúi Íslands í Feneyjarnefndinni, sem fjallaði um hlutverk nefndarinnar við að aðstoða aðildarríki við að byggja stjórnarfar sitt með lögum. Að loknum framsögum voru fyrirspurnir og umræður. Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, átti samkvæmt dagskrá að halda opnunarerindi um mannréttindasáttmála Evrópu, sem liggur til grundvallar Evrópuráðinu og Mannréttindadómstólnum, en varð frá að hverfa vegna mótmæla sem brutust út vegna ákvörðunar ráðherrans stuttu áður um að hafna því á grundvelli Dyflinarsamningsins að taka til efnislegrar meðferðar beiðnir nokkurra flóttamanna um pólitískt hæli hérlendis.

5. Fundir Evrópuráðsþingsins 2009.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Auk þess kemur framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiðir mál sem æðsta vald Evrópuráðsþingsins. Þingmenn Íslandsdeildar sóttu alla þingfundina að vorfundinum undanskildum en þátttaka féll niður vegna kosninga til Alþingis 25. apríl.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins 26.–30. janúar.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar þau Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður og Ellert B. Schram varaformaður, auk Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara.
    Á þinginu bar hæst umræðu um afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, afleiðingar átakanna milli Georgíu og Rússlands og ástandið á Gasasvæðinu. Fyrsta mál á dagskrá þingsins var hins vegar atkvæðagreiðsla um tilvísun mála til nefnda. Þar á meðal var beiðni Íslandsdeildar til framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins um að laga- og mannréttindanefnd þingsins tæki til skoðunar lögmæti aðgerða breskra stjórnvalda gegn íslenskum bönkum, sér í lagi beitingu hryðjuverkalaga til að frysta eigur Landsbankans. Framkvæmdastjórnin hafði á fundi sínum 9. janúar mælt með því að málinu yrði vísað til skýrslugerðar í efnahagsnefnd. Í kjölfarið ákvað Íslandsdeildin að leggja upprunalegu beiðnina fyrir fund Evrópuráðsþingsins í lok janúar. Guðfinna S. Bjarnadóttir mælti fyrir málinu. Í atkvæðagreiðslu um málið var beiðni Íslandsdeildar samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða eða 52 atkvæðum gegn fjórum.
    Guðfinna S. Bjarnadóttir ræddi síðan aðgerðir breskra stjórnvalda á fundi flokkahóps hægrimanna, sem og Ellert á sérstökum fundi flokkahóps jafnaðarmanna um afleiðingar fjármálakreppunnar. Guðfinna flutti einnig ræðu á þinginu í umræðu um afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar fimmtudaginn 29. janúar þar sem hún vakti athygli á aðgerðum breskra stjórnvalda. Hún sagði að vissulega hefðu íslensk stjórnvöld og fjármálafyrirtæki gert mistök en hins vegar bæri að hafa í huga að íslensk fjármálafyrirtæki hefðu starfað í samræmi við bresk bankalög, lög um fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu og með heimild fjármálaeftirlitsstofnana. Fjármálakreppan væri þar með staðfesting á að lögum og eftirliti með fjármálastarfsemi hefði verið ábótavant sem kallaði á samábyrgð og samvinnu um lausnir á þeim vanda sem fjármálakreppan fæli í sér. Bresk stjórnvöld hefðu þvert á móti beitt hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum. Sagði hún það óásættanlegt bæði með hliðsjón af hinu slæma fordæmisgildi sem beiting laganna hefði fyrir baráttuna gegn hryðjuverkum og hinum alvarlegu afleiðingum sem beiting laganna hefði haft fyrir íslenskt efnahagslíf. Að lokum beindi hún orðum sínum sérstaklega til breskra þingmanna þar sem hún bað þá að beita sér fyrir því að frystingu á eignum Landsbankans, sem var búin að vera í gildi í 114 daga, yrði aflétt tafar- og skilyrðislaust.
    Fimm breskir þingmenn tóku til máls á eftir Guðfinnu. Fjórir þeirra gerðu málefni Íslands og beitingu bresku hryðjuverkalaganna að umtalsefni í ræðum sínum en vegna fyrirkomulags fundarins gafst Guðfinnu ekki færi á að svara eftir að þeir höfðu lokið máli sínu. Í máli þeirra kom m.a. fram að bresk stjórnvöld hefðu gripið til þess úrræðis að frysta eigur Landsbankans þegar engin fullnægjandi svör bárust frá íslenskum stjórnvöldum við fyrirspurnum breskra stjórnvalda í kjölfar setningar neyðarlaga á Íslandi. Jafnframt var því neitað staðfastlega að hryðjuverkalögum hefði verið beitt gegn Landsbankanum. Lögin, sem um væri að ræða, væru tvískipt. Annar hlutinn næði til hryðjuverka og hinn til glæpa eins og fjársvikastarfsemi og öryggismála (e. Anti-Terrorism, Crime and Security Act). Síðarnefnda hlutanum hefði verið beitt gegn bankanum með það að markmiði að vernda hag breskra sparifjáreigenda sem ella hefðu hugsanlega tapað öllum sínum fjármunum. Það hefðu hins vegar verið mistök að setja heimild til frystingar eigna Landsbankans á sama lista og m.a. hryðjuverkasamtökin Al- Kaída. Þau mistök hefðu hins vegar verið leiðrétt 21. október eða daginn eftir að þau voru gerð. Það sjónarmið kom fram að Íslendingar gætu sjálfum sér um kennt enda hefðu íslensk stjórnvöld sýnt mikið ábyrgðarleysi með því að leyfa íslenska fjármálageiranum að vaxa á tímabilinu 2002–2008 í það að verða níu sinnu stærri en þjóðarframleiðslan, sem væri 45- földun. Að sama skapi var bent á að fjármálakreppan hefði leitt í ljós galla fjármálareglugerðakerfisins og staðfest að sú stefna Evrópubandalagsins að láta sömu lög og reglur gilda jafnt um alla, óháð mikilvægum sérkennum eða aðstæðum í einstaka ríki, hefði siglt í strand. Að lokum var bent á að Ísland og Bretland væru vinaþjóðir og að Bretar mundu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma Íslendingum til aðstoðar nú þegar samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri náð og tvíhliða samkomulag við bresk stjórnvöld yrði komið í höfn.
    Í almennum umræðum voru þingmenn sammála um að fjármálakreppan kallaði á endurskoðun reglugerða- og eftirlitskerfisins með fjármálastarfsemi. Mikilvægt væri að koma á fót skilvirku viðvörunarkerfi til að koma í veg fyrir kreppur og var Ísland tekið sem dæmi í því sambandi. Þar hefðu öll viðvörunarljós blikkað en allt komið fyrir ekki. Fjármálakreppan sýndi að ákveðin siðferðileg gildi hefðu einnig verið sniðgengin í nafni einkaframtaks og gróða. Flóknar fjármálaafurðir hefðu gert það að verkum að erfitt hefði verið að meta áhættu og taka þyrfti til sérstakrar skoðunar verklag og ábyrgð endurskoðenda. Mikilvægt væri að endurbættar reglur um fjármálamarkaði styddu við bakið á sjálfbærri og samfélagslega ábyrgri fjármálastarfsemi. Að lokum voru allir sammála um að fjármálakreppan kallaði á samstöðu og að björgunaraðgerðir eins ríkis mættu ekki vera á kostnað annarra né á kostnað félagslegra og efnahagslegra réttinda almennings.
    Í umræðu um afleiðingar stríðsátakanna milli Georgíu og Rússlands kom fram að georgísk stjórnvöld hefðu orðið við mörgum tilmælum Evrópuráðsþingsins en það sama ætti ekki við um rússnesk stjórnvöld. Í ályktun sem var samþykkt á Evrópuráðsþinginu var kallað eftir því að rússnesk yfirvöld virtu landamæri og fullveldi Georgíu og afturkölluðu viðurkenningu sína á sjálfstæði héraðanna Abkasíu og Suður-Ossetíu. Rússneskir þingmenn héldu þeim sjónarmiðum á lofti að Rússland hefði ekki valdið heldur bundið enda á stríðsátök. Það væri réttur íbúa héraðanna að kjósa að vera sjálfstæð ríki, réttur sem rússnesk stjórnvöld virtu. Niðurstaðan væri sú að Rússar hefðu verið fengnir til að tryggja íbúum héraðsins öryggi og lífsnauðsynjar eins og sakir stæðu. Rússnesk yfirvöld hafa aftur á móti verið harðlega gagnrýnd fyrir að veita hvorki eftirlitsmönnum á vegum SÞ, ESB og ÖSE né mannúðarsamtökum aðgang að héruðunum. Í skýrslu mannréttindastjóra Evrópuráðsins, Thomas Hammarbergs, var lögð áhersla á réttindi flóttafólks til að snúa aftur til síns heima og mælt með því að ESB eða Sameinuðu þjóðirnar tækju að sér friðargæslu í héruðunum í stað Rússa.
    Í utandagskrárumræðu um ástandið á Gasa fluttu framsögur fulltrúi löggjafarráðs Palestínu (e. Palestinian Legislative Council) og áheyrnarfulltrúi frá Ísrael. Fulltrúi Palestínu gerði grein fyrir mannfalli og eyðileggingu síðan her Ísraels hóf gagnárásir gegn Hamas 27. desember 2008. Að hans mati væri um þjóðarmorð að ræða og markmið sem væru andstæð friði og stofnun ríkis Palestínu. Fulltrúi Ísraels sagði að hann hefði unnið að friðarmálum í Mið- Austurlöndum síðar 1967. Hann sagði að hryðjuverkaógnin og gyðingahatur væri komið frá tveimur örmum Írans, þ.e. Hamas og Hizbollah-hreyfingunni, sem hefðu með árásum sínum það að markmiði að eyða Ísrael óháð afleiðinginunum fyrir sitt eigið fólk en árásir Hamas hafa staðið yfir síðan árið 2002. Mikilvægt væri að leita varanlegra lausna í stað sökudólga. Í almennum umræðum viðurkenndu þingmenn rétt Ísraels til sjálfsvarnar og fordæmdu árásir Hamas en fordæmdu um leið umfang gagnárása Ísraels sem sumir sögðu að fælu í sér stríðsglæp. Fordæmt var að mannúðarsamtök og fjölmiðlar fengju ekki aðgang að Gasa. Bent var á að staðan væri verri en nokkru sinni fyrr og árangurinn af stríðsrekstrinum enginn. Enginn stæði betur eða verr að vígi. Það þyrfti að finna lausn sem ríki heims, einkum Bandaríkin, Evrópusambandið, Rússar og Arababandalagið, kæmu að og þar sem yrði rætt við alla aðila, þ.m.t. Hamas, með sama hætti og írski lýðveldisherinn (IRA) var hafður með í friðarviðræðum á Norður-Írlandi og Bretlandi.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið: spænski utanríkisráðherrann, Miguel Ángel Moratinos, vék að minningardegi Evrópuráðsins um helförina og glæpi gegn mannkyni en dagurinn var stofnaður af Evrópuráðinu árið 2002 og er haldinn hátíðlegur 27. janúar ár hvert sem alþjóðlegur minningardagur Sameinuðu þjóðanna. Philippe Kirsch, forseti alþjóðasakamáladómstólsins, hvatti til þess að öll ríki heims fullgiltu stofnsáttmálann til að mögulegt væri að binda enda á refsileysi gegn stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyni og þjóðarmorðum.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins 26.–30. apríl.
    Þátttaka Íslandsdeildar í öðrum fundi Evrópuráðsþingsins féll niður vegna kosninga til Alþingis 25. apríl.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins 22.–26. júní.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins Lilja Mósesdóttir formaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður og Birkir Jón Jónsson, auk Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara.
    Fyrsta mál á dagskrá var kosning varaforseta þingsins. Lilja Mósesdóttir var kosin varaforseti í stað Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi formanns Íslandsdeildar, og sá hún um fundarstjórn fyrir hádegi á lokadegi þingsins. Eftir kosningu varaforseta var beiðni um utandagskrárumræðu um ástandið í Íran samþykkt. Hins vegar var beiðni um setja kosningu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins á dagskrá hafnað. Sú beiðni var sett fram í tengslum við fyrirhugaða kosningu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins sem átti að fara fram 23. júní. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins hafði aftur á móti tekið þá ákvörðun rétt fyrir þingsetningu að taka kosninguna af dagskrá. Tilefnið var ágreiningur milli þingsins og ráðherranefndarinnar um endanlegan lista frambjóðenda til embættis framkvæmdastjóra. Samkvæmt lögum Evrópuráðsins kýs þingið framkvæmdastjóra samkvæmt tillögu ráðherranefndar sem þarf að skila lista með nöfnum a.m.k. tveggja frambjóðenda. Upphaflega gáfu fjórir kost á sér, tveir þingmenn Evrópuráðsþingsins og tveir fyrrverandi ráðherrar. Það sem olli ágreiningi var að á endanlega frambjóðendalista ráðherranefndarinnar sem lagður var fyrir þingið voru eingöngu nöfn þeirra Wlodzimierz Cimoszewicz, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Póllands, og Thorbjørns Jagland, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og forseta norska Stórþingsins, en ekki þeirra þingmanna Evrópuráðsþingsins sem höfðu gefið kost á sér, Luc Van den Branden frá Belgíu og Matyas Eörsi frá Ungverjalandi.
    Annað sem olli ágreiningi var að listinn var lagður fram 23. apríl, eða nokkrum dögum áður en sameiginlegur fundur þingsins og ráðherranefndarinnar fór fram 29. apríl. Forseta og framkvæmdastjórn þingsins fannst ráðherranefndin þar með hafa virt að vettugi reglu sem kveður á um samráð milli þings og ráðherranefndar þegar kemur að vali á framkvæmdastjóra. Að mati ráðherranefndarinnar merkir samráð að hún metur frambjóðendur og ákveður hver fer á endanlega framboðslistann sem lagður er fyrir þingið sem síðan kýs framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórn þingsins var hins vegar á þeirri skoðun að ráðherranefndin ætti að hafa samráð við þingið um það hvernig endanlegi frambjóðendalistinn liti út enda ósátt við að nöfn þingmanna Evrópuráðsþingsins væru ekki á listanum. Framkvæmdastjórn þingsins ákvað í kjölfarið að taka kosningu framkvæmdastjóra af dagskrá þingfundar með þeim rökum að ráðherranefndin hefði ekki virt samráðsregluna. Fyrir vikið væri frambjóðendalistinn ógildur og þar með gæti kosning ekki farið fram. Áður en dagskrá þingsins var samþykkt lagði breski þingmaðurinn Michael Hancock fram tillögu um að láta kosninguna fara fram eins og til stóð. Atkvæðagreiðsla fór fram um málið og niðurstaðan sem fengin var með innan við 10 atkvæða mun var sú að fresta kosningu framkvæmdastjóra.
    Samuel Zbogar, utanríkisráðherra Slóveníu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, lýsti yfir miklum vonbrigðum með frestun kosningar til embættis framkvæmdastjóra sem hann sagði að væri hvorki þinginu né ráðherranefndinni til framdráttar. Frestunin skaðaði ímynd Evrópuráðsins sem fagnaði 60 ára afmæli sínu. Hann mælti með því að ráðherranefndin og þingið héldu áfram viðræðum um endurskoðun á reglunum sem gilda um kosningu framkvæmdastjóra. Að lokum greindi hann frá tvenns konar bráðabirgðaumbótum á Mannréttindadómstól Evrópu sem gengu í gildi 1. október í samræmi við ákvörðun sem var tekin 14. október 2008 og talið er að muni auka afköst dómstólsins um 20–25%.
    Árleg umræða Evrópuráðsþingsins um stöðu mannréttinda var að þessu sinni tileinkuð þremur málaflokkum. Í fyrsta lagi mikilvægi þess að afnema refsileysi þegar um mannréttindabrot er að ræða, þ.m.t. í tilviki svonefndra heiðursmorða og annars konar kynbundins ofbeldis. Í öðru lagi stöðu eftirlitskerfis Evrópuráðsins með mannréttindum. Í þriðja lagi mannréttindi flóttamanna, sem hafa ekki getað snúið aftur til síns heima.
    Evrópuráðsþingið samþykkti eftir 12 ára hlé að veita Hvíta-Rússlandi aftur fyrri stöðu sem sérstakur gestur Evrópuráðsþingsins með því skilyrði að afnám dauðarefsinga yrði lögfest. Ákvörðunin var tekin í ljósi þess m.a. að samstarf stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE þykir hafa gefið tilefni til bjartsýni um að ástandið í landinu fari batnandi. Valery Ivanov, varaforseti fulltrúadeildar löggjafarþings Hvíta-Rússlands, og Anatoly Lebedko, formaður hins lýðræðislega samtöðubandalags Hvíta-Rússlands (e. the United Democratic Forces of Belarus), tóku til máls á þinginu af þessu tilefni. Þar óskaði Lebedko eftir því að umbótaáætlun á sviði lýðræðis og réttarfars yrði sett sem viðbótarskilyrði fyrir því að Hvíta-Rússland gæti endurheimt fyrri stöðu sína hjá Evrópuráðsþinginu. Auk þess að samþykkja að veita Hvíta-Rússlandi fyrri stöðu var einnig samþykkt tillaga um að stuðla að lýðræðislegri samræðu og samvinnu við ríki utan Evrópuráðsins (e. partner for democracy status) sem væri háð ákveðnum skilyrðum svipuðum þeim sem gilda um áheyrnaraðild að ráðinu.
    Thomas Mirow, forseti Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, sem hefur átt samstarf við Evrópuráðið síðan 1992 um að styrkja efnahag og lýðræði á sínu starfssvæði, greindi frá starfi bankans. Hann fjallaði einnig um þær áskoranir sem fram undan voru vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar en spáð hafði verið um 4–15% efnahagssamdrætti á starfssvæði bankans árið 2009.
    Í umræðu um áhrif fjármálakreppunnar á alþjóðlegar efnahagsstofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) og Alþjóðabankann var lögð áhersla á að ríki greiddu framlög sín til þeirra svo að þær gætu sinnt hlutverki sínu sem skyldi á þessum erfiðu tímum. Fram kom að AGS hefði þegar afgreitt lán til Armeníu, Hvíta-Rússlands, Georgíu, Íslands, Lettlands, Ungverjalands, Mexíkó, Pakistan, Póllands, Rúmeníu, Serbíu og Úkraínu eftir að heimskreppan skall á. Í umræðunni kom fram að mikilvægi AGS væri mikið en á sama tíma kom fram sú skoðun að hugmyndafræðin á bak við AGS væri hluti vandans frekar en lausnarinar og var starfsemi AGS á Íslandi tekin sem dæmi um það án frekari útskýringa.
    Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar, tók til máls í umræðunni. Hún hóf mál sitt á að þakka fyrir skýrslu þingsins en tók jafnframt fram að í henni skorti á umræðu um aðgerðir AGS í þeim löndum sem sjóðurinn lánaði til. Hún benti á að undanfarin ár hefði sjóðurinn orðið fyrir gagnrýni hagfræðinga eins og Josefs Stiglitz, fyrrverandi yfirmanns Alþjóðabankans. AGS hefði tekið mark á þeirri gagnrýni eins og efnahagsáætlunin fyrir Ísland væri til vitnis um. Það kæmi þó ekki í veg fyrir gagnrýni Stiglitz á efnahagsáætlunina fyrir Ísland en að hans mati væri verið að reyna að ná fram tveimur ósamrýmanlegum markmiðum samtímis, þ.e. peninga- eða gengismálastefnu sem hefði það að markmiði að halda niðri verðbólgu annars vegar og útgjaldaaukningu ríkisins hins vegar. Í sambandi við árangur af aðgerðum AGS á Íslandi greindi Lilja frá því að síðan í október hefði gengi krónunnar gagnvart evrunni lækkað um 40% og alls um 114% sl. tvö ár sem sýndi takmarkanir aðgerðanna á Íslandi. Að lokum upplýsti hún um að til stæði að reyna að koma á auknu gjaldeyrissamstarfi við ESB samhliða því að leggja fram aðildarumsókn til ESB með það að markmiði að ná fram auknum stöðugleika á Íslandi. Í þessu sambandi var einnig rætt um hlutverk G-20 sem tekur til 90% þjóðarframleiðslu heimsins, 80% alþjóðlegra viðskipta og 66% íbúa heimsins. Einnig var rætt um stöðu þeirra sem standa utan G-20, þ.e. fátækustu þróunarríkin og ríki í Evrópu sem standa utan ESB og fjármálakreppan bitnar einna verst á. Rætt var um mikilvægi þess að tryggja félagsleg réttindi um leið og ríki reyndu að rétta úr kútnum eftir kreppuna og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Sem dæmi mætti koma á alþjóðlegum og samræmdum reglum fyrir fjármálastarfsemi, skattareglum til að fyrirbyggja undanskot frá skattinnheimtu í skattaskjólum, alþjóðlegu eftirliti og stofnun dómstóls sem tæki að sér gjaldþrotamál sem væru alþjóðleg í eðli sínu.
    Tillaga um að endurskoða kjörbréf landsdeildar Úkraínu var hafnað. Tilefni beiðnarinnar um endurskoðun var að ekki hefði verið farið að reglum við val frambjóðenda til setu í Mannréttindadómstól Evrópu. Rökin fyrir því að fella tillöguna var að kjörbréf Rússlands og Georgíu væru enn gild þrátt fyrir að ríkin hefðu farið í stríð hvort við annað. Evrópuráðsþingið þyrfti að vera sjálfu sér samkvæmt í þessum málum.
    Í utandagskrárumræðu sem fór fram um ástandið í Íran í kjölfar forsetakosninganna 12. júní var ofbeldi og handtaka mótmælenda og fréttamanna fordæmd og lýst yfir stuðningi við lýðræðisöflin í landinu.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið: Theo-Ben Gurirab, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins og forseti löggjafarþings Namibíu, fjallaði um mikilvægi þingmannastarfs alþjóðastofnana en Alþjóðaþingmannasambandið hefur beitt sér fyrir því að vera nokkurs konar þingmannasamkunda Sameinuðu þjóðanna. Borut Pahor, forsætisráðherra Slóveníu, hélt ræðu sem og Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Mary McAleese, forseti Írlands og Helen Shaw, formaður stjórnar bresk-írsku samtakanna Human Rights Watch, sem hefur frá upphafi eingöngu verið skipuð konum, en samtökin hlutu mannréttindaverðlaun Evrópuráðsþingsins sem voru veitt í fyrsta sinn á þessu þingi. Loks flutti Hovik Abrahamyan, forseti löggjafarþings Armeníu, ræðu á þinginu.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins 28. september til 2. október.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins Lilja Mósesdóttir formaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara.
    Það sem bar hæst var 60 ára afmæli Evrópuráðsins og kosning framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til næstu fimm ára. Alls greiddu 257 þingmenn atkvæði í kosningunni sem fór fram í Evrópuráðsþinginu 29. september. Samkvæmt reglum þingsins þarf framkvæmdastjóri að fá að lágmarki 123 atkvæði til að vera löglega kjörinn. Thorbjørn Jagland, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og forseti norska Stórþingsins, hlaut 165 atkvæði en mótframbjóðandi hans, Wlodzimierz Cimoszewicz, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Póllands, hlaut 80 atkvæði. Thorbjørn Jagland tók við embætti 1. október.
    Í tilefni af 60 ára afmæli Evrópuráðsins fór fram umræða um framtíð ráðsins í ljósi reynslunnar af starfsemi þess frá stofnun. Meginniðurstaða þeirrar umræðu var að Evrópuráðið hefði sameinað þjóðir Evrópu undir merkjum lýðræðislegs stjórnarfars, virðingar fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Margir áfangasigrar varði leið Evrópuráðsins undanfarin 60 ár, sem sé tilefni til að fagna. Hlutverk Evrópuráðsins sé hins vegar mikilvægt enn sem fyrr og því skipti máli að aðildarríkin styðji vel við starfsemi ráðsins óháð tilkomu annarra stofnana. Var þar fyrst og fremst verið að vísa til Stofnunar Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (e. Agency of Fundamental Rights), sem hefur legið undir ámæli um að fara inn á verkefnasvið Evrópuráðsins og vera starfrækt á kostnað þess í auknum mæli undanfarin ár.
    Í tengslum við umræðu um skýrslu eftirlitsnefndar þingsins um stöðu mála í Georgíu ári eftir að átökin milli Rússlands og Georgíu brutust út í Suður-Ossetíu var lögð fram tillaga um að ógilda kjörbréf Rússlands. Vísað var í skýrslu Evrópuráðsþingsins sem segir Rússa hafa lítið sem ekkert komið til móts við kröfur Evrópuráðsins eftir að endi var bundinn á átökin, ólíkt Georgíu. Tillagan, sem var borin fram að undirlagi þingmannasendinefndar Georgíu og studd af 72 þingmönnum, var felld í atkvæðagreiðslu en jafnframt ákveðið að taka málið aftur til umræðu á fundi þingsins í janúar 2010.
    Mikil umræða fór fram um skýrslu um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) fyrir árið 2008–2009 þar sem alþjóðlega fjármálakreppan var í forgrunni. Formaður Íslandsdeildar var höfundur breytingartillögu, ásamt nokkrum flokksbræðrum sínum, m.a. frá Hollandi, þar sem þess var farið á leit að rannsakað yrði að hvaða marki ráðleggingar OECD kynnu að hafa átt þátt í að stuðla að kreppu í fjármála- og efnahagskerfum Evrópu. Markmiðið skýrslugerðarinnar væri að gefa OECD kleift að draga lærdóm af alþjóðlegu fjármálakreppunni. Ástandið á Íslandi kom nokkuð til tals í umræðunni. Í ræðu Tuur Elzinga, eins flutningsmanns breytingartillögunnar frá Hollandi, var Ísland notað sem dæmi um ríki sem OECD hefði hrósað árið 2006 fyrir hversu vel hefði gengið að einkavæða bankakerfið og afnema viðskiptahindranir. Í svari framkvæmdastjóra OECD, Angel Gurría, kom fram að hann væri sammála gagnrýni Elzinga að því leyti að stofnunin hefði ekki getað spáð fyrir um vanmátt eftirlitsstofnana í löndum eins og Íslandi og jafnvel Írlandi eða hvers konar áhætta var tekin með starfsemi bankanna. Hann benti hins vegar á að þegar bankakerfi ríkis hefur ábyrgðir sem eru hærri en nemur landsframleiðslu heimaríkis bankanna þá sé augljóslega eitthvað að. Hann bætti því við að það hefði ekki verið Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða aðrir sem hefðu átt að vera fyrstir til að gera athugasemdir við það og grípa til viðeigandi ráðstafanna heldur stjórnvöld viðkomandi heimaríkis. Auk breytingartillögunnar sem Lilja var meðhöfundur að var önnur tillaga lögð fram af hollenska þingmanninum Pieter Omtzigt, sem á sæti í ríkisstjórnarflokki kristilegra demókrata, þess efnis að skýrsla sem fjallaði um hvaða lærdóm OECD hefði dregið af fjármálakreppunni yrði tilbúin innan 10 mánaða.
    Lilja Mósesdóttir var talsmaður flokkahóps vinstrimanna á fundi Evrópuráðsþingsins um loftslagsmál sem haldinn var í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember í Kaupmannhöfn. John Prescott, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands, setti fundinn en hann var í forsvari fyrir baráttuherferð sem þingið tók þátt í undir slagorðinu „Nýr heimssáttmáli“ (e. New Earth Deal). Heiðursgestur á fundinum var dr. Rajendra K. Pachauri, formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, en hann ásamt Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, tók við friðarverðlaunum Nóbels árið 2007 fyrir framlag þeirra til umræðu um loftslagsbreytingar í heiminum. Í ræðu sinni vék Lilja að mikilvægi þess að skapa hvata fyrir ríkisstjórnir til að standa við skuldbindingar sínar. Í því sambandi var bent á að ESB hefur eingöngu uppfyllt um helming þeirra skuldbindinga sem sambandið tók á sig samkvæmt Kyoto-bókuninni við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem rennur út 2012. Lilja gerði m.a. að tillögu sinni að tekin yrði upp vísitala sem gæfi til kynna hvar einstök ríki stæðu hvert gagnvart öðru með hliðsjón af þáttum sem þykja mikilvægir til að draga úr koltvísýringsútblæstri. Einnig lagði hún til að stofnað yrði nokkurs konar alþjóðlegt markaðstorg þar sem ríki sem búa yfir vistvænni orku og orkufrek fyrirtæki gætu leitt saman hesta sína. Í tengslum við loftslagsmálin var einnig rætt um gerð viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um rétt fólks á heilnæmu umhverfi.
    Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem á sæti í jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins, tók þátt í umræðu um mikilvægi þess að grípa til aðgerða gegn nauðgunum, þ.m.t. nauðgunum sem eiga sér stað í hjónabandi eða sambúð. Hún fagnaði tilmælum Evrópuráðsþingsins til aðildarríkjanna og gerði í ræðu sinni grein fyrir breytingu á íslenskum hegningarlögum frá árinu 2000 sem fól í sér að tekið var tillit til sambands brotaþega og brotaþola við ákvörðun refsidóma í ofbeldismálum í þá veru að eftir því sem sambandið væri nánara væri refsingin fyrir sambærileg brot þyngri. Að lokum ræddi hún um aðgerðaáætlun íslensku ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Steinunn vék sérstaklega að menntun og þjálfun þeirra sem koma að kynferðisafbrotamálum eins og lögreglunni og nefndi til sögunnar nýlegt dæmi þar sem lögreglan lagði fram kæru gegn manni sem hlaut átta ára dóm í héraðsdómi fyrir að beita maka sinn kynferðislegu ofbeldi.
    Þá voru kynntar skýrslur um kosningar í Albaníu, Búlgaríu og Moldóvu, utandagskrárumræða fór fram um aukið ofbeldi í garð baráttufólks fyrir mannréttindum í Norður-Kákasus í Rússlandi, og fyrirhugaðar endurbætur innan Sameinuðu þjóðanna voru teknar til umræðu þar sem m.a. var rætt um stofnun þingmannaráðs Sameinuðu þjóðanna. Lilja Mósesdóttir stýrði fundi Evrópuráðsþingsins á lokadegi þess en auk þátttöku á þinginu átti Íslandsdeild frumkvæði að því að tvíhliða fundur var haldinn með breskum þingmönnum til að útskýra fyrirvara ríkisstjórnarinnar við ríkisábyrgð vegna lána frá Bretlandi og Hollandi til að standa við skuldbindingar íslenska ríkisins vegna innstæðna Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið: Kurt Masur hljómsveitarstjóri og Pierre Lellouche, ráðherra Evrópumála í Frakklandi.

6. Nefndarfundir utan þinga.
    Steingrímur J. Sigfússon sótti framkvæmdastjórnarfund í Barcelona í janúar sem formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins.

Alþingi, 9. mars 2010.



Lilja Mósesdóttir,


form.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


varaform.


Birkir Jón Jónsson.





Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2009.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á
þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2009:

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins, 26.–30. janúar:
     *      Ályktun 1642 um aðgengisrétt fatlaðra og rétt þeirra til virkrar þátttöku í samfélaginu.
     *      Ályktun 1643 um eftirfylgni Armeníu við ályktun nr. 1609 (2008) og nr. 1620 (2008).
     *      Ályktun 1644 um samvinnu við Alþjóðasakamáladómstólinn og um lögsögu hans.
     *      Ályktun 1645 um rannsókn á meintum glæpum háttsettra embættismanna Kuchma- stjórnarinar í Úkraínu, sbr. Gongadze-málið.
     *      Ályktun 1646 um útnefningu frambjóðenda og kosningu dómara til Mannréttindadómstóls Evrópu.
     *      Ályktun 1647 um framfylgni við ályktun nr. 1633 (2008) um afleiðingar stríðsins milli Georgíu og Rússlands.
     *      Ályktun 1648 um afleiðingar stríðsins milli Georgíu og Rússlands.
     *      Ályktun 1649 um líknarmeðferð – fyrirmynd að stefnumótun um heilsufars- og félagsmál.
     *      Ályktun 1650 um fyrirvara við samþykkt á kjörbréfi landsdeildar Albaníu á grundvelli skilyrða þingskapa.
     *      Ályktun 1651 um afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.
     *      Ályktun 1652 um viðhorf til minnisvarða um atburði sem eru túlkaðir á fleiri en einn veg innan aðildarríkja Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1653 um rafrænt lýðræði.
     *      Ályktun 1654 um manndráp á grundvelli kynferðis.
     *      Ályktun 1655 um fólksflutninga af völdum umhverfisbreytinga: áskorun 21. aldarinnar.
     *      Tilmæli 1854 um aðgengisrétt fatlaðra og rétt þeirra til virkrar þátttöku í samfélaginu.
     *      Tilmæli 1855 um reglur um fréttaþjónustu sjónvarps og útvarps.
     *      Tilmæli 1856 um rannsókn á meintum glæpum háttsettra embættismönnum Kuchma- stjórnarinar í Úkraínu, sbr. Gongadze-málið.
     *      Tilmæli 1857 um afleiðingar stríðsins milli Georgíu og Rússlands.
     *      Tilmæli 1858 um úthýsingu verkþátta á sviði hernaðar og öryggismála frá ríkinu til einkafyrirtækja sem felur í sér frávik frá einokun ríkisins á valdbeitingu.
     *      Tilmæli 1859 um viðhorf til minnisvarða um atburði sem eru túlkaðir á fleiri en einn veg innan aðildarríkja Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 1860 um rafrænt lýðræði.
     *      Tilmæli 1861 um að stemma stigu við manndrápum á grundvelli kynferðis.
     *      Tilmæli 1862 um fólksflutninga af völdum umhverfisbreytinga: áskorun 21. aldarinnar.

Stjórnarnefndarfundur 13. mars:
     *      Ályktun 1656 um að virkja þjóðþing í þágu þróunar í Afríku.
     *      Ályktun 1657 um óeirðir í borgum Evrópu: lærdómur og viðbrögð Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1658 um spurningar til ráðherranefndarinnar.
     *      Tilmæli 1863 um umhverfi og heilsu: betri forvarnir gegn heilsufarsvá þar sem umhverfið er orsakavaldur.
     *      Tilmæli 1864 um að hvetja til þátttöku barna í ákvörðunum sem þau varða.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins, 26.–30. apríl:
     *      Ályktun 1659 um verndun mannréttinda við neyðarástandi.
     *      Ályktun 1660 um stöðu baráttufólks fyrir mannréttindum í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1661 um framfylgni við aðildarskuldbindingar Serbíu.
     *      Ályktun 1662 um aðgerðir til að vinna gegn kynbundnum mannréttindabrotum, þ.m.t. ránum á konum og stúlkum.
     *      Ályktun 1663 um konur í fangelsum.
     *      Ályktun 1664 um afleiðingar stríðsátakanna milli Georgíu og Rússlands fyrir almenning: eftirfylgni við ályktun 1648 (2009).
     *      Ályktun 1665 um kosningaferlið við val á framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1666 um virkni lýðræðislegra stofnana í Moldavíu.
     *      Ályktun 1667 um ræktun fóðurs og eldsneytis.
     *      Tilmæli 1865 um verndun mannréttinda við neyðarástand.
     *      Tilmæli 1866 um stöðu baráttufólks fyrir mannréttindum í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 1867 um framfylgni við aðildarskuldbindingar Serbíu.
     *      Tilmæli 1868 um aðgerðir til að vinna gegn kynbundnum mannréttindabrotum þar með talið rán á konum og stúlkum.
     *      Tilmæli 1869 um afleiðingar stríðsátakanna milli Georgíu og Rússlands fyrir almenning: eftirfylgni við ályktun 1648 (2009).
     *      Álit 271 um drög að bráðabirgðabókun 14 við mannréttindasáttmála Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 29. maí:
     *      Ályktun 1668 um bann við klasasprengjum.
     *      Ályktun 1669 um réttindi stúlkna dagsins í dag, kvenna morgundagsins.
     *      Ályktun 1670 um kynbundið ofbeldi gegn konum í vopnuðum átökum.
     *      Tilmæli 1870 um að vernda fjárhagslega aðstoð frá Evrópuráðinu til fátækra landa gegn svonefndum „hrægammasjóðum“ (e. Vulture Funds). Svar frá ráðherranefndinni.
     *      Tilmæli 1871 um bann við klasasprengjum.
     *      Tilmæli 1872 um réttindi stúlkna og kvenna til framtíðar.
     *      Tilmæli 1873 um kynbundið ofbeldi gegn konum í vopnuðum átökum.
     *      Álit 272 um fjárlög Evrópuráðsins fyrir fjárhagsárið 2010.
     *      Álit 273 um útgjöld Evrópuráðsþingsins fyrir fjárhagsárið 2010.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins, 22.–26. júní:
     *      Ályktun 1671 um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     *      Ályktun 1672 um starfsemi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu 2008: treysta efnahagslegan og lýðræðislegan stöðugleika.
     *      Ályktun 1673 um áskoranir sem alþjóðlegar efnahagsstofnanir standa frammi fyrir í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.
     *      Ályktun 1674 um endurskoðun á kjörbréfi landsdeildar Úkraínu (þingskaparegla 9).
     *      Ályktun 1675 um stöðu mannréttinda í Evrópu: mikilvægi þess að afnema refsileysi.
     *      Ályktun 1676 um stöðu mannréttinda í Evrópu og eftirlitskerfis Evrópuráðsþingsins.
     *      Ályktun 1677 um virkni lýðræðisstofnana í Armeníu.
     *      Ályktun 1678 um stöðu mála í Íran.
     *      Ályktun 1679 um kjarnorku og sjálfbæra þróun.
     *      Ályktun 1680 um stofnun vettvangs um lýðræðislegt samstarf hjá Evrópuráðsþinginu.
     *      Ályktun 1681 um bráða nauðsyn þess að vinna gegn svonefndum „heiðursglæpum“.
     *      Tilmæli 1874 um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     *      Tilmæli 1875 um endurskoðun á kjörbréfi landsdeildar Úkraínu (þingskaparegla 9).
     *      Tilmæli 1876 um stöðu mannréttinda í Evrópu: mikilvægi þess að afnema refsileysi.
     *      Tilmæli 1877 um gleymda fólkið í Evrópu: verndun mannréttinda flóttamanna sem hafa ekki getað snúið aftur til síns heima um lengri tíma.
     *      Tilmæli 1878 um fjármögnun ríkisfjölmiðla.
     *      Tilmæli 1879 um kjarnorku og sjálfbæra þróun.
     *      Tilmæli 1880 um sögukennslu á átakasvæðum og fyrrum átakasvæðum.
     *      Tilmæli 1881 um bráða nauðsyn þess að vinna gegn svonefndum „heiðursglæpum“.
     *      Álit 274 um drög að bókun við Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga um rétt til þátttöku í málefnum staðbundinna yfirvalda.
     *      Álit 275 um drög að bókun nr. 3 við Evrópusáttmálaramma um samvinnu þvert á landamæri milli byggðarlaga eða svæðisbundinna yfirvalda.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins, 28. september til 2. október:

     *      Ályktun 1682 um loftslagsbreytingar og áskoranir af þeirra völdum.
     *      Ályktun 1683 um stríðið á milli Georgíu og Rússlands að ári liðnu.
     *      Ályktun 1684 um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu 2008–2009.
     *      Ályktun 1685 um meinta pólitíska misnotkun á dómskerfi í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1686 um fyrirvara við samþykkt kjörbréfs þingmannasendinefndar Moldóvu.
     *      Ályktun 1687 um endurskoðun á samþykktu kjörbréfi sendinefndar Rússlands (regla nr. 9 í þingsköpum Evrópuráðsþingsins).
     *      Ályktun 1688 um umbætur innan Sameinuðu þjóðanna.
     *      Ályktun 1689 um framtíð Evrópuráðsins í ljósi reynslunnar sl. 60 ár.
     *      Ályktun 1690 um hvernig Mónakó hefur uppfyllt skuldbindingar sínar sem aðildarríki.
     *      Ályktun 1691 um nauðganir á konum, þ.m.t. nauðganir innan hjónabanda.
     *      Ályktun 1692 um virkni lýðræðislegra stofnana í Moldóvu: framfylgni við ályktun 1666 (2009).
     *      Ályktun 1693 um aðgang að vatni sem sameiginlegt verkefni fyrir ríki í kringum og í Miðjarðarhafi.
     *      Ályktun 1694 um gerð nýs stjórnunarfyrirkomulags í málefnum hafsins.
     *      Tilmæli 1882 um miðlun á efni á veraldarvefnum við hæfi einstaklinga undir lögaldri.
     *      Tilmæli 1883 um loftslagsbreytingar og áskoranir af þeirra völdum.
     *      Tilmæli 1884 um menningarmiðlun og mikilvægi þess að stuðla að sköpun og þvermenningarlegum skilningi í gegnum menntun.
     *      Tilmæli 1885 um gerð uppkasts að viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um réttindi fólks á heilnæmu umhverfi.
     *      Tilmæli 1886 um framtíð Evrópuráðsins í ljósi reynslunnar sl. 60 ár.
     *      Tilmæli 1887 um nauðganir á konum, þ.m.t. nauðganir í hjónabandi.
     *      Tilmæli 1888 um gerð nýs stjórnunarfyrirkomulag í málefnum hafsins.

Stjórnarnefndarfundur 11. nóvember:
     *      Ályktun 1695 um að auka gæði og samkvæmni ákvarðana í málefnum hælisleitenda í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1696 um að ná til erlendra hópa (e. diasporas) í Evrópu: þörf fyrir aðgerðir ríkisstjórna og annarra stofnana ríkisins.
     *      Ályktun 1697 um farandverkakonur og heimilisofbeldi.
     *      Ályktun 1698 um breytingar á greinum fundarskapa Evrópuráðsþingsins.
     *      Ályktun 1699 um þingskapaleg áhrif ályktunar Evrópuráðsþingsins nr. 1600 (2008) á Evrópuráðið og áheyrnarríki þess – núverandi ástand og leiðin fram á við og önnur tengd skjöl þingsins.
     *      Tilmæli 1889 um að auka gæði og samræma ákvarðanatöku í málefnum hælisleitenda í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 1890 um að ná til erlendra hópa (e. diasporas) í Evrópu: þörf fyrir aðgerðir ríkisstjórna og annarra stofnana ríkisins.
     *      Tilmæli 1891 um farandverkakonur og heimilisofbeldi.
     *      Tilmæli 1892 um framlag Evrópuráðsins til þróunar æðri menntunar í Evrópu.
     *      Tilmæli 1893 um framtíð miðstöðvar Evrópu um alþjóðleg tengsl og samkennd („norður- suður miðstöðina“).