Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 797  —  158. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Íslandsstofu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Gunnarsson, Auðun Atlason og Júlíus Hafstein frá utanríkisráðuneyti, Jón Ásbergsson frá Útflutningsráði, Ólöfu Ýri Atladóttur og Jón Gunnar Borgþórsson frá Ferðamálastofu, Vilhjálm Egilsson og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Arason, Kristínu Kalmarsdóttur og Ingunni Ólafsdóttur frá Ríkisendurskoðun, Eirík Blöndal frá Bændasamtökum Íslands, Unni Halldórsdóttur frá Ferðamálasamtökum Íslands, Sif Gunnarsdóttur frá Höfuðborgarstofu, Ástu Þorleifsdóttur frá Markaðsstofu Austurlands, Kristján Pálsson frá Markaðsstofu Suðurnesja, Harald Birgisson frá Viðskiptaráði, Þórð H. Hilmarsson frá Fjárfestingarstofu, Kolbrúnu Halldórsdóttur frá Bandalagi íslenskra listamanna, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur frá Félagi íslenskra tónlistarmanna, Laufeyju Guðjónsdóttur frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Jóhannes Þórðarson frá Listaháskóla Íslands, Halldór Björn Runólfsson frá Listasafni Íslands, Sigríði Magnúsdóttur og Þorkel Magnússon frá Arkitektafélagi Íslands, Höllu Helgadóttur frá Hönnunarmiðstöð Íslands, Ágúst Frey Ingason frá Latabæ, Ernu Hauksdóttur og Árna Gunnarsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, og Einar Karl Haraldsson, Arnar Guðmundsson, Karitas Gunnarsdóttur og Auði Eddu Jökulsdóttur úr verkefnastjórn vegna undirbúnings að stofnun Íslandsstofu.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá utanríkisráðuneyti (skýrsla verkefnastjórnar vegna undirbúnings að stofnun Íslandsstofu), Arkitektafélagi Íslands, Árnesi gistihúsi, Bandalagi íslenskra listamanna, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Eldingu/hvalaskoðun, Ferðamálasamtökum Íslands, Ferðamálastofu, Félagi íslenskra tónlistarmanna, Fjárfestingarstofu, Gyðju Collection, Hönnunarmiðstöð Íslands ehf., Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Jóni Ólafi Ólafssyni arkitekt, Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga, Kvikmyndamiðstöð Íslands, landlæknisembættinu, Landspítala, Latabæ ehf., Life Navigation, Listaháskóla Íslands, Listasafni Íslands, Markaðsstofu Austurlands, Markaðsstofu Suðurnesja, Mentor ehf., Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Reykjavíkurborg (Höfuðborgarstofu), Ríkisendurskoðun, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Útflutningsráði Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðminjasafni.
    Enn fremur barst nefndinni álit iðnaðarnefndar Alþingis en utanríkismálanefnd óskaði eftir áliti nefndarinnar varðandi afmarkaða þætti frumvarpsins, einkum hvort þörf væri á frekari lagabreytingum tæki það gildi.
    Markmið frumvarpsins er að setja á laggirnar nýja starfsemi, Íslandsstofu („Promote Iceland“), á grunni Útflutningsráðs Íslands. Núgildandi lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002, verða felld úr gildi verði frumvarpið að lögum. Gert er ráð fyrir að verkefni Íslandsstofu verði viðameiri en verkefni Útflutningsráðs eru nú. Í fyrsta lagi er Íslandsstofu ætlað að setja skýran ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu og þekkingariðnaði koma til samstarfs við hið opinbera um að efla og standa vörð um orðspor Íslands erlendis. Í öðru lagi verður markaðs- og kynningardeild Ferðamálastofu rekin innan vébanda Íslandsstofu sem mun fá það lögbundna hlutverk að laða til landsins erlenda ferðamenn. Til að sinna verkefnum sínum skal Íslandsstofa byggja starf sitt á bestu fáanlegu fagþekkingu á sviði útflutningsaðstoðar og ferða- og ímyndarmála, þannig að samstarf hins opinbera og einkaaðila lúti ávallt faglegri stefnumótun og starfsaðferðxum til langs tíma í þessum veigamikla málaflokki.
    Í frumvarpinu er hlutverk Íslandsstofu skilgreint nánar sem fimmþætt: Í fyrsta lagi verður Íslandsstofa samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila þar sem mótuð verður samræmd stefna um uppbyggingu ímyndar og orðspors Íslands, en jákvæð ímynd styrkir útflutningsstarfsemi og laðar að erlenda ferðamenn og fjárfesta. Í öðru lagi mun Íslandsstofa veita fyrirtækjum alhliða faglega aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við að kynna og selja vörur, þjónustu og þekkingu á erlendum mörkuðum. Í þriðja lagi er Íslandsstofu ætlað það hlutverk að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdri og stefnumiðaðri kynningu á Íslandi sem áfangastað. Í fjórða lagi skal Íslandsstofa laða til landsins erlenda fjárfestingu. Í fimmta lagi skal Íslandsstofa styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis, enda er íslenskur menningararfur og íslensk menning grunnstoð ímyndar og orðspors Íslands.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og fögnuðu markmiði þess um að sameina og samþætta málaflokka sem snúa að útflutningsaðstoð, markaðsstarfi ferðaþjónustu, kynningu á kostum landsins fyrir erlenda fjárfesta, kynningu á íslenskri menningu og almennum ímyndar- og orðsporsmálum. Flestir hagsmunaaðilar hvöttu jafnframt til þess að frumvarpið yrði að lögum hið fyrsta. Með frumvarpinu er kröfum um bætt samstarf ólíkra greina og hagsmunaaðila mætt auk þess sem sú samþætting á að skila sér í því að fjármunir til markaðs- og kynningarstarfs erlendis nýtist betur. Algengustu athugasemdir umsagnaraðila lutu að samsetningu stjórnar Íslandsstofu og verkaskiptingu hennar innbyrðis.
    Við umfjöllun utanríkismálanefndar beindi hún sjónum sínum einkum að álitamálum sem varða stjórnskipulega stöðu Íslandsstofu, skipun stjórnar stofunnar, fagráðum, verkefnum aðalfundar, mögulegri þörf á frekari lagabreytingum og mikilvægi þess að í raun og sanni verði komið á fót nýrri starfsemi á grunni Útflutningsráðs.
    Samkvæmt frumvarpinu er Íslandsstofa samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda. Sem samstarfsvettvangur opinberra aðila og atvinnulífsins verður hún sjálfstæð stofnun með blandaða stjórn. Íslandsstofu er þannig mörkuð sama staða innan stjórnkerfisins og Útflutningsráði nú. Þannig er lagt til að Íslandsstofa verði stofnuð á grunni Útflutningsráðs og yfirtaki réttindi þess og skuldbindingar, sem og eignir og skuldir, sbr. bráðabirgðaákvæði I. Á þessu er hnekkt í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins, þar sem sjálfstæði fjárhags og reikningshalds Íslandsstofu er áréttað og jafnframt tekið fram að þetta sé sambærilegt fyrirkomulag og gilt hefur um Útflutningsráð hingað til. Í athugasemdum við frumvarp að gildandi lögum um útflutningsaðstoð segir m.a. að Útflutningsráð Íslands hafi frá upphafi verið rekið sem „hálfopinber stofnun“ með lögákveðinn gjaldstofn. Nefndin hefur kynnt sér skýrslu Ríkisendurskoðunar, Útflutningsaðstoð og Landkynning, frá desember 2009 og rætt efni hennar við fulltrúa stofnunarinnar. Í skýrslunni kemur fram að æskilegt sé að staða Íslandsstofu innan stjórnkerfisins verði skýrð betur en gert er í frumvarpinu, ekki síst í ljósi þess að Íslandsstofa mun bera ábyrgð á og ráðstafa umtalsverðu opinberu fjármagni. Þá segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að með skýrri ábyrgð eins ráðuneytis aukist líkur á árangursríkri stjórnun og góðri nýtingu fjármuna og mannafla. Þó varar Ríkisendurskoðun við því að Íslandsstofa verði of miðstýrð á kostnað sveigjanleika og fjölbreytni.
    Nefndin leggur áherslu á að Íslandsstofa verði sjálfstæð líkt og Útflutningsráð og telur jafnframt að koma megi til móts við ábendingar Ríkisendurskoðunar með tvennum hætti svo til bóta sé. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til að utanríkisráðherra skipi stjórnarformann Íslandsstofu, sem er breyting frá því fyrirkomulagi sem gilt hefur um Útflutningsráð þar sem stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Nefndin telur að með þeirri breytingu sé ábyrgð utanríkisráðherra á málaflokknum undirstrikuð. Í öðru lagi gerir nefndin þá breytingartillögu við 4. gr. frumvarpsins að Ríkisendurskoðun sjái um reglubundna endurskoðun reikninga Íslandsstofu. Það er breyting frá því sem gilt hefur um Útflutningsráð sem hefur nýtt sér sjálfstæða endurskoðunarskrifstofu.
    Um stjórn Íslandsstofu segir m.a. í frumvarpinu: „Stjórnina skipa níu menn valdir til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn stjórnarmann eftir tilnefningu forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar. Skal sá vera formaður stjórnar.“ Eins og fyrr sagði lutu flestar athugasemdir umsagnaraðila að samsetningu stjórnar Íslandsstofu og komu fram ábendingar um marga aðila sem ættu fullt erindi í stjórn. Meðal annars voru færð rök fyrir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Bandalag íslenskra listamanna og Ferðamálasamtök Íslands ættu að eiga fulltrúa í stjórn. Nefndin ræddi hvort fjölga ætti stjórnarmönnum og varð það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að fjölga þeim um tvo í því augnamiði að tryggja breiðari aðkomu ólíkra sjónarmiða að stjórnarborðinu. Jafnframt er nefndin því samþykk að fulltrúar atvinnulífsins fari með meiri hluta í stjórn, eins og lagt er upp með í frumvarpinu. Nefndin telur þó að ná megi meiri fjölbreytni með því að einskorða þá fulltrúa ekki við Samtök atvinnulífsins. Nefndin bendir á að markaðsgjaldið sem er til fjármögnunar Íslandsstofu er lagt á gjaldstofn tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Gjaldið er lagt á allar launagreiðslur og er tekjustofn Íslandsstofu því mun víðar en innan vébanda Samtaka atvinnulífsins. Nefndin leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að Ferðamálasamtök Íslands tilnefni einn stjórnarmann til þess að tryggja breiða aðkomu ferðaþjónustunnar. Þá ræddi nefndin hvort skilyrða ætti að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins kæmu frá tilteknum aðildarfélögum samtakanna, svo sem Samtökum ferðaþjónustu. Nefndin leggur ekki til breytingu á frumvarpinu í þá átt, en undirstrikar mikilvægi þeirrar atvinnugreinar í starfsemi Íslandsstofu. Loks leggur nefndin til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilnefni einn fulltrúa í stjórnina og er það gert í ljósi mikilvægis matvælageirans og væntinga til aukins hlutar hans í útflutningi landsmanna til framtíðar.
    Nefndin leggur áherslu á að auka vægi fagráða innan Íslandsstofu og að þau verði farvegur fleiri aðila til virkrar þátttöku í starfsemi stofunnar. Í því skyni leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þannig að sérstaklega verði kveðið á um stofnun fagráða á sviði menningarmála, umhverfismála og matvælagreina til viðbótar við fagráð á sviði markaðs- og kynningarmála ferðaþjónustunnar erlendis og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Þá leggur nefndin til að stjórn Íslandsstofu geti skipað fagráð á fleiri sviðum og að þeir aðilar sem eiga fulltrúa í fagráðum hafi aðkomu að aðalfundi Íslandsstofu.
    Nefndin telur að skilgreina þurfi hlutverk aðalfundar Íslandsstofu nánar en gert er í frumvarpinu. Nefndin leggur því fram breytingartillögur sem kveða á um að á aðalfundi kynni stjórn Íslandsstofu stefnumótun stofnunarinnar, geri grein fyrir störfum sínum og fagráða, og birti rekstraráætlanir og ársreikninga. Seturétt á aðalfundi hafi þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn Íslandsstofu og jafnframt þeir sem eiga fulltrúa í fagráðum Íslandsstofu. Stjórninni er þar að auki heimilt að bjóða fleirum til setu á aðalfundi.
    Í viðræðum nefndarinnar við umsagnaraðila komu fram ólík viðhorf til þess hvort stofnun Íslandsstofu kallaði á aðrar lagabreytingar og voru lög nr. 73/2005, um skipan ferðamála, sérstaklega nefnd í því sambandi. Nefndin óskaði eftir áliti frá iðnaðarnefnd Alþingis um málið og fylgir það nefndaráliti þessu. Niðurstaða iðnaðarnefndar var að rétt væri að bíða með allar lagabreytingar þar til ljóst yrði hvort frumvarpið yrði að lögum og þar til Íslandsstofa hefði hafið starfsemi. Iðnaðarnefnd taldi hins vegar að þegar nokkur reynsla yrði komin á rekstur Íslandsstofu væri eðlilegt að endurskoða lög um skipan ferðamála til samræmis. Utanríkismálanefnd hvetur til þess að hugað verði að þessum breytingum hið fyrsta eftir að Íslandsstofu hefur verið komið á fót, enda er það mikilvægur hluti af því að leggja áherslu á að Íslandsstofa er ný starfsemi en ekki framlenging þess sem fyrir er.
    Að lokum vill nefndin ítreka að með stofnun Íslandsstofu sé nýrri starfsemi með ný verkefni komið á fót þó að það sé gert á grunni Útflutningsráðs. Íslandsstofa mun að mörgu leyti hafa breytt hlutverk og fleiri markmið en Útflutningsráð og markaðshluti Ferðamálastofu og því er brýnt að hin nýja stofa verði byggð upp í samræmi við það. Aðeins þannig verður kröfum um eflt samstarf ólíkra greina og hagsmunaaðila mætt svo úr verði öflug og drífandi starfsemi sem stendur undir markmiðum frumvarpsins um að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. Loks leggur nefndin til nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að utanríkisráðherra skuli boða til stofnfundar Íslandsstofu innan átta vikna frá gildistöku laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Helgi Hjörvar.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Ögmundur Jónasson.





Fylgiskjal.



Álit



um frv. til l. um Íslandsstofu.

Frá iðnaðarnefnd.



    Vísað er til bréfs utanríkismálanefndar frá 12. febrúar 2010 þar sem iðnaðarnefnd er beðin um álit á frumvarpi laga um Íslandsstofu (158. mál). Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólöfu Ýri Atladóttur ferðamálastjóra, Helgu Haraldsdóttur og Vigdísi Evu Líndal frá iðnaðarráðuneyti og Baldvin Jónsson, verkefnastjóra Áforma.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði Íslandsstofa (Promote Iceland) sem taki við verkefnum Útflutningsráðs Íslands og að undir hana heyri jafnframt fleiri verkefni. Er frumvarpinu ætlað að koma til móts við hugmyndir um aukið samstarf opinberra aðila og atvinnulífs, markvissari nýtingu fjármuna, aukna samhæfingu og öflugri þjónustu.
    Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um hlutverk Íslandsstofu. Það er þrennt sem nefndin fjallaði helst um og tengist málefnasviði hennar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Íslandsstofa verði samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til að efla ímynd og orðspor Íslands. Með öðrum orðum er ætlunin að setja skýran ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu og þekkingariðnaði verði í samstarfi við opinbera aðila um að efla og standa vörð um orðspor Íslands erlendis. Í öðru lagi er mælt fyrir um að hlutverk Íslandsstofu verði fólgið í að laða erlenda ferðamenn til landsins og er í því skyni gert ráð fyrir að markaðs- og kynningardeild Ferðamálastofu verði rekin innan vébanda Íslandsstofu. Í þriðja lagi mun Íslandsstofa upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi. Þetta hlutverk samræmist hlutverki Fjárfestingarstofu sem hefur verið rekin innan Útflutningsráðs Íslands.
    Nefndin fjallaði að beiðni utanríkismálanefndar sérstaklega um það hvort nauðsynlegt væri að breyta lögum um skipan ferðamála með hliðsjón af frumvarpinu um Íslandsstofu. Var það niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að bíða með allar lagabreytingar í fyrsta lagi þar til ljóst yrði hvort frumvarpið yrði að lögum og í öðru lagi þar til Íslandsstofa hefði hafið starfsemi. Nefndin telur hins vegar að þegar nokkur reynsla verður komin á rekstur Íslandsstofu sé eðlilegt að endurskoða lög um skipan ferðamála til samræmis.
    Nokkuð var rætt um 3. gr. frumvarpsins um stjórn Íslandsstofu. Þar er kveðið á um að skipuð skuli níu manna stjórn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra en einn án tilnefningar sem verði formaður stjórnarinnar. Fram komu athugasemdir um að mikilvægt væri að ferðaþjónustunni yrði gert hærra undir höfði í stjórnskipan stofnunarinnar til að mynda með því að Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) tilnefndu einn til tvo fulltrúa og að iðnaðarráðherra tilnefndi tvo fulltrúa í stað eins. Þá var bent á að eðlilegt væri að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilnefndi fulltrúa í stjórnina. Jafnframt kom fram það sjónarmið að skilvirkara gæti verið að fækka stjórnarmönnum en skipa að auki fulltrúaráð þar sem fleiri aðilar sem tengjast viðfangsefnum Íslandsstofu fengju aðild.
    Í lokamálslið 3. gr. er mælt fyrir um að aðalfund Íslandsstofu skuli halda fyrir 1. maí ár hvert. Nefndin telur að skýra þurfi betur hlutverk aðalfundar í frumvarpinu. Nefndin leggur til að utanríkismálanefnd skoði hvort leggja skuli til breytingu í þá veru að bætt yrði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða um að á árinu 2010 geti aðalfundur farið fram fyrir síðara tímamark en 1. maí. Þetta á sérstaklega við verði frumvarpið samþykkt síðar en það tímamark en verði frumvarpið að lögum skömmu fyrir 1. maí mun varla gefast ráðrúm til að halda aðalfund fyrir þann tíma gert er ráð fyrir í greininni.
    Loks leggur nefndin áherslu á að efla skuli þá starfsemi sem Fjárfestingarstofa hefur sinnt sem hefur það markmið að ýta undir erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Telur nefndin að þeirri starfsemi mætti gera hærra undir höfði í frumvarpinu til að tryggja að markmiðinu verði náð. Rétt er að vekja athygli á því að eftirspurn eftir þjónustu Fjárfestingarstofu hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum en starfsmönnum hefur fækkað og eru stöðugildin tvö og hálft.