Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 798  —  158. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um Íslandsstofu.

Frá utanríkismálanefnd.



     1.      3. gr. orðist svo:
             Stjórn Íslandsstofu skipuleggur og ákveður verkefni stofunnar. Stjórnina skipa ellefu menn valdir til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu Ferðamálasamtaka Íslands, einn eftir tilnefningu forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra, einn eftir tilnefningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og einn án tilnefningar. Skal sá vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun Íslandsstofu og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Hún ræður framkvæmdastjóra Íslandsstofu og ákveður starfskjör hans. Stjórnin skal, í samráði við viðkomandi fagráðuneyti, skipa sérstök fagráð um áherslur í markaðs- og kynningarmálum erlendis á sviði ferðaþjónustu, matvælagreina, umhverfismála, menningarmála og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Eftir atvikum getur stjórnin með sama hætti skipað fagráð á fleiri sviðum.
             Stjórnin boðar til aðalfundar Íslandsstofu sem halda skal fyrir 1. maí ár hvert. Rétt til setu á aðalfundum eiga þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn Íslandsstofu og þeir aðilar sem eiga fulltrúa í fagráðum Íslandsstofu. Stjórninni er heimilt að bjóða fleirum til setu á aðalfundi. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir stefnumótun Íslandsstofu og störfum sínum og fagráða, og birtir rekstraráætlanir og ársreikninga.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun reikninga stofunnar.
     3.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Utanríkisráðherra skal boða til stofnfundar Íslandsstofu innan átta vikna frá gildistöku laga þessara.