Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 807  —  467. mál.




Skýrsla



um Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2009.

1. Inngangur.
    Starfsemi NATO-þingsins árið 2009 einkenndist öðru fremur af umræðu um aðgerð NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003. Segja má að verkefnið sé prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi um leið og það er tákngervingur hinna miklu breytinga sem eiga sér stað á bandalaginu. Í því sambandi varð þingmönnum tíðrætt um mikilvægt hlutverk NATO við að fást við bæði hefðbundnar og nýjar öryggisógnir. Líkt og síðustu ár hafa aðgerðir NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins komið til umræðu á vettvangi NATO-þingisins en þeim hefur fjölgað stórlega.
    Þá ber að nefna umræðu um samskipti NATO við Rússland sem var áberandi á árinu. Samskipti NATO og Rússlands kólnuðu árið 2008, ekki síst í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu í ágúst það ár. Í framhaldinu var fundum í NATO-Rússlandsráðinu frestað um ótiltekinn tíma. Deilurnar komu við sögu NATO-þingsins enda á Rússland aukaaðild að þinginu og þingmenn rússnesku dúmunnar sækja fundi þess. Stjórnarnefnd NATO-þingsins tók ákvörðun á ársfundi sínum 2009 að halda óbreyttu fyrirkomulagi frá ákvörðun NATO-þingsins á ársfundi þingsins 2008 þar sem brugðist var við átökum Rússlands og Georgíu með breyttu samstarfi við Rússa. Annars vegar var þátttaka rússneskra þingmanna í starfi NATO- þingsins takmörkuð og hins vegar var stofnað til sérstaks þingmannaráðs NATO og Georgíu til samræmis við þingmannaráð NATO og Rússlands sem starfað hefur um árabil.
    Jafnframt fór fram ítarleg umræða í öllum málnefnanefndum þingsins um þróun nýrrar grundvallarstefnu bandalagsins og framlag NATO-þingsins til hennar. Þá var umræða um viðbúnað og getu NATO til að uppfylla skyldur sínar skv. 5. gr. Atlantshafssáttmálans áberandi. Rík áhersla var lögð á mikilvægi áframhaldandi stuðnings almennings við hlutverk bandalagsins og skilningi á markmiðum og forgangsatriðum þess.
    Enn fremur var málstofa um öryggishorfur á norðurslóðum haldin í samvinnu NATO og íslenskra stjórnvalda 29.–30. janúar 2009. Um 300 manns frá öllum aðildarríkjum NATO tóku þátt í málstofunni, þar á meðal framkvæmdastjóri NATO, ráðherrar og þingmenn NATO-þingsins. Á ráðstefnunni var lögð áhersla á mikilvægi þess að norðurslóðir verði vettvangur friðsamlegrar samvinnu, ekki síst í ljósi þeirra öryggisáskorana sem blasa við á svæðinu.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum: stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður- Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fast form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundi og ársfundi NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE ( Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem geta tekið þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 14 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn, auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru í upphafi árs 2009 Ragnheiður E. Árnadóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannsdóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Eftir Alþingiskosningarnar 25. apríl 2009 og kosningu Alþingis í nefndir 15. maí var ný Íslandsdeild kosin. Aðalmenn Íslandsdeildar voru Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Ragnheiður E. Árnadóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar. Á fundi Íslandsdeildar hinn 4. júní var Björgvin G. Sigurðsson kosinn formaður og Ragnheiður Elín Árnadóttir varaformaður deildarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar en um miðjan október tók Arna Gerður Bang alþjóðaritari við sem ritari deildarinnar.
    Íslandsdeildin hélt undirbúningsfundi fyrir vor- og ársfundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir fyrir þingkosningar 2009 var þannig:

          Stjórnarnefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir.
              Til vara: Magnús Stefánsson.
          Stjórnmálanefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir.
              Til vara: Arnbjörg Sveinsdóttir.
          Varnar- og öryggismálanefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir
              Til vara: Arnbjörg Sveinsdóttir
          Nefnd um borgaralegt öryggi: Ásta R. Jóhannesdóttir
              Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
          Efnahagsnefnd: Magnús Stefánsson
              Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
          Vísinda- og tækninefnd: Magnús Stefánsson
              Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
          Miðjarðarhafshópur: Ásta R. Jóhannesdóttir

    Skipting Íslandsdeildar í nefndir eftir þingkosningar 2009 var þannig:

          Stjórnarnefnd: Björgvin G. Sigurðsson.
              Til vara: Ragnheiður Elín Árnadóttir.
          Stjórnmálanefnd: Björgvin G. Sigurðsson.
              Til vara: Skúli Helgason.
          Varnar- og öryggismálanefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir.
              Til vara: Birgir Ármannsson.
          Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgitta Jónsdóttir.
              Til vara: Ólína Þorvarðardóttir.
          Efnahagsnefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir.
              Til vara: Birgir Ármannsson.
          Vísinda- og tækninefnd: Björgvin G. Sigurðsson.
              Til vara: Skúli Helgason.

    Þingmenn Íslandsdeilar gegndu tveimur trúnaðarstörfum á vettvangi NATO-þingsins árið 2009. Á ársfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007 var Ragnheiður E. Árnadóttir valin skýrsluhöfundur undirnefndar um öryggis- og varnarsamstarf yfir Atlantsála sem er önnur af tveimur undirnefndum varnar- og öryggismálanefndar. Hlutverk skýrsluhöfunda er að taka saman skýrslu um það málefni sem undirnefndin kýs að taka til sérstakrar skoðunar og leggja fram drög að ályktun um málið á fundi öryggis- og varnarmálanefndar sem síðar fer fyrir þingfund NATO-þingsins. Ragnheiður gegndi starfi skýrsluhöfundar á starfsárinu 2009 og kynnti skýrslu á vorfundi og ársfundi NATO-þingsins (sjá nánar í umfjöllun um vor- og ársfundi) um viðbúnað og getu NATO til að uppfylla skyldur sínar skv. 5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins sem kveður á um sameiginlegt öryggi og varnir bandalagsins.
    Þá var Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður Miðjarhafshópsins NATO-þingsins fyrri hluta árs 2009. Ásta var kosin annar af tveimur varaformönnum Miðjarðarhafshóps á fundi hópsins í Abu Dhabi í október 2008. Hópurinn var settur á laggirnar árið 1996 og er samráðsvettvangur NATO-þingsins við ríki í norðanverðri Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs um öryggismál í þeim viðkvæma heimshluta.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2009 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, vorfundi þingsins í Ósló og ársfundi í Edinborg. Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Febrúarfundir.
    Dagana 15.–17. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en þeir eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Ragnheiður E. Árnadóttir fundina auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á meðal fyrirlesara var Martin Erdmann, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO á sviði pólitískrar stefnumótunar. Hann gerði grein fyrir pólitískri stefnu NATO í tengslum við fyrirhugaðan 60 ára afmælisfund leiðtoga bandalagsins í Strassborg og Kehl 3.–4. apríl 2009. Á þessum tímamótum stendur NATO frammi fyrir breytingum, tækifærum jafnt sem áskorunum. Tækifærin felast í fyrsta lagi í nýrri ríkisstjórn Bandaríkjanna sem ætla má að sækist í auknum mæli eftir samráði og samvinnu við bandalagsríki sín og vinaþjóðir. Í öðru lagi er fastlega búist við því að Frakkland gerist á nýjan leik aðili að sameiginlegu herstjórnarkerfi NATO en yfirlýsingar þess efnis má vænta á fundi leiðtoga. Í þriðja lagi mun bandalagið ráða sér nýjan framkvæmdastjóra sem tekur við af Jaap de Hoop Scheffer sem gegnt hefur starfinu frá árinu 2004. Í fjórða lagi virðist vera að rofa til í samskiptum NATO og Rússlands eftir kólnun í samstarfi á síðustu tveimur árum og þó einkum í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu í ágúst 2008.
    Áskoranir NATO felast hins vegar í því að ekki er ein skýrt skilgreind hefðbundin ógn til staðar heldur flóknar nýjar ósamstæðar ógnir. Ekki er sameiginlegur skilningur og samstaða um öryggisumhverfi bandalagsins og t.d. tekist á um að hve miklu leyti orkuöryggi og netöryggi falli undir verksvið þess. Aukin harka í utanríkisstefnu Rússlands hefur einnig verið áhyggjuefni en þó er eins og fyrr sagði ýmislegt sem bendir til batnandi samskipta. Miklu máli skiptir hvaða þýðingu minni eining um ógnarumhverfi kann að hafa á virkni 5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins sem kveður á um sameiginlegt öryggi og varnir bandalagsins.
    Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um hvort NATO eigi að móta nýja grundvallarstefnu og hefur framkvæmdastjóri bandalagsins, Jaap de Hoop Scheffer, verið ötull talsmaður þess. Núverandi hernaðarstefna er frá árinu 1999 og hefur breytt öryggisumhverfi bandalagsins og stórauknar aðgerðir utan hefðbundins varnarsvæðis einkum verið nefnt sem ástæða fyrir endurskoðun grundvallarstefnunnar. NATO-þingið hefur stutt hugmyndir um mótun nýrrar grundvallarstefnu og útnefnt Jan Pedersen, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, sem sérstakan fulltrúa til að móta tillögur og framlag NATO-þingsins þar að lútandi. Á leiðtogafundi NATO er ráðgert að samþykkja sérstaka Atlantshafsyfirlýsingu þar sem grunngildi og framtíðarsýn bandalagsins verða dregin upp. Líklegt er að í framhaldi yfirlýsingarinnar verði ráðist í vinnu við nýja grundvallarstefnu. Mótun nýrrar stefnu nú yrði þó flóknara ferli en þegar síðasta grundvallarstefna var samþykkt, en hún var samkomulagsatriði 16 aðildarríkja en ekki 28 ríkja, eins og skipa bandalagið eftir gildistöku aðildar Albaníu og Króatíu.
    Þrír sendiherrar hjá NATO, Kurt Volker frá Bandaríkjunum, Pascale Andreani frá Frakklandi og Linas Linkevicius frá Litháen, tóku þátt í pallborðsumræðu við þingmenn. Í framsögum þeirra kom m.a. fram að samband Frakklands og NATO hefði batnað til muna eftir að Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti Frakka. Frakkland dró sig út úr sameiginlegu herstjórnarkerfi NATO árið 1966 en mun væntanlega hefja þátttöku í því á nýjan leik eins og fyrr sagði. Endurskoðun á hættumati og öryggismálum Frakklands fór fram á síðasta ári og var niðurstaðan að mæla með þátttöku í hernaðarkerfinu með þeim skilyrðum að Frakkland gæti enn sem fyrr metið og ákveðið þátttöku í einstökum verkefnum, ætti áfram sinn eigin kjarnorkuherafla, og að franskar hersveitir yrðu ekki varanlega undir stjórn NATO á friðartímum. Þá munu Frakkar vinna að því að efla varnar- og öryggissamstarf Evrópuríkja jafnhliða aukinni þátttöku sinni í NATO. Volker tók sérstaklega fram að endurkoma Frakklands í hið sameiginlega herstjórnarkerfi mundi slá á þær raddir sem hafa haft áhyggjur af samkeppni á milli NATO annars vegar og öryggis- og varnarstefnu ESB hins vegar.
    Í umræðum um herviðbúnað NATO sat Giampaolo Di Paola, aðmíráll og formaður hermálanefndar bandalagsins, fyrir svörum. Ragnheiður E. Árnadóttir spurðist fyrir um hvort vænta mætti áherslubreytinga á milli hefðbundinna varna á landsvæðum aðildarríkjanna annars vegar og hreyfanlegra hersveita sem beita má með litlum fyrirvara hvar sem er í heiminum hins vegar í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu. Benti Ragnheiður á vaxandi áhyggjur Eystrasaltsríkjanna af því að áherslan á hreyfanlegar sveitir væri á kostnað hefðbundinna landvarna sem hljóta að teljast meginhlutverk bandalagsins og spurði hvernig hermálanefndin hefði brugðist við þeim áhyggjum. Di Paola sagðist þekkja þessa umræðu og lagði áherslu á sameiginlegt öryggi sem lykilhlutverk bandalagsins og að sameiginlegar landvarnir yrðu ekki veikari með meiri áherslu á hreyfanlegar sveitir.
    Jirí Sedivy, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO á sviði varnarmála, taldi enga mótsögn milli klassískra sameiginlegra landvarna og uppbyggingar á hraðliði og flutningsgetu sem gerir bandalaginu kleift að beita herafla langt utan hefðbundins aðgerðasvæðis. Rétt væri að bandalagsríkin fjárfestu í hraðliði og flutningsgetu, enda kæmi hún sér vel ef flytja þyrfti hersveitir á milli aðildarríkja til sameiginlegra landvarna ekki síður en til aðgerða á fjarlægum svæðum. Ragnheiður E. Árnadóttir spurðist fyrir um horfur á útgjöldum bandalagsríkjanna til varnar- og öryggismála á næstu árum í ljósi fjármálakreppunnar. Ragnheiður benti á að erfitt hefði reynst að tryggja nauðsynlegan búnað og herafla til stórra verkefna NATO sem pólitískir leiðtogar bandalagsins hefðu þó skuldbundið sig til. Með fjármálakreppunni og tilheyrandi samdrætti á fjárlögum aðildarríkjanna og þrýstingi á auknar fjárveitingar til velferðarmála væri líklegt að fjárveitingar til varnarmála yrðu skornar niður. Djúp efnahagskreppa á heimsvísu kynni auk þess að leiða til félagslegs óstöðugleika og fjölga óróasvæðum og þar með auka eftirspurn eftir aðgerðum NATO. Með svartsýni væri því auðvelt að sjá fyrir sér að eftir nokkur ár stæði NATO veikara en áður í hættulegri og óstöðugri heimi. Ragnheiður spurði hvernig slík framtíðarsýn horfði við bandalaginu og hverjar horfurnar væru á að aðildarríkjunum tækist að tryggja nægilegar fjárveitingar til varnarmála í efnahagskreppunni? Sedivy sagði að þegar væru teikn á lofti um niðurskurð á framlögum til varnarmála í nokkrum aðildarríkjum og lagði áherslu á að bandalagið mundi bregðast við með betri forgangsröðun og skilvirkari notkun þess búnaðar sem aðildarríkin leggja til. Þá væri sameiginleg fjárfesting tveggja eða fleiri aðildarríkja í dýrum búnaði eins og orrustuþotum möguleg leið til að tryggja viðbúnað þrátt fyrir niðurskurð.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 16. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Framkvæmdastjórinn lagði í máli sínu aðaláherslu á aðgerðir NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands og væntanlega Atlantshafsyfirlýsingu komandi leiðtogafundar. John Tanner, forseti NATO-þingsins, áréttaði stuðning NATO-þingmanna við Atlantshafsyfirlýsingu og mótun nýrrar hernaðarstefnu í framhaldi af henni. Meðal mála sem komu upp í umræðunni sem á eftir fylgdi voru norðurslóðamál og var þar gerð grein fyrir helstu niðurstöðu ráðstefnu íslenskra stjórnvalda og NATO um öryggismál á norðurslóðum sem fram fór í Reykjavík 29. janúar 2009.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Ósló dagana 22.–26. maí sl. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Ragnheiður E. Árnadóttir varaformaður, auk Þrastar Freys Gylfasonar ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust fór fram fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands. Fastafulltrúi Rússlands hjá NATO hélt þar framsögu og gagnrýndi að NATO þjáðist af innri mótsögnum meðan utanríkisstefna Rússlands væri samræmd. Ræddi hann m.a. tilboð Rússlandsforseta um að hefja viðræður og benda á nýjar hugmyndir til að koma á stöðugari samskiptum milli austurs og vesturs, enda væri ekki hægt að skipta upp öryggismálum Rússlands, Evrópu og Bandaríkjanna. Hinn nýi arkitektúr gæti heitið PATO, Kyrrahafs-Atlantshafsbandalagið, en því yrði ekki komið á fót til höfuðs NATO heldur til að taka á öryggismálum með heildstæðari hætti. Þá fjallaði Harald Claes prófessor m.a. um Shtokman-gasvinnslusvæðið þar sem unnið er rétt innan við landamæri Rússlands í samvinnu Rússa, Norðmanna og Frakka.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins hélt Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, framsögu um NATO í breyttu samfélagi. Hann talaði um gildi bandalagsins í breyttu pólitísku landslagi og öryggismál á norðurslóðum. Að mati Støre er mikilvægt að almenningur sé upplýstur um hlutverk NATO í öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu og ætti sú upplýsingagjöf að vera hlutverk stjórnmálamanna og þjóðþinga í hverju aðildarríki. Í fyrirspurn til Støre ræddi Ragnheiður E. Árnadóttir um hlutverk NATO varðandi öryggi á norðurslóðum. Önnur mál á dagskrá voru samskipti við Rússa og Georgíu, en aðstoðarforsætisráðherra Georgíu var viðstaddur fundinn af því tilefni, kjarnorkumálefni í Íran, samskipti við Pakistan og mikilvægi þeirra í baráttunni gegn hryðjuverkum. Efnahagsnefndin fjallaði m.a. um matvælaöryggi þar sem framkvæmdastjóri Matvælastofnunar SÞ (WFP) hélt framsögu, orkuöryggi og útgjöld til varnarmála á krepputímum. Vísinda- og tækninefnd tók m.a. loftslagsbreytingar og útbreiðslu gereyðingarvopna til umræðu.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um þrjár skýrslur á fundi sínum en auk þess hélt Espen Barth Eide, ráðuneytisstjóri norska varnarmálaráðuneytisins, framsögu um klasavopn og Óslóarferlið um samninginn um bann við notkun slíkra vopna. Fyrsta skýrsla fundarins fjallaði um vendipunkt í Afganistan, önnur um tölvuöryggi og sú þriðja um viðbúnað og getu NATO til að uppfylla skyldur sínar skv. 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Skýrsluhöfundur síðastnefndu skýrslunnar var Ragnheiður E. Árnadóttir. Ragnheiður flutti framsögu með skýrslunni og lagði m.a. áherslu á að vaxandi fjöldi aðgerða bandalagsins utan hefðbundins varnarsvæðis hefði vakið áhyggjur meðal sumra aðildarríkja, sérstaklega hinna nýrri, um að slík verkefni utan svæðis hefðu aukið á ógn gegn þeirra eigin landsvæði og pólitísku sjálfstæði. Þessi aðildarríki hefðu nýlega sóst eftir endurnýjuðum loforðum um að NATO yrði áfram í stakk búið til að svara mögulegum árásum á landsvæði þeirra og vilja til þess. Í kjölfarið hefði kviknað umræða um hvort skynsamlegt væri að endurskilgreina varnir sem fælust æ meira í aðgerðum utan svæðis í stað þess að verja aðildarríkin. Ragnheiður taldi að ef ekki væri lengur fyrir hendi traust á skyldu NATO skv. 5. gr. væri hætta á að upp kæmu mismunandi varnarskuldbindingar og ríki færu að hugsa eingöngu um eigið öryggi, líkt og gerðist á síðustu öld. Staðreyndin væri sú að framtíð NATO réðist ekki síst af áframhaldandi stuðningi almennings við hlutverk bandalagsins. Þá nefndi hún að aðildarríkin væru nýlega farin að ræða möguleika þess að viðbragðssveitir NATO mætti senda til aðildarríkja sem væru í hættu. Líflegar umræður urðu um skýrsluna. T.d. benti fulltrúi Rússa á ókosti þess að skilgreina Rússland áfram sem ógn. Eistneskur þingmaður benti á að jafnvel skyldur NATO skv. 5. gr. væru ófullnægjandi vegna nýrra ógna samtímans. Þá benti fulltrúi yfirhershöfðingja umbreytingar NATO á niðurstöður nýlegrar skýrslu um mismunandi framtíðarmyndir bandalagsins, sem gæti komið að gagni við umfjöllun málsins.
    Nefnd um borgaralegt öryggi fjallaði á fundi sínum m.a. um öryggi í Mið-Asíu og sjórán sem stofnuðu svæðisbundnu- og hnattrænu öryggi í hættu. Þá voru haldnar kynningar á fundinum um nauðsyn þess að skilja að borgaralega og hernaðarlega starfsemi á átakasvæðum og um nauðsyn á upplýsingagjöf NATO til yngri kynslóðarinnar.
    Auk nefndafunda fór fram sérstakur hádegisfundur um konur og öryggismál í boði Noregsdeildar NATO-þingsins. Patrick Cammaert, undirhershöfðingi hollenska hersins, hélt erindi um sameiginlega ábyrgð þess að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og stúlkum í átökum og eftir að þeim lýkur. Áhersla var lögð á að um afar mikilvægt öryggismál væri að ræða. Í umræðum var komið inn á nauðsyn á sýnilegri þátttöku kvenna í aðgerðum bandalagsins og nýlega fjölskyldulöggjöf Afgana sem Karzai forseti hafði undirritað en ýmsum þingmönnum á fundinum þótti löggjöfin hrein svívirða.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 26. maí. John Tanner, forseti NATO- þingsins, setti þingfundinn. Þá ávarpaði Thorbjørn Jagland, forseti norska Stórþingsins, fundinn og lagði áherslu á að NATO væri ekki í Afganistan vegna bandalagsins sjálfs heldur til að stöðva harðstjórn samkvæmt ályktun Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var til að stöðva hryðjuverk og stríð framtíðar. Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, ávarpaði einnig þingfundinn. Aðalumræðuefni hans voru málefni norðurslóða þar sem hann lagði til aukna samvinnu ríkjanna á svæðinu vegna aukinnar umferðar og vinnu á svæðinu. Hann sagði að norðurslóðir væru friðsamlegt svæði og ætti að vera það áfram. Næstur var Kai Eide, sérstakur sendifulltrúi framkvæmdastjóra SÞ fyrir Afganistan og yfirmaður aðstoðarverkefnis SÞ í Afganistan (UNAMA), sem ræddi um jákvæð merki í starfinu í Afganistan og verkefnin fram undan. Þá ávörpuðu forsetar albanska og króatíska þingsins fundinn. Forseti NATO- þingsins tilkynnti að stjórnarnefndin hefði samþykkt að koma á fót sameiginlegu þingmannaráði NATO og Georgíu.
    Sameiginlegur fundur Norður-Atlantshafsráðsins og NATO-þingsins hófst með ávarpi Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO og forseta ráðsins, sem bauð fastafulltrúana velkomna. De Hoop Scheffer fór yfir aðgerðir NATO í Afganistan, Kosovó, Írak og við Miðjarðarhafið, auk aðgerða gegn sjóránum út af Norðaustur-horni Afríku sem bandalagið tekur þátt í. Það verkefni er gott dæmi um sveigjanleika bandalagsins. Hann sagði að bandalagið hefði einnig verið mjög öflugt pólitískt og væri í æ ríkara mæli vettvangur pólitískrar umræðu. Þrátt fyrir það fengist bandalagið við þrenns konar vanda, þ.e. varðandi samstöðu, stofnanaleg viðfangsefni og varðandi bjargir. Nú væri hins vegar lag að vinna úr öllum þessum atriðum samhliða skilgreiningu á nýrri grundvallarstefnu fyrir Atlantshafsbandalagið, sem þyrfti að taka á aðstæðum, færa fram nýjan skilning á því hvaða ógnir eru uppi, og endurnýja samstöðu meðal Evrópuríkja. Í þessu starfi væri NATO-þingið nauðsynlegur vettvangur vegna þeirrar reynslu sem þar væri saman komin.
    Í fyrirspurnatíma að loknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Ragnheiður E. Árnadóttir til máls um getu og viðbúnað NATO til að uppfylla skyldur sínar skv. 5. gr. Hún vitnaði til orða Stoltenbergs sem sagði að þetta snerist ekki um að færa NATO aftur heim, heldur að sannfæra okkur um að NATO hefði aldrei yfirgefið svæðið. Ræddi Ragnheiður nauðsyn þess að gera NATO betur sýnilegt í aðildarríkjunum, því ef menn teldu að bandalagið gæti ekki verndað heimahagana yrði það ekki í stakk búið til að flytja krafta sína þangað sem þeirra væri mest þörf. Að lokum þakkaði Ragnheiður framkvæmdastjóranum fyrir starf sitt í þágu bandalagsins og óskaði honum velfarnaðar í framtíðinni.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Edinborg dagana 13.–17. nóvember sl. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn þau Björgvin G. Sigurðsson formaður, Ragnheiður E. Árnadóttir og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Rúmlega 350 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir tuttugu annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust fór fram fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands. Þar héldu Andrew Wood, sérfræðingur í málefnum Rússlands og Evrasíu hjá Chatham House í Bretlandi og fyrrverandi sendiherra Breta í Rússlandi, og Vaslilu Likhachev, varaformaður nefndar efri deildar rússneska þingsins um alþjóðamál, erindi um ógnir og tækifæri 21. aldar í samskiptum Rússlands og NATO. Wood sagði að ef takast ætti að bæta samskipti NATO og Rússlands væri nauðsynlegt að skoða skilning beggja á spurningunni: Hvaða þýðingu hefur NATO fyrir Rússland og Rússland fyrir NATO? Likhachev var sammála Wood um að aðildarríki NATO og Rússland ættu að sameina krafta sína gegn sameiginlegum öryggisógnum 21. aldarinnar eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, tölvuöryggi og sjóránum.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var einkum fjallað um samskipti NATO og Rússlands, málefni Georgíu og NATO, forsetakosningarnar í Íran 2009, baráttuna gegn hryðjuverkum og málefni Pakistans. Efnahagsnefndin tók m.a. til umræðu matvælaöryggi, áhrif fjármálakreppunnar á útgjöld til varnarmála og orkuöryggi, með áherslu á Mið-Asíu, og mögulegt framlag til orkumála handan Atlantshafs. Vísinda- og tækninefnd fjallaði á sínum fundi m.a. um loftslagsbreytingar, orkuöryggi, útbreiðslu gereyðingarvopna og kjarnorkustefnu Írans. Þá fjallaði nefnd um borgaralegt öryggi m.a. um sjórán sem hættu gegn svæðisbundnu og hnattrænu öryggi, málefni Moldóvu og öryggi í Mið-Asíu. Enn fremur var ítarlega rætt um þróun nýrrar grundvallarstefnu bandalagsins og framlag NATO-þingsins til hennar í öllum málnefnanefndum þingsins.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um vendipunkt í Afganistan, önnur um tölvuöryggi og NATO og sú þriðja um viðbúnað og getu NATO til að uppfylla skyldur sínar skv. 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Skýrsluhöfundur síðastnefndu skýrslunnar var Ragnheiður E. Árnadóttir. Ragnheiður kynnti skýrsluna og ræddi m.a. um breytt landslag í öryggismálum sem leitt hefði til vaxandi fjölda aðgerða NATO utan svæðis þess. Þessar breytingar hafi vakið áhyggjur og óöryggi meðal ákveðinna aðildarríkja NATO. Þá hafi átökin í Georgíu í ágúst 2008 minnt okkur á að stríð nálægt heimahögum eru enn möguleg. Það hafi enn frekar aukið á óöryggi NATO-ríkja í Mið- og Austur-Evrópu sem hafi látið í ljós áhyggjur af pólitísku varnarleysi heima fyrir. Í skýrslunni leggur Ragnheiður áherslu á umræðu um hversu reiðubúið bandalagið sé til að uppfylla grundvallarskuldbindingar sínar um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna skv. 5. gr. Atlantshafssáttmálans. Hún sagði skyldu NATO skv. 5. gr. vera í forgangi hjá bandalaginu þótt nauðsynlegt sé að NATO hafi getu til að takast á við öryggisógnir utan svæðis. Framtíð NATO ráðist ekki síst af áframhaldandi stuðningi almennings við hlutverk bandalagsins og því sé afar brýnt að aðildarríkin taki höndum saman og stuðli að trausti og skilningi á markmiðum og forgangsatriðum bandalagsins.
    Í framhaldi af kynningunni sat Ragnheiður fyrir svörum og sköpuðust líflegar umræður um skýrsluna. Rætt var um nálægð ákveðinna aðildarríkja við Rússland og óöryggi þeirra gagnvart því hvort skyldum 5. gr. yrði framfylgt ef til árásar á landsvæði þeirra kæmi. Ragnheiður lagði í svörum sínum áherslu á mikilvægi þess að aðildarríkin fyndu til öryggis og trausts innan NATO. Væri það ekki til staðar ætti bandalagið við vandamál að stríða sem þyrfti að horfast í augu við og leysa. Skýrslan var samþykkt samhljóða og var Ragnheiður endurkjörin sem einn af þremur skýrsluhöfundum nefndarinnar fyrir árið 2010.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var tekin ákvörðun um að halda óbreyttu fyrirkomulagi frá ákvörðun NATO-þingsins í Valencia í nóvember 2008 þar sem brugðist var við átökum Rússlands og Georgíu með breyttu samstarfi við Rússa. Þá var ákveðið annars vegar að takmarka þátttöku rússneskra þingmanna í fundum og ráðstefnum NATO-þingsins og hins vegar að stofna sérstakt þingmannaráð NATO-þingsins og georgískra þingmanna.
    Auk nefndarfunda fór fram pallborðsumræða um konur í hernaði í boði Bretlandsdeildar NATO-þingsins. Konur úr hersveitum Breta ávörpuðu þingið og deildu reynslu sinni af vopnuðum átökum og störfum fyrir hersveitirnar.
    Þingfundur NATO-þingsins fór fram á síðasta degi ársfundarins. Var fundurinn með hefðbundnu sniði, tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru David Miliband, utanríkisráðherra Breta, Robertson lávarður frá Port Ellen, fulltrúi efri deildar breska þingsins og fyrrverandi framkvæmdastjóri NATO, James Stavridis aðmíráll, yfirhershöfðingi NATO í Evrópu, og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO. Í setningarræðu forseta, bandaríska fulltrúadeildarþingmannsins Johns Tanners, bar hæst ákall til þingmanna um að auka skilning almennings í aðildarríkjunum á hlutverki og markmiði NATO. Hann sagði það algengt að þegnar aðildarríkjanna væru ómeðvitaðir eða hefðu ranghugmyndir um verkefni bandalagsins. Því væri brýnt verkefni fyrir NATO-þingið að koma að bættri stefnu NATO varðandi samskipti við almenning.
    Anders Fogh Rasmussen og David Miliband ræddu báðir um mikilvægt hlutverk NATO við að fást við bæði hefðbundnar og nýjar öryggisógnir. Rasmussen fór jafnframt yfir helstu verkefni bandalagsins fyrir árið 2010 og ræddi um nýjar ógnir sem blasa við bandalaginu á 21. öldinni eins og alþjóðleg hryðjuverk, tölvuöryggi, orkuöryggi, sjórán og áhrif loftslagsbreytinga á öryggi. Þá lagði Rasmussen áherslu á mikilvægi áframhaldandi aðgerða NATO í Afganistan þrátt fyrir dvínandi stuðning margra aðildarríkja. Hann sagði ljóst að ef NATO færi af vettvangi í Afganistan kæmu liðsmenn Al-kaída samstundis til baka með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Miliband tók í sama streng og sagði óhugsandi að skilja eftir tómarúm í Afganistan núna sem talíbanar mundu samstundis fylla og undir þeirra verndarvæng Al- kaída. Hann sagði mögulegt að vinna stríðið í Afganistan en eingöngu ef bandalagsríkin eru tilbúin til að skuldbinda sig enn frekar.
    Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Ragnheiður E. Árnadóttir til máls um viðbúnað og getu NATO til að uppfylla skyldur sínar skv. 5. gr. og vitnaði í umræður í öryggis- og varnarmálanefnd þingsins um þau mál. Ragnheiður spurði í þessu ljósi hvernig NATO hygðist taka á þeirri alvarlegu staðreynd að sum aðildarríki væru óörugg gagnvart skyldu NATO skv. 5. gr. og hvernig það yrði útfært í nýrri grundvallarstefnu bandalagsins. Rasmussen svaraði því til að 5. gr. væri kjarninn í starfsemi NATO og svo yrði áfram. Málefnið væri mikilvægur þáttur í vinnu við gerð nýju grundvallarstefnunnar og yrði gerð tilhlýðileg skil í henni. Þá sagði hann það nauðsynlegan þátt í að byggja upp traust að NATO verði sýnilegra í aðildarríkjunum. Enn fremur tók Birgitta Jónsdóttir til máls og spurði David Miliband um nýafstaðnar kosningar í Afganistan og hvað hann teldi geta tryggt lögmætar kosningar í landinu í framtíðinni. Þá spurði Birgitta hvort hann teldi það stuðla að lausn vandans að færa liðsmenn Al-kaída milli landa innan svæðisins, eins og t.d. til Pakistans. Miliband svaraði ekki spurningunum en ræddi um ástandið í Afganistan á breiðum grunni.
    Því næst fluttu skýrsluhöfundar framsögur með þeim ályktunum sem málefnanefndirnar lögðu fram og voru þær allar samþykktar.
    
Nefndarfundir.
    Ragnheiður E. Árnadóttir sótti nefndarfundi varnar- og öryggismálanefndar í Varsjá í júní og Kanada í september sem einn af skýrsluhöfundum nefndarinnar.

Alþingi, 15. mars 2010.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Ragnheiður Elín Árnadóttir,


varaform.


Birgitta Jónsdóttir.




Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2009.


Ársfundur í Edinborg, 13.–17. nóvember:
          Ályktun 375 um samhæfð viðbrögð gegn sjóránum.
          Ályktun 376 um skuldbindingar NATO gagnvart Afganistan.
          Ályktun 377 um áhrif fjármálakreppunnar.
          Ályktun 378 um skuldbindingar Pakistans.
          Ályktun 379 um staðfestingu á stefnu NATO um að það sé opið nýjum aðildarríkjum.
          Yfirlýsing 374 um ástandið í Moldóvu.