Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 815  —  174. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Gríðarlegur ágreiningur er um það frumvarp sem hér er fjallað um. Nær einsdæmi má telja að nánast allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi krafist þess að frumvarpið verði ekki afgreitt, eða að umdeildasta þætti þess verði að minnsta kosti hafnað. Illu heilli hefur ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis skellt skollaeyrum við öllum slíkum málaleitunum.
    Á sama tíma og ríkisstjórnarmeirihlutinn viðhefur þessi vinnubrögð situr að störfum nefnd sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði til þess að endurskoða fiskveiðilöggjöfina og skapa um hana meiri sátt. Ráðherra lagði sjálfur á það áherslu að starfshópurinn fengi frið til verka sinna. Engu að síður er ljóst að með verkum sínum, ekki síst þessu frumvarpi, hafa ráðherrann og stjórnarmeirihlutinn stórspillt fyrir nefndarstarfinu. Það verður nefnilega ekki stuðlað að sáttum um fiskveiðistjórnarkerfið með því að efna til ófriðar við sjávarútveginn.

Tillaga að lausn í deilu um skötusel.


    Minni hlutinn hefur freistað þess að skapa skilyrði til sátta í þessu máli og flutt breytingartillögu í þá veru. Á það var ekki hlustað. Fram hefur komið að svokallað skötuselsákvæði mætir mikilli mótspyrnu. Gildir það jafnt um samtök sjómanna, fulltrúa Landssambands smábátaeigenda, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðvanna. Landssamband smábátaeigenda lagði til að þessu ákvæði yrði hafnað en tekið á vandanum við skötuselsveiðarnar, vegna breyttrar útbreiðslu stofnsins, með því að setja inn sérstakt meðaflaákvæði í lögin. Nákvæmlega þetta lagði minni hlutinn til við 2. umræðu málsins. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag mundi skapa sátt um þessi mál og leysa þann vanda sem breytt útbreiðsla stofnsins hefur skapað. Enn hefur meiri hlutinn tækifæri til þess að standa að slíkum breytingum og skapa sátt um mikið deiluefni.

Úthlutun karfaheimilda.

    Mikilvægasta breytingartillagan sem liggur fyrir nú við 3. umræðu málsins af hálfu meiri hluta nefndarinnar lýtur að úthlutun aflaheimilda í karfa. Óumdeilt er að úthluta þarf aðgreindum aflaheimildum í úthafskarfa og gullkarfa. Hitt er einnig mikilvægt að það sé gert með sanngjörnum og framkvæmanlegum hætti. Á hvort tveggja skorti í þeirri útfærslu sem lögð var til. Minni hlutinn varaði við þessari framkvæmd og hvatti til þess fyrir 2. umræðu að á því máli yrði tekið. Á það var ekki hlustað og málið tekið út úr nefnd óunnið og í algjöru tilgangsleysi.
    Í áliti minni hlutans við 2. umræðu um málið segir:
    „Þá eru bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu sem varða skiptingu úthlutunar karfaaflaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa. Þetta er sjálfsagt mál og er niðurstaða nefndar sem vann að þessum málum. Þó er ljóst að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu mun hafa margs konar óhagræði í för með sér. Ekki er reynt að átta sig á hver sé raunveruleg veiðireynsla einstakra skipa í hvorri tegund fyrir sig. Vitað er að einkanlega minni togskipin hafa ekki neina raunverulega veiðireynslu í djúpkarfa, einfaldlega vegna þess að toggeta þeirra hefur ekki gert þeim kleyft að veiða þá tegund. Verði þetta ákvæði frumvarpsins að lögum munu þessi skip hins vegar fá úthlutun í djúpkarfa án þess að geta nýtt sér hana.
    Eðlilegt hefði því verið að freista þess að kalla fram upplýsingar um veiðireynslu skipanna í hvorri tegundinni fyrir sig og úthluta veiðiréttinum á grundvelli þessara upplýsinga. Til þess að svo megi verða þarf að vinna þetta mál betur og ítarlegar. Eðlilegt er því að fresta afgreiðslu þessa tiltekna ákvæðis og leggja í nauðsynlega vinnu til þess að varpa betra ljósi á málið.“
    Meiri hlutinn hefur í rauninni tekið undir þessa gagnrýni með því að freista þess að bæta úr með ítarlegri breytingartillögu. Þar er að sönnu komið til móts við framangreind sjónarmið en gallinn er hins vegar sá að útfærslan er enn óljós. Framvinda málsins mun ráðast af reglugerðarheimild sem ráðherra er veitt í breytingartillögum sem fyrir liggja. Ekkert liggur fyrir, til að mynda í nefndaráliti meiri hlutans um hvernig þetta verður framkvæmt eða hvernig það muni virka gagnvart þeim útgerðum sem vandamálið snýr fyrst og fremst að. Augljóslega er ekki hægt að afgreiða málið nema þetta liggi skýrt fyrir.

Horfið frá byggðaáherslum.


    Við afgreiðslu málsins til 2. umræðu kaus meiri hlutinn að gera mjög fáar breytingar, þótt fullt tilefni væri til þess eins og fram kemur nú við 3. umræðu málsins. Meiri hlutinn ákvað að taka málið vanbúið út úr nefndinni eins og m.a. sést af þeim breytingartillögum sem kynntar hafa verið nú fyrir 3. umræðuna. Athygli vekur að önnur tveggja breytingartillagna meiri hlutans við 2. umræðu laut að því að fé sem fengist við sölu aflaheimilda í skötusel skyldi renna til Átaks til atvinnusköpunar, sem er sjóður er heyrir undir iðnaðarráðuneytið. Þar með var fallið frá því að verja þessu fjármagni til byggðaáætlunar. Segir þetta sína sögu um áhugaleysi meiri hlutans á byggðaþætti málsins.
    Að mati sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur iðnaðarráðherra haft áhrif á ráðstöfun þessa fjármagns, sem er afar sérstakt. Iðnaðarráðherra hefur að sögn ráðherrans væntanlega haft aðkomu að afgreiðslu frumvarps sem þó var flutt af allt öðrum ráðherra. Um þessi mál sagði raunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í andsvari á Alþingi 2. febrúar sl. „Síðan geri ég ráð fyrir að sá ráðherra sem fer með byggðamál komi sjónarmiðum sínum varðandi þetta á framfæri við nefndina, a.m.k. var þessu breytt og í sjálfu sér ber nefndin ábyrgð á því.“

Slæm vinnubrögð.


    Því miður er allt þetta mál til marks um slæm vinnubrögð og litla viðleitni til að ná samstöðu, bæði innan sjávarútvegsins og á Alþingi. Þó er ljóst að slíkt hefði verið útlátalítið fyrir stjórnarmeirihlutann ef vilji hefði verið til þess. Mikil andstaða er við þetta mál, ekki síst innan sjávarútvegsins og þær röksemdir sem að baki liggja umdeildasta ákvæði málsins eru vægast sagt veikburða.

Alþingi, 16. mars 2010.



Ásbjörn Óttarsson,


frsm.


Sigurður Ingi Jóhannsson.