Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 826  —  481. mál.




Fyrirspurn



til utanríkisráðherra um kostnað við aðildarumsóknarferlið að Evrópusambandinu.

Frá Ragnheiði E. Árnadóttur.



     1.      Liggur fyrir nákvæmari kostnaðaráætlun um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu en fylgdi með nefndaráliti um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um málið (fskj. IV með þskj. 249, 38. máli 137. löggjafarþings)? Ef ekki, hvenær mun sundurliðuð áætlun liggja fyrir? Hvað er búið að gera til þess að gera matið á kostnaðinum nákvæmara og minnka skekkjumörkin, sbr. athugasemdir fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um kostnaðarmat utanríkisráðuneytis (fskj. V með sama þingskjali)?
     2.      Hefur ráðherra tekið afstöðu til þess pólitíska álitamáls sem skipulag og nálgun aðildarviðræðnanna er, sbr. athugasemdir fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, og tekið tillit til þess að kostnaðurinn gæti orðið umtalsvert meiri ef flókið og erfitt reynist að ná fram samningsmarkmiðum stjórnvalda?
     3.      Hversu mikill kostnaður féll til árið 2009 og hversu mikill hefur hann verið til þessa árið 2010? Hvernig er gjaldfært á þennan lið og hvernig sundurliðast kostnaðurinn?
     4.      Er búið að áætla heildarkostnað íslenska ríkisins af umsóknarferlinu umfram það sem áætlað var um kostnað ráðuneytanna í kostnaðaráætluninni með þingsályktunartillögunni? Ef ekki, hvers vegna hefur það ekki verið gert? Stendur slík áætlanagerð yfir, og ef svo er, hvenær mun hún liggja fyrir?
     5.      Er búið að áætla ferðakostnað allra ríkisstarfsmanna sem beinlínis er vegna aðildarumsóknarinnar, t.d. starfsmanna ríkisstofnana, alþingismanna og starfsmanna Alþingis?
     6.      Eru ferðir ráðherra til funda með fulltrúum EES/ESB-ríkja vegna aðildarumsóknar og aðildarviðræðna áætlaðar í kostnaðinum?
     7.      Hvað er gert ráð fyrir mörgum utanlandsferðum utanríkisráðherra og annarra ráðherra á þessu ári vegna aðildarumsóknarinnar?
     8.      Er haldið utan um allan kostnað sem fellur til vegna aðildarumsóknarinnar þannig að hann sé öllum sýnilegur í bókhaldi ríkisins? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að slíku verklagi verði komið á?
     9.      Hver er áætlaður kostnaður við breytingar á stofnanakerfinu, t.d. á landbúnaðarstofnunum?
     10.      Hver er áætlaður kostnaður Hagstofu Íslands vegna kröfu um að hún haldi utan um hagtölur landbúnaðarins í stað Búnaðarsambands Íslands?
     11.      Eru væntanlegar fleiri slíkar kostnaðarsamar breytingar sem beinlínis stafa af aðildarumsókninni hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins? Ef svo er, hverjar eru þær og hversu mikill er kostnaðurinn áætlaður?      12.      Af hverju var þessi kostnaður ekki nefndur í kostnaðaráætluninni með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra? Hafði ráðherra vitneskju um þennan hugsanlega kostnað við aðildarumsóknina?


Skriflegt svar óskast.