Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 870  —  446. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur frá fjármálaráðuneytinu, Snorra Olsen, Eddu Símonardóttur og Jóhönnu L. Guðbrandsdóttur frá tollstjóra, Guðmund Sigurðsson frá Samkeppniseftirlitinu, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda, Rakel Sveinsdóttur frá Creditinfo Íslandi, Jóhannes Á. Jóhannesson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði og Eirík Blöndal og Jóhönnu Lind Elíasdóttur frá Bændasamtökum Íslands. Þá hefur nefndin fengið umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpið fjallar um heimild rekstraraðila til að óska eftir ívilnandi meðferð í þeim tilgangi að gera upp vanskil á tilgreindum sköttum sem gjaldfallnir eru fyrir 1. janúar 2010. Meðferðin felst í því að vanskilafjárhæðin verður fryst í átján mánuði eða þar til hún verður greidd upp með útgáfu skuldabréfs á sérstökum kjörum. Umsækjandi þarf í staðinn að standa skil á greiðslu allra annarra skatta og skatta sem til falla frá umræddu tímamarki auk þess að sinna lögboðnum skýrsluskilum og viðurkenna greiðsluskyldu sína vegna krafna sem frests njóta.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins þótt nokkrar efasemdir kæmu fram um skynsemi þess að veita afslátt á opinberum gjöldum til fyrirtækja að teknu tilliti til jafnræðis og samkeppni. Samkeppniseftirlitið taldi að frumvarpið gengi ekki gegn markmiðum samkeppnislaga.
    Þá ræddi nefndin sérstaklega tilurð frumvarpsins, þau sérstöku kjör sem skuldabréfi til uppgjörs á vanskilum er ætlað að bera í formi vaxtaleysis og verðtryggingar og mögulegar heimtur ríkisins. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að vanskil á opinberum gjöldum ógni stöðu margra lífvænlegra fyrirtækja við núverandi aðstæður.
    Nefndin telur að frumvarpið gefi rekstraraðilum raunhæft tækifæri til að koma greiðslu skatta í eðlilegt horf og stuðli að bættum skilum til framtíðar. Í tilefni af athugasemdum Bændasamtakanna tekur nefndin fram að ummæli í greinargerð standi því ekki í vegi að bændur nýti sér úrræði frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 24. mars 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Ögmundur Jónasson.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Þór Saari.