Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 515. máls.

Þskj. 902  —  515. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. a laganna:
     a.      Í stað „7 kr./kg“ kemur: 12 kr./kg.
     b.      Í stað „3 kr./kg“ kemur: 5 kr./kg.

2. gr.

    Í stað „3,00 kr./kg“ í viðauka I við lögin kemur: 5,00 kr./kg.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka V við lögin:
     a.      Í stað „3,00 kr./kg“ kemur hvarvetna: 7,00 kr./kg.
     b.      Eftirfarandi tollnúmer bætast við viðaukann:
         2629.9000     Acetonitrile          120,00 kr./kg
         2930.9000     DMSO          120,00 kr./kg
         2933.3100     Oxidizer          120,00 kr./kg
         3815.9000     Activator          120,00 kr./kg

4. gr.

    Í stað „130,00 kr./kg“ í viðauka VI við lögin kemur hvarvetna: 160,00 kr./kg.

5. gr.

    Í stað „1,50 kr./kg“ í viðauka VII við lögin kemur hvarvetna: 2,50 kr./kg.

6. gr.

    Í stað „25,00 kr./kg“ í viðauka VIII við lögin kemur hvarvetna: 30,00 kr./kg.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XI við lögin:
     a.      Í stað „19,00 kr./kg“ kemur: 25,00 kr./kg.
     b.      Í stað „26,60 kr./kg“ kemur: 35,00 kr./kg.
     c.      Í stað „104,50 kr./stk. kemur: 138,00 kr./stk.
     d.      Í stað „313,50 kr./stk.“ kemur: 414,00 kr./stk.
     e.      Í stað „418,00 kr./stk.“ kemur: 552,00 kr./stk.
     f.      Í stað „627,00 kr./stk.“ kemur: 828,00 kr./stk.
     g.      Í stað „836,00 kr./stk.“ kemur: 1.104,00 kr./stk.
     h.      Í stað „1.672,00 kr./stk.“ kemur: 2.207,00 kr./stk.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar til hækkunar á fjárhæð úrvinnslugjalds á olíumálningu, blýsýrurafgeymum, pappa- og pappírsumbúðum, plastumbúðum og heyrúlluplasti, ísócýanötum, leysiefnum og halógeneruðum efnasamböndum. Endurskoðun á þessum gjöldum er til þess að draga úr sjóðshalla sem átt hefur sér stað í þessum flokkum. Frumvarpið byggist á tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laganna.
    Tekjur Úrvinnslusjóðs af úrvinnslugjaldi ráðast af innflutningi og innlendri framleiðslu af vörum sem falla undir lögin og upphæð úrvinnslugjalds (kr./kg) í hverjum vöruflokki. Vegna mikils samdráttar í verslun og viðskiptum er erfitt að áætla tekjur Úrvinnslusjóðs til langs tíma. Unnið er út frá þeim forsendum að álagt magn árið 2010 verði það sama og árið 2009.
    Kostnaður af rekstri Úrvinnslusjóðs, utan kostnaðar við skrifstofu, ræðst af magni úrgangs sem safnað er og ráðstafað (endurnýtt, endurunnið eða fargað) af þjónustuaðilum annars vegar og hins vegar upphæð þjónustugjalds (kr./kg) sem greitt er til þeirra þegar staðfesting á ráðstöfun liggur fyrir. Greitt er fyrir flutning og ráðstöfun. Í áætlun Úrvinnslusjóðs er magn úrgangs áætlað út frá meðaltali sl. fjögurra til fimm ára. Meiri óvissa er í þessari spá en áður vegna mikilla sveiflna í innflutningi og framleiðslu vegna hinna sérstöku aðstæðna sem ríkja nú í íslensku þjóðfélagi. Við mat á ráðstöfuðu magni er auk þess stuðst við þróun skilahlutfalls síðustu ára, þ.e. ráðstafað magn deilt með álögðu magni. Stærsti kostnaðarliðurinn er greiðsla til þjónustuaðila, og jafnframt skilagjald í tilfelli ökutækja, fyrir ráðstöfun, þ.e. endurnýtingu, endurvinnslu og förgun. Almennt er miðað við að þessi kostnaður, þ.e. magntengd greiðsla til þjónustuaðila, hækki um 5% milli áranna 2009 og 2010, að undanskilinni smurolíu. Í öllum vöruflokkum nema smurolíu og ökutækjum er hækkun á þessum greiðslum ákveðin hverju sinni af stjórn sjóðsins. Samningur er við olíufélögin um söfnun smurolíuúrgangs og þar eru greiðslur vísitölubundnar. Upphæð skilagjalds á ökutæki er bundin í þessum lögum.
    Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miða við langtímamarkmið um að eigið fé í hverjum vöruflokki taki mið af ársveltu hans. Eigið fé er ætlað á móti framtíðarskuldbindingum sem eru til komnar vegna þess að kostnaður af endurvinnslu fellur oft ekki á sjóðinn fyrr en nokkrum árum eftir álagningu úrvinnslugjalds.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. a laganna sem fjalla um úrvinnslugjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir.
    Innflutningur og innlend framleiðsla dróst saman á árinu 2009 miðað við undanfarin ár. Allar líkur eru á því að sama verði uppi á teningnum á þessu ári. Söfnun pappaumbúða til endurvinnslu virðist á sama tíma hlutfallslega vera að aukast og því ber að fagna. Á árinu 2008 var safnað og flutt til endurvinnslu eða endurnýtingar um 10.800 tonn af um 17.800 tonnum sem lagt var á úrvinnslugjald. Þetta gerir um 61% skilahlutfall en það var 45% árið 2007. Endurvinnsluhlutfall pappa- og pappírsumbúða árið 2008 var um 50%. Ákvæði í íslenskri löggjöf sem byggjast á EB-gerð mæla fyrir um endurvinnsluhlutfall sem ná á fyrir árslok 2011. Áætlun Úrvinnslusjóðs gerir ráð fyrir að þau markmið náist. Í lok árs 2008 féll verð á endurvinnslumörkuðum erlendis verulega. Til að halda söfnun gangandi hækkaði Úrvinnslusjóður greiðslur til þjónustuaðila tímabundið úr 12 kr./kg í 22 kr./kg. Fylgst er náið með þróun endurvinnslumarkaða sem hafa heldur verið að braggast auk þess sem íslenska krónan hefur fallið gagnvart evru. Þetta hefur gefið svigrúm til að lækka greiðslu til þjónustuaðila og er hún núna 17 kr./kg. Þó að ekki hefði komið til þessarar tímabundnu hækkunar á greiðslum til þjónustuaðila var fyrirséð að hækka þyrfti úrvinnslugjald m.a. vegna hækkandi skilahlutfalls. Í a-lið greinarinnar er lagt til að úrvinnslugjald á pappa og pappírsumbúðir hækki úr 7 kr./kg í 12 kr./kg sem er um 71% hækkun.
    Í ársbyrjun 2008 var heyrúlluplast og plastumbúðir sameinaðar í einn vöruflokk með sama gjaldi. Við þetta var gjald á heyrúlluplasti lækkað úr 25 kr./kg í 3 kr./kg. Á þeim tíma var ljóst að hækka þyrfti fljótlega gjald á plast þar sem með þessu var gengið hratt á sameinaðan sjóð þessara flokka. Verð á góðu úrgangsplasti var hátt en féll verulega í lok árs 2008. Á árinu 2008 var safnað og flutt til endurvinnslu eða endurnýtingar um 3.400 tonn af um 11.800 tonnum sem lagt var á úrvinnslugjald. Ákvæði sem byggjast á EB-gerð mæla fyrir um endurvinnsluhlutfall sem ná á fyrir árslok 2011. Áætlun Úrvinnslusjóðs gerir ráð fyrir að þau markmið náist. Í b-lið greinarinnar er farið fram á hækkun úrvinnslugjalds úr 3 kr./kg í 5 kr./kg á plastumbúðir, þ.m.t. heyrúlluplast.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð breyting á viðauka I til hækkunar á úrvinnslugjaldi á heyrúlluplast. Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar um 1. gr.

Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á viðauka V við lögin sem fjallar um lífræn leysiefni.
    Annars vegar er í a-lið gerð tillaga um hækkun úrvinnslugjalds á leysiefni og hins vegar er í b-lið gerð tillaga um að bæta við nýjum tollnúmerum leysiefna.
    Innflutningur hefur verið sveiflukenndur á liðnum árum og heldur farið minnkandi. Skilahlutfall hefur verið hátt síðan 2006 vegna breyttrar notkunar á hluta af efnunum. Komið hefur í ljós að stór skilaaðili, með 30% af mótteknu magni 2008, er með leysiefni sem ekki falla undir kerfið. Tekið hefur verið á því máli í samvinnu við viðkomandi. Sjóðsstaða leysiefna er orðin mjög erfið en úrvinnslugjald á leysiefni hefur ekki hækkað síðan 2003. Til stóð að leggja til hækkun á gjaldinu á árinu 2008 en því var frestað. Í greininni er lögð til hækkun úrvinnslugjalds úr 3,00 kr./kg í 7,00 kr./kg eða um 133%. Jafnframt er lagt til að fleiri leysiefni beri úrvinnslugjald og að úrvinnslugjald að upphæð 120,00 kr./kg verði sett á ný tollnúmer leysiefna til að mæta þörfum Úrvinnslusjóðs til að greiða fyrir meðhöndlun á þeim. Þessi efni eru þess eðlis að þau skila sér að fullu til baka í meðhöndlun.

Um 4. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á viðauka VI sem fjallar um halógeneruð efni.
    Vöruflokkurinn hefur verið rekinn með afgangi undanfarin ár utan ársins 2007 og hægt og bítandi verið að rétta af neikvæða sjóðsstöðu sem þegar var orðin árið 2003. Stórum uppsöfnuðum skammti af efnum var ráðstafað á þessu ári. Reksturinn verður því neikvæður á þessu ári. Gerð er tillaga um hækkun úrvinnslugjalds á halógeneruð efni úr 130,00 kr./kg í 160,00 kr./kg eða um 23%.

Um 5. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á úrvinnslugjaldi á ísócýanöt sem falla undir viðauka VII.
Um er að ræða lítinn vöruflokk og því þarf lítið út af að bregða til að reksturinn verði neikvæður. Sjóðurinn varð neikvæður 2003 og hefur verið það síðan. Í frumvarpinu er gerð tillaga um hækkun úrvinnslugjalds á ísócýanöt úr 1,50 kr./kg í 2,50 kr./kg sem er um 67% hækkun.

Um 6. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á viðauka VIII sem felur í sér hækkun á úrvinnslugjaldi á olíumálningu. Rekstur þessa sjóðs hefur nánast frá upphafi verið erfiður. Undanfarin ár hefur, í samstarfi við þjónustuaðila, verið leitað leiða til að ná niður kostnaði við meðhöndlun og förgun á málningarúrgangi. Meðalkostnaður hefur lækkað nánast stöðugt frá 2003 þegar hann var um 144 kr./kg en hann er nú um 136 kr./kg. Aðeins er lagt úrvinnslugjald á olíumálningu en ekki vatnsmálningu. Innheimta úrvinnslugjalds á málningu var skoðuð í samstarfi við tollyfirvöld. Skoðunin leiddi í ljós að ekki er ástæða að ætla að mikið sé um undanskot frá greiðslu gjaldsins í tolli. Lögð er til hækkun úrvinnslugjalds á málningu úr 25,00 kr./kg í 30,00 kr./kg eða um 20%.

Um 7. gr.

    Loks er í 7. gr. lögð til breyting á álagninu á blýsýrurafgeyma sem falla undir viðauka XI.
Álagt magn rafgeyma er verulega minna í ár en á síðasta ári. Ekki hefur dregið úr söfnun rafgeymaúrgagns að sama skapi, þ.e. skilahlutfallið hefur hækkað verulega á milli ára. Óljóst er hver þróunin verður á næstu árum þar sem innflutningar bíla hefur dregist verulega saman og í stefnir að svo verði áfram sé miðað við meðaltal síðustu sjö ára. Því er lögð til hækkun gjalds sem nemur 32% til að mæta auknum mismun á milli útgjalda sjóðsins og minnkandi tekna.

Um 8. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2010.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga breytingu á lögum um úrvinnslugjald,
nr. 162/2002, með síðari breytingum

    Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á fjárhæðum úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir, heyrúlluplast, halógeneruð efnasambönd, ísósýanöt, olíumálningu og blýsýrurafgeyma. Einnig er lögð til hækkun úrvinnslugjalds á lífræn leysiefni og að hefja innheimtu úrvinnslugjalds af fleiri tollnúmerum leysiefna. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að markmið með þessum hækkunum sé að draga úr sjóðshalla sem átt hefur sér stað í þessum uppgjörsflokkum. Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum þess flokks og hver uppgjörsflokkur vera fjárhagslega sjálfstæður.
    Miðað við að úrvinnslugjald verði lagt á álíka magn og að meðaltali á árunum 2007 og 2008 í þessum tilteknu uppgjörsflokkum má gera ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til rúmlega 140 m.kr. hækkunar tekna af úrvinnslugjaldi á ári. Tekjur af úrvinnslugjaldi renna óskiptar til úrvinnslu úrgangs á vegum Úrvinnslusjóðs að frádregnu 0,5% umsýslugjaldi sem rennur í ríkissjóð. Má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkisins hækki álíka mikið en þó getur verið nokkur munur á því hvernig tekjur og kostnaður falla til eftir tímabilum. Afkoma ríkissjóðs ætti að vera óbreytt eftir sem áður. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 2010. Ekki er gert ráð fyrir þessum breytingum á tekjum og gjöldum í fjárlögum ársins 2010.