Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 529. máls.

Þskj. 918  —  529. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins
og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




Breytingar á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Sjóðfélagar eiga ekki rétt til töku ellilífeyris úr B-deild sjóðsins á meðan þeir gegna störfum, sem veitt hefðu rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir stofnun A-deildar sjóðsins, þ.e. eru skipaðir, settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starfið er eigi minna en hálft starf.
     b.      Í stað orðanna „flytur sig úr B-deild sjóðsins í A-deild“ í 2. mgr. kemur: á réttindi í B-deild og A-deild sjóðsins.

Breytingar á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.


2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „veita þeim rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins“ í 1. mgr. kemur: veitt hefðu rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
     b.      Í stað orðanna „flytur sig úr Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins“ í 2. mgr. kemur: á réttindi í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 141/1996 voru gerðar verulegar breytingar á þágildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 29/1963, og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, nr. 16/1965. Breytingarnar voru einkum fólgnar í því að eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna sem verið hafði að stórum hluta fjármagnað með gegnumstreymi skyldi lokað fyrir nýjum sjóðfélögum en í þess stað skyldi stofnað nýtt kerfi með fullri sjóðsöfnun, fjármagnað með samtímaiðgjöldum. Eldra kerfinu, sem er að stórum hluta gegnumstreymiskerfi þar sem launagreiðendur bera ábyrgð á hækkun lífeyris og ríkissjóður er í ábyrgð fyrir greiðslum, skyldi lokað. Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna og eldra eftirlaunakerfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var því lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Eldra kerfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var sett í sér deild sem fékk nafnið B-deild. Greiðandi sjóðfélagar fengu val um að halda áfram greiðslum í óbreytt kerfi eða flytja sig í nýstofnað kerfi, sem fékk nafnið A-deild. Sambærilegt val höfðu sjóðfélagar í Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna.
    Við breytingarnar var gengið út frá því að kerfin skyldu vera jafnverðmæt fyrir sjóðfélaga. Þar sem stefnt var að því að loka B-deildinni voru sett inn ákvæði um skilyrði sem þyrfti að uppfylla til að heimilt væri að ávinna sér frekari réttindi. Því var gert ráð fyrir að sjóðfélagar töpuðu rétti til aðildar ef iðgjaldagreiðslur féllu niður í ár eða lengri tíma, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga er það gert að skilyrði til að heimilt sé að hefja töku ellilífeyris að sjóðfélagar hafi látið af þeim störfum sem veitt hafa þeim aðild að sjóðunum, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, og 1. mgr. 8. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997. Jafnframt eru ákvæði í 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 og í 8. mgr. 8. gr. laga nr. 2/1997 sem tiltaka sérstaklega að sjóðfélagar eigi ekki, auk launa fyrir störf sem veita aðild að sjóðunum rétt til ellilífeyris.
    Við stofnun A-deildar var ekki ætlunin að opna fyrir þann möguleika að sjóðfélagar gætu hafið töku lífeyris úr B-deild eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga samhliða störfum sem uppfylltu almenn aðildarskilyrði að sjóðunum. Því voru sett sérstök ákvæði í lögin sem annars vegar er að finna í 37. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríksins, nr. 1/1997, og hins vegar í 26. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997. Ákvæði þessi hafa þó ekki þótt nægilega skýr og hefur umboðsmaður Alþingis láti í té álit sitt í máli nr. 5222/2008 þar sem hann telur sjóðfélaga eiga rétt til töku lífeyris samhliða störfum sem veitt hefðu aðild að B-deild fyrir stofnun A-deildar. Ljóst er þó af lögskýringargögnum sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum nr. 141/1996 að ekki var ætlunin, með stofnun A-deildar, að opna fyrir þann möguleika að heimila lífeyristöku úr eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna samhliða slíkum störfum og jafnvel þótt viðkomandi sjóðfélagar ættu þess ekki kost eftir lokun B-deildar að greiða áfram í deildina. Þannig segir í athugasemdum um það ákvæði er varð að 37. gr. laga nr. 1/1997: „Ákvæði 1. mgr. 37. gr. frumvarpsins er til áréttingar því að sama gildi þó svo að sjóðfélagi, sem aðild hefur átt að B-deild sjóðsins, hefji iðgjaldagreiðslu til A-deildar hans. Þetta gildir um þá sjóðfélaga sem aðild eiga að sjóðnum við gildistöku þessara laga og færa sig yfir í A-deildina. Og þetta gildir einnig um þá sjóðfélaga sem eiga geymdan rétt í sjóðnum við gildistöku þessara laga en hefja síðar iðgjaldagreiðslu til A-deildar sjóðsins vegna starfa þar sem aðildarskilyrðum B-deildar um ráðningartíma og starfshlutfall er fullnægt.“ Sambærilegar athugasemdir eru að finna með frumvarpinu varðandi þá grein er varð að 26. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997.
    Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga hafa hagað framkvæmdinni til samræmis við þá ættlan að greiða ekki lífeyri úr B-deild og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga samhliða störfum sem greitt hefði verið af til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga fyrir stofnun A-deildar. Nú ríkir hins vegar nokkur óvissa eftir að umboðsmaður hefur látið álit sitt í ljós og þykir því nauðsynlegt, með lagafrumvarpi þessu, að leggja til lagabreytingar sem ætlað er að skýra og styrkja stoðina undir núverandi framkvæmd sem sjá má af fyrri lögskýringargögnum að samræmist vilja löggjafans.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á núgildandi 37. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, og nánar tilgreint hvenær sjóðfélagar sem eiga réttindi í A-deild og B-deild geta hafið töku lífeyris úr B-deild. Breytingunni er ætlað að taka af öll tvímæli um að þeir sem eru í störfum, sem heimila aðild að B-deild, geti ekki samhliða slíkum störfum tekið ellilífeyri úr B-deild, jafnvel þótt greitt sé af því starfi í annan lífeyrissjóð. Skiptir þá ekki máli þótt viðkomandi sjóðfélagi hafi ekki rétt til að ávinna sér frekari réttindi í B-deild, t.d. vegna aðstæðna sem lýst er í 2. mgr. 5. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í ákvæðinu er tilgreint að sjóðfélagi sem hefur skipun, setningu eða ráðningu til a.m.k. eins árs eða ráðningu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starfið sé eigi minna en hálft starf geti ekki hafið töku lífeyris úr B-deild.

Um 2. gr.


    Sambærilegar breytingar og lagðar eru til með 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til að gerðar verði á 26. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997, og þannig tekinn af því allur vafi að með tilkomu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var ekki ætlunin að heimila lífeyristöku samhliða störfum sem veitt hefðu rétt til greiðslu í sjóðinn fyrir stofnun A-deildar. Skilyrðin til að heimilt sé að greiða í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga eru þau að stafið sé hjá launagreiðanda sem heimild hefur til að greiða fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa við hjúkrun og hafa ráðningu með föst mánaðarlaun.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 1/1997,
um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 2/1997,
um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar sem ætlað er að skýra og styrkja stoðir undir núverandi framkvæmd lífeyrisgreiðslna. Breytingunni er ætlað að taka af öll tvímæli um að þeir sem eru í störfum, sem heimila aðild að B-deild, geti ekki samhliða slíkum störfum tekið ellilífeyri úr B-deild jafnvel þótt greitt sé af því starfi í annan lífeyrissjóð. Það sama á við um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, þ.e. að ekki sé heimil lífeyristaka samhliða störfum sem veitt hefðu rétt til greiðslu í sjóðinn fyrir stofnun A-deildar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.