Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 546. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
2. uppprentun.

Þskj. 936  —  546. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um hafnir.

Flm.: Árni Johnsen, Ólöf Nordal, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson.



I. KAFLI

Yfirstjórn hafnamála.

1. gr.

    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fer með yfirstjórn hafnamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum. Siglingastofnun Íslands annast þátt ríkisins samkvæmt lögunum og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra.

II. KAFLI.


Um stjórn hafna og rekstur.


2. gr.

    Höfn táknar í lögum þessum nánar afmarkað svæði þar sem gerð hafa verið mannvirki til lestunar, losunar og geymslu fljótandi fara hverju nafni sem nefnast, enda skal notkun hennar öllum heimil gegn ákveðnu gjaldi.
    Til þess að um höfn geti verið að ræða samkvæmt lögum þessum þarf henni að hafa verið sett reglugerð er tilgreini mörk hennar, auk annarra nauðsynlegra stjórnunarákvæða.

3. gr.

    Eigendur hafna samkvæmt lögum þessum eru sveitarfélög. Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Ráðherra skal ákveða með reglugerð, að höfðu samráði við eigendur viðkomandi hafna, að mynduð verði hafnasamlög um rekstur þeirra þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Innan hvers hafnasamlags skal rekinn einn hafnarsjóður. Með reglugerð um hvert hafnasamlag skal fylgja áætlun um framkvæmdir samkvæmt hafnaáætlun svo sem við á um hlutaðeigandi hafnir.

4. gr.

    Hafnarstjórn, sem kosin er af eigendum hafnar eða hafnasamlags, skal hafa á hendi stjórn hafnar eða hafnasamlags og hafnarsjóðs í samræmi við reglugerð, sbr. 2. mgr. 2. gr.
    Séu eigendur fleiri en einn fer um kosningu samkvæmt reglugerð og stofnsamningi hafnasamlags. Hafnarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans.

5. gr.

    Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum og að fengnum tillögum eigenda hafna reglugerð fyrir hafnir. Í reglugerðinni skulu m.a. vera ákvæði um:
     1.      Stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi.
     2.      Kosningu, starfs- og valdsvið hafnarstjórnar.
     3.      Starfsemi og umferð á hafnarsvæði.
     4.      Öryggi við flutninga og varnir gegn mengun.
     5.      Viðurlög við brotum.

6. gr.

    Eftirtalin gjöld skulu greidd fyrir afnot hafna:
     1.      Skipagjöld á skip þau og báta er nota viðkomandi höfn:
       a.      Gjöld, miðuð við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
       b.      Fastagjöld fiskiskips í heimahöfn.
       c.      Hafnsögugjöld.
       d.      Vigtargjöld af öllum sjávarafla.
       e.      Önnur gjöld.
     2.      Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæðinu. Þó skulu flutningar með ferjum og flóabátum sem njóta styrks samkvæmt vegalögum undanþegnir vörugjaldi.
     3.      Leiga fyrir afnot annarra mannvirkja eða tækja hafnarinnar.
     4.      Leyfisgjöld fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið skv. 13. gr.
     5.      Lóðargjöld og lóðarleiga.
     6.      Sérstakt vörugjald til Hafnabótasjóðs, sbr. 4. mgr. 7. gr.
     7.      Ýmis þjónustugjöld, svo sem fyrir vigtun, móttöku á úrgangi, vatnssölu, rafmagnssölu, festagjöld o.fl.
     8.      Gjöld af ferjum og flóabátum.
    Nú á annar aðili en hafnarsjóður bryggju innan hafnarsvæðisins og skal þá greiða vörugjöld í hafnarsjóð af þeim farmi er um þá bryggju fer. Eiganda slíkrar bryggju er óheimilt að innheimta til sín vörugjöld af vörum er fara um bryggjuna nema hafnarstjórn samþykki.

7. gr.

    Öll gjöld skv. 6. gr. má taka fjárnámi hjá þeim aðila sem samkvæmt reglugerð er gert að standa skil á greiðslum til hafnarsjóðs.
    Skipagjöld skulu miðuð við stærð skipa samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð og eru þau tryggð með lögveði í viðkomandi skipi eða vátryggingarfé. Gengur það veð í tvö ár fyrir samningsveðskuldum.
    Halda má eftir skráningar- og þjóðernisskírteinum til tryggingar greiðslu skipa- og vörugjalda. Hafnarstjórn er heimilt að krefjast þess að útflytjandi leggi fram tryggingu fyrir vörugjaldi áður en vara fer úr höfn. Vörugjald af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar utan löggiltra hafnarsvæða, þar á meðal af sjávarafla, skal ríkissjóður innheimta í samræmi við almenna gjaldskrá skv. 8. gr. og skal gjaldið renna í Hafnabótasjóð. Ákvæði þetta nær þó ekki til skipa undir 10 brúttótonnum að stærð þegar um sjávarafla er að ræða.
    Leiga af lóðum hafna skal almennt reiknuð sem hundraðshluti af fasteignamati lóðar. Sérstakt vörugjald skv. 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. skal renna í Hafnabótasjóð. Gjaldið skal vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld eins og þau eru ákveðin í hinni almennu gjaldskrá, önnur en aflagjald, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr.
    Innheimtuaðilar vörugjalds skv. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. skulu innheimta og standa skil á sérstöku vörugjaldi skv. 6. tölul. 1. mgr. 6. gr.
    Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu, þar á meðal hversu oft það getur lagst á sömu vörusendingu, og ákveða hvernig skuli fara með vörslu og daglega afgreiðslu sérstaks vörugjalds samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

    Hafnaráð skal að fengnum tillögum Hafnasambands sveitarfélaga gera tillögur til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, a.m.k. einu sinni á ári, um gjaldskrá skv. a–b-lið 1. tölul. og 2. tölul. 6. gr. Skal gjaldskráin við það miðuð að tekjur hafnarsjóðanna standi almennt undir rekstri og hæfilegu fjármagni til nýbygginga.
    Slík gjaldskrá, staðfest af ráðherra, gildir fyrir þá hafnarsjóði er njóta ríkisstyrkja til framkvæmda. Önnur gjöld hafnarinnar ákveður viðkomandi hafnarstjórn. Ráðherra getur heimilað einstökum hafnarstjórnum frávik frá hinni almennu gjaldskrá ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar er einstökum hafnarstjórnum heimiluð frávik til lækkunar á hinni almennu gjaldskrá fyrir hafnir vegna umskipunar, lestunar og losunar á sjávarafla.

9. gr.

    Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar. Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða. Eigendur hafnar eða hafnasamlags bera ábyrgð á skuldbindingum hafnarsjóðs.

10. gr.

    Ár hvert skal hafnarstjórn semja áætlun um tekjur og gjöld hafnarsjóðs á komandi ári og senda hana Siglingastofnun Íslands ásamt nauðsynlegum skýringum á tekju- og gjaldaliðum.

11. gr.

    Halda skal reikning fyrir tekjur og gjöld hafnarsjóðs. Reikningsár hafnarsjóðs er almanaksárið. Reikninginn skal endurskoða og úrskurða á sama hátt og reikninga sveitarsjóðs nema hafnarsjóður sé stofnaður með samningi, en þá fer um endurskoðun og úrskurð reikningsins samkvæmt samningnum.
    Hafnarstjórn er skylt að senda Siglingastofnun ársreikninga og þær upplýsingar sem hún kann að óska eftir og snerta rekstur hafnarinnar.
    Siglingastofnun ber að senda hafnarsjóði viðskiptareikning síðasta árs fyrir 1. mars ár hvert ef um viðskipti hefur verið að ræða á árinu.

12. gr.

    Óheimilt er án samþykkis ráðuneytisins að selja, veðsetja eða leigja til langs tíma þær eignir hafnarsjóðs er notið hafa ríkisstyrks. Enn fremur er hafnarstjórn óheimilt að hefja kostnaðarsamar framkvæmdir án samþykkis ráðuneytisins.
    Til þess að Siglingastofnun sé unnt að fylgjast sem best með að ákvæði þessarar greinar séu haldin skal senda henni eftirrit af fundargerðum hafnarstjórnar sé þess óskað.

13. gr.

    Skipulag hafnarsvæðis skal miðast við þarfir hafnarinnar og er skylt að hafa samráð við hafnarstjórn og Siglingastofnun Íslands við gerð þess.
    Engin mannvirkjagerð má fara fram á hafnarsvæðinu nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar. Rísi ágreiningur skal málinu vísað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til úrskurðar.
    Sé leyfi til mannvirkjagerðar eigi notað innan tveggja ára frá veitingu þess fellur það úr gildi.
    Hafnarstjórn er heimilt, ef nauðsyn krefur, að nema burt á kostnað eiganda bryggjur eða önnur mannvirki í sjó fram sem hætta stafar af eða hafa staðið ónotuð í fimm ár eða lengur.

III. KAFLI

Um framkvæmdir í höfnum, greiðslu kostnaðar við hafnargerð o.fl.

14. gr.

    Frumkvæði um hafnargerð er hjá eiganda hafnar og framkvæmdir á ábyrgð hans.

15. gr.

    Áður en hafnarframkvæmdir hefjast skal Siglingastofnun Íslands fá staðfest að fjármagn verði handbært til viðkomandi verkáfanga.

16. gr.

    Hver landeigandi er skyldur til að láta af hendi mannvirki og land er þarf til þess að gera höfn samkvæmt lögum þessum, svo og til þess að gera brautir og vegi í því sambandi og til að leyfa að tekin verði í landi hans grjót, möl og önnur jarðefni og þola þær eignakvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem hafnargerðin hefur í för með sér, allt þó gegn því að fullar bætur komi fyrir. Nú næst ekki samkomulag og skal þá ákveða bætur með mati samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.

17. gr.

    Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu unnar undir tækni- og fjárhagslegu eftirliti Siglingastofnunar Íslands og skulu allar áætlanir og uppdrættir sendar stofnuninni til samþykktar, svo og öll þau reikningsgögn er þarf til að annast nauðsynlega endurskoðun kostnaðar.
    Siglingastofnun annast framkvæmd frumrannsókna í samráði við viðkomandi hafnarstjórn. Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu að jafnaði unnar samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs. Ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti að útboð telst ekki munu gefa góða raun er heimilt að fenginni umsögn Siglingastofnunar að víkja frá útboði.
    Fari hafnarstjórn þess á leit annast Siglingastofnun auk frumrannsókna framkvæmdir eftir því sem við verður komið, skipulagningu hafnarsvæða, hönnun einstakra mannvirkja og gerð kostnaðaráætlana.

18. gr.

    Hafnarframkvæmdir eru kostaðar af sjálfsaflafé hafnarinnar og framlagi frá eigendum. Enn fremur greiðir ríkissjóður hluta af kostnaði við hafnargerðir eftir því sem ákveðið er í lögum þessum.

19. gr.

    Eftirfarandi hafnarframkvæmdir geta notið framlags úr ríkissjóði:
     1.      Undirbúningsrannsóknir og hönnun, þ.m.t. skipulag hafna og hafnarsvæða, svo og kostnaður við útboð einstakra styrkhæfra framkvæmda.
     2.      Framkvæmdir við hafnargarða, bryggjur, viðlegukanta, ferjuaðstöðu, dýpkun og uppfyllingar sem teljast nauðsynlegur hluti viðlegumannvirkja.
     3.      Dreifikerfi rafmagns, skolps og vatns sem nauðsynleg eru vegna starfsemi hafnarinnar samkvæmt staðfestingu Siglingastofnunar hverju sinni.
     4.      Umferðaræðar innan marka hafnarmannvirkja samkvæmt staðfestingu Siglingastofnunar hverju sinni.
     5.      Framkvæmdir við siglingamerki, mengunar- og slysavarnir.
     6.      Framkvæmdir á hafnarsvæðum við upptökumannvirki fyrir skip.
     7.      Tollaðstaða fyrir farþegaferjur er halda uppi reglulegum áætlanasiglingum til landsins.
    Niðurrif hafnarmannvirkja í eigu hafnarsjóðs telst hafnarframkvæmd, enda sé það liður í nýbyggingu, til umhverfisbóta eða mannvirkið í vegi fyrir notkun annarra styrkhæfra hafnarmannvirkja.
    Sé mannvirki svo illa farið að til álita komi að endurbyggja það skal slík endurbygging því aðeins teljast styrkhæf að mannvirkið hafi hlotið eðlilegt viðhald að dómi siglingamálastjóra.
    Styrkhæfur telst einnig vaxtakostnaður, svo og lántöku- og annar fjármögnunarkostnaður, ásamt kostnaði vegna hækkunar verðtryggðra lána og gengistaps, verði hann til vegna hluta ríkissjóðs í framkvæmdinni og hafi verið stofnað til hans með heimild ráðuneytisins og fjárlaganefndar Alþingis.
    Til viðhalds hafnarmannvirkja teljast almennar viðgerðir og venjulegt viðhald, svo sem endurnýjun á þybbum, þekjum og lögnum, og er slíkt viðhald ekki styrkhæft.
    Landa- og lóðakaup hafna, svo og landgerð, njóta ekki ríkisstyrks. Styrkhæfni framkvæmda skal ákveðin áður en þær hefjast. Rísi ágreiningur um styrkhæfni framkvæmda skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.

20. gr.

    Skilyrði fyrir greiðslu úr ríkissjóði skv. 19. gr. eru:
     1.      Að eigendur hafnar eða hafnasamlags hafi stofnað hafnarsjóð til þess að eiga og reka höfn og standa undir hafnarframkvæmdum og fengið til þess samþykki ráðuneytisins.
     2.      Að hafnarsjóður hafi tryggt sér eignarrétt á því landsvæði á strandlengju hafnarinnar sem talið er þurfa undir hafnarmannvirki og þá starfsemi sem fram fer við höfnina. Ekki verður það þó gert að skilyrði að hafnarsjóður kaupi í þessu skyni íbúðar- eða verslunarhús eða varanlegar byggingar af öðru tagi.
     3.      Að unnið sé að framkvæmdum samkvæmt tæknilegri og fjárhagslegri áætlun varðandi útgjöld og greiðslu kostnaðar sem eigendur hafnar hafa samþykkt, svo og ráðuneytið, að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingamálastjóra.
     4.      Að höfnin sé innan skilgreinds byggðasvæðis samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA.

21. gr.

    Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um greiðsluþátttöku ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum:
     1.      Ríkissjóður greiðir allt að 100% kostnaðar við frumrannsóknir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
     2.      Ríkissjóður greiðir allt að 90% stofnkostnaðar við eftirtaldar framkvæmdir:
       a.      hafnargarða (öldubrjóta),
       b.      dýpkun hafnar og innsiglingar,
       c.      siglingamerki,
       d.      sérbúnað fyrir ekjuskip og ferjur.
     3.      Ríkissjóður greiðir allt að 60% stofnkostnaðar við eftirtaldar framkvæmdir:
       a.      bryggjur og viðlegukanta,
       b.      uppfyllingar og umferðaræðar á hafnarsvæði,
       c.      upptökumannvirki fyrir skip,
       d.      mengunar- og slysavarnir,
       e.      vatns-, raf- og holræsalagnir um hafnarmannvirkin,
       f.      skipulag hafna og hafnarsvæða.
       g.      niðurrif hafnarmannvirkja.

22. gr.

    Umsóknir um framlög úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda skulu sendar Siglingastofnun Íslands sem vinnur úr tillögunum og leggur fyrir hafnaráð og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum, þó með þeim takmörkunum um hámark sem kveðið er á um í 21. gr.
    Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal ákveðin um leið og verk eru tekin inn á samgönguáætlun og tekin til endurmats á tveggja ára fresti við endurskoðun samgönguáætlunar. Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs.
    Skerðing á hámarki framlaga skv. 21. gr. skal miðast við fjárhagslega stöðu hafnarsjóðs og skulu settar um það nánari reglur í reglugerð. Þrátt fyrir slíkar reglur getur ráðherra ákveðið að framkvæmdir í höfnum, sem mynda hafnasamlag, njóti tímabundið hámarksframlags skv. 21. gr.

23. gr.

    Heimilt er að gera sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem hafa ekki nægar tekjur til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum vegna styrkhæfra hafnarframkvæmda. Við fjárlagagerð hvers árs skal samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gera Alþingi sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. Ráðherra skal gera tillögu til fjárlaganefndar og Alþingis um skiptingu fjárins og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins.

IV. KAFLI

Um samgönguáætlun.

24. gr.

    Siglingastofnun Íslands vinnur tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs, sbr. lög um samgönguáætlun.
    Við undirbúning þessarar tillögugerðar ber Siglingastofnun Íslands að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn og hafnaráð.
    Við tillögugerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat sem taki mið af hagkvæmni framkvæmdarinnar, þörf fyrir hana og þýðingu fyrir byggðarlagið.

V. KAFLI

Um Hafnabótasjóð.

25. gr.

    Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer hafnaráð með stjórn sjóðsins í umboði ráðherra. Hlutverk sjóðsins er að veita lán og styrki til hafnargerða og bæta tjón á hafnarmannvirkjum.

26. gr.

    Tekjur Hafnabótasjóðs eru þessar:
     1.      Vörugjald af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar utan löggiltra hafnarsvæða, sbr. 5. mgr. 7. gr.
     2.      Tekjur af starfsemi sjóðsins.
     3.      Sérstakt vörugjald skv. 6. tölul. 1. mgr. 6. gr.
     4.      Framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis.
    Tekjum af vörugjaldi skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. skal ráðstafað til sjóðsins eða til annarra þarfa samkvæmt ákvörðun Alþingis í fjárlögum hverju sinni.

27. gr.

    Hafnabótasjóði er heimilt að taka lán til starfsemi sinnar samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.

28. gr.

    Ráðherra ráðstafar fé Hafnabótasjóðs á eftirgreindan hátt að fengnum tillögum Siglingastofnunar og hafnaráðs og með samþykki fjárlaganefndar Alþingis:
     1.      Sjóðurinn veitir hafnarsjóðum lán til framkvæmda með hliðsjón af fjárþörf í hverju tilviki.
     2.      Sjóðnum er heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem skemmst hafa af völdum náttúruhamfara eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, þ.m.t. tjón sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði eða vegna ákvæða IX. kafla siglingalaga um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna.
     3.      Sjóðnum er heimilt að veita lán og/eða styrk umfram ríkisframlag til nýrra hafnarframkvæmda sem nemi allt að 30% af heildarframkvæmdakostnaði til staða sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða vegna dýrrar mannvirkjagerðar, fólksfæðar eða annarra gildra orsaka. Styrkir mega aldrei nema meira en 15% af heildarframkvæmdakostnaði.
     4.      Sjóðnum er heimilt að veita sérstaka styrki umfram það sem segir í 3. tölul. til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga og vegna hafnaframkvæmda þar sem sveitarfélög eru sameinuð, enda sé um tvær eða fleiri hafnir að ræða í hinu nýja sveitarfélagi.
     5.      Sjóðnum er heimilt að veita hafnarsjóðum lán út á væntanleg ríkisframlög samkvæmt lögum þessum.
    Samanlagt mega styrkir og lán úr Hafnabótasjóði að viðbættu ríkisframlagi aldrei fara yfir 90% af styrkhæfum framkvæmdakostnaði.

29. gr.

    Siglingastofnun Íslands annast vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs. Lánasýsla ríkisins veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.

30. gr.

    Ráðherra ákveður vexti og önnur kjör þeirra lána er sjóðurinn veitir með tilliti til þess að sjóðurinn sé skaðlaus af starfsemi sinni.

31. gr.

    Umsóknir um lán og styrki úr Hafnabótasjóði skulu sendar til Siglingastofnunar Íslands.Umsóknum skulu fylgja ítarleg gögn og rökstuðningur, þar á meðal reikningar hafnarinnar síðasta ár og almennar upplýsingar um fjárhag og fjárþörf hennar.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

32. gr.

    Hvers konar bótakröfum fyrir tjón, sem skip kunna að valda á eignum hafnarsjóða, fylgir lögtaksréttur.

33. gr.

    Með mál út af brotum gegn lögum þessum eða reglugerðum, sem settar eru samkvæmt þeim, skal farið að hætti opinberra mála og varða brot sektum.

34. gr.

    Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessara laga.

35. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi hafnalög, nr. 61/2003.

Greinargerð.


    Markmið frumvarpsins er að sett verði ný hafnalög samhliða því að núgildandi hafnalög verða felld úr gildi. Frumvarp þetta byggist á eldri hafnalögum, nr. 23/1994. Tvær meginástæður búa að baki frumvarpi þessu. Í fyrsta lagi er gríðarlega mikilvægt að styrkhæfi hafna landsins verði tekið upp aftur og að ríkissjóður veiti hlutfallslega fjármagn til lagfæringa, endurbóta og uppbyggingar hafna eins og var tryggt í eldri lögum frá 1994. Með tilkomu hafnalaga frá 2003 var gert ráð fyrir að fjárveitingar til hafna í byggðum landsins féllu niður. Það var rothögg fyrir fjölmargar hafnir landsins þar sem höfnin og bryggjan eru eitt af höfuðankerum byggðarlaga og lykillinn að möguleikum þótt misjafnlega ári til sjávar.
    Í þessu frumvarpi er þó gert að skilyrði að til að hafnir geti notið styrkja verði þær að vera staðsettar á skilgreindu byggðasvæði samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). ESA hefur skilgreint slík svæði og á gildandi korti ESA yfir slík svæði fyrir árin 2008–2013 er svæðið frá Hvalfjarðarbotni og þaðan vestur og norður fyrir land allt að Straumsvík skilgreint sem byggðasvæði. Því verða nokkrar hafnir landsins undanskildar ríkisstyrkjum samkvæmt fyrrgreindri skilgreiningu, þ.e. Hafnarfjarðarhöfn, Kópavogshöfn og Faxaflóahafnir.
    Hin grundvallarforsendan sem liggur að baki frumvarpi þessu er sú að í hafnalögum frá 2003 er gert ráð fyrir því að allar hafnir landsins séu í samkeppnisumhverfi. Þetta ákvæði hefur reynst vera mikill misskilningur og ekki henta þorra hafna landsins og alls ekki landsbyggðarhöfnum. Þar er engin samkeppni. Þessi tilraun hefur því gjörsamlega misheppnast og er ekki í takt við neinn raunveruleika. Ákvæðið þarf því að hverfa eins og um missýn hafi verið að ræða.