Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 555. máls.

Þskj. 945  —  555. mál.



Frumvarp til laga

um Vinnumarkaðsstofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Vinnumarkaðsstofnun.
1. gr.
Stjórnsýsla.

    Vinnumarkaðsstofnun er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðherra.
    Félags- og tryggingamálaráðherra skipar forstjóra Vinnumarkaðsstofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Jafnframt ber forstjóri lagalega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni gagnvart ráðherra.
    Vinnumarkaðsstofnun skal reka þjónustustöðvar um landið og eru þær hluti stofnunarinnar. Félags- og tryggingamálaráðherra ákveður hvar á landinu þjónustustöðvar stofnunarinnar skulu vera að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar stofnunarinnar. Jafnframt er ráðherra heimilt, að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar stofnunarinnar, að ákveða hvort þjónustustöðvar stofnunarinnar verði sameinaðar þjónustustöðvum annarra opinberra stofnana.
    Kostnaður af rekstri stofnunarinnar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni og af öðrum tekjum hennar.

2. gr.
Verkefni Vinnumarkaðsstofnunar.

    Verkefni sem Vinnumarkaðsstofnun er ætlað að sinna eru meðal annars að:
     a.      annast stjórnsýslu á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála,
     b.      fjalla um og gera tillögur til ráðherra að stefnumótun á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála,
     c.      vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um vinnumarkaðsmál og vinnuverndarmál, þar á meðal gera reglulega grein fyrir atvinnuástandi og árangri vinnumarkaðsaðgerða,
     d.      hafa samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á,
     e.      veita fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra margþætta þjónustu, aðstoð og aðhald,
     f.      veita atvinnuleitendum þjónustu í formi ráðgjafar, virkra vinnumarkaðsúrræða og vinnumiðlunar, þ.m.t. starfshæfnismats, starfsendurhæfingar og sérhæfðra atvinnutilboða eftir því sem við á hverju sinni,
     g.      samræma starfshæfnismat, þar á meðal að þróa og ákvarða hvaða mælitæki og aðferðir skuli nýtt til mats á starfshæfni í samstarfi við aðra aðila sem starfa á þessu sviði,
     h.      annast af opinberri hálfu skipulag starfsendurhæfingar og samhæfingu fjármögnunar,
     i.      stuðla að forvörnum og heilsuvernd á vinnustöðum,
     j.      annast eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum sem og annað eftirlit á vinnumarkaði sem henni er falið með lögum,
     k.      safna gögnum um ástand á vinnumarkaði og um vinnuvernd og gefa reglulega út upplýsingar þar um, þar á meðal halda skrá yfir hvers konar sjúkdóma, andlega sem og líkamlega, sem ætla má að stafi af starfsumhverfi, tíðni þeirra og útbreiðslu,
     l.      veita fræðslu og upplýsingar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, svo sem um nýja tækni og þekkingu sem stuðlað getur að umbótum á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum,
     m.      vinna að rannsóknum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála,
     n.      meta samspil áhættu, samfélagslegs kostnaðar og hvata fyrirtækja til virkrar vinnuverndar og aðgengilegs vinnumarkaðar,
     o.      stuðla að þróun og notkun staðla, innra eftirlits og vottunar á sviði vinnuverndar og aðgengilegs vinnumarkaðar,
     p.      annast verkefni sem stofnuninni er falið með öðrum lögum,
     q.      vinna önnur verkefni á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála eftir nánari ákvörðun ráðherra.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um verkefni Vinnumarkaðsstofnunar í reglugerð.

3. gr.
Stjórn Vinnumarkaðsstofnunar.

    Félags- og tryggingamálaráðherra skipar, að fengnum tilnefningum, ellefu manna stjórn Vinnumarkaðsstofnunar til fjögurra ára í senn. Þó skulu formaður og varaformaður stjórnar, sem ráðherra skipar án tilnefninga, skipaðir til jafnlengdar embættistíma þess ráðherra sem skipar. Tveir stjórnarmenn skulu tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn skal tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, einn skal tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn skal tilnefndur af fjármálaráðuneyti, einn skal tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tveir skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins og einn skal tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara og skulu þeir skipaðir með sama hætti.
    Stjórn Vinnumarkaðsstofnunar samþykkir í byrjun árs starfsáætlun fyrir stofnunina. Þá fjallar hún jafnframt um rekstraráætlun fyrir stofnunina og hefur eftirlit með framkvæmd hennar.
    Stjórn Vinnumarkaðsstofnunar skal vera ráðgefandi aðili fyrir forstjóra stofnunarinnar sem og félags- og tryggingamálaráðherra í faglegri stefnumótun og öðrum málum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Stjórnin skal fylgjast með þróun vinnumarkaðsmála, meðal annars með reglulegu samráði við vinnumarkaðsráðin, sbr. 4. gr., svo sem stöðu atvinnumála á einstökum svæðum á landinu og vera til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsaðgerðum. Enn fremur skal stjórnin vera forstjóra stofnunarinnar og félags- og tryggingamálaráðherra til ráðgjafar um bættan aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar á meðal innan einstakra starfsgreina. Þá gerir stjórnin tillögur til ráðherra um úrbætur á þessum sviðum, þar á meðal hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum, lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Ráðherra skal leita umsagnar stjórnar við undirbúning að setningu nýrra laga og reglugerða á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Forstjóri Vinnumarkaðsstofnunar skal sitja fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt.
    Stjórnarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu sem fulltrúar í stjórn Vinnumarkaðsstofnunar og ætla má að leynt eigi að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af stjórnarsetu.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að ákveða þóknun fulltrúa í stjórn Vinnumarkaðsstofnunar.

II. KAFLI
Ýmis ákvæði.
4. gr.
Vinnumarkaðsráð.

    Félags- og tryggingamálaráðherra skipar sjö manna svæðisbundin vinnumarkaðsráð. Í hvert vinnumarkaðsráð skulu tveir ráðsmanna tilnefndir af samtökum launafólks á hverju svæði og tveir ráðsmanna tilnefndir af samtökum atvinnurekenda. Jafnframt skal einn ráðsmanna tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn tilnefndur af heilbrigðisráðherra og einn tilnefndur af samtökum sveitarfélaga á hverju svæði. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Félags- og tryggingamálaráðherra skipar formann og varaformann vinnumarkaðsráðs úr hópi þeirra sem tilnefndir hafa verið sem aðalmenn.
    Náist ekki samkomulag um tilnefningu skv. 1. mgr. úrskurðar félags- og tryggingamálaráðherra um hver skuli tilnefna fulltrúa í ráðið með hliðsjón af því hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru og að fenginni umsögn viðkomandi heildarsamtaka.
    Félags- og tryggingamálaráðherra ákveður staðsetningu vinnumarkaðsráða að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar Vinnumarkaðsstofnunar.
    Vinnumarkaðsráð á hverju svæði skal í nóvember ár hvert skila skýrslu til stjórnar Vinnumarkaðsstofnunar um stöðu atvinnumála og vinnuverndarmála ásamt tillögum um þær vinnumarkaðsaðgerðir og þær aðgerðir í vinnuverndarmálum sem mælt er með að lögð verði áhersla á árið eftir. Enn fremur skulu vinnumarkaðsráðin vera hlutaðeigandi þjónustustöð Vinnumarkaðsstofnunar til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum og aðgerðum í vinnuverndarmálum.
    Félags- og tryggingamálaráðherra getur falið vinnumarkaðsráðum önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumarkaðsstofnunar.

5. gr.
Samráð um vinnumarkaðsmál.

    Félags- og tryggingamálaráðherra skal a.m.k. einu sinni í mánuði leiða samráð um vinnumarkaðsmál í því skyni að samhæfa stefnumörkun sem og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Aðild að samráðinu eiga forystumenn eftirtalinna aðila: Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands, fjármálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Öryrkjabandalags Íslands. Jafnframt skal forstjóri Vinnumarkaðsstofnunar eða fulltrúi hans eiga aðild að samráðinu. Félags- og tryggingamálaráðherra skal tilnefna varamann sinn.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er félags- og tryggingamálaráðherra heimilt að boða til samráðsins fulltrúa annarra samtaka launafólks og atvinnurekenda en um getur í 1. mgr. ef hann telur þörf á.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. koma ákvæði laganna ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2011 að undanskildu ákvæði 2. mgr. 1. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


7. gr.

    Þegar ákvæði laga þessara koma til framkvæmda, sbr. 6. gr., verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum:
     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskilinni 4., 5. og 6. gr., kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
     b.      4. gr. laganna verður svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Stjórnsýsla.


             
Vinnumarkaðsstofnun annast framkvæmd laga þessara í umboði félags- og tryggingamálaráðherra. Ráðherra er heimilt að ákveða annað fyrirkomulag.
     c.      5. gr. laganna fellur brott.
     d.      6. gr. laganna fellur brott.
     e.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnunar“ í 1. mgr. 7. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Vinnumarkaðsstofnun.

8. gr.

    Þegar ákvæði laga þessara koma til framkvæmda, sbr. 6. gr., verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum:
     a.      Í stað orðanna „Vinnueftirlits ríkisins“ í b-lið 1. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskilinni 2. mgr. 48. gr. a, og 71. gr. sem og XII. kafla, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Vinnumarkaðsstofnun.
     b.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 7. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskildum XII. kafla, kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
     c.      Í stað orðsins „Vinnueftirlitinu“ í 4. mgr. 12. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskildum XII. kafla, kemur, í viðeigandi beygingarfalli, með eða án greinis eftir því sem við á: Vinnumarkaðsstofnun.
     d.      Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. a laganna:
                  1.      1. málsl. 2. mgr. verður svohljóðandi: Telji Vinnumarkaðsstofnun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sérstaklega hættulega getur hún krafist afturköllunar allra eintaka hennar.
                  2.      Í stað orðsins „því“ í 1. málsl. 3. mgr. og í upphafi 4. mgr. kemur: henni.
     e.      Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
                  1.      Í stað orðanna „Vinnueftirlit ríkisins“ kemur: Vinnumarkaðsstofnun.
                  2.      Orðin „sbr. 14. gr. og 78. gr., staflið e, laga þessara“ falla brott.
     f.      Eftirfarandi breytingar verða á XII. kafla laganna:
                  1.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 73. gr. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
                  2.      74. gr. verður svohljóðandi:
                     Vinnumarkaðsstofnun annast framkvæmd laga þessara í umboði félags- og tryggingamálaráðherra.
                  3.      75. gr. verður svohljóðandi:
                     Vinnumarkaðsstofnun innheimtir gjöld fyrir þrýstiraunir, gas- og súrefnismælingar í lokuðum rýmum, mælingar á hávaða, titringi, mengun í andrúmslofti, lýsingu vinnurýmis og inniloftsþáttum, skoðun á leiktækjum og verkpöllum, átaksprófanir, námskeið og próf, útgáfu skírteina og leyfa sem og útgefið efni, þar á meðal fræðsluefni, samkvæmt gjaldskrá sem félags- og tryggingamálaráðherra setur í samráði við forstjóra Vinnumarkaðsstofnunar.
                  4.      76. gr. fellur brott.
                  5.      77. gr. fellur brott.
                  6.      Í stað orðanna „Vinnueftirlits ríkisins“ í 2. mgr. 78. gr. og „Vinnueftirlitinu“ í 1. mgr. 79. gr. og sömu orða hvarvetna annars staðar í XII. kafla laganna, að undanskilinni 2. mgr. 81. gr., 85. gr. og 4. mgr. 86. gr., kemur, í viðeigandi beygingarfalli, með eða án greinis eftir því sem við á: Vinnumarkaðsstofnun.
                  7.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 4. mgr. 78. gr., 5. mgr. 79. gr. og 6. mgr. 82. gr. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
                  8.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 81. gr.:
                      a.      Í stað orðanna „Vinnueftirliti ríkisins“ og orðsins „þess“ í 1. málsl. kemur: Vinnumarkaðsstofnunar, og: stofnunarinnar.
                      b.      3. málsl. 2. mgr. verður svohljóðandi: Telji Vinnumarkaðsstofnun ekki þörf á sérstakri vettvangskönnun skal hún tilkynna atvinnurekanda þar um án ástæðulauss dráttar.
                  9.      85. gr. verður svohljóðandi:
                     Telji Vinnumarkaðsstofnun að veruleg hætta sé á ferðum fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna eða annarra, getur hún krafist þess að strax sé bætt úr skorti á nægjanlegu öryggi, eða látið hætta vinnu í þeim hluta starfseminnar sem þannig er á sig kominn.
                  10.      4. mgr. 86. gr. verður svohljóðandi:
                     Vinnumarkaðsstofnun skal gert viðvart svo fljótt sem verða má og skal hún umsvifalaust senda fulltrúa sinn á staðinn til að meta ástand og kringumstæður og til að úrskurða um hvort starfsemin skuli stöðvuð áfram, hafi hún verið stöðvuð, og um nauðsynlegar úrbætur sem gera þarf til þess að starfsemin og vinnustaðurinn teljist hættulaus.
                  11.      Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytis“ í 4. og 5. mgr. 87. gr. og 1. og 2. mgr. 98. gr. kemur: félags- og tryggingamálaráðuneytis.
                  12.      Fyrirsögn kaflans verður: Eftirlit Vinnumarkaðsstofnunar.

9. gr.

    Þegar ákvæði laga þessara koma til framkvæmda, sbr. 6. gr., verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum:
     a.      Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 2. mgr. 5. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskilinni 7. og 8. gr., kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Vinnumarkaðsstofnun.
     b.      7. gr. laganna fellur brott.
     c.      8. gr. laganna fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Forstjóra Vinnumarkaðsstofnunar er heimilt að vinna að undirbúningi að fyrirhugaðri starfsemi Vinnumarkaðsstofnunar samkvæmt lögum þessum.

II.

    Forstjóri Vinnumarkaðsstofnunar skal bjóða annars vegar starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins og hins vegar starfsmönnum Vinnumálastofnunar störf hjá Vinnumarkaðsstofnun frá 1. janúar 2011. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt ákvæði þessu.

III.


    Vinnumarkaðsstofnun tekur frá 1. janúar 2011 annars vegar við eignum Vinnueftirlits ríkisins og hins vegar við eignum Vinnumálastofnunar sem og réttindum og skyldum þessara stofnana að því er varðar framkvæmd þeirra laga sem falla undir málefnasvið þeirra á þeim tíma.

IV.

    Félags- og tryggingamálaráðherra skal skipa stjórn Vinnumarkaðsstofnunar frá og með 1. janúar 2011. Umboð sitjandi fulltrúa annars vegar í stjórn Vinnumálastofnunar og hins vegar í stjórn Vinnueftirlits ríkisins fellur niður frá sama tíma. Enn fremur skal ráðherra skipa ný vinnumarkaðsráð frá og með 1. janúar 2011. Umboð sitjandi fulltrúa í vinnumarkaðsráðum fellur niður frá sama tíma. Þá skal ráðherra skipa nýja stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs frá og með 1. janúar 2011. Umboð sitjandi fulltrúa í stjórn sjóðsins fellur niður frá sama tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins verði sameinuð í eina stofnun, Vinnumarkaðsstofnun, sem hefur það hlutverk að annast stjórnsýslu á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Meginmarkmið sameiningar þessara tveggja stofnana er að starfrækja eina öfluga opinbera stofnun sem fjallar um málefni vinnumarkaðarins í víðum skilningi þar sem áhersla verður meðal annars lögð á öruggt og gott starfsumhverfi, sveigjanleika, öflugt stuðningsnet og aðhald. Með sameiningu þessara tveggja stofnana má ætla að betri heildarsýn fáist yfir verkefni þeirra sem öll varða aðstæður á vinnumarkaði með einum eða öðrum hætti sem og þjónustu við þá sem eru þar virkir þátttakendur eða vilja vera það. Með samþættingu verkefna þessara stofnana verður auðveldara að koma á samfellu milli vinnuverndarstarfs innan fyrirtækja og þjónustu við þá sem hafa helst úr lestinni af vinnumarkaði. Því standa vonir til að árangur þjónustunnar verði markvissari sem aftur verði til þess að fleiri geti tekið virkan þátt á vinnumarkaði.
    Ein leið að þessu markmiði er að gæta að aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum þannig að starfsumhverfi fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði tryggi sem best öryggi, heilbrigði og velferð starfsmanna. Er stofnuninni meðal annars ætlað að veita fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra margþætta þjónustu, aðstoð og aðhald. Jafnframt er stofnuninni ætlað að veita atvinnuleitendum, þar á meðal atvinnuleitendum með skerta starfshæfni, þjónustu í formi ráðgjafar, virkra vinnumarkaðsúrræða og vinnumiðlunar, þ.m.t. starfshæfnismats, starfsendurhæfingar og sérhæfðra atvinnutilboða eftir því sem við á hverju sinni en áfram er gert ráð fyrir að þjónustan miðist við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Þá er stofnuninni ætlað að halda utan um gerð starfshæfnismats, þar á meðal að þróa og ákvarða hvaða mælitæki og aðferðir skuli nýtt til mats á starfshæfni í samstarfi við þá aðila aðra sem starfa á sviði starfsendurhæfingar, þ.m.t. Starfsendurhæfingarsjóð. Einnig er stofnuninni ætla að samhæfa skipulag og fjármögnun af hálfu hins opinbera. Félags- og tryggingamálaráðherra mun skipa samstarfsnefnd um starfsendurhæfingu, í samræmi við 12. lið stöðugleikasáttmálans frá í júní 2009. Í nefndinni verði fulltrúar aðila stöðugleikasáttmálans, Öryrkjabandalags Íslands, lífeyrissjóðanna, og Hlutverks eftir því sem við á. Nefndin vinni að því að samþætta starf hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins að málefnum starfsendurhæfingar, meðal annars með tilliti til samræmdra reglna um mat á starfshæfni og vinnugetu. Markmiðið er að ná sameiginlegri niðurstöðu þannig að allir landsmenn njóti sama réttar til starfsendurhæfingar og starfshæfingar þótt greiðsluskylda vegna bæði bóta og þjónustu sé hjá mismunandi aðilum.
    Við sameiningu stofnananna er ekki gert ráð fyrir breytingum á tilgangi eftirlits á vinnustöðum sem fram fer á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þannig er gert ráð fyrir að áfram verði tryggt að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði vinnuvernadarmála, þ.m.t. samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu á þessu sviði.
    Miðað er við að atvinnurekendur beri áfram ábyrgð á gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum, meðal annars um sérstakt áhættumat þar sem áhætta í starfi er metin með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Í kjölfar áhættumats þarf síðan að gera áætlun um heilsuvernd sem meðal annars byggist á áhættumatinu en þar skal koma fram áætlun um forvarnir. Verður að líta á áætlunina um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sem eina af grunnstoðum þess að komið verði í veg fyrir að starfsmenn heltist úr lestinni af vinnumarkaði þar sem ætla má að sé farið eftir slíkri áætlun megi draga úr líkum á að atvinnutengdir sjúkdómar eða önnur óþægindi leiði til þess að starfsmenn geti ekki lengur sinnt störfum sínum. Þá er stofnuninni ætlað að annast útgreiðslu atvinnuleysistrygginga til þeirra sem missa störf sín tímabundið.
    Hinni sameinuðu stofnun er þannig meðal annars ætlað að annast framkvæmd á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, lögum nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, og lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, auk annarra verkefna sem stofnununum tveimur hefur verið falið með öðrum lögum, svo sem lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum.
    Enn fremur má gera ráð fyrir að ákveðin rekstrarhagræðing náist fram við sameiningu þessara tveggja stofnana þar sem dregið verður úr yfirbyggingu þeirra, stoðþjónusta samnýtt og þjónustustöðvar þeirra, sem staðsettar eru vítt og breytt um landið, verða sameinaðar í eina þjónustustöð vinnumarkaðsmála á hverjum stað. Þannig er stefnt að því að bæta þjónustuna við einstaklinga sem og fyrirtæki á hverjum stað með faglega sterkari starfseiningum en áður. Jafnframt er gert ráð fyrir að þjónustustöðvar hinnar sameinuðu stofnunar kunni að verða sameinaðar þjónustustöðvum annarra opinberra stofnana á hverjum stað, svo sem Tryggingastofnunar ríkisins, svo unnt sé að samhæfa þjónustu fleiri aðila með það að markmiði að hún gagnist betur notendum hennar. Ráðherra skal leita umsagnar forstjóra og stjórnar Vinnumarkaðsstofnunar um staðsetningu þjónustustöðva Vinnumarkaðsstofnunar og mögulega sameiningu við þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana. Félags- og tryggingamálaráðherra mun skipa sérstaka nefnd til að meta meðal annars kosti og galla frekara samstarfs eða sameiningar Vinnumarkaðsstofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins með tilliti til verkefna sem snúa að högum fólks sem er eða gæti verið á vinnumarkaði. Unnt væri að útfæra slíkar sameiningar með þjónustusamningi viðkomandi stofnana. Gert er ráð fyrir að hin sameinaða stofnun sinni rannsóknum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála en ætla verður að koma megi á öflugu rannsóknarsviði í fyllingu tímans sem hefði meiri getu en nú er til staðar til skipulegra rannsókna á þessum sviðum. Þetta getur skipt verulegu máli við framkvæmd stærri rannsókna sem Ísland hefur áhuga á að gerast aðili að á vettvangi Evrópusambandsins, svo sem þeirra sem framkvæmdar eru á vegum stofnunar Evrópusambandsins um bætt starfsskilyrði og lífskjör, og Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar.
    Færst hefur í vöxt að fela Vinnumálastofnun með lögum ákveðið eftirlitshlutverk á innlendum vinnumarkaði enda þótt meginreglan á íslenskum vinnumarkaði sé að aðilar vinnumarkaðarins fari sjálfir með það eftirlit, svo sem með því að atvinnurekendur haldi gerða kjarasamninga. Eftirlit Vinnumálastofnunar hefur einkum beinst að því að koma í veg fyrir ólöglegt vinnuafl á innlendum vinnumarkaði og að hafa eftirlit með því að erlendir þjónustuveitendur starfi með lögmætum hætti hér á landi. Vinnueftirlit ríkisins hefur hins vegar haft eftirlit með því að atvinnurekendur fari að lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Með sameiningu stofnananna tveggja verður eftirlit þeirra samþætt en með því má ætla að eftirlitið verði markvissara um leið og eftirlitsheimsóknum til fyrirtækja fækki. Enn fremur er miðað við að í tengslum við sameiningu þessara tveggja stofnana verði í samráði við aðila vinnumarkaðarins hugað að hugsanlegum tilfærslum á einstaka verkefnum sem falla undir starfssvið stofnananna til annarra opinberra stofnana.
    Lagt er til að hin nýja sameinaða stofnun starfi undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðherra en gert er ráð fyrir að ráðherra skipi ellefu manna stjórn stofnunarinnar sem í eiga sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem og Öryrkjabandalags Íslands auk formanns sem gert er ráð fyrir að ráðherra skipi án tilnefningar. Stjórn Vinnumarkaðsstofnunar samþykkir í byrjun árs starfsáætlun fyrir stofnunina. Þá fjallar hún jafnframt um rekstraráætlun fyrir stofnunina og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Jafnframt er lagt til að stjórnin verði ráðgefandi aðili fyrir forstjóra stofnunarinnar sem og félags- og tryggingamálaráðherra í faglegri stefnumótun og öðrum málum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Jafnframt fylgist stjórnin með þróun vinnumarkaðsmála, svo sem stöðu atvinnumála á einstökum svæðum á landinu, og verði til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsaðgerðum. Enn fremur verði stjórnin forstjóra stofnunarinnar og félags- og tryggingamálaráðherra til ráðgjafar um bættan aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar á meðal innan einstakra starfsgreina, og geri tillögur um úrbætur á þessum sviðum, þar á meðal hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum, lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra leiti umsagnar stjórnar við undirbúning að setningu nýrra laga og reglugerða á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála.
    Áfram er lögð mikil áhersla á náið samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins um þróun og skipulag á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála í því skyni að samhæfa stefnumörkun sem og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Í þessu skyni er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra leiði a.m.k. einu sinni í mánuði sérstakt samráð aðila vinnumarkaðarins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að sérstök stofnun, Vinnumarkaðsstofnun, verði sett á laggirnar sem heyri undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðherra. Ráðherra fer því með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir með stofnuninni og ber ábyrgð gagnvart Alþingi á störfum hennar. Gert er ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra skipi forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Þá er gert ráð fyrir að sá sem skipaður verður í starf forstjóra hafi lokið námi á háskólastigi. Enn fremur er gert ráð fyrir að forstjóri ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar og annist daglegan rekstur hennar. Þá er lagt til að forstjóri beri jafnframt ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, auk ákvæða annarra almennra laga sem fjalla um ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana. Þá ber forstjóra að fara að almennum fyrirmælum ráðherra sem setur honum erindisbréf, sbr. 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en hann ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni gagnvart ráðherra.
    Mikilvægt er að stofnunin hafi þjónustustöðvar á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að veita öllum sem til hennar leita góða þjónustu óháð búsetu. Ekki síður skiptir máli að þekking á staðháttum sé fyrir hendi innan stofnunarinnar. Á það einkum við í ljósi þess að aðstæður á vinnumarkaði geta verið mismunandi eftir landshlutum enda þótt landið sé eitt atvinnusvæði. Miðað er við að staðarval þjónustustöðva ráðist af því að sem flestir íbúar þess eigi greiðan aðgang að þjónustunni. Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði hvar á landinu þjónustustöðvar stofnunarinnar skulu vera staðsettar að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar stofnunarinnar. Einnig er talið mikilvægt að ráðherra verði heimilt að sameina þjónustustöðvar hinnar nýju stofnunar þjónustustöðvum annarra opinberra stofnana að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar stofnunarinnar í þeim tilgangi að samþætta þjónustu fleiri aðila svo unnt sé að mæta þörfum notenda þjónustunnar betur.
    Félags- og tryggingamálaráðherra mun skipa nefnd aðila stöðugleikasáttmálans, og Öryrkjabandalags Íslands vegna málefna er varða sérstaklega skjólstæðinga þess, til að fara yfir skipulag og verkefni nýrrar Vinnumarkaðsstofnunar. Ráðgjafar ráðuneytisins munu vinna með nefndinni. Í nefndarstarfinu verði jafnframt rætt um mögulega framtíðarverkaskiptingu hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins meðal annars varðandi málefni atvinnulausra. Það er í samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármálaráðherra í tengslum við framlengingu stöðugleikasáttmálans í október 2009. Þá meti nefndin kosti og galla frekari sameiningar Vinnumarkaðsstofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins með tilliti til verkefna sem snúa að högum fólks sem er eða gæti verið á vinnumarkaði.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun taki við þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins sinna lögum samkvæmt. Þar á meðal er henni ætlað að sinna stjórnsýslu á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála sem og að sinna lögbundnu eftirliti á þeim sviðum. Enn fremur er við það miðað að stofnunin geri tillögur til ráðherra um stefnumótun á þessum sviðum og verði ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar. Stofnuninni er meðal annars ætlað að fylgjast með atvinnuástandi og atvinnuhorfum á innlendum vinnumarkaði sem og árangri vinnumarkaðsaðgerða. Henni er jafnframt ætlað að vera leiðandi af hálfu hins opinbera í skipulagningu og uppbyggingu á starfsendurhæfingu um allt land í því skyni að stuðla að því að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði, sér og samfélaginu til hagsbóta. Stofnunin mun í starfi sínu vinna að því að samþætta starf sitt og aðila vinnumarkaðarins að málefnum starfsendurhæfingar, meðal annars með tilliti til samræmdra reglna um mat á starfshæfni og vinnugetu. Í því starfi verði sérstaklega tekið mið af frumkvæði og því þróunarstarfi sem unnið hefur verið að af hálfu aðila vinnumarkaðarins með stofnun og starfrækslu Starfsendurhæfingarsjóðs. Markmiðið er að allir landsmenn njóti sama réttar til starfsendurhæfingar og starfshæfingar þó greiðsluskylda vegna bæði bóta og þjónustu sé hjá mismunandi aðilum.
    Þá er stofnuninni ætlað að vinna að söfnun gagna og vinna að rannsóknum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 3. gr.


    Lagt er til að félags- og tryggingamálaráðherra skipi ellefu manna stjórn Vinnumarkaðsstofnunar til fjögurra ára í senn. Þó er lagt til að formaður og varaformaður stjórnar, sem gert er ráð fyrir að ráðherra skipi án tilnefninga, séu skipaður til jafnlengdar embættistíma þess ráðherra sem skipar. Enn fremur er lagt til að tveir fulltrúar verði tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og tveir af Samtökum atvinnulífsins. Þá er gert ráð fyrir að Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fjármálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Öryrkjabandalag Íslands tilnefni hver sinn fulltrúa til setu í stjórninni. Lagt er til að tilnefning og skipun varamanna sé með sama hætti.
    Lagt er til að stjórn Vinnumarkaðsstofnunar hafi eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Henni er meðal annars ætlað að fjalla um og samþykkja starfsáætlun fyrir stofnunina sem forstjóri leggur fyrir hana eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs. Jafnframt skal stjórn Vinnumarkaðsstofnunar vera ráðgefandi aðili fyrir forstjóra stofnunarinnar sem og félags- og tryggingamálaráðherra í faglegri stefnumótun og öðrum málum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Jafnframt er lagt til að stjórnin skuli fylgjast með þróun vinnumarkaðsmála, meðal annars með reglulegu samráði við vinnumarkaðsráðin, sbr. 4. gr. frumvarps þessa, svo sem stöðu atvinnumála á einstökum svæðum á landinu, og vera til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsaðgerðum. Enn fremur er gert ráð fyrir að stjórnin sé forstjóra stofnunarinnar og félags- og tryggingamálaráðherra til ráðgjafar um bættan aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar á meðal innan einstakra starfsgreina. Þá er lagt til að stjórnin geri tillögur til ráðherra um úrbætur á þessum sviðum, þar á meðal hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum, lagabreytingum eða setningu reglugerða eða annarra reglna. Lagt er til að ráðherra skuli leita umsagnar stjórnar við undirbúning að setningu nýrra laga og reglugerða á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála.
    Gert er ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að ákveða þóknun fulltrúa í stjórn Vinnumarkaðsstofnunar en í því felst jafnframt að ráðherra geti ákveðið að ekki komi til greiðslu þóknunar til þeirra fulltrúa hagsmunaaðila í stjórninni sem um getur í 1. mgr. ákvæðisins. Er það í samræmi við þær starfsreglur ráðuneytisins að ekki séu greiddar þóknanir fyrir setu fulltrúa hagsmunaaðila í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins.

Um 4. gr.


    Vísað er til athugasemda við 6. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, en auk þess sem þar kemur fram er með frumvarpi þessu lagt til að skýrsla vinnumarkaðsráðanna til stjórnar Vinnumarkaðsstofnunar skuli auk tillagna um vinnumarkaðsaðgerðir innihalda tillögur um aðgerðir í vinnuverndarmálum sem mælt er með að lögð verði áhersla á árið eftir. Enn fremur er með frumvarpi þessu gert ráð fyrir að vinnumarkaðsráðin verði hlutaðeigandi þjónustustöð Vinnumarkaðsstofnunar til ráðgjafar um skipulag og val á aðgerðum í vinnuverndarmálum auk vinnumarkaðsúrræða.

Um 5. gr.


    Lagt er til að félags- og tryggingamálaráðherra leiði a.m.k. einu sinni í mánuði sérstakt samráð á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála í því skyni að samhæfa stefnumörkun sem og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Í 1. mgr. eru nánar tilgreind þau samtök aðila vinnumarkaðarins sem gert er ráð fyrir að eigi aðild að samráðinu en þó er lagt til að ráðherra sé heimilt að boða til samráðsins fulltrúa annarra samtaka launafólks og atvinnurekenda en þeirra sem þar eru tilgreindir, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Um 6. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en gert er ráð fyrir að ákvæði laganna komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2011 að undanskildu ákvæði 2. mgr. 1. gr. sem kveður á um skipun forstjóra og ráðningu annarra starfsmanna hinnar nýju stofnunar.

Um 7. og 8. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í ákvæðum þessum leiðir af sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins sem lögð er til með frumvarpi þessu. Til frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 9. gr.


    Lagt er til að Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga sameinist Atvinnuleysistryggingasjóði þannig að úr verði einn sjóður. Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga var settur á laggirnar með lögum nr. 46/1997 sem kveða á um rétt bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra til atvinnuleysistrygginga. Aðrir sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa átt rétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, gilda um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna annars vegar úr Atvinnuleysistryggingasjóði og hins vegar úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga þannig að sömu reglur gilda um þá sem eiga rétt á greiðslum úr öðrum hvorum sjóðnum óháð því til hvaða sjóðs þeir greiða tryggingagjald af launum sínum. Þykir hagsmunum bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra því ekki betur borgið með rekstri sérstaks sjóðs og því verður ekki séð að það þjóni sérstökum tilgangi að reka sérstakan sjóð fyrir þrjár starfsstéttir. Enn fremur ber að líta til þess að nokkur umsýslukostnaður fylgir því að reka tvo sjóði en fækkun hefur orðið í hópi þeirra sem ætlað er að greiða í Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til í ákvæði þessu leiðir af sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins sem lögð er til með frumvarpi þessu. Til frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða I er kveðið á um að forstjóra Vinnumarkaðsstofnunar sé heimilt að vinna að undirbúningi að fyrirhugaðri starfsemi Vinnumarkaðsstofnunar áður en lögin koma til framkvæmda 1. janúar 2011 enda mikilvægt að vel sé staðið að undirbúningi að hinni nýju stofnun svo að hún geti hafið starfsemi sína á tilsettum tíma. Er meðal annars gert ráð fyrir að forstjórinn hugi að ráðningu starfsfólks fyrir þann tíma en gert er ráð fyrir að hann komi til með að bjóða annars vegar starfsfólki Vinnumálastofnunar og hins vegar starfsfólki Vinnueftirlits ríkisins störf í hinni nýju stofnun frá því að hún tekur til starfa 1. janúar 2011, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir að sú skylda sem kveðið er á um í 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þess efnis að auglýsa beri laus störf gildi ekki hvað varðar ráðningu samkvæmt ákvæði þessu.
    Í ákvæði til bráðabirgða III er kveðið á um yfirtöku Vinnumarkaðsstofnunar frá 1. janúar 2011 á eignum annars vegar Vinnueftirlits ríkisins og hins vegar Vinnumálastofnunar, sem og yfirtöku réttinda og skyldna þessara stofnana að því er varðar framkvæmd þeirra laga sem falla undir málefnasvið þeirra á þeim tíma.
    Í ákvæði til bráðabirgða IV er kveðið á um að félags- og tryggingamálaráðherra skuli skipa stjórn Vinnumarkaðsstofnunar sem og nýja stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 1. janúar 2011. Jafnframt er kveðið á um að ráðherra skuli skipa ný vinnumarkaðsráð frá sama tíma.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Vinnumarkaðsstofnun.

    Með frumvarpi þessu er lagt er til að Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins verði sameinuð í eina stofnun, Vinnumarkaðsstofnun, sem hafi það hlutverk að annast stjórnsýslu á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Meginmarkmið með sameiningu þessara tveggja stofnana er að starfrækja eina öfluga opinbera stofnun sem fjallar um málefni vinnumarkaðarins í víðum skilningi þar sem áhersla verður lögð á sveigjanleika, öflugt stuðningsnet og aðhald.
    Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun taki við þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins sinna lögum samkvæmt. Auk þeirra verkefna er stofnuninni jafnframt ætlað að veita atvinnuleitendum, þar á meðal atvinnuleitendum með skerta starfshæfni, aðstoð í formi ráðgjafar, starfshæfnismats, starfsendurhæfingar og sérhæfðra atvinnutilboða eftir því sem við á hverju sinni og er gert ráð fyrir að þjónustan miðist við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Þá er stofnuninni ætlað að halda utan um gerð starfshæfnismats, þar á meðal að þróa og ákvarða hvaða mælitæki og aðferðir skuli nýttar til mats á starfshæfni, sem og að samhæfa skipulag og fjármögnun starfsendurhæfingar.
    Í frumvarpinu er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra leiði a.m.k. einu sinni í mánuði sérstakt samráð tilgreindra aðila á sviði vinnumarkaðs- og vinnuverndarmála í því skyni að samhæfa stefnumörkun sem og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ákvæðið um sérstök vinnumarkaðsráð í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir verði tekið upp í nýju lögunum. Hvorugt þessara samráðsákvæða er talið hafa kostnaðarauka í för með sér.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákveðin rekstrarhagræðing muni nást fram við sameiningu þessara tveggja stofnana með eftirfarandi hætti. Í fyrsta lagi reiknað með að ekki verði greitt fyrir setu í stjórnum og nefndum en lagt er til að ráðherra skipi tíu manna stjórn stofnunarinnar þar sem í eigi sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins auk formanns. Gert er ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra verði heimilt að ákveða þóknun fulltrúa í stjórninni en að í því felist jafnframt að ráðherra geti ákveðið að ekki komi til greiðslu þóknunar til tiltekinna fulltrúa hagsmunaaðila. Það er í samræmi við þær starfsreglur ráðuneytisins að ekki séu greiddar þóknanir fyrir setu fulltrúa hagsmunaaðila í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins. Einnig verður stjórn Vinnueftirlits ríkisins lögð niður í núverandi mynd sem og heimild ráðherra til að skipa vinnuverndarráð einstakra starfgreina. Þá er lagt til að Tryggingarsjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga verði sameinaður Atvinnuleysistryggingasjóði sem veldur því að ekki þarf að skipa sérstaka stjórn í tengslum við tryggingasjóðinn líkt og verið hefur. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir breytingum hvað varðar skipan fulltrúa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Að meginstefnu verða ekki greidd laun fyrir setu i stjórnum og ráðum nýrrar stofnunar. Reikna má með að formenn nefnda og ráða fái þóknun en aðrir ekki og er miðað við 5 m.kr. á ári í kostnað. Gert er ráð fyrir að samtals muni sparast um 25 m.kr. á ári vegna lægri stjórnar- og nefndarkostnaðar. Í öðru lagi er reiknað með sparnaði í húsnæðiskostnaði þ.e. viðhaldi, tryggingum rafmagni og hita. Húsnæðiskostnaður Vinnumálastofnunar, er rúmar 60 m.kr. en húsnæðiskostnaður Vinnueftirlitsins er um 30 m.kr. á ári. Helmingur kostnaðarins fellur til í Reykjavík og hinn helmingurinn á landsbyggðinni. Áætlunin er að sameina starfsstöðvar á þeim sjö stöðum á landsbyggðinni þar sem báðar stofnanirnar eru fyrir. Miðað við að sameinuð stofnun komist af með 75–80% af þeim fjármunum sem núna fara í húsnæðiskostnað, munu um 20 m.kr. sparast í rekstri. Í þriðja lagi er reiknað með að með hagræðingu og breyttu starfsmannaskipulagi verði hægt að fækka stöðugildum um 5–7 miðað við núverandi verkefni. Þar sem Vinnumarkaðsstofnun eru hins vegar ætluð ný verkefni á sviði starfsendurhæfingar og starfshæfnismats, sem einnig eru 5–7 stöðugildi, er gert ráð fyrir að þau störf verði unnt að manna með núverandi starfsmönnum stofnananna. Því er gert ráð fyrir að öllum starfsmönnum að undanskildum yfirmönnum verði boðin störf hjá hinni nýju stofnun.
    Áætlað er að biðlaunakostnaður vegna sameiningarinnar verði um 28 m.kr., og mun hann falla á Vinnumarkaðsstofnun. Þá kemur til um 6 m.kr. kostnaður vegna nýs forstjóra sem gert er ráð fyrir að verði skipaður eftir gildistöku laganna en hann mun vinna að undirbúningi stofnunarinnar. Annan kostnað vegna undirbúnings breytinganna, 3–5 m.kr., mun ráðuneytið greiða af núverandi fjárheimild sem það hefur til ráðstöfunar.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 45 m.kr. á ári sem telst vera 3% af samanlögðum rekstrarfjárheimildum stofnana fyrir yfirstandandi fjárlagaár. Á móti fellur til 37 m.kr. einskiptiskostnaðar á næstu tveimur árum vegna starfsloka núverandi forstjóra sem í hlut eiga og undirbúnings sameiningar.