Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 995  —  158. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um Íslandsstofu.

Frá utanríkismálanefnd.



     1.      D-liður 2. gr. orðist svo: að laða erlenda fjárfestingu til Íslands, upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál.
     2.      3. gr. orðist svo:
                  Stjórn Íslandsstofu skipa sjö menn valdir til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fjóra stjórnarmenn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar. Utanríkisráðherra skipar formann stjórnar að höfðu samráði við aðra tilnefningaraðila. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Að höfðu samráði við ráðgjafaráð skipuleggur stjórnin og ákveður verkefni Íslandsstofu, samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun stofunnar og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra Íslandsstofu og ákveður starfskjör hans.
                  Stjórnin skal í samráði við viðkomandi ráðuneyti sjá til þess að starfrækt séu fagráð um áherslur í markaðs- og kynningarmálum erlendis á sviði ferðaþjónustu, matvælagreina, umhverfismála, menningarmála og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Eftir atvikum getur stjórnin með sama hætti skipað fagráð á fleiri sviðum. Þá skipar stjórnin ráðgjafaráð er skal vera henni til ráðuneytis um stefnumörkun og áherslur í störfum stofunnar. Málsvarar mikilvægustu hagsmuna á starfssviði stofunnar skulu eiga sæti í ráðgjafaráðinu sem kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Utanríkisráðherra setur nánari reglur um ráðgjafaráðið, þ.m.t. um fjölda fulltrúa, samkvæmt tillögum stjórnarinnar.
                  Stjórnin boðar til aðalfundar Íslandsstofu sem halda skal fyrir 1. maí ár hvert. Rétt til setu á aðalfundum eiga þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn Íslandsstofu, fulltrúar í ráðgjafaráði og þeir aðilar sem eiga fulltrúa í fagráðum Íslandsstofu. Stjórninni er heimilt að bjóða fleirum til setu á aðalfundi. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir stefnumótun Íslandsstofu og störfum sínum og fagráða og birtir rekstraráætlanir og ársreikninga.