Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1002  —  313. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólínu Þorvarðardóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsögn um málið barst frá Hafrannsóknastofnuninni.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sameiginlega skýrslu sjávarútvegsráðherra landanna þar sem fram komi nákvæmt yfirlit yfir þá formlegu samvinnu sem er á milli Vestur-Norðurlanda bæði hvað varðar rannsóknir á lifandi auðlindum sjávar og fiskveiðistjórnina, ekki síst á sameiginlegum fiskstofnum.
    Samkvæmt greinargerð var óskað eftir því að skýrslan lægi fyrir í mars 2010 þannig að hún gæti legið til grundvallar umræðum á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlanda sem fer fram í júní 2010.
    Tillagan byggist á ályktun 5/2009 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 27. ágúst 2009 en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson.


Bjarni Benediktsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.