Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 316. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1004  —  316. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum og milli Færeyja og Grænlands um skipti á opinberum sendifulltrúum.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólínu Þorvarðardóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsögn um málið barst frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til að skiptast á opinberum sendifulltrúum.
    Tillagan byggist á ályktun 2/2008 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 27. ágúst 2008 en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Tilgangur tillögunnar er að styrkja enn frekar böndin á milli vestnorrænu landanna. Það hafi ótvírætt gildi fyrir íbúa landanna sem og vöxt og viðgang vestnorræns iðnaðar og atvinnulífs að geta leitað eftir aðstoð sendi- eða ræðismannsskrifstofa þegar kemur að viðskiptum, ferðalögum og búferlaflutningum milli landanna.
    Nefndin styður markmið tillögunnar um að styrkja tengslin á milli vestnorrænu landanna en tekur jafnframt undir þau sjónarmið utanríkisráðuneytisins að hæpið sé að opna nýjar sendiskrifstofur, eins og tillagan felur í sér, við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja. Þvert á móti hefur verið leitast við að skera niður og spara í utanríkisþjónustunni og hefur sendiskrifstofum verið lokað í því skyni á síðustu missirum. Nefndin telur hins vegar að það skuli vera langtímamarkmið íslenskra stjórnvalda að skiptast á sendifulltrúum við Grænland þegar aðstæður leyfa og telur rétt að kanna grundvöll þess.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna grundvöll þess að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum þegar aðstæður leyfa. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til að skiptast á opinberum sendifulltrúum.
    Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson.


Bjarni Benediktsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.