Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1027  —  370. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (strandveiðar)

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Það er til marks um hversu vanreifað hið svokallaða strandveiðifrumvarp var að það hefur tekið verulegum breytingum í meðförum þingsins. Hinn upphaflegi tilgangur málsins, að láta strandveiðarnar leysa af hólmi byggðakvótann, er löngu horfinn. Tilraunalöggjöfin sem samþykkt var á síðasta ári gerði ráð fyrir því að byggðakvóti yrði skertur að hálfu og að þær aflaheimildir stæðu að nokkru undir aflamagni því sem færi til strandveiðanna. Þótt varað væri við þeirri aðferðafræði á þeim tíma var ekki á það hlustað. En í því frumvarpi sem nú er að koma til 3. umræðu er alveg fallið frá upphaflegum hugmyndum og er það í sjálfu sér fagnaðarefni.

Fráleit svæðaskipting.
    Í lögunum sem giltu á síðasta fiskveiðiári var ákveðið að veiðarnar skyldu fara fram á fjórum skilgreindum svæðum. Aflamagni var skipt á svæðin í hlutfalli við úthlutaðan byggðakvóta á viðkomandi svæðum. Reynslan af því fyrirkomulagi var ekki góð. Á sumum svæðum dugði það aflamagn til þess að aðeins var hægt var stunda veiðarnar fáeina daga í mánuði hverjum, en á öðrum svæðum dugðu heimildirnar mun lengur. Með öðrum orðum blasir við að úthlutað aflamagn var alls ekki í samræmi við veiði á svæðunum. Svæðaskiptingin mistókst.
    Nú er ætlun ráðherrans og meiri hlutans að styðjast enn við svæðaskiptingu, en fela ráðherra allsherjarvald um framkvæmd hennar. Frumvarpið er hins vegar þannig úr garði gert af hálfu meiri hlutans að galopið er hvort slík svæðaskipting gildir á næstu árum að löggjöfinni óbreyttri. Ráðherranum er einnig sett sjálfdæmi um hversu mikið aflamagn fari inn á hvert svæði fyrir sig. Þetta lýsir mikilli uppgjöf meiri hlutans fyrir því verkefni sem löggjöfinni er ætlað að taka á, auk þess sem enn á ný er verið að færa vald frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins á sviði fiskveiðistjórnar.
    Þrátt fyrir að fáeinir dagar séu þar til ætlunin er að veiðarnar hefjist hafa ekki fengist skýr svör um hvernig staðið verður að þessum málum. Einvörðungu að ætlunin sé að ekki verði mikil breyting á svæðaskiptingunni frá síðasta fiskveiðiári og að aflamagn hvers svæðis verði svipað og þá. Þetta er stórfurðulegt ráðslag. Sérstaklega í ljósi þess að upphaflega tengingin við byggðakvótaúthlutanir er nú farin veg allrar veraldar. Það mælir því að sjálfsögðu ekkert lengur með því að ákvarða svæði og aflamagn þeirra með hliðsjón af úthlutun á byggðakvótum og er í rauninni fráleitur grundvöllur.
    Reynslan frá síðasta ári hefur líka kennt okkur að svæðaskiptingin hefur ekki haft mikinn tilgang. Menn hafa einfaldlega skráð báta sína til veiða á þeim svæðum þar sem talið hefur verið að aflavon sé mest. Hin byggðalega tenging sem svæðaskiptingunni var ætlað að skapa hefur þess vegna farið fyrir lítið. Því eru engin haldbær rök lengur fyrir því að hafa fyrirkomulagið líkt og gilti á síðasta fiskveiðiári. Til viðbótar má ekki gleyma því að meginástæða löggjafarinnar var að opna almennan aðgang að nýtingu sjávarauðlindarinnar. Því hníga öll rök að því að hverfa algjörlega frá svæðaskiptingunni og hafa fyrirkomulagið frekar þannig að veiðarnar séu stundaðar á einu svæði. Sé það hins vegar vilji meiri hluta Alþingis að hafa svæðaskiptingu er að minnsta kosti eðlilegt að láta veiðarnar fara fram á yfirstandandi fiskveiðiári á einu veiðisvæði og búa þannig til nýja viðmiðun sem leggja mætti til grundvallar nýrri úthlutun á einstök veiðisvæði. Minni hlutinn flytur því breytingartillögu um að hverfa algjörlega frá svæðaskiptingunni.

Enn er reynt að draga úr hagkvæmni.
    Það hlýtur líka að teljast sjálfsagt að hin nýja löggjöf setji ekki upp girðingar sem torveldi mönnum að stunda útgerð sína með sveigjanlegum og hagkvæmum hætti. Þess vegna kemur á óvart að ekki skuli vera ætlunin að gera mönnum kleift að stunda strandveiðar um takmarkaðan tíma heldur þurfa menn sem hafa fengið leyfi til þessara veiða að binda sig innan þess regluverks til loka fiskveiðiársins. Þetta kemur í veg fyrir að menn hafi tækifæri til þess að ná hámarksárangri við útgerð sína. Fyrirkomulag þetta dregur úr verðmætasköpun og færir ákvörðunarvaldið við útgerðina frá sjómönnum og útgerðarmönnum í ráðuneytið. Er þetta enn eitt dæmið um það hvernig markvisst er verið að draga úr sveigjanleika og hagræðingu við fiskveiðarnar og gera þær miðstýrðari og óhagkvæmari. Á hinn bóginn má segja að þetta sé í anda yfirlýstrar stefnu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur boðað um að draga úr hagræðingu og sveigjanleika löggjafarinnar. Minni hlutinn er ósammála þeirri stefnumörkun og flytur breytingartillögu í þágu hagsmuna þeirra sem veiðarnar stunda.

Afli til strandveiðanna dregst frá kvóta annarra.
    Mikið hefur verið rætt um möguleika þess að auka aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári, einkanlega í þorski. Svör ráðherrans við þeirri málaleitan hafa verið mjög óljós, þar til nú. Hefur ráðherrann vitnað til þess að verið sé að auka aflaheimildir með strandveiðilöggjöfinni. Með því er vitaskuld verið að hvetja menn til þess að nýta sér auknar aflaheimildir með því að hefja handfæraveiðar að sumarlagi. Þetta er þó skammgóður vermir. Strax á næsta fiskveiðiári er gert ráð fyrir að aflamagnið sem fer til strandveiða, sex þúsund tonn, verði dregið frá því aflamagni sem fer til þeirra báta sem vinna í aflamarks- eða krókaaflamarkskerfinu. Lætur nærri að um 8,3% af þorskaflanum fari til tilfærslna og sérstakra úthlutana þegar strandveiðilöggjöfin er orðin að raunveruleika. Minni hlutinn gerði athugasemdir við þetta og flytur breytingartillögu til þess að ráða bót á þessu.

Lært af mistökum?
    Í meðförum þingsins hafa átt sér stað breytingar í samræmi við ýmislegt af því sem minni hlutinn hefur bent á. Enn er ekki útséð með hvort frekari breytingar verða gerðar við 3. umræðu. Þetta undirstrikar hins vegar nauðsyn þess að vel sé vandað til verka þegar verið er að leggja fram lagafrumvörp og sérstaklega þegar um er að ræða löggjöf sem felur í sér svo mikið nýmæli. Á þetta skorti mjög við upphaflega löggjöf í fyrra og aftur núna. Þeim mun meiri furðu vekur þetta af því að ætlunin var að læra af mistökum lagasetningarinnar á síðasta ári. Það er hins vegar að verða dýrkeypt reynsla að stunda slíka tilraunalagasetningu á mikilvægu lagasviði. Sum þessara mistaka verða nefnilega ekki aftur tekin.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr.
                  a.      2. efnismgr. orðist svo:
                     Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skiptingu aflaheimilda á mánuði. Þá skal ráðherra með reglugerð stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.
                  b.      4. mgr. orðist svo:
                     Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó getur fiskveiðiskip tilkynnt Fiskistofu að það hyggist hætta strandveiðum áður en strandveiðitímabilinu lýkur og taka á ný upp veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Nýti fiskveiðiskip þessa heimild getur það ekki hafið strandveiðar á ný á sama strandveiðitímabili.
     2.      Við 6. gr. Greinin orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 2. gr. taka gildi á fiskveiðiárinu 2012–2013.

Alþingi, 28. apríl 2010.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Jón Gunnarsson.