Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 616. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1083  —  616. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 49/2009, um Bjargráðasjóð.
1. gr.

    Orðin „allt að 80 millj. kr. á ári“ í b-lið 5. gr. laganna falla brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (A.)
    Þrátt fyrir ákvæði 53.–55. gr. er Matvælastofnun heimilt að ákveða að beingreiðslur skv. X. kafla verði greiddar til lögbýlis samkvæmt greiðslumarki þess óháð framleiðslu á lögbýlinu, þó ekki lengur en til fardaga 2012, ef framleiðsluskilyrði á lögbýlinu hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, t.d. stórfellds öskufalls eða jökulflóða, enda sé a.m.k. annað þessara skilyrða einnig uppfyllt:
     a.      Greiðslumark lögbýlis, að hámarki eins og það var við upphaf náttúruhamfara, er lagt inn til geymslu, sbr. 3. mgr. 53. gr. Beingreiðslur eru greiddar skráðum handhafa réttar til beingreiðslna með jöfnum framlögum þannig hann verði jafnsettur öðrum sem njóta greiðslnanna.
     b.      Framleiðandi gerir samkomulag við framleiðanda á öðru lögbýli um tímabundna nýtingu á greiðslumarki lögbýlisins (en ekki aðilaskipti). Þar skal kveðið á um að mjólk verði lögð inn í afurðastöð í nafni þess lögbýlis þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast. Beingreiðslur skal greiða skráðum handhafa réttar til beingreiðslna á því býli. Skylt er að tilkynna þessa tilhögun fyrir fram til Matvælastofnunar.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð.

    b. (B.)
    Ráðherra er heimilt að víkja frá ásetningshlutfalli skv. 3. mgr. 39. gr. á framleiðsluárunum 2010, 2011 og 2012 á býlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, t.d. stórfellds öskufalls eða jökulflóða.
    Matvælastofnun er heimilt að ákveða að sauðfjárframleiðendur sem búa á býlum þar sem svo hagar til sem að framan greinir, með þeim afleiðingum að búskapur hefur dregist saman eða fallið niður um tíma, geti haldið venjulegri gæðastýringargreiðslu úr ríkissjóði skv. 41. gr. á framleiðsluárunum 2010, 2011 og 2012. Við ákvörðun greiðslnanna er heimilt að taka mið af því framleiðsluári þegar afurðir voru mestar á árunum 2007–2009. Krafa framleiðanda um ákvörðun gæðastýringargreiðslna samkvæmt þessu ákvæði skal sett fram eigi síðar en í lok viðkomandi framleiðsluárs.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, m.a. hvernig skuli staðið að úttekt á framleiðsluskilyrðum.

III. KAFLI
Gildistaka.
3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fyrir beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Við gerð þess var haft óformlegt samráð við Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun.
    Eldgos hófst í Eyjafjallajökli rétt fyrir miðnætti 20. mars 2010 og kom kvikan þá upp í Fimmvörðuhálsi. Samkvæmt skjálftamælum virðist það gos hafa hætt 12. apríl.
    Aðfaranótt 14. apríl hófst gos að nýju í jöklinum, þá í suðvestanverðum toppgíg Eyjafjallajökuls. Mikil sprengivirkni og öskuframleiðsla fylgdi gosinu, einkum dagana 14.–17. apríl. Vegna mikils öskufalls, og að nokkru leyti jökulhlaupa, munu bændur sums staðar undir Eyjafjöllum hafa til athugunar að láta af búskap eða fækka bústofni, a.m.k. um tíma. Á þeim svæðum þar sem öskufallið er og hefur verið mest eru efasemdir um að grasrækt og heyöflun verði komið við nú í sumar.
    Rík samstaða er um stuðning við bændur sem sæta erfiðleikum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Bjargráðasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009. Sjóðurinn hefur með höndum fjárhagsaðstoð í formi styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins. Árlegar tekjur hans takmarkast af 5. gr. laganna. Þar er kveðið á um að árlegt fjárframlag ríkissjóðs til sjóðsins skuli ráðast af fjárlögum, en verði þó ekki hærra en 80 millj. kr. Nú liggur fyrir að tímabundin fjárþörf sjóðsins er meiri en þessu nemur. Því þykir rétt að gera tillögu um að fella þessa viðmiðun úr gildi. Eftir sem áður munu fjárveitingar til Bjargráðasjóðs ráðast af fjárlögum hvers árs.
    Hluti af tekjum kúabúa fellur til vegna framleiðslutengdra beingreiðslna. Verði þetta frumvarp að lögum munu mjólkurbændur á hamfarasvæðunum geta notið stuðnings af beingreiðslum, þótt framleiðsla þeirra raskist eða liggi niðri um tíma. Með því má draga úr líkum á því að þeir selji beingreiðslurétt frá lögbýlum sínum og bregði með því búi varanlega. Í þessu samhengi er mikilvægt að athuga að búvörulög heimila ekki að greiðslumark verði leigt eða lánað á milli lögbýla, sbr. Hrd. frá 11. desember 2003 í máli nr. 177/2003 og athugasemdir við frumvarp til laga nr. 112/1992, um breyting á eldri búvörulögum (þskj. 466, 116. löggjþ. 1992–1993).
    Hluti af tekjum flestra sauðfjárbænda fellur til vegna beingreiðslna og álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Beingreiðslur eru greiddar í samræmi við greiðslumark lögbýlis, eins og það er á hverjum tíma. Framleiðendur verða að uppfylla skilyrði um ásetningshlutfall, þ.e. eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur á hvert ærgildi greiðslumarks. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast greiðslur að tiltölu. Í 3. mgr. 39. gr. búvörulaga, nr. 99/1993, er kveðið á um að á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland sé ráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins. Sú heimild hlýtur að koma mjög til skoðunar á svæðum sem hafa orðið illa úti vegna öskufalls enda getur slíkt land verið viðkvæmt um tíma eða óhæft til beitar. Því er ekki víst að sauðfjárbændur sem verða fyrir áhrifum af náttúruhamförum verði af beingreiðslum þótt þeir dragi úr framleiðslu sinni. Engu síður þykir rétt að mæla fyrir um heimild til handa ráðherra til að víkja frá ásetningsskyldu á svæðum sem hafa orðið illa úti vegna náttúruhamfara. Þess má geta að sambærileg heimild er í gildi varðandi bændur sem skorið hafa niður fé til útrýmingar sjúkdómum.
    Hætt er við því að framleiðendur á náttúruhamfarasvæðum verði fyrir skerðingu álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu skv. 41. gr. laganna. Við því er brugðist með ákvæði til bráðabirgða. Þar er mælt fyrir um möguleika bænda til að njóta óbreyttra greiðslna úr gæðastýringu um tíma meðan framleiðsluskilyrði á býlum þeirra eru úr skorðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 5. gr. laga um Bjargráðasjóð eru tilgreindar hvaðan árlegar tekjur sjóðsins koma. Í b-lið greinarinnar kemur fram að sjóðurinn fær framlag úr ríkissjóði allt að 80 millj. kr. á ári eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum. Framlag þetta rennur til almennrar deildar sjóðsins, sbr. a-lið 6. gr. laganna, sem hefur það hlutverk að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara, sbr. 8. gr. laganna. Stjórn sjóðsins ákveður svo veitingu styrkja með tilliti til fjárhagslegrar stöðu sjóðsins, sbr. 10. gr. laganna. Ekki hefur verið metið hvert fjárhagslegt tjón af gosinu í Eyjafjallajökli er en telja má víst að sjóðurinn hafi að óbreyttu ekki bolmagn til að bæta einstaka bændum það tjón sem af því hlýst. Með greininni er lagt til að 80 millj. kr. hámark á framlagi ríkissjóðs verði fellt niður og Alþingi geti í fjárlögum hvers árs ákveðið að veita hærri upphæð til sjóðsins en áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli virðast réttlæta þessa mögulegu hækkun þótt endanlegt tjón liggi ekki fyrir.

Um 2. gr.


     Um a-lið.
    Í búvörulögum er mælt fyrir um að greiðslumark í mjólkurframleiðslu feli í sér hlutdeild lögbýlis í heildargreiðslumarki mjólkur fyrir hvert verðlagsár sem ákveðið er með tilliti til neyslu innlendra mjólkurvara á árinu o.fl. Ekki er heimilt að óbreyttum lögum að greiða beingreiðslur án þess að framleiðsla komi á móti, sbr. 55. gr. búvörulaga. Láti kúabóndi af mjólkurframleiðslu missir hann því beingreiðslur.
    Verði frumvarpið að lögum mun bændum á náttúruhamfarasvæðunum gefast tækifæri til að njóta óskertra beingreiðslna um tíma meðan framleiðsluskilyrði eru færð til betri vegar á jörðum þeirra, enda leggi þeir greiðslumark inn til geymslu, sbr. 3. mgr. 52. gr. búvörulaga, eða geri samning við bændur á öðrum býlum um framleiðslu. Slíkur samningur gæti komið til samhliða því að kýr yrðu fluttar milli bæja. Þá er þeim einnig mögulegt að fara „blandaða leið“ með því að leggja hluta greiðslumarks inn til geymslu en gera samning um hluta greiðslumarksins. Rétt er að athuga að frumvarpið gerir ráð fyrir því að framleiðandi hafi heimild til að ráðstafa notum af greiðslumarki skv. b-lið 1. gr. Til þessa samkomulags þarf ekki samþykki jarðareiganda. Það er í samræmi við meginreglur búvörulaga um meðferð greiðslumarks. Sérstaklega er tekið fram að beingreiðslur verði greiddar skráðum handhafa réttar til beingreiðslna á því býli sem hefur orðið fyrir röskun framleiðsluskilyrða. Samkomulagsatriði hlýtur að vera hverju sinni hver taki við greiðslu vegna innlagnar mjólkur í afurðastöð.
     Um b-lið.
    Framleiðsluár í sauðfjárrækt er hvað beingreiðslur varðar frá 1. janúar til 31. desember, sbr. 2. mgr. 38. gr. búvörulaga. Því er ráðherra lengst heimilt að ákveða að víkja frá reglum um ásetningshlutfall til ársloka 2012.
    Í 41. gr. búvörulaga er mælt fyrir um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Með henni er átt við framleiðslu á dilkakjöti samkvæmt kröfum um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða. Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skal m.a. ná til landnota, aðbúnaðar og umhverfis, sauðfjárskýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður skulu skjalfestar. Fjárhæð álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu er háð samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007. Greitt er á tiltekna gæðaflokka dilkakjöts eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.
    Bregði svo við að sauðfjárbændur láta tímabundið af búskap eða minnka framleiðslu sína geta þeir orðið fyrir því að gæðastýringargreiðsla lækki vegna þess að dilkakjötsinnlegg þeirra verður minna. Verði frumvarpið að lögum mun þeim gefast kostur á því að halda óbreyttum álagsgreiðslum þrátt fyrir að þessi verði raunin. Að sjálfsögðu er þetta bundið þeim skildaga, hvað varðar bændur sem draga úr framleiðslu, en hætta henni ekki alveg, að þeir uppfylli önnur skilyrði gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu hverju sinni.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.