Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1096  —  343. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar (LMós, MSch, ÁÞS, ÞSveinb, AMG, MT).



     1.      Við 1. gr.
              a.      1. tölul. orðist svo: Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar:
                a.    bein eignatengsl eða bein yfirráð yfir allt að 20% af hlutafé eða stofnfé eða atkvæðavægi fyrirtækis liggja fyrir, eða
                b.    yfirráð eða samstarf er til staðar milli aðila í skilningi laga þessara.
              b.      2. tölul. orðist svo: Hópur tengdra viðskiptavina: Það telst hópur tengdra viðskiptamanna ef öðru eða báðum eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
                a.    tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum, eða
                b.    tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a-lið, en þeir teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum, einkum í tengslum við fjármögnun eða endurgreiðslu skulda, eigi hinn aðilinn eða allir í greiðsluerfiðleikum.
              c.      4. tölul. orðist svo: Hlutdeild: Beinn eða óbeinn eignarréttur eða eftir atvikum annars konar ráðstöfunarréttur yfir eignarhlut, t.d. atkvæðisrétti.
              d.      5. tölul. orðist svo: Samstarf: Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
                a.    Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi.
                b.    Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið.
                c.    Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. aðili á með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög og systurfélög teljast í samstarfi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
                d.    Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.
              e.      6. tölul. orðist svo: Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga eða laga þessara, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti.
              f.      Við bætist tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                8.     Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu fyrirtækisins.
                9.     Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og félags.
     2.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                   5. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
     3.      Við 4. gr.
              a.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að takmarka tímabundið starfsemi fjármálafyrirtækis sem því er heimilt að stunda, í heild eða hluta, hvort sem hún er starfsleyfisskyld eða ekki, telji stofnunin sérstaka ástæðu til.
              b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Áður en gripið er til takmörkunar skv. 1. mgr. skal viðkomandi fjármálafyrirtæki gefinn kostur á að koma við úrbótum sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein skulu rökstuddar skriflega. Veiti fjármálafyrirtækið þjónustu í öðru aðildarríki skal tilkynning um efni ákvörðunarinnar og rökstuðning send lögbærum eftirlitsaðila í því ríki.
              c.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Takmörkun á starfsemi fjármálafyrirtækis.
     4.      Við 5. gr.
              a.      Á undan 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Við veitingu starfsleyfis skal lágmark innborgaðs stofnfjár (e. initial capital) fjármálafyrirtækja vera eins og tilgreint er í 2.–8. mgr. Til stofnfjár skv. 1. málsl. telst innborgað hlutafé, innborgað stofnfé sparisjóðs og varasjóðir (e. cash money).
              b.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Stofnfé sparisjóðs sem starfar á afmörkuðum, staðbundnum markaði og hefur eingöngu starfsheimildir skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal að lágmarki nema einni milljón evra. Í umsókn um starfsleyfi skal umsækjandi gera grein fyrir hvað telst staðbundinn afmarkaður markaður viðkomandi sparisjóðs. Fjármálaeftirlitið ákvarðar hvað telst staðbundinn afmarkaður markaður.
              c.      Í stað orðanna ,,1.–6. mgr.“ í 7.–9. mgr. komi: 2.–8. mgr.
     5.      Við 6. gr.
              a.      Orðin ,,þó ekki í verðbréfamiðlunum og rafeyrisfyrirtækjum“ í 1. málsl. 1. mgr. falli brott.
              b.      2.–5. málsl. 1. mgr. orðist svo: Innri endurskoðunardeild skal starfa óháð öðrum deildum í skipulagi fjármálafyrirtækis og er hún hluti af skipulagi þess og þáttur í eftirlitskerfi þess. Starfsmenn innri endurskoðunardeildar skulu sameiginlega búa yfir nægjanlegri þekkingu og reynslu til þess að takast á við verkefni deildarinnar og skal starfsmannafjöldinn endurspegla stærð fjármálafyrirtækis og starfsemi þess. Starfsmenn innri endurskoðunardeildar mega ekki vera hluthafar í viðkomandi fjármálafyrirtæki. Heimilt er að kveða nánar á um starfsemi innri endurskoðunardeildar í reglugerð.
              c.      Á eftir orðunum „hann skal“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: hafa sérþekkingu á sviði innri endurskoðunar.
              d.      Lokamálsliður 2. mgr. orðist svo: Fjármálaeftirlitið getur hvenær sem er tekið hæfi forstöðumanns innri endurskoðunardeildar til sérstakrar skoðunar telji stofnunin tilefni til.
              e.      Á eftir orðunum ,,gera stjórn“ í fyrri málslið 3. mgr. komi: og endurskoðunarnefnd.
              f.      Í stað orðanna ,,athugasemdir innri endurskoðunar“ í síðari málslið 3. mgr. komi: þær athugasemdir sem forstöðumaður innri endurskoðunar metur mikilvægar.
              g.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Forstöðumaður innri endurskoðunardeildar hefur rétt til setu á stjórnarfundum þar sem athugasemdir hans eru á dagskrá.
     6.      Við 7. gr. 1. mgr. orðist svo:
                  Fjármálafyrirtæki ber að framkvæma regluleg álagspróf og skjalfesta forsendur og niðurstöður þeirra. Niðurstöður álagsprófa skulu vera á dagskrá næsta stjórnarfundar eftir að niðurstaða þeirra liggur fyrir.
     7.      Við a-lið 8. gr. (17. gr. a).
              a.      Í stað orðanna „minnst 0,25% af heildarútlánum fjármálafyrirtækisins og að lágmarki 750 millj. kr.“ í lokamálslið 1. mgr. komi: að lágmarki 300 millj. kr.
              b.      Í stað orðanna ,,tengda aðila“ í 3. málsl. 2. mgr. komi: aðila í nánum tengslum.
     8.      Við b-lið 8. gr. (17. gr. b).
                  Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein skulu rökstuddar skriflega.
     9.      Við 9. gr. Greinin orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
              a.      Á eftir orðunum ,,náin tengsl fjármálafyrirtækis“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. 1. tölul. 1. gr. a.
              b.      2. og 3. mgr. falla brott.
     10.      Við 10. gr. Greinin orðist svo:
                   19. gr. laganna orðast svo:
                  Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.
                  Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum þessum.
                  Fjármálafyrirtækjum ber að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skulu þau m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.
                  Fjármálafyrirtæki skal tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu.
     11.      Á eftir 10. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Úrskurðarnefnd.


                  Fjármálafyrirtæki skal hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði viðskiptavina sinna ef ágreiningur rís milli viðskiptavinar og fjármálafyrirtækis, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
                  Fjármálafyrirtækjum er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfar samkvæmt samningi milli efnahags- og viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja, svo og samkvæmt samþykktum er hún setur sér. Formaður nefndarinnar skal fullnægja skilyrðum til þess að vera héraðsdómari. Nefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti. Ráðherra annast birtingu samþykkta nefndarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.
     12.      Við 11. gr. Greinin orðist svo:
                 Á undan 20. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

            Upplýsingar um viðskiptamenn.

                  Fjármálafyrirtæki skulu setja sér reglur um hvernig haldið er utan um upplýsingar um einstaka viðskiptamenn. Í þeim skal koma fram, hvaða starfsmenn hafi aðgengi að upplýsingunum starfs síns vegna, hvernig staðið skuli að miðlun upplýsinga til innra eftirlits, eftirlitsstjórnvalda og lögreglu og hvernig eftirliti með framkvæmd reglnanna er háttað. Reglurnar skulu vera aðgengilegar viðskiptavinum.
     13.      Við 13. gr. Greinin orðist svo:
                  Í stað síðari málsliðar 1. mgr. 22. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilkynning, ásamt rökstuðningi, hér að lútandi skal send Fjármálaeftirlitinu. Hafi viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, eða dótturfélag þeirra, þurft að grípa til aðgerða skv. 1. málsl. og tekið yfir a.m.k. 40% eignarhlut í viðskiptaaðila sínum skulu ákvæði VII. og VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, gilda um viðskiptaaðilann eftir því sem við á. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 3. málsl. enda sé fjárhagslegri endurskipulagningu lokið innan sex mánaða frá því að viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, eða dótturfélag þeirra, hóf starfsemina. Fjármálaeftirlitið metur hvort skilyrði 1. málsl. séu fyrir hendi og getur sett fjármálafyrirtæki tímafrest eða önnur skilyrði til að ljúka við fjárhagslega endurskipulagningu.
     14.      Við 17. gr.
              a.      Á eftir orðinu ,,fjármálafyrirtæki“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: eða dótturfélögum þess.
              b.      Í stað orðsins ,,bannreglu“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: banni.
              c.      Á eftir orðinu „stjórnarmanni“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: framkvæmdastjóra.
              d.      4. mgr. orðist svo:
                     Fjármálaeftirlitið setur reglur um með hvaða hætti lán sem eru tryggð með hlutabréfum eða stofnfjárbréfum annars fjármálafyrirtækis koma til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni og í mati á eiginfjárþörf til að tryggja að ekki sé hætta á að lánveitingin skapi kerfislæga áhættu í fjármálakerfinu. Reglurnar taki einnig til þess með hvaða hætti meta skal lán sem eru tryggð með veði í eignasöfnum, svo sem vörslureikningum og verðbréfasjóðum, sem innihalda hlutabréf eða stofnfjárbréf, hvort sem er þau eru útgefin af fjármálafyrirtækinu sjálfu eða öðrum fjármálafyrirtækjum, þannig að samræmist ákvæðum 1. mgr. og 1. málsl. þessarar málsgreinar.
     15.      Við 18. gr. 4. og 5. mgr. falla brott.
     16.      Á eftir 23. gr. kemur ný grein, svohljóðandi:
                   40. gr. a laganna fellur brott.
     17.      Við 24. gr. Við 12. tölul. 1. mgr. bætist: og birtir opinberlega.
     18.      Við 25. gr.
              a.      Við 1. mgr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitinu er heimilt að óska aftur eftir frekari upplýsingum. Slík beiðni lengir ekki framangreinda tímafresti.
              b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíks aðila eða einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir slíkum aðila, og ef félagið sem þessi aðili hyggst öðlast virkan eignarhlut í yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum hans í kjölfar öflunar þessara eignarhluta, skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í samræmi við 3. mgr. 2. gr. við mat sitt.
     19.      Við 26. gr. 3. málsl. 2. mgr. falli brott.
     20.      Við 28. gr. Við 2. málsl. bætist: fái stofnunin vitneskju um kaupin eða aukninguna.
     21.      Við 29. gr. Í stað orðanna „leyfileg mörk“ í 2. málsl. komi: það sem hann átti áður.
     22.      Við 30. gr.
              a.      Í stað orðsins ,,grundvallarbreytingar“ í síðari málslið komi: breytingar.
              b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 2. málsl. eiga þó ekki við um meðferð eignarhlutar sem aðili átti fyrir eða er ekki umfram virkan eignarhlut.
     23.      Við 33. gr. Á eftir orðunum ,,í því skyni að meta“ í 1. málsl. komi: hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 40. gr. og.
     24.      Við 35. gr.
              a.      2. mgr. orðist svo:
                     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um greiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
              b.      1. málsl. 4. mgr. orðist svo: Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis og stjórnarmenn annars eftirlitsskylds aðila mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er tengdur honum né vera starfsmenn, lögmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða félaga í nánum tengslum.
              c.      5. mgr. orðist svo:
                     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður fjármálafyrirtækis tekið sæti í stjórn annars fjármálafyrirtækis, vátryggingafélags eða fjármálasamsteypu ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu fjármálafyrirtækisins eða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í fjármálafyrirtækinu. Sama gildir um lögmann móðurfélags.
              d.      Í stað orðsins ,,framkvæmdastjórn“ í 7. mgr. komi: framkvæmdastjóra.
     25.      Við 36. gr. Í stað 1. málsl. a-liðar (52. gr. a) komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stjórn fjármálafyrirtækis skal boða til aðalfundar í samræmi við lög, samþykktir eða ákvörðun aðalfundar. Nú boðar stjórn ekki til fundar í skv. við 1. málsl. og skal þá Fjármálaeftirlitið boða til hans að kröfur stjórnarmanns, framkvæmdastjóra, endurskoðanda eða aðila sem er atkvæðisbær á aðalfundi.
     26.      Við 38. gr. Orðið „aðra“ í 1. málsl. 1. mgr. falli brott.
     27.      Við 39. gr.
              a.      Á eftir orðinu „ári“ í síðari málslið a-liðar (57. gr. a) komi: eftir því sem reikningsskilareglur heimila.
              b.      Orðið „annan“ í 1. málsl. 1. mgr. b-liðar (57. gr. b) falli brott.
     28.      Við 41. gr.
              a.      Á eftir orðunum ,,innborgað hlutafé“ í 1. málsl. b-liðar komi: innborgað stofnfé.
              b.      Á eftir orðunum ,,yfirverðsreikningur hlutafjár“ í 1. málsl. b-liðar komi: yfirverðsreikningur stofnfjár.
              c.      Við b-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með innborguðu hlutafé eða stofnfé er átt við að greiðsla í peningum (e. cash money) hafi farið fram.
     29.      Við 43. gr. Greinin orðist svo:
                   Eftirfarandi breytingar verða á 90. gr. laganna:
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurskoðandi eða endurskoðunarfélag skal ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið.
              b.      Við 2. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Endurskoðanda eða endurskoðunarfélag skv. 1. mgr. skal kjósa til fimm ára á aðalfundi fjármálafyrirtækis. Óheimilt er að kjósa sama endurskoðanda eða endurskoðunarfélag fyrr en að fimm árum liðnum frá því að starfstíma skv. 1. málsl. lauk. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. getur fjármálafyrirtæki vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi frá áður en fimm ára kjörtímabili lýkur að fengnu áliti endurskoðendaráðs.
     30.      Á eftir 44. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 6. mgr. 102. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú neytir slitastjórn heimildar samkvæmt framansögðu til að greiða kröfur að hluta eða fullu en ekki hefur verið til lykta leiddur ágreiningur um viðurkenningu kröfu, sem þeim gæti staðið jafnfætis í réttindaröð, og skal þá slitastjórn leggja á sérstakan geymslureikning fjárhæð sem svarar til greiðslu á þeirri kröfu eða upp í hana eins og sú greiðsla gæti hæst orðið samkvæmt kröfugerð hlutaðeigandi kröfuhafa. Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal innstæða geymslureikningsins ásamt áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafa hans hefur verið viðurkennd, en fé sem eftir kann að standa á reikningnum skal renna aftur til fjármálafyrirtækisins.
     31.      Á undan 45. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                   2. mgr. 107. gr. laganna fellur brott.
     32.      Við 45. gr.
              a.      Í stað orðanna ,,vanrækslu á tilkynningu“ í 21. tölul. komi: tilkynningarskyldu.
              b.      Í stað orðanna ,,2. mgr.“ í 32. tölul. komi: 3. mgr.
     33.      Við 46. gr. 3. tölul. orðist svo: 2. mgr. 19. gr. um að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins.
     34.      Við 48. gr.
                  a.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum:
                a.    Í stað ,,2. mgr. 10. gr.“ í 1. tölul. kemur: 3. mgr. 98. gr.
                b.    Orðin ,,sbr. 1. efnismgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 8. gr. laga þessara“ í 2. tölul. falla brott.
                c.    Orðin ,,sbr. 1., 5., 6. og 7. gr. laga þessara“ í 3. tölul. falla brott.
                  b.      B-liður orðist svo: Í stað orðanna „1. júlí 2010“ í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 1. júlí 2011.
     35.      Við 49. Greinin orðist svo:
                   Lög þessi öðlast þegar gildi.
     36.      Við bætist fimm ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
              a.      (I.)
                     Þrátt fyrir 43. gr. laga þessara, sbr. 90. gr. laganna, er endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi sem veitt hefur fjármálafyrirtæki þjónustu sína í þrjú ár eða skemur fyrir gildistöku laga þessara heimilt að veita því félagi þjónustu í fimm ár frá gildistöku. Hafi þjónusta verið veitt lengur en þrjú ár fyrir gildistöku laga þessara er endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi heimilt að veita fjármálafyrirtæki þjónustu í þrjú ár eftir gildistöku laga þessara.
              b.      (II.)
                       Þrátt fyrir ákvæði 48. gr. laga þessara öðlast eftirtalin ákvæði gildi sem hér segir:
                1.    2. mgr. 6. gr. (um breyting á 16. gr.) um hæfisskilyrði forstöðumanns innri endurskoðunar tekur gildi 1. janúar 2011.
                2.    8. gr. (um 17. gr. a og 17. gr. b) tekur gildi 1. janúar 2011.
                3.    11. gr. (um 19. gr. a) tekur gildi 1. janúar 2011.
                4.    3. mgr. 35. gr. (um breyting á 52. gr.) um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra tekur gildi 1. júlí 2011.
                5.    4. mgr. 35. gr. (um breyting á 52. gr.) um setu í stjórn annars eftirlitsskylds aðila tekur gildi á næsta aðalfundi í viðkomandi fjármálafyrirtæki og þó eigi síðar en 1. apríl 2011.
              c.      (III.)
                     Þrátt fyrir ákvæði 57. gr. a laganna, sbr. a-lið 39. gr. laga þessara, er fjármálafyrirtækjum óheimilt til 1. janúar 2012 að gera samninga við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn sem jafna má til kaupaukasamninga ef slíkir samningar eru umfram 10% af heildarlaunaútgjöldum fjármálafyrirtækisins á ársgrunni eða ef þeir hækka laun einstakra starfsmanna um meira en 25% á ársgrunni umfram heildarlaun viðkomandi án kaupauka.
              d.      (IV.)
                     Málshöfðunarfrestir a-, b- og c-liðar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, skulu ekki eiga við um fjármálafyrirtæki sem hefur verið tekið til slitameðferðar eða hefur hlotið eiginfjárframlag úr ríkissjóði, endurskipulagningu skulda með aðkomu ríkissjóðs eða Seðlabanka Íslands eða aðra sambærilega fyrirgreiðslu af hálfu þessara aðila. Sama á við um fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið við ráðum yfir og skipað skilanefnd og naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009.
                     Ákvæði þetta tekur til atvika og háttsemi sem gerðust fyrir gildistöku þessara laga jafnvel þótt málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn.
              e.      (V.)
                     Við slit á fjármálafyrirtæki sem tekið hefur verið til slitameðferðar og á undir ákvæði til bráðabirgða V í lögunum skal slitastjórn, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., afhenda þeim sem þess óskar eintak kröfuskrár eða birta kröfuskrá með opinberum hætti. Slitastjórn er heimilt að krefjast greiðslu til búsins fyrir kostnaði af gerð eintaksins. Við slíka birtingu skulu þó ekki veittar upplýsingar um nöfn kröfuhafa sem krafist hafa réttarstöðu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.