Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 320. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1110  —  320. mál.
Leiðrétting.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar



    Nefndin fjallaði að nýju um frumvarpið að lokinni 2. umræðu og fékk á sinn fund Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti og Sigurð Tómas Magnússon, lögfræðilegan ráðgjafa hjá sérstökum saksóknara og prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
    Meiri hluti nefndarinnar lagði til þá breytingu á frumvarpinu við 2. umræðu (þskj. 1037) að ákvæði samningsins giltu í 10 ár frá undirritun hans í stað 20 ára eins og frumvarpið kvað á um. Sú tillaga var gerð til samræmis við ákvæði nýs frumvarps iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi (574. mál). Komið hefur í ljós við nánari skoðun að gildistími þeirra ívilnana sem kveðið er á um í síðarnefnda frumvarpinu miðast ekki við 10 ár frá undirritun samnings um veitingu ívilnunar heldur frá því er skattskyldar tekjur myndast af viðkomandi verkefni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Þegar um gjöld er að ræða er nánar tiltekið miðað við tíu ár frá því að gjaldskylda myndast og þegar um tekjuskatt, fasteignaskatt og tryggingagjald er að ræða er miðað við tíu ár frá því að skattskylda myndast.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæði þessa frumvarps um gildistíma fjárfestingarsamnings vegna gagnavers í Reykjanesbæ verði efnislega sams konar og í frumvarpi til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Til að gæta fulls samræmis leggur meiri hlutinn því til að kveðið verði á um það í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að ákvæði fjárfestingarsamningsins skuli öðlast gildi frá undirritun hans og gilda í 10 ár frá því að skattskyldar tekjur myndast hjá félögunum Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf., sem eru umfram frádráttarbæran kostnað, þ.e. í 10 ár frá því að félögin byrja að greiða tekjuskatt af skattskyldum hagnaði. Rekstraráætlanir félaganna gera ráð fyrir að því marki verði náð innan tveggja til þriggja ára frá undirritun samningsins. Náist þessi markmið um hagnað ekki er með breytingartillögunni lagt til að sett verði það þak að í öllu falli verði gildistími samningsins aldrei lengri en 13 ár frá undirritun hans. Er þetta í samræmi við sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA sem vikið er að í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu. Nefndin vekur athygli á því að með þessari breytingartillögu eykst áætlað verðmæti ríkisaðstoðarinnar í hlutfalli við lengri gildistíma samningsins. Verðmæti ríkisaðstoðarinnar er nú áætlað 4,0 milljónir bandaríkjadala, eða 0,55% af heildarfjárfestingarkostnaði. Reiknuð hlutdeild Novators í samræmi við 21,8% eignarhlut í félögunum er því 0,12% af heildarfjárfestingarkostnaði eða 872.000 bandaríkjadalir.
    Eins og að framan greinir er með þessari breytingartillögu verið að tryggja að samræmi sé á milli frumvarpsins og frumvarps til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, hvað þessi tímamörk varðar.
    Þar sem gildistími samningsins, samkvæmt breytingartillögunni, getur orðið allt að þrettán ár er jafnframt lagt til að c-liður 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins eins og það var lagt fram komi aftur inn, en þar er kveðið á um hámark tekjuskattshlutfalls eftir fyrstu tíu árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins. Það ákvæði gildir þá frá tíunda til þrettánda árs frá undirritun samningsins, þ.e. hafi ekki komið til skattskyldra tekna fyrr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „og skulu þau gilda í 10 ár frá undirritun samningsins“ í 2. mgr. komi: og skulu þau öðlast gildi við undirritun hans og gilda í 10 ár frá því að skattskyldar tekjur myndast sem eru umfram frádráttarbæran kostnað, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun hans.
     2.      Við 4. gr. Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr stafliður, c-liður, svohljóðandi: Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er hærra en 18% eftir tíu fyrstu árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins skal það tekjuskattshlutfall gilda um félögin það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins, þó aldrei hærra en 25%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Jón Gunnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Gunnar Bragi Sveinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. maí 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Björn Valur Gíslason.


Þuríður Backman.



Tryggvi Þór Herbertsson.


með fyrirvara.