Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 575. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1154  —  575. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 73/2005, um skipan ferðamála, með síðari breytingum (gæðamál, tryggingarfjárhæðir).

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Haraldsdóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Helenu Karlsdóttur frá Ferðamálastofu, Örn E. Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þá bárust umsagnir frá Eyþingi, Ferðamálasamtökum Íslands, Hagstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar, Seðlabankanum, tollstjóranum, Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um skipan ferðamála. Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði tímabundið undanþáguákvæði þar sem Ferðamálastofu er veitt heimild til að ákvarða hæsta gildi tryggingarfjárhæðar vegna alferða á grundvelli nýrra gagna samkvæmt rökstuddri beiðni ferðaskrifstofu. Í annan stað er lagt til að heimild iðnaðarráðherra til setningar reglugerðar verði afmörkuð á skýrari hátt en áður, m.a. um þau atriði er lúta að flokkun leyfa, öryggismálum og eftirliti með leyfishöfum. Í þriðja lagi er lagt til að umsækjendur um ferðaskrifstofu- og ferðaskipulagsleyfi leggi fram ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem og að þessir sömu aðilar búi yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.
    Nefndin hefur fjallað um málið og var sjónum einkum beint að undanþáguákvæði, sbr. 17. gr. a, sem veitir Ferðamálastofu heimild til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 17. gr. laganna, þ.e. þeim reiknireglum sem notaðar eru við ákvörðun tryggingarfjárhæðar. Nefndin telur rétt að leggja áherslu á að um er að ræða heimildarákvæði sem gildir út árið 2010 og skýra ber þröngt. Jafnframt að með þessum breytingum sé ekki vikið frá þeim reiknireglum og viðmiðum sem kveðið er á um í ákvæðinu við mat á tryggingarfjárhæð, heldur verði heimilt að miða við ársreikning 2009 í stað þess að miða við ársreikning 2008. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að með þessu undanþáguákvæði sé ekki skert sú neytendavernd sem lögunum er ætlað að tryggja.
    Töluvert var í nefndinni rætt um það nýmæli að þeir sem bjóða upp á afþreyingarferðir þurfi að búa yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt svo hægt sé að veita ferðaskrifstofu- eða ferðaskipuleggjanda leyfi til reksturs, sbr. g-lið 2. mgr. 9. gr. laganna. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að ákvæði þetta kynni að fela í sér aðgangshindranir á markaði, skapa tortryggni um ómálefnalega mismunun og vera samkeppnishamlandi. Einnig væri slíkt ákvæði til þess fallið að koma í veg fyrir nýliðun og virka samkeppni í greininni. Nefndin fellst á þessi sjónarmið og telur að um sé að ræða matskennda stjórnvaldsákvörðun sem ákvarði ekki að öllu leyti þau viðmið sem þurfa að vera fyrir hendi svo að hægt sé að taka ákvörðun sem byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Setja verður fram ákveðin grunnviðmið með jafnræðisregluna að leiðarljósi. Nefndin telur að ákvæðið þarfnist nánari skoðunar og leggur til að það verði fellt brott.
    Nefndin telur rétt að árétta að iðnaðarráðherra hefur skipað nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir ákvæði laga um skipan ferðamála. Sú nefnd er með til skoðunar hvort gera þurfi frekari breytingar á lögum um skipan ferðamála og hefur m.a. til skoðunar öryggismál og skilyrði fyrir veitingu leyfa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    G-liður 1. gr. falli brott.

Alþingi, 31. maí 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Jón Gunnarsson.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Atli Gíslason.