Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1163  —  579. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 85/2008, um opinbera háskóla (almenningsfræðsla).

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Með frumvarpinu er lögð til ný skilgreining á hlutverki opinberra háskóla. Einnig eru lagðar til breytingar er varða heimild opinberra háskóla til að sinna endurmenntun. Í þriðja lagi er lögð fram breyting er varðar skipan í háskólaráð. Þá eru einnig settar fram breytingar hvað varðar háskólafundi, breytingar er varða ábyrgð á veitingu tímabundinna akademískra starfa og fleira.
    Í lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, er hlutverk opinberra háskóla skilgreint með skýrum hætti og vandséð er hvaða rök liggja að baki þeim breytingum sem lagðar eru til í 3. gr. frumvarpsins. Þar er opinberum háskóla annars vegar ætlað að „miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu“ og hins vegar er þrengt að möguleikum háskóla til að veita endurmenntun. Ekki verður betur séð en þetta kunni að vera í nokkurri mótsögn hvert við annað. Ákvæði gildandi laga er mun skýrara og eðlilegra þegar kemur að því að skilgreina hlutverk opinberra háskóla.
    Um það verður ekki deilt að hlutverk háskóla og þá ekki síst opinberra háskóla er fyrst og fremst að sinna kennslu og rannsóknum. Það ætti því fremur að styrkja skilgreint hlutverk opinberra háskóla en að útvatna það með þeim hætti sem gert er. Í þessu sambandi skal bent á athugasemdir Sigríðar Ólafsdóttur, lífefnafræðings og fulltrúa í háskólaráði Háskóla Íslands, við frumvarpið: „Um heim allan er hlutverk háskóla að stunda rannsóknir og kennslu. Þjóðir sem vilja teljast háþróaðar leggja áherslu á að þessi hlutverk háskóla skuli vera af miklum gæðum á alþjóðlegum mælikvarða. Ljóst ætti að vera að önnur hlutverk sem lögð eru á herðar háskólum hljóta að dreifa kröftum starfsmanna og rýra tækifæri þeirra til að stunda vandað háskólastarf.“
    Í háskólalögum nágrannaþjóða er lögð áhersla á að rannsóknir og kennsla, auk listsköpunar þar sem það á við, sé hlutverk háskóla. En einnig mæla lög fyrir um að háskólar skuli miðla þekkingu sem verður til innan þeirra út í samfélagið. Sigríður Ólafsdóttir bendir á að hvergi sé minnst á að háskólar skuli veita samfélaginu þjónustu eða fræðslu: „Þjónusta er starfsemi sem venjulega er unnin í verktöku með það að markmiði að leysa viðfangsefni í þágu verkkaupa og á forsendum hans. Slík verkefni ræna háskólamenn rannsóknafrelsinu sem einkennir gott háskólastarf. Því á þjónustustarfsemi ekki heima í háskólum.“ Vandséð er hvernig það getur samrýmst hlutverki fræðimanna innan veggja háskóla að selja þjónustu sína á sama tíma og þeir stunda óháðar rannsóknir og þekkingarsköpun. Slíkt fer vart saman og hætta á hagsmunaárekstrum er óhjákvæmileg. Lagaskylda um að opinberir háskólar skuli veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar er því hvorki í þágu háskólasamfélagsins né þjóðfélagsins í heild.
    Í 3. og 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem koma í veg fyrir að opinberir háskólar geti boðið upp á endurmenntun í grunnnámi gegn gjaldi. Nái frumvarpið fram að ganga verður háskóla aðeins heimilt að bjóða endurmenntun gegn gjaldi fyrir háskólamenntað fólk á fagsviði þess eða vegna viðbótarnáms fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu.
    Minni hlutinn telur að skilgreining frumvarpsins á endurmenntun í 3. og 11. gr. sé of þröng og þjóni hvorki hagsmunum opinberra háskóla né almennings. Kröfur samfélagsins eru að almenningur hafi greiðan aðgang að endurmenntun og þá ekki síst fólk sem áður hafði ekki tök á háskólamenntun en hefur nú möguleika á að stunda háskólanám samhliða vinnu. Ekki er talið rétt að miða við að opinberir háskólar geti aðeins sinnt endurmenntun fyrir háskólamenntað fólk. Tekið er undir athugasemdir Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, í umsögn um frumvarpið. Þar er meðal annars bent á að nauðsynlegt sé að skýrt sé í lögum að skólanum sé heimilt að bjóða fólki, sem ekki er háskólamenntað, lengra nám samhliða starfi, sem er ekki reglubundið nám á vegum háskóladeilda til prófgráðu. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt er „fyrirséð að það mun takmarka möguleika Háskóla Íslands til að mæta óskum almennings og atvinnulífsins um nám á grunnstigi samhliða starfi, þar sem heimild til gjaldtöku fyrir kostnaði vegna slíkrar endurmenntunar er þrengd og ekki gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingum úr ríkissjóði til að mæta þessum tekjumissi“. Rektor Háskóla Íslands kemst því að þeirri eðlilegu niðurstöðu að fólk sem komið er yfir venjulegan aldur háskólanema muni ekki geta stundað háskólanám samhliða vinnu á fyrsta stigi háskólanáms, eins og þessi hópur hefur átt kost á síðustu þrjá áratugi. Það getur vart verið vilji löggjafans að standa að slíkri takmörkun.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að ákvæði til bráðabirgða bætist við frumvarpið, en án þess hefði BS-námi yfir 100 nemenda í viðskiptafræði verið stefnt í uppnám. Nái ákvæði 3. og 11. gr. frumvarpsins fram að ganga er nauðsynlegt að breytingartillagan verði samþykkt.
    Í frumvarpinu er lagt til að skipan háskólaráðs verði breytt þannig að fulltrúum ráðherra verði fækkað. Dregið er í efa að þessi breyting sé til að styrkja starfsemi opinberra háskóla. Ekki verður dregið í efa mikilvægi þess að styrk tengsl séu á milli samfélagsins og háskóla. Það er álit minni hlutans að skynsamlegast sé að halda skipan í háskólaráð óbreyttri samkvæmt gildandi 6. gr. laga.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 3. gr. Fyrsta efnismálsgrein orðist svo:
                  Háskóli sinnir kennslu, rannsóknum, þekkingarleit og sköpun á sviði vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi. Háskóla er heimilt að veita endurmenntun í þeim fræðum sem stunduð eru innan hans.
     2.      Við 11. gr. Við 2. efnismgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: lengra nám samhliða starfi sem er ekki reglubundið nám háskólans til prófgráðu skv. 22. gr.

Alþingi, 20. maí 2010.



Óli Björn Kárason,


frsm.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.