Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1196  —  398. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE.
     Meginmarkmið tilskipunar 2006/66/EB er að draga úr neikvæðum áhrifum rafhlaðna og rafgeyma og notaðra rafgeyma og rafhlaðna á umhverfið og stuðla þannig að því að vernda, varðveita og bæta gæði umhverfisins. Í henni er kveðið á um markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma. Settar eru fram reglur um bann við markaðssetningu þeirra þegar umræddar vörur innihalda ákveðin hættuleg efni. Einnig eru settar fram sérstakar reglur um söfnun, meðhöndlun, endurvinnslu og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til að bæta viðeigandi löggjöf um úrgang og stuðla að söfnun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að æskilegt væri að veita jafnhliða heimild til að fella inn í EES-samninginn síðari breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma sem felast í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008 hvað varðar markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma. Nefndin gerir því breytingartillögu þar að lútandi. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/2010 frá 29. janúar 2010 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008 eru birtar í fylgiskjölum með nefndaráliti þessu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                      Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007 og nr. 7/2010 frá 29. janúar 2010, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB frá 6. september 2006, um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2006/ 66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma að því er varðar setningu rafhlaðna og rafgeyma á markað.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 og nr. 7/2010 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Helgi Hjörvar.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.




Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR

nr. 7/2010

frá 29. janúar 2010

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn


með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        II. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2009 frá 4. desember 2009 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 506/2007 frá 8. maí 2007 um kröfur, sem gerðar eru til innflytjenda og framleiðenda tiltekinna forgangsefna, um prófanir og upplýsingar í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 um mat og eftirlit með áhættu skráðra efna ( 2 ).

3)        Fella ber inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 465/2008 frá 28. maí 2008 um kröfur um prófanir og upplýsingar, samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93, sem gerðar eru til innflytjenda og framleiðenda tiltekinna efna sem kunna að vera þrávirk, safnast fyrir í lífverum og vera eitruð og eru tilgreind í Evrópuskrá yfir íðefni á markaði ( 3 ).

4)        Fella ber inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 466/2008 frá 28. maí 2008 um kröfur, sem gerðar eru til innflytjenda og framleiðenda tiltekinna forgangsefna, um prófanir og upplýsingar í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 um mat og eftirlit með áhættu skráðra efna ( 4 ).

5)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og úrgangsrafhlöður og úrgangsrafgeyma að því er varðar setningu rafhlaðna og rafgeyma á markað ( 5 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði XV. kafla II. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Eftirfarandi bætist við í lið 12x (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB):

        „eins og henni var breytt með:

        –         32008 L 0103: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008 (Stjtíð. ESB L 327, 5.12.2008, bls. 7).“

2.        Eftirfarandi liðir bætist við á eftir lið 12zk (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/681/EB):

        „12zl.     32007 R 0506: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 506/2007 frá 8. maí 2007 um kröfur, sem gerðar eru til innflytjenda og framleiðenda tiltekinna forgangsefna, um prófanir og upplýsingar í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 um mat og eftirlit með áhættu skráðra efna (Stjtíð. ESB L 119, 9.5.2007, bls. 24).

        12zm.     32008 R 0465: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 465/2008 frá 28. maí 2008 um kröfur um prófanir og upplýsingar, samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93, sem gerðar eru til innflytjenda og framleiðenda tiltekinna efna sem kunna að vera þrávirk, safnast fyrir í lífverum og vera eitruð og eru tilgreind í Evrópuskrá yfir íðefni á markaði (Stjtíð. ESB L 139, 29.5.2008, bls. 8).

        12zn.     32008 R 0466: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 466/2008 frá 28. maí 2008 um kröfur, sem gerðar eru til innflytjenda og framleiðenda tiltekinna forgangsefna, um prófanir og upplýsingar í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 um mat og eftirlit með áhættu skráðra efna (Stjtíð. ESB L 139, 29.5.2008, bls. 10).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerða (EB) nr. 506/2007, 465/2008 og 466/2008 og tilskipunar 2008/103/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 30. janúar 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/103/EB,
frá 19. nóvember 2008
um breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og úrgangsrafhlöður og úrgangsrafgeyma og varðar setningu rafhlaðna og rafgeyma á markað
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Rétt er að útlista nánar 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2006/66/EB ( 3 ) svo að rafhlöður og rafgeymar, sem voru löglega sett á markað í Bandalaginu fyrir 26. september 2008 og uppfylla ekki kröfur tilskipunarinnar, geti verið áfram á markaði í Bandalaginu eftir þann dag. Þessi nánari útlistun mun tryggja réttarvissu varðandi rafhlöður sem eru settar á markað í Bandalaginu og tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins. Útlistunin er í samræmi við grundvallarregluna um lágmörkun úrgangs og stuðlar að því að minnka stjórnsýsluálag.
2)          Því ber að breyta tilskipun 2006/66/EB til samræmis við það.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breyting á tilskipun 2006/66/EB

Í stað 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2006/66/EB komi eftirfarandi:
    „2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rafhlöður og rafgeymar, sem uppfylla ekki kröfur þessarar tilskipunar, séu ekki sett á markað eftir 26. september 2008.
    Rafhlöður og rafgeymar, sem uppfylla ekki kröfur þessarar tilskipunar og eru sett á markað eftir þennan dag, skulu tekin af markaði.“

2. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 5. janúar 2009.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

3. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. Pöttering J.-P. Jouyet
forseti. forseti.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 62, 11.3.2010, bls. 30, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 12, 11.3.2010, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 119, 9.5.2007, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 139, 29.5.2008, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 139, 29.5.2008, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 327, 5.12.2008, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 6
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 7
(1)    Áliti var skilað 9. júlí 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 8
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 9. júlí 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 20. október 2008.
Neðanmálsgrein: 9
(3)    Stjtíð. ESB L 266, 26.9.2006, bls. 1.