Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1208  —  152. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stjórnlagaþing.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson og Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneytinu, Björgu Thorarensen prófessor, Skúla Guðmundsson frá Þjóðskrá, Sigurð Hr. Sigurðsson frá Borgarahreyfingunni, Hjört Hjartarson og Daða Ingólfsson frá Hreyfingunni, Ástráð Haraldsson, Ásmund Helgason og Þorkel Helgason frá landskjörstjórn, Gunnar Eydal frá Reykjavíkurborg og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Aðalheiði Ámundadóttur, Hreyfingunni, Samfylkingunni, Borgarahreyfingunni, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, landskjörstjórn og Reykjavíkurborg.
    Með frumvarpinu er lagt til að forseti Íslands skuli boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Stjórnlagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa. Í frumvarpinu er lagt til að starfstími stjórnlagaþings verði á tilgreindum átta mánuðum og að það komi þrisvar sinnum saman á þeim tíma, fjórar til sex vikur í senn. Þingið kýs fimm manna forsætisnefnd og þrjár þriggja manna starfsnefndir sem starfa á milli samkomutíma þess.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
    Samkvæmt stjórnarskránni er skýrlega greint á milli almenna löggjafans og stjórnarskrárgjafans. Alþingi fer með almennt löggjafarvald ásamt forseta Íslands og má ekkert lagafrumvarp samþykkja nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Stjórnarskráin er hins vegar grundvöllur stjórnskipunar landsins og öðrum lögum æðri. Byggist það ekki einungis á efni hennar heldur fyrst og fremst á vandaðri setningarhætti en gildir við almenna lagasetningu. Ákvæði 79. gr. stjórnarskrár mælir fyrir um að stjórnarskránni verði aðeins breytt sé breytingin samþykkt á tveimur þingum og fari alþingiskosningar fram í millitíðinni og eru það þá gild stjórnarskipunarlög. Stjórnarskránni er því ætlað að vera ákveðin grunnstoð sem á að geta staðið af sér hin tíðu veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsaflanna en hún verður að vera í samræmi við ríkjandi hugarstefnur og þjóðfélagsskoðanir og breytingar sem lagðar eru til á henni þurfa að vera mjög vel ígrundaðar. Meiri hlutinn telur að með því að fela stjórnlagaþingi það verkefni að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins eins og lagt er til í frumvarpinu sé verið að vanda mjög til þessa mikilvæga verkefnis. Stjórnlagaþingi sem getur einungis verið ráðgefandi vegna ákvæða stjórnarskrár er því í reynd falið að vinna ákveðna grunnvinnu og undirbúa frumvarp til stjórnarskipunarlaga fyrir Alþingi. Þegar það hefur verið samþykkt skal það sent Alþingi til meðferðar. Um meðferð málsins á Alþingi fer samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og lögum um þingsköp Alþingis.
    Nefndin ræddi nokkuð ákvæði 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins en þar er gert ráð fyrir því að verði frumvarpið ekki samþykkt af stjórnlagaþingi skuli það engu að síður sent Alþingi ásamt þeim breytingartillögum sem fram komu við meðferð málsins. Meiri hlutinn telur það grundvallaratriði að samstaða verði á stjórnlagaþingi um þær breytingar sem lagðar eru til á stjórnarskrá í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Meiri hlutinn leggur því til að þessi málsgrein falli brott.

Ráðgefandi stjórnlagaþing.
    Nefndin ræddi skipan þingsins á fundum sínum og komu fram ýmsar ábendingar, m.a. varðandi fjölda þingfulltrúa sem samkvæmt frumvarpinu er minnst 25 og mest 31. Samkvæmt frumvarpinu veltur þó endanlegur fjöldi á því hvernig hlutfall milli kynja verður, sbr. sérreglu 3. mgr. 14. gr. sem ætlað er að tryggja að hlutfallið verði innan markanna 40%–60%. Fái annað kynið minna en 40% skal bæta við allt að 6 sætum að því marki sem þarf til að rétta hlutföllin af. Meiri hlutinn telur rétt að vilji kjósenda ráði því hverjir veljist til stjórnlagaþings en telur þó nauðsynlegt að hafa slíka varúðarreglu ef kynjahlutföll verða mjög ójöfn enda nauðsynlegt að sjónarmið kynjanna vegi nokkuð jafnt á stjórnlagaþingi.
    Í frumvarpinu er lagt til að stjórnlagaþingið verði skipað þjóðkjörnum fulltrúum sem skuli kosnir persónukosningu. Nefndin fjallaði nokkuð um þessa tilhögun, þ.e. að þingfulltrúar gefi kost á sér til verksins, afli meðmælenda o.s.frv. Meiri hlutinn telur ljóst að ef þessi háttur er hafður á sé líklegt að þeir sem bjóða sig fram hafi áhuga og telji sig hafa getu og eitthvað fram að færa til verkefnisins. Meiri hlutinn telur þó að með þessu séu möguleikar þeirra sem ekki eru þekktir í þjóðfélaginu til þess að bjóða sig fram og ná kjöri takmarkaðir. Nefndin ræddi í þessu sambandi hvort rétt væri að leggja til að einungis sumir fulltrúanna yrðu þjóðkjörnir en aðrir valdir t.d. með úrtaki úr þjóðskrá. Meiri hlutinn telur að það geti einnig verið vandmeðfarið þar sem greina þyrfti hvernig sá hópur ætti að endurspegla þjóðina. Með þessu gætu einnig orðið ákveðin skil, þ.e. milli þeirra sem væru þjóðkjörnir og hinna sem væru valdir með slembiúrtaki. Niðurstaða meiri hlutans er því sú að ekki sé rétt að leggja til breytingar í þessa veru.
    Nefndin ræddi einnig í þessu sambandi um aðkomu almennings að stjórnlagaþingi. Í 18. gr. frumvarpsins kemur fram að þingfundir stjórnlagaþings skuli haldnir í heyranda hljóði og verði öllum opnir eftir því sem húsrúm leyfi. Þá er í 20. gr. frumvarpsins ákvæði um kynningu og þátttöku almennings. Þar er gert ráð fyrir að kynningarefni verði á vefsíðu og að stjórnlagaþing skuli auglýsa með víðtækum hætti eftir tillögum frá almenningi, hagsmunasamtökum og öðrum sem vilja koma tillögum eða öðrum erindum á framfæri við þingið. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt vegna þeirrar umræðu sem þarf að fara fram um málið að stjórnlagaþing efni til víðtæks samráðs og haldi opna fundi í hverju kjördæmi á fyrsta starfstímabili sínu. Með því verði unnt að vekja áhuga almennra borgara á verkefninu og kalla eftir umræðu um málið. Meiri hlutinn leggur mikla áherslu á að þetta samráð verði haft strax eftir að nefndir hafa verið kosnar af stjórnlagaþingi og áður en eiginleg vinna stjórnlagaþings hefst. Þannig getur samráðið og afrakstur þess orðið undirstaða undir vinnu nefndarinnar, auk þess sem allir geta komið tillögum sínum og athugasemdum á framfæri við stjórnlagaþing frá því að það hefur verið kjörið, t.d. í gegnum vefsíðu. Meiri hlutinn leggur því til að við 20. gr. bætist nýr málsliður þess efnis að samráðsfundi skuli halda í hverju kjördæmi á fyrsta starfstímabili stjórnlagaþings.

Undirbúningur og meðferð frumvarps til stjórnarskipunarlaga.
    Á fundum sínum ræddi nefndin einnig um undirbúning og meðferð frumvarps til stjórnarskipunarlaga en í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að forsætisráðherra skuli skipa þriggja manna undirbúningsnefnd stjórnlagaþings til að undirbúa stofnun og starfsemi þingsins og að Alþingi tilnefni einn nefndarmanna. Meiri hlutinn telur eðlilegt að stjórnlagaþing starfi í umboði Alþingis sem fer með löggjafarvaldið og leggur því til breytingar á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins þess efnis að Alþingi skipi undirbúningsnefndina í stað forsætisráðherra sem tilnefni einn nefndarmanna í stað Alþingis.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að forsætisráðherra fari með eins konar yfirstjórnarhlutverk gagnvart stjórnlagaþingi. Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að forsætisráðherra setji stjórnlagaþingi starfsreglur og einnig að breytingar stjórnlagaþings á starfsreglum skuli staðfestar af forsætisráðherra. Í 21. gr. er lagt til að ákvarðanir nefndarinnar um útgjöld við þingið sjálft, svo sem vegna aðstöðu, starfsfólks eða sérfræðiráðgjafar, skuli teknar í samráði við forsætisráðuneytið. Þá er einnig gert ráð fyrir því í 22. gr. að forsætisráðuneytið skuli sjá þinginu fyrir starfsaðstöðu. Meiri hlutinn telur einnig rétt að forsætisnefnd Alþingis fari með þetta hlutverk gagnvart stjórnlagaþingi og leggur því til breytingar á greinunum í þá veru.

Framlengdur starfstími.
    Í 5. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Alþingi sé heimilt með ályktun að verða við beiðni þingsins um að framlengja starfstíma þess um allt að þrjá mánuði. Meiri hlutinn telur að í ákvæðinu felist ekki réttur skilningur á löggjafarhlutverki Alþingis. Meiri hlutinn telur eðlilegra að með frumvarpinu verði stjórnlagaþingi veitt heimild til að óska eftir því við forsætisnefnd Alþingis að starfstími þess verði framlengdur um allt að þrjá mánuði. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á þessari málsgrein og tekur sérstaklega fram að það er Alþingis að ákveða hvort slík framlenging verði heimiluð og þá einnig með hvaða hætti slíkt er gert, þ.e. hvort forsætisnefnd leggur fram lagafrumvarp eða tillögu til þingsályktunar en með því fengist ákveðið hagræði þar sem þær þarf einungis að ræða við tvær umræður.

Viðfangsefni.
    Á fundum sínum ræddi nefndin nokkuð um hlutverk og viðfangsefni stjórnlagaþings en í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að það skuli taka ákveðna þætti sérstaklega til umfjöllunar auk þess sem stjórnlagaþing getur ákveðið að fjalla um fleiri þætti. Nokkrar umræður urðu í nefndinni um það hvort rétt væri að telja upp viðfangsefni stjórnlagaþings með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu eða láta stjórnlagaþingi það eftir að ákveða viðfangsefnið. Þá var einnig rætt hvort rétt væri að bæta við upptalninguna fleiri viðfangsefnum. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að taka fram í þessu sambandi að eins og 2. mgr. 3. gr. ber með sér er hér ekki um tæmandi talningu að ræða. Meiri hlutinn tekur hins vegar fram að það eru þessi viðfangsefni sem stjórnlagaþingi er einkum ætlað að vinna að og telur því eðlilegt að leggja áherslu á þau, auk þess sem slík upptalning veitir aðhald og er ákveðinn rammi utan um starf þingsins sem þarf að vera markvisst. Meiri hlutinn fjallaði um breytingu á greininni og nefnir sem dæmi að utanríkismálakafli stjórnarskrárinnar er vanbúinn þar sem þar vantar t.d. ákvæði um samskipti Íslands við önnur ríki, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála, sem og um umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtungu náttúruauðlinda. Þessi málefni hafa verið mikið til umfjöllunar síðustu missiri og telur meiri hlutinn eðlilegt að taka sérstaklega fram að þau verði meðal þeirra verkefna sem stjórnlagaþingi er ætlað að fjalla um. Meiri hlutinn leggur því til að við upptalningu verkefna stjórnlagaþings í 3. gr. bætist tveir nýir töluliðir, þ.e. um framsal ríkisvalds til alþjóðastofna og meðferð utanríkismála og umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.

Meðferð frumvarps á Alþingi.
    Í frumvarpinu er lagt til að þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga skuli það sent Alþingi til meðferðar. Þá er einnig lagt til að verði frumvarpið ekki samþykkt skuli það engu síður sent Alþingi ásamt breytingartillögum sem fram komu við meðferð þess. Meiri hlutinn fjallaði nokkuð um þessa tilhögun og telur nauðsynlegt að gera kröfu um að stjórnlagaþing skili af sér samþykktu frumvarpi en ekki drögum eða tillögum að breytingum. Með því er áhersla lögð á að samstaða þurfi að nást um málið innan stjórnlagaþings. Þegar stjórnlagaþing hefur skilað af sér frumvarpi til stjórnarskipunarlaga skal Alþingi taka það til meðferðar í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og ákvæði laga um þingsköp Alþingis. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi skal rjúfa þing og boða til kosninga, sbr. ákvæði stjórnarskrár. Frumvarpið skal leggja fyrir nýtt þing til staðfestingar og samþykki það frumvarpið eru það gild stjórnarskipunarlög.

Kosning til stjórnlagaþings.
    Nefndin ræddi nokkuð þá tilhögun frumvarpsins að gert er ráð fyrir að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum. Fram kom að meginástæðan væri sú að verulegur sparnaður mundi nást með þessari tilhögun. Á fundum nefndarinnar komu fram ábendingar varðandi tæknileg vandkvæði þess að kjósa samhliða sveitarstjórnarkosningum. Þá komu fram eindregnar óskir frá sveitarfélögum um að kosningar til stjórnlagaþings færu ekki fram samhliða sveitarstjórnarkosningum í lok maí og á það sjónarmið var fallist.
    Við meðferð málsins í nefndinni lá einnig fyrir að til þess að unnt yrði að kjósa samhliða hefði orðið að hraða afgreiðslu málsins mjög mikið svo unnt væri að undirbúa kjörið sem og einstök framboð en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeim þurfi að skila eigi síðar en sex vikum fyrir kjördag. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að mjög rúmur tími gefist til kynningar fyrir einstaka frambjóðendur og telur að með því geti þeir sem eru lítt þekktir átt möguleika til þess að kynna sig eins og þeir sem eru jafnvel landsþekktir. Þannig eru meiri líkur til þess að þeir frambjóðendur sem ná kjöri á stjórnlagaþing verði fjölbreyttari hópur og nái þannig að endurspegla þjóðina. Þá telur meiri hlutinn enn fremur mikilvægt að mjög rúmur tími gefist til umfjöllunar í þjóðfélaginu til þess að borgarar landsins verði vel upplýstir um stjórnlagaþingið, hlutverk þess og viðfangsefni.
    Nefndin ræddi mögulegan kjördag en í skýringum í greinargerð með 4. gr. er bent á að það komi til álita að fresta þinginu og þar með kosningu til þess fram til ársins 2011 þannig að störf þingsins og umfjöllun Alþingis í kjölfarið á frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga fari saman við kosningar til Alþingis sem ætla má að verði vorið 2013. Meiri hlutinn telur hins vegar rétt að leggja til að kosning til stórnlagaþings verði eigi síðar en 30. október 2010.

Framboð, meðmælendur og kynning.
    Nefndin ræddi einnig ákvæði frumvarpsins um framboð til kosningar til stjórnlagaþings. Í 8. gr. frumvarpsins kemur fram að með framboði skuli fylgja nöfn minnst 30 og mest 50 meðmælenda sem fullnægja skulu skilyrðum um kosningarrétt til Alþingis. Þá skal því einnig fylgja skrifleg yfirlýsing frá hverjum meðmælanda sem staðfest hefur verið af tveimur vottum. Þá kemur einnig fram að hverjum kosningarbærum manni er einungis heimilt að mæla með einum frambjóðanda. Í 9. gr. frumvarpsins kemur fram að landskjörstjórn skuli útbúa kynningarefni um frambjóðendur þar sem einnig komi fram hverjir eru meðmælendur þeirra og skal því dreift til kjósenda. Í skýringum í greinargerð kemur fram að með ákvæðum þessum, þ.e. að einungis sé heimilt að mæla með einum frambjóðanda, og ákvæði um að birta opinberlega hverjir eru meðmælendur sé í reynd verið að fara fram á ákveðna stuðningsyfirlýsingu frá meðmælendum og jafnframt að ábyrgð þeirra yrði að vissu leyti meiri en t.d. í alþingis- eða sveitarstjórnarkosningum þar sem meðmælendalistar eru ekki birtir opinberlega. Nefndin ræddi nokkuð þessa útfærslu og voru uppi mismunandi sjónarmið um hana, þ.e. hvernig frambjóðendum gengi að afla stuðnings meðmælenda og enn fremur að þetta gæti bæði verið frambjóðendum til framdráttar en jafnframt unnið gegn þeim að birta hverjir meðmælendur þeirra eru. Meiri hlutinn telur eðlilegt að þetta sé með sama hætti og við almennar sveitarstjórnar- og alþingiskosningar, þ.e. að landskjörstjórn birti meðmælendalista ekki opinberlega og leggur því til breytingar á 8. og 9. gr. frumvarpsins þar sem ákvæði um opinbera birtingu eru felld brott.
    Þá leggur nefndin einnig til að í 5. mgr. 8. gr. verði tilgreint að lágmarksfjöldi frambjóðenda til stjórnlagaþings skuli vera á bilinu 25 til 31, sbr. 1. mgr. 2. gr., til að kosning geti fari fram og að náist ekki tilskilinn lágmarksfjöldi frambjóðenda þegar framboðsfrestur rennur út skuli landskjörstjórn framlengja frestinn um tvær vikur. Nái fjöldi frambjóðenda þá ekki tilskildu lágmarki koma lögin ekki til framkvæmda.
    Nefndin ræddi einnig hvernig best væri að haga kynningu á frambjóðendum en í frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn verði falið að útbúa kynningarefni um frambjóðendur. Meiri hlutinn telur að það samræmist ekki hlutverki landskjörstjórnar sem fer með lögbundið hlutverk varðandi (tæknilega) framkvæmd og úrslit kosninga. Meiri hlutinn telur réttara að fela dómsmálaráðuneyti að sjá um kynningu á stjórnlagaþingi og frambjóðendum þess og telur eðlilegt að það verði gert með svipuðum hætti og kynning á efni samkvæmt lögum nr. 4/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010. Þá fékk ráðuneytið óháðan aðila, Lagastofnun, til að sjá um útgáfu kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar og er það mat meiri hlutans að vel hafi tekist til með þá kynningu.

Rafræn kjörskrá og talning á einum stað.
    Nefndin ræddi nokkuð um kosti þess að taka upp rafræna kjörskrá fyrir þessa kosningu. Með því fengist mikið hagræði fyrir kjósendur sem gætu greitt atkvæði hvar sem er á landinu og þörfin fyrir atkvæðagreiðslur utan kjörfundar mundi því minnka. Kjörstjórar erlendis gætu einnig nýtt rafræna kjörskrá. Meiri hlutinn leggur því til fjölmargar breytingar á II. kafla frumvarpsins til þess að unnt sé að taka upp rafræna kjörskrá.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að við hönnun rafrænnar kjörskrár þurfi að gæta að því að hún dugi fyrir allar kosningar til Alþingis, sveitarstjórna og við þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá er nauðsynlegt að gæta að dulkóðun upplýsinga þannig að ekki sé hægt að sjá hvaða einstaklingar hafa greitt atkvæði en þó verði unnt að skoða kosningaþátttöku eftir kyni, aldri, búsetu o.s.frv.
    Með kosningu til stjórnlagaþings er í reynd verið að kjósa eins og landið allt sé eitt kjördæmi og atkvæði kjósenda vega þar með jafnt. Niðurstöður þess hverjir hafa verið kjörnir til setu á stjórnlagaþingi eru fyrir landið í heild og því ekkert hagræði fólgið í því að telja fyrst í kjördæmum.

Starfstími stjórnlagaþings.
     Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórnlagaþing komi saman þrisvar sinnum og eru lagðir til ákveðnir tímarammar sem stjórnlagaþingi er ætlað að starfa innan sem miðast við að kosið verði samhliða sveitarstjórnarkosningum. Meiri hlutinn leggur til að kjördagur verði eigi síðar en 30. október nk. og því nauðsynlegt að leggja til breytingar á þeim tímabilum sem stjórnlagaþing þarf að starfa eftir þó að áfram verði gert ráð fyrir að það starfi í fjórar til sex vikur í senn.
    Meiri hlutinn leggur til að þingið skuli koma saman 15. nóvember 2010 og ljúka störfum 15. júní 2011 eða fyrr ef það ákveður svo. Þá leggur meiri hlutinn til að starfstímabilin verði eftirfarandi: frá 15. nóvember til 10. desember 2010, 5. febrúar til 10. mars 2011 og 15. apríl til 15. júní 2011. Þá leggur meiri hlutinn einnig til að stjórnlagaþing geti óskað eftir því við forsætisnefnd Alþingis að starfstími þess verði framlengdur um allt að þrjá mánuði.

Kostnaður við stjórnlagaþing.
    Nefndin ræddi nokkuð um áætlaðan kostnað við stjórnlagaþing og hvort unnt sé að lækka hann, t.d. með því að stytta starfstíma þingsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þingið starfi á afmörkuðum tímabilum og að sérfræðinganefndir starfi á milli. Meiri hlutinn telur að með því geti ákveðinn tími nýst til umræðu og kynningar meðal almennings og að ekki sé efni til að stytta starfstímann sérstaklega þegar litið er til þeirra breytinga sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur til að stjórnlagaþing haldi samráðsfundi í öllum kjördæmum strax á fyrsta starfstímabili sínu.
    Fyrir liggur að ekki er gert ráð fyrir kostnaði við stjórnlagaþing í fjárlögum ársins 2010 og nauðsynlegt er að heimila aukafjárveitingu til þess að unnt verði að kjósa til þingsins fyrir 30. október.

Nauðsyn breytinga á stjórnarskrá.
    Breytingar á stjórnarskrá hafa verið lengi á döfinni og hafa margar tilraunir verið gerðar á vettvangi Alþingis og einungis fáar hafa orðið að veruleika en aðrar runnið út í sandinn eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu. Við þær aðstæður sem sköpuðust í þjóðfélaginu við fall bankanna og þau víðfeðmu áhrif sem það hafði á þjóðfélagið í heild, stjórnvöld, efnahagsástandið, ríkisfjármálin og það uppgjör sem fara þarf fram í kjölfarið hefur krafan um breytingar á stjórnskipun landsins orðið háværari. Þá hefur krafa um beint og milliliðalaust lýðræði aukist mjög sem og þörfin fyrir að ná sátt í samfélaginu. Meiri hlutinn telur rétt að fela þjóðkjörnu stjórnlagaþingi að vinna að þessu afmarkaða verkefni með víðtæku samráði við almenning í landinu. Vinna stjórnlagaþings við frumvarp til stjórnarskipunarlaga er í reynd undirbúningur fyrir þá vinnu sem fara þarf fram á vegum Alþingis þegar það fær frumvarpið til meðferðar. Meiri hlutinn telur að með þessu móti verði unnt að vanda mjög til verkefnisins og leggja grunn að því að breið samstaða náist um málið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 17. maí 2010.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form.


Róbert Marshall,


frsm.


Árni Þór Sigurðsson.



Lilja Mósesdóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.