Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1227  —  152. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stjórnlagaþing.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Framsóknarflokkurinn stendur vörð um þær raunverulegu lýðræðisumbætur sem kallað er eftir í þjóðfélaginu. Ber þar hæst persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og bindandi stjórnlagaþing sem leggur grunn að nýrri stjórnarskrá. Sú ríkisstjórn sem nú situr vinnur á móti þeim frumvörpum sem liggja fyrir þinginu með því að draga úr vægi þegnanna til ákvarðanatöku sem boðað er til í frumvörpunum. Sem dæmi má nefna að formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finnst frelsi persónukjörsfrumvarpsins of mikið því að ekki er tryggt í frumvarpinu sjálfu að t.d. konum sé tryggður helmingur sæta á lista. Lýðræði af þessu tagi er handstýrt af stjórnvöldum og er ekki það sem þjóðin vill eftir bankahrunið. Stjórnvöld ætla með öðrum orðum að koma á gervilýðræði undir stjórn sjálfra sín.
    Lagt er til með frumvarpi þessu að boðað skuli til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Hér eru stjórnvöld enn á ný með fingurna í ákvarðanatökunni. Að leggja til að stjórnlagaþing verði einungis ráðgefandi eru skilaboð um að stjórnvöld treysti ekki þeim sem kjörnir verða á stjórnlagaþingið sjálft til að gera tillögu um nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá hvers ríkis er grundvöllur og grunnstoð sem lýðræðisþjóðfélag byggist á. Það á að vera erfitt fyrir löggjafann að breyta stjórnarskrá og í 79. gr. stjórnarskrárinnar er tekið fram að henni verði aðeins breytt sé breytingin samþykkt á tveimur þingum og að kosið sé til Alþingis í millitíðinni. Í greinargerð með frumvarpi þessu kemur fram að markmið stjórnlagaþings sé að undirstrika þær stoðir hvers lýðræðisþjóðfélags að allt vald spretti frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þessum þjóðkjörnu fulltrúum er falið að setja þær grundvallarreglur sem gilda um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, uppsprettu ríkisvalds, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk.
    Hugmyndir þessar birtust m.a. í ritum heimspekinganna John Locke (1632–1704) um uppsprettu ríkisvaldsins og Jean-Jacques Rousseau (1712–1778) um samfélagssáttmála (Du Contrat social), svo og kenningum fleiri stjórnmálaheimspekinga 17. og 18. aldar sem byggjast á því að ríkisvald réttlætist af samkomulagi borgaranna um að fela yfirvöldum tiltekin afmörkuð verkefni en jafnframt að ríkisvaldinu skuli sett ákveðin mörk sem þau megi ekki fara út fyrir. Ákvörðun um gerð slíks sáttmála er þannig í höndum þjóðarinnar því að þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn.
    Þessar hugmyndir ná ekki fram að ganga í frumvarpi þessu því að með ráðgefandi stjórnlagaþingi hefur þjóðin ekki síðasta orðið. Stjórnlagaþinginu er treyst að hluta en ekki að öllu leyti til að skrifa nýja stjórnarskrá því að þegar upp er staðið þurfa stjórnvöld ekki frekar en þau vilja að leggja frumvarp það sem kemur út úr vinnu stjórnlagaþings fyrir Alþingi til samþykktar á tveimur þingum með kosningum á milli.
    Í 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins er ákvæði um kynjakvóta þingfulltrúa. Fjöldi þingfulltrúa skal vera minnst 25 en mest 31 og skal endanlegur fjöldi ráðast af því hvernig hlutfall milli kynja verður en þessari sérreglu er ætlað að tryggja að hlutfallið verði innan 40%–60% markanna. Fái annað kynið minna en 40% kosningu skal bæta við allt að sex sætum til að rétta kynjahlutföllin af. Þarna birtist ofríki og stjórnsemi ríkisstjórnarflokkanna, fyrir fram er ákveðið að úrslitum í kosningum til stjórnlagaþings verði breytt og því ekki farið að vilja kjósenda sem taka þessa kosningu alvarlega eins og aðrar kosningar sem boðað er til.
    Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilja augljóslega hafa lýðræði í orði en ekki á borði og að auki að stjórna lýðræðisumbótum með handafli. Þessi afskipti eru óásættanleg og geta leitt af sér að frambjóðandi hljóti sæti á stjórnlagaþinginu þrátt fyrir að hafa hlotið færri atkvæði en frambjóðandi af öðru kyni.
    Að mati 2. minni hluta er kostnaðaráætlun vegna stjórnlagaþings tæpar 500 millj. kr. sé áætlað að þingið starfi í 11 mánuði. Telji ríkisstjórnin þessa eyðslu á almannafé réttlætanlega í stórkostlegum niðurskurði án þess að niðurstaða sé bindandi er það á hennar ábyrgð. Rétt er að minna á að sú ríkisstjórn sem nú situr þverskallaðist við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á árinu þrátt fyrir að sú atkvæðagreiðsla hafi verið skilyrt í stjórnarskrá og verið bindandi fyrir stjórnvöld. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar gengu svo langt að hvetja fólk til að nýta ekki kosningarrétt sinn og sitja heima í stað þess að taka þátt í mannréttindum hvers manns í lýðræðisríki, að nota kosningarrétt sinn.
    Að mati 2. minni hluta eru takmarkaðar líkur á því að farið verði eftir niðurstöðum stjórnlagaþings verði þær núverandi stjórnvöldum ekki að skapi. 2. minni hluti ítrekar þá skoðun sína að leitað verði til sérfræðinga á þjóðþingum Norðurlanda til ráðgjafar um endurskipulagningu Alþingis og uppbyggingu og form nýrrar stjórnarskrár.

Alþingi, 17. maí 2010.

Vigdís Hauksdóttir.