Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 498. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1234  —  498. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

Frá heilbrigðisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra, Svein Magnússon, yfirlækni hjá heilbrigðisráðuneyti, og Einar Magnússon, skrifstofustjóra skrifstofu lyfja hjá heilbrigðisráðuneytinu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Arnari Haukssyni, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Lyfjafræðingafélagi Íslands, lyfjagreiðslunefnd og Lyfjastofnun.
    Með tillögunni ályktar Alþingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að árlega greinast um 17 ný tilfelli leghálskrabbameins hér á landi. Jafnframt verða um þrjú dauðsföll á hverju ári. Fleiri konur eru þó greindar með forstigsbreytingar og framkvæmdir eru um 300 keiluskurðir á hverju ári. Aðalorsakavaldur leghálskrabbameins eru Human papilloma veirur (HPV) og í um 70% tilfella þess eru það HPV 16/18 stofnar sem finnast. Bóluefnin Gardasil og Cervarex innihalda m.a. mótefnavaka gegn þessum stofnum HPV en þau voru lögð til grundvallar í kostnaðarvirknigreiningu sem gerð hefur verið, sbr. fylgiskjal með tillögunni. Niðurstöður þessarar greiningar sýna að út frá ákveðnum forsendum virðist bólusetning vera kostnaðarhagkvæm miðað við aðstæður hér á landi. Enn fremur kemur fram að bólusetningin getur komið í veg fyrir um 1,7 dauðsföll á ári og að hún „vinnur alls um 16,9 lífsgæðavegin lífár“. Í greinargerð Kristjáns Sigurðssonar, yfirlæknis á leitarstöð Krabbameinsfélagsins, sem fylgir með umsögn Krabbameinsfélags Íslands kemur fram að um 13 aðrir HPV-stofnar hafi fundist í leghálskrabbameinum og sterkum forstigsbreytingum. Aftur á móti benda niðurstöður rannsókna til að bóluefnin geti komið í veg fyrir um 67% af leghálskrabbameinum og um 53% af alvarlegum forstigsbreytingum.
    Öflugt leitarstarf undanfarna áratugi, sem sinnt er af leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, hefur skilað gríðarmiklum árangri. Í umsögn Krabbameinsfélagsins kemur þó fram að hlutfall ungra kvenna sem þiggja boð um að koma í krabbameinsleit er ekki nógu hátt og að viss hætta sé á að hlutfallið muni lækka enn frekar verði komið á skipulögðum bólusetningum, þ.e. að ungar konur muni telja sig varðar með bólusetningu. Það er álit nefndarinnar að mikilvægt sé að hefja bólusetningar gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini hér á landi. Aftur á móti áréttar nefndin mikilvægi leitarstarfs Krabbameinsfélagsins og telur áríðandi að komið sé á framfæri að bólusetning gegn HPV sé einungis vörn gegn leghálskrabbameini en veiti ekki tryggingu fyrir því að fá ekki slíkt mein. Nefndin telur því einkar nauðsynlegt að komið sé á framfæri mikilvægi reglulegs eftirlits á vegum leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands.
    Í október 2008 skilaði ráðgjafahópur sem fékk það verkefni að skoða bólusetningar og skimanir ítarlegri skýrslu. Í skýrslunni var lagt mat á forvarnir sem lúta að bólusetningum og skimunum gegn smitsjúkdómum og krabbameinum. Var þar m.a. lagt mat á gildi og kostnaðarhagkvæmni bólusetninga og mælt með að hafinn yrði undirbúningur að bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum og hafin yrði bólusetning með HPV-bóluefni meðal 12 ára stúlkna. Nefndin hefur einnig til umfjöllunar þingsályktunartillögu þess efnis að heilbrigðisráðherra skuli hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Nefndin telur að hér sé um að ræða mjög verðug og þörf verkefni. Aftur á móti er ljóst að nauðsynlegt er að forgangsraða verkefnum sem þessum. Það er álit nefndarinnar að rétt sé að fara eftir þeirri forgangsröðun sem sett er fram í framangreindri skýrslu frá því í október, þ.e. að fyrst skuli hefja bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum og síðan bólusetningar gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Valgerður Bjarnadóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2010.



Þuríður Backman,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Skúli Helgason.



Óli Björn Kárason.


Margrét Pétursdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.