Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 506. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1264  —  506. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (ívilnun vegna endurbóta og viðhalds).

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson og Guðrúnu J. Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Gunnlaug Júlíusson og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Félagi löggiltra endurskoðenda, Neytendasamtökunum, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samiðn, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að einstaklingum verði tímabundið og að greindum skilyrðum heimilt að reikna greiðslu vinnulauna vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota frá tekjuskattsstofni. Heimildin kemur til framkvæmda við álagningu á næsta og þar næsta ári og er hámark frádráttarins mismunandi í tilviki hjóna (samskattaðra) og einstaklinga. Heimildin er háð því skilyrði að tilskildum gögnum sé framvísað.
    Markmið frumvarpsins er að hvetja til aukinnar atvinnustarfsemi á byggingarmarkaði með tilheyrandi áhrifum á atvinnuleysi, svarta atvinnustarfsemi og viðhald verðmæta. Hliðstætt markmið er að finna í lögum nr. 10/2009, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, en í þeim var heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 42. gr. laga nr. 50/1988 rýmkuð og hækkuð tímabundið.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins. Nefndin ræddi aðrar leiðir við að ná markmiðum þess í ljósi athugasemda um að frumvarpið yki að óbreyttu flækjustig og kostnað í skattframkvæmd. Töldu sumir að einfaldara væri að auka fremur endurgreiðslur í virðisaukaskatti og þannig að hlutfallið yrði umfram 100%. Að áliti fjármálaráðuneytis var sú leið ekki talin tæk.
    Nefndin ræddi rökin að baki þeirri tilhögun frumvarpsins að heimila frádrátt frá tekjuskattsstofni, sbr. 61. gr. laga um tekjuskatt, í stað frádráttar frá tekjum, sbr. 30. gr. Jafnframt hvort rýmka ætti heimildina og láta hana taka til tekjuskattsstofns manna sem hafa með höndum atvinnurekstur. Ríkisskattstjóri telur ýmsa kosti samfara því að heimila frádrátt frá tekjuskattsstofni í stað þess að heimilaður verði sérstakur frádráttur frá tekjum. Nefndin tekur mið af ábendingum embættisins og leggur til að heimildin verði bundin við tekjur utan atvinnurekstrar, sbr. 1. tölul. og a-lið 3. tölul. 61. gr.
    Í umsögn ríkisskattstjóra er varað við því að frumvarpið geti að óbreyttu haft óæskileg áhrif á framtalsskil. Þar er lögð á það áhersla að í stað þess að framteljendum sé eftirlátið að færa frádráttarbærar greiðslur inn á skattframtal verði frádrátturinn byggður á þeim upplýsingum sem lagðar eru fram með umsóknum um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Tollstjóri sér um að greiða út þær endurgreiðslur að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra sem sér um að taka við og yfirfara umsóknir.
    Að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti og að fengnum athugasemdum ríkisskattstjóra leggur nefndin til breytingu á 1. gr. frumvarpsins sem felur m.a. í sér að umsókn um frádrátt verði lögð fram á sama eyðublaði og umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts innan hvers árs fyrir sig. Frádrátturinn verði jafnframt bundinn því skilyrði að fyrir tilgreint tímamark standi umsækjandi skil á fullgildum reikningum vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af sama tilefni þar sem vinnuþáttur er samtals að lágmarki 50.000 kr.
    Þá telur nefndin þörf á að heimila ráðherra að setja nánari ákvæði í reglugerð sem m.a. geta varðað tilhögun frádráttar vegna vinnu við sameiginlegt viðhald og endurbætur í fjöleignarhúsum sem húseigendafélög standa oft fyrir og tilhögun frádráttar þegar þess háttar framkvæmdir eru gerðar á íbúðarhúsnæði sem leigt er út utan atvinnurekstrar.
    Nefndin leggur til að í tilviki hjóna og samskattaðra einstaklinga skuli frádráttur koma til lækkunar hjá þeim sem hærri hefur tekjurnar. Er talið að þannig nýtist frádrátturinn best í þriggja þrepa skattkerfi.
    Í tilefni af athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga óskaði efnahags- og skattanefnd eftir mati fjármálaráðuneytis á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga og fylgir það með áliti þessu. Einnig fylgir með álitinu minnisblað frá ráðuneytinu um áhrif lagabreytingar nr. 10/2009 en að auki er þar fjallað um rökin fyrir þeirri tillögu frumvarpsins að láta hámark frádráttar vera hærri hjá hjónum en einstaklingum.
    Á fundum nefndarinnar gerði Samband íslenskra sveitarfélaga enn fremur athugasemdir er lúta að heimild til endurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XV í lögum nr. 50/ 1988, um virðisaukaskatt, og varðar húsnæði alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. Ráðuneytið mun vera með þessar athugasemdir til skoðunar og mun fara vandlega yfir þær.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    
    1. gr. orðist svo:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012 heimilast til frádráttar tekjuskattsstofni skv. 1. tölul. og a-lið 3. tölul. 61. gr. 50% af þeirri fjárhæð sem greidd er vegna vinnu án virðisaukaskatts sem unnin er á árunum 2010 og 2011, að hámarki 200.000 kr. hjá einstaklingi og 300.000 kr. hjá hjónum og samsköttuðum, vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota. Heimild þessi tekur einnig til viðhalds og endurbóta á útleigðu íbúðarhúsnæði utan atvinnurekstrar að teknu tilliti til þeirrar frádráttarheimildar sem gildir samtals um þá vinnu sem greitt er fyrir innan ársins vegna framangreindra framkvæmda. Frádráttur hjóna og samskattaðra einstaklinga skal koma til lækkunar hjá þeim sem hærri hefur tekjuskattsstofninn.
    Frádráttur skv. 1. mgr. er háður því skilyrði að staðin hafi verið skil á fullgildum reikningum vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af sama tilefni þar sem vinnuþáttur er samtals að lágmarki 50.000 kr., sbr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Þá skal skila launamiðum eða öðrum gögnum á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður. Sækja þarf um frádráttinn samhliða umsókn um endurgreiðslu á virðisaukaskatti á þar til gerðu eyðublaði ríkisskattstjóra innan hvers árs fyrir sig og í síðasta lagi fyrir 1. febrúar árið 2011 vegna tekjuársins 2010 og 1. febrúar árið 2012 vegna tekjuársins 2011. Frádrátturinn ákvarðast og afmarkast við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010 og álagningu 2012 vegna tekjuársins 2011, sbr. 98. gr., sbr. og 99. gr. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og framkvæmd frádráttar samkvæmt þessari grein, m.a. um sundurliðun frádráttar vegna vinnu sem greidd er af húsfélögum vegna sameiginlegs viðhalds eigenda á íbúðarhúsnæði í fjöleignarhúsum og um frádrátt eigenda íbúðarhúsnæðis sem leigt er út utan atvinnurekstrar.

    Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal gera fyrirvara við álitið.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir.



Birkir Jón Jónsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Þór Saari.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.





Fylgiskjal I.

Fjármálaráðuneyti:

Áhrif ívilnunar vegna endurbóta á ríkissjóð og sveitarfélög.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti:

Minnisblað.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.