Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1271, 138. löggjafarþing 578. mál: framhaldsskólar (skipulag skólastarfs o.fl.).
Lög nr. 71 22. júní 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla (skipulag skólastarfs o.fl.).


1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að fela skólameistara forstöðu í fleiri en einum framhaldsskóla.

2. gr.

     Í stað tölunnar „180“ í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 175.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Starfsþjálfunarsamningar skulu gerðir við upphaf vinnustaðanáms og kveða á um rétt og skyldur vinnuveitanda, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms og gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreinings og samningsslit.
  3. 1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Ráðherra getur með samningi falið skóla eða öðrum aðila umsýslu með gerð og skráningu samninga og eftirlit með þeim.
  4. Í stað orðsins „skólameistari“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: ráðherra.


4. gr.

     Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Skólasafn, með einni nýrri grein, 39. gr. a, er hljóðar svo ásamt fyrirsögn:
Skólasafn.
     Í öllum framhaldsskólum skal gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns.
     Hlutverk skólasafns er að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við starfsemi skólasafns skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum á skólasafni.
     Í starfsemi skólasafns skal leggja áherslu á að þjálfa nemendur í sjálfstæðri leit upplýsinga og notkun gagnabanka.

5. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða I í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Frestur framhaldsskóla til þess að setja sér námsbrautarlýsingar skv. 23. gr. er til 1. ágúst 2015.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir fyrirmæli 2. gr. skal við það miða að frá og með 1. ágúst 2015 verði árlegur fjöldi vinnudaga nemenda að lágmarki 180 dagar.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2010.