Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1279  —  574. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Guðrúnu J. Jónsdóttir frá ríkisskattstjóra, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Lárus Ólafsson frá Orkustofnun, Harald Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Þórð K. Hilmarsson og Kristin Hafliðason frá Fjárfestingarstofu, Stefán Einar Stefánsson frá Háskólanum í Reykjavík og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Fjárfestingarstofu, iðnaðarráðuneyti, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Rarik, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins o.fl., Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Seðlabanka Íslands, tollstjóranum í Reykjavík, Umhverfisstofnun, Valorku ehf., Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildstæð löggjöf sem myndi ramma um þær ívilnanir sem stjórnvöldum, og eftir atvikum sveitarfélögum, er heimilt að veita vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Horfið verður frá því fyrirkomulagi að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA enda hefur slíkt fyrirkomulag reynst þungt í vöfum, ómarkvisst og ekki boðið upp á nægilegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum. Með þeirri löggjöf sem hér er mælt fyrir er lagt til að skapaður sé almennur rammi um ívilnandi kjör sem bjóðast vegna nýfjárfestinga hér á landi og þannig með gegnsæjum og markvissum hætti reynt að auka möguleika á því að fá til landsins fjölbreytta nýfjárfestingu, hvetja til innlendrar fjárfestingar og fjölga atvinnutækifærum í landinu. Jafnframt er lagt til ákveðið ríkisaðstoðarkerfi sem er háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Lagt er til að lögin verði tímabundin og gildi til 31. desember 2013, þegar núverandi byggðakort Evrópusambandsins fyrir Ísland rennur úr gildi, en á því byggjast heimildir íslenskra stjórnvalda til að veita byggðaaðstoð.
    Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til breytingar á frumvarpinu sem sjá má í sérstöku þingskjali. Þar er annars vegar komið til móts við athugasemdir umsagnaraðila og hins vegar ábendingar og athugasemdir sem borist hafa frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), í kjölfar þess að frumvarpið var tilkynnt til stofnunarinnar í samræmi við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Markmið laganna er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri og samkeppnishæfi Íslands með því að skilgreina á nákvæman hátt hvaða ívilnanir sé heimilt að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi. Í III. kafla frumvarpsins er kveðið á um hvaða ívilnanir stjórnvöldum er heimilt að veita í formi byggðaaðstoðar vegna fjárfestingarverkefna hér á landi. Í samræmi við hinar leiðbeinandi reglur um byggðaaðstoð telur nefndin rétt að það komi fram í markmiðsgrein frumvarpsins að eitt af markmiðum laganna sé að efla byggðaþróun í landinu.
    Nefndin fjallaði um gildissvið laganna en í 3. mgr. 2. gr. er lagt til að lögin nái ekki til fjárfestinga í fjármálastarfsemi. Fyrir nefndinni voru reifuð sjónarmið um að stíga ætti varlega til jarðar þar sem heimildir manna til þess að eignast hluti eða komast til áhrifa í fyrirtækjum í fjármálageiranum lúta almennt sérstökum reglum. Þannig eru sett ströng skilyrði í tilskipun 44/2007/EB, sem verið er að innleiða í lög hér á landi með nýjum lögum um vátryggingastarfsemi og fyrirliggjandi frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, um hvernig staðið skuli að varfærnismati (e. prudential assessment) á þeim sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut í slíkum fyrirtækjum. Enn fremur eru miklar takmarkanir í lögum í þessum geira á viðskiptum tengdra aðila sem ekki er að finna, nema þá að mjög takmörkuðu leyti, í regluverki um aðra atvinnustarfsemi. Þá er einnig rétt að benda á að þótt aðili hafi til þess atkvæðavægi er ekki sjálfgefið að Fjármálaeftirlitið samþykki þann sem kosinn er til stjórnarsetu í fyrirtæki í fjármálageiranum enda gilda sérstakar hæfisreglur og hæfismat um stjórnarsetuna. Það er því ljóst að bæði hér á landi og erlendis eru miklar kröfur gerðar til þeirra sem vilja fjárfesta í slíkum fyrirtækjum. Það er mat nefndarinnar að heppilegra sé að beina kröftum þeim sem leystir verða úr læðingi, verði frumvarpið að lögum, að öðrum atvinnugreinum en fjármálageiranum og leggur því fram breytingartillögu.
    Í samræmi við ábendingar frá ESA leggur nefndin til með breytingartillögu nákvæmari skilgreiningu á því hvað telst til fjárfestingarkostnaðar fjárfestingarverkefnis í skilningi laganna. Nauðsynlegt er að útfæra nákvæmlega hvað telst til fjárfestingarkostnaðar því að hann er lagður til grundvallar við útreikning á hugsanlegum ívilnunum vegna viðkomandi verkefnis, þ.e. hámark ívilnunar er ákveðið hlutfall af skilgreindum fjárfestingarkostnaði.
    Töluvert var rætt í nefndinni um ákvæði 5. gr. en þar eru sett fram þau skilyrði sem umsækjandi verður að uppfylla til að eiga hugsanlega rétt til ívilnunar vegna nýfjárfestinga hér á landi. Nefndin telur rétt að árétta að mikilvægt er að skilyrði þessi séu ítarleg og afmörkuð og myndi fastan ramma. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um hvort skilyrði a-liðar 5. gr. um að stofna þurfi félag utan um rekstur verkefnis hér á landi stæðist kröfur EES- samningsins. Í lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, má finna sams konar skilyrði og bent er á, sbr. c-lið 4. gr. laganna. Rökstyðja má með vísan til þeirra skuldbindinga sem leiðir af EES-samningnum sem og lögmætra sjónarmiða um trygg og örygg skattskil að bæta sams konar viðbót við a-lið 5. gr. frumvarpsins.
    Nefndin telur rétt að undirstrika að ekki sé heimilt að hefja fjárfestingarverkefni áður en búið er að samþykkja veitingu ívilnunar. Vegna þessa er lögð fram orðalagsbreyting á c-lið 5. gr. frumvarpsins í þá veru að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki hafið áður en undirritaður er samningur um ívilnun skv. 21. gr. Skilyrði þetta er í samræmi við þá kröfu að veiting ívilnunar sé forsenda þess að viðkomandi fjárfestingarverkefni verði að veruleika.
    Nefndin ræddi það skilyrði fyrir veitingu ívilnana sem sett er í e-lið 5. gr. að árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfesting skapi a.m.k. 20 ársverk á fyrstu tveimur árum þess. Nefndin ræddi sérstaklega hvort hér væri markið sett of hátt. Niðurstaða nefndarinnar er hins vegar að hér sé um eðlilega viðmiðun að ræða í ljósi þess að með því ríkisaðstoðarkerfi sem hér er lagt til er ekki verið að horfa til allra hugsanlegra fjárfestingarverkefna í landinu heldur fyrst og fremst að skapa sérstakan ramma um viðameiri fjárfestingarverkefni. Aðaláherslan er á að verkefnin séu þjóðhagslega hagkvæm og efli íslenskt atvinnulíf. Rétt er að hafa í huga að önnur styrkjakerfi eru til staðar sem sniðin eru að smærri fyrirtækjum, sbr. styrkveitingar Byggðastofnunar, styrki úr sjóðum Rannís sem og nýleg lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sbr. lög nr. 152/2009.
    Nefndin fjallaði einnig töluvert um það skilyrði g-liðar 5. gr. að sá búnaður sem viðkemur fjárfestingunni skuli vera nýr. Með þessu skilyrði er ætlunin að koma í veg fyrir að gamall og úreltur búnaður sem ekki uppfyllir nýjustu umhverfisstaðla sé fluttur til landsins í tengslum við nýfjárfestingar. Það er mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að skýra þetta nánar en þó sé óeðlilegt að gera þá kröfu að umræddur búnaður hafi aldrei verið notaður áður. Telur nefndin rétt að gera breytingartillögu þess efnis að búnaðurinn sem kemur til vegna fjárfestingarinnar geti verið nýr eða nýlegur og að notkun hans uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og annarrar umhverfislöggjafar.
    Til samræmis við ábendingar ESA og framangreindar leiðbeinandi reglur telur nefndin rétt að lagt sé til að kveðið verði í h-lið 5. gr. nánar á um að viðkomandi fjárfesting verði, að loknu fjárfestingarverkefninu, að lágmarki til tíu ára í starfrækslu á viðkomandi svæði á Íslandi. Til nánari skýringa felst í þessu sú viðbót að það er að loknu fjárfestingarverkefni sem þessi tíu ár hefjast og að nýfjárfestingin þarf að vera í starfrækslu á því svæði sem var grundvöllur þess að veitt var byggðaaðstoð til fjárfestingarverkefnisins.
    Nefndin vék einnig að því skilyrði i-liðar 5. gr. að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur megi ekki teljast óæskileg í umhverfislegu tilliti. Þó að ekki sé með þessu orðalagi um að ræða ríkari kröfu en gerð er samkvæmt núgildandi landslögum almennt til nýfjárfestingarverkefna og sambærilegt ákvæði sé að finna í erlendri löggjöf telur nefndin rétt að skýra ákvæðið nánar með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi. Nefndin leggur því til breytingartillögu þess efnis að vísað sé til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög á sviði umhverfisréttar. Nefndin ræddi einnig mikilvægi þess að þau félög sem njóta muni ívilnunar brjóti ekki gegn almennri siðferðisvitund almennings með starfsemi sinni. Þótti nefndinni rétt að árétta þetta í breytingartillögu sinni.
    Talsvert var rætt í nefndinni um það hvaða lærdóm væri rétt að draga af hruni fjármálakerfisins varðandi þau skilyrði sem umsækjendur um ívilnanir þurfi að uppfylla. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að það kynni að vera siðferðislega ámælisvert að stjórnvöld leggi til fjárhagslegar ívilnanir í þágu aðila sem tengdust náið hruni fjármálakerfisins og hafa að meira eða minna leyti valdið þjóð sinni þungum búsifjum. Nefndin telur rétt að taka tillit til viðskiptasögu umsækjenda í þessu sambandi og gerir að tillögu sinni að bætt verði nýjum tölulið við 5. gr. um skilyrði ívilnunar, sem kveður á um að eigendur að virkum eignarhlut og framkvæmdastjóri í félagi sem sækir um ívilnun þurfi að hafa óflekkað mannorð og njóta orðspors sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Nefndin telur rétt að sú þriggja manna nefnd sem mun fara yfir umsóknir um ívilnanir hafi hér til hliðsjónar ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem leggur þær skyldur á herðar Fjármálaeftirlitinu að leggja mat á orðspor eigenda fjármálafyrirtækja. Sú nefnd hefur heimild skv. 17. gr. frumvarpsins til að afla álits sérfróðra aðila um þætti sem lúta að umsóknum. Í samhengi við umræðu um orðsporsáhættu umsækjenda var rætt hvort setja ætti sem skilyrði að umsækjendur hafi ekki notið stórfelldra afskrifta sem rekja megi til gáleysislegra viðskiptahátta. Nefndin telur mikilvægt að haft sé í huga að afskriftir eru hefðbundinn hluti af nauðasamningum og þurfa því ekki að standa í sérstöku samhengi við vafasama viðskiptahætti, sbr. ákvæði laga um gjaldþrotaskipti. Hins vegar má ekki líta fram hjá því að dæmi er um að umsvifamiklir athafnamenn hafi fengið stórfelldar afskriftir við skuldameðferð fyrirtækja þrátt fyrir að hafa farið fram af miklu gáleysi í rekstri sínum og slíkt geti varpað rýrð á orðspor þeirra. Nefndin telur því eðlilegt að nefndin sem metur umsóknir um ívilnanir líti m.a. til þessa atriðis þegar orðspor umsækjanda er metið og það verði nánar útfært í reglugerð. Einnig má ætla að við mat á orðspori sé litið til fyrri starfa viðkomandi og aðkomu, eða þátttöku, í atvinnurekstri, og þá án tillits til þess hvaða formlegu stöðu viðkomandi kann að hafa gegnt. Nefndin leggur því til að við 5. gr. bætist nýr stafliður sem tiltaki skilyrði þessu til samræmis.
    Í 6. gr. er kveðið á um byggðaaðstoð en heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.–64. gr. EES-samningsins. Samkvæmt ábendingu ESA, og í samræmi við hinar leiðbeinandi reglur um byggðaaðstoð, er lagt til að í 2. mgr. 6. gr. sé tilgreint nánar hvaða landsvæði það eru sem heimilt er að veita byggðaaðstoð til samkvæmt núgildandi byggðakorti, en það eru landsbyggðarkjördæmin þrjú. Nefndin tekur undir þessar ábendingar og gerir breytingartillögu þess efnis.
    Kveðið er á um ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum í 9. gr. en talsvert var fjallað um fyrrgreind ákvæði í nefndinni. Lagt var til fyrir nefndinni að við frumvarpið bættist nýtt ákvæði sem kveður á um að fyrstu fimm árin frá því að skattskylda myndast skuli fyrirtæki sem nýtur ívilnunar vera undanþegið tekjuskatti lögaðila, en slíkt ákvæði væri hugsað sem beinn hvati sem falli til strax í upphafi fjárfestingarverkefnis. Slíkt ákvæði er að finna í nokkrum löndum, þ.m.t. Tékklandi og Kanada um ívilnun vegna nýfjárfestinga en alls ekki öllum sambærilegum ríkisaðstoðarkerfum erlendis né í meiri hluta þeirra. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að slíkt tímabundið skattfrelsi mundi auka aðdráttarafl löggjafarinnar fyrir fjárfesta en nauðsynlegt er engu síður að hafa í huga að þá væri gengið lengra í mögulegum ívilnunum en í fyrri fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið. Nefndin telur rétt að árétta að ávallt sé álitamál hverju sinni hversu miklar ívilnanir þurfi að vera í boði til að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd og mikilvægt sé að huga að jafnræði við nýlega fjárfestingarsamninga og hættu á því að skapa tvöfalt skattkerfi í landinu. Hins vegar leggur nefndin til að slík undanþága frá tekjuskatti verði skoðuð vandlega við endurskoðun laganna árið 2013, með hliðsjón af þeirri reynslu sem þá mun liggja fyrir af framkvæmd laganna.
    Fyrir nefndinni var hreyft þeim sjónarmiðum að með ákvæði 9. gr. væri verið að framselja skattlagningarvald til iðnaðarráðherra og þeirrar nefndar sem fer yfir umsóknir um ívilnun. Dregið var í efa að ákvæðið samræmdist 77. gr. stjórnarskrárinnar um að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Nefndin tekur undir með umsagnaraðila að allur vafi um hvort ákvæði frumvarpsins sé í samræmi við stjórnarskrá sé óásættanlegur. Með vísan til þessa þykir nefndinni rétt að kveðið verði með skýrum og afdráttarlausum hætti á um þann ramma sem skattlagningunni og frávikum frá henni eru settar. Í ljósi þess sem hér hefur verið reifað lagði nefndin til breytingar á ákvæðinu en þeim er ætlað að undirstrika að með frumvarpinu sé ekki verið að framselja skattlagningarvald löggjafans til framkvæmdarvaldsins og eru þau skattalegu frávik sem tilgreind eru í ákvæðinu skýrt afmörkuð í magni og tíma. Þannig eru í greininni tilteknar nákvæmlega þær skattaívilnanir sem umsækjendur eiga rétt á og uppfylli umsækjandi öll skilyrði laganna, sbr. 5. gr., öðlast hann rétt til allra þeirra frávika frá sköttum og opinberum gjöldum sem fram koma í 9. gr. Uppfylli umsækjandi skilyrði laganna nýtur hann þeirra skattaívilnana sem tilgreindar eru í 9. gr., að öðrum kosti ekki. Það er því enginn millivegur og ekkert svigrúm til samninga. Ákvörðun ráðherra getur því ekki af þessum sökum verið matskennd þar sem hann er bundinn af skýrum ákvæðum laganna. Sú breytingartillaga sem nefndin leggur til á því að taka af allan vafa um að ákvæði frumvarpsins séu í fullu samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Nefndinni þykir í þessu sambandi rétt að benda á að framsetning 9. gr., í breytingartillögu, er sambærileg og í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009 um heimild til samninga um álbræðslur á Grundartanga, Reyðarfirði og Helguvík, þar sem talin eru upp þau frávik frá sköttum og opinberum gjöldum sem gilda um viðkomandi fyrirtæki sem gerður er fjárfestingarsamningur við. Einnig er framsetning ákvæðisins sambærileg og í lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sbr. 10. gr. laganna. Í framkvæmd hefur ekki verið dregið í efa að þær skattalegu ívilnanir sem er að finna í framangreindum lögum og framsetning þeirra séu að fullu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Til frekari rökstuðnings fyrir þeirri breytingartillögu sem hér er til umfjöllunar varðandi ívilnanir tengdar sköttum telur nefndin að rétt að fram komi að iðnaðarráðuneytið sendi beiðni til lögfræðistofunnar LEX um að gefið yrði álit um það hvort framangreind breytingartillaga samræmdist ákvæðum stjórnarskrár. Fram kemur í minnisblaðinu að hinar skattalegu ívilnanir sem um ræðir í 1.–8.tölul. ákvæðisins eru skýrt afmarkaðar, tæmandi taldar og ekki matskenndar. Ákvæðið veitir þannig stjórnvöldum engar heimildir til að hrófla við þeim skattalegu ívilnunum sem þar um ræðir, hvorki almennt né í hverju og einu tilviki. Stjórnvöldum er þannig með þessu ákvæði ekki falin „ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann“ í skilningi 77. gr. stjórnarskrárinnar, heldur hefur löggjafinn kirfilega mælt fyrir um þessi atriði. Nefndin tekur heilshugar undir þetta minnisblað og áréttar einnig að finna má lagaákvæði sem ganga mun nær 77. gr. stjórnarskrár en framangreind ákvæði en enginn ágreiningur hefur verið uppi um að slík ákvæði standist ákvæði stjórnarskrár. Hér má vísa til 3. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Einnig komu fram athugasemdir varðandi 7. tölul. 9. gr. frumvarpsins, sbr. breytingartillögu, er fjallar um að skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags sem og að slík ívilnun geti staðið í tíu ár. Gerður er fyrirvari um að svo afdráttarlausar ályktanir verði dregnar af stjórnarskránni. Nefndin bendir hins vegar á nauðsyn þess að festa niður bæði tímalengd og prósentuhlutfall fráviksins með vísan til ákvæða stjórnarskrár og dómafordæma Hæstaréttar varðandi framsal á skattlagningarvaldi til framkvæmdarvaldsins, en slíku framsali eru, eins og fyrr segir, þröngar skorður settar samkvæmt stjórnarskrá. Ekki er því unnt að semja um „allt að 20% lækkun“ eða í „allt að 10 ár“ svo að dæmi sé tekið. Einnig til frekari rökstuðnings má vekja athygli á að í lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík eru ákvæði (ívilnun) um fasteignaskatt fest niður í 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna.
    Í 10. gr. er fjallað ívilnanir í tengslum við land eða lóð undir nýfjárfestingu. Rætt var um í nefndinni hvort ákvæðið nái ekki aðeins til afhendingar lands heldur einnig frágangs lóðar. Nefndin telur rétt að fram komi að framangreind ákvæði koma ekki í veg fyrir að sveitarstjórn ákveði að veita frekari ívilnanir ef þær eru á grundvelli almennra laga, en almenn regla sem gildir um alla telst ekki vera ríkisstyrkur. Sem dæmi má í þessu sambandi benda á ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 153/2006, um gatnagerðargjald, er fjallar um lækkun eða niðurfellingu gatnagerðargjalds. Það er almenn lækkunar- eða niðurfellingarheimild vegna „atvinnuuppbyggingar“ og er því ekki sértæk ríkisaðstoð í raun, heldur almenn aðgerð sem öll fyrirtæki eiga jafnan rétt á.
    Í 15. gr. er fjallað um ívilnanir vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna. Fyrir nefndinni kom fram að í 18. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnar (EB) nr. 800/2008 er sérstaklega fjallað um fjárfestingaraðstoð sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra í umhverfisvernd. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að skilningur þessi komi fram í ákvæðinu og leggur til breytingar þar að lútandi.
    Fyrir nefndinni voru þau sjónarmið lögð fram hvort vanhæfisástæður geti komið til vegna verkefna sem falla undir gildissvið frumvarpsins, þ.e. vegna aðkomu sveitarstjórna að gerð fjárfestingarsamninga. Nefndin áréttar að samkvæmt frumvarpinu er gerð fjárfestingarsamninga á hendi iðnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisins og sveitarfélaga, og fær ráðherra tillögur frá nefnd þeirri sem kveðið á um í frumvarpinu. Fram kemur í 3. mgr. 17. gr. að nefndin skuli hafa samráð við sveitarfélögin í tengslum við aðkomu þeirra að fyrirhuguðum fjárfestingarverkefnum sem staðsett eru innan umdæma þeirra. Af þessu er ljóst að frumkvæðið er frá nefnd ráðherra sem skipuð er þremur aðilum sem eru fulltrúar þriggja ráðuneyta, en ekki sveitarstjórnar. Að þessu sögðu verður ekki séð að vanhæfisástæður kunni að vera uppi vegna aðkomu sveitarstjórnar að gerð fjárfestingarsamninga. Einnig telur nefndin rétt að benda á að ákvæði frumvarpsins koma ekki í veg fyrir að sveitarstjórnir ákveði að veita frekari ívilnanir til viðkomandi fjárfestingarverkefnis ef þær eru á grundvelli almennra laga, sbr. t.d. lög nr. 153/2006, um gatnagerðargjöld.
    Nefndin leggur til í samræmi við ábendingar ESA og framangreindar leiðbeinandi reglur að tekinn verði af allur vafi um það í 20. gr. að önnur hugsanleg ríkisaðstoð sem sá aðili sem ívilnunar nýtur, vegna sama fjárfestingarverkefnis, sé talin með við mat á leyfilegri ríkisaðstoð samkvæmt lögunum, þ.e. að ekki sé unnt að safna ríkisaðstoð úr ólíkum áttum vegna sama fjárfestingarverkefnis og fara þannig yfir þau hámörk ríkisaðstoðar sem sett eru fram í lögunum.
    Í samræmi við þær kröfur sem ESA gerir til gildistíma fjárfestingarsamninga leggur nefndin til breytingartillögu þess efnis að ákvæði um gildistíma samninga um ívilnanir, sbr. 21. gr. frumvarpsins, verði að hámarki 13 ár. Lagt er til að þær skattalegar ívilnanir sem byggjast á 9. gr. skuli gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda sem kveðið er á um í 1.–8. tölul. í 2. mgr. 9. gr. myndast, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings skv. 21. gr. Þessar breytingar eru einnig í samræmi við gildisákvæði í frumvarpi til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.
    Nefndin er sammála þeim sjónarmiðum sem lögð voru fram að mikilvægt sé að tryggja upplýsingaflæði frá iðnaðarráðuneytinu til þar til bærra sveitarfélaga um framgang fjárfestingarverkefna og brot aðila sem ívilnana njóta. Nefndin leggur því til breytingartillögu þar sem kveðið er á um skyldu ráðuneytisins til að upplýsa hlutaðeigandi sveitarfélög um atvik sem geta haft áhrif á gildi samninga sem gerðir hafa verið, en leggur jafnframt til að sú skylda verði gagnkvæm, þ.e. að sveitarfélögin upplýsi ráðuneytið að sama skapi um slíkt.
    Nefndin telur einnig rétt að fram komi að þótt um sé að ræða tímabundna löggjöf til 31. desember 2013 þá halda þær ívilnanir sem veittar hafa verið gildi sínu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. júní 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Gunnar Bragi Sveinsson,


með fyrirvara.