Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 523. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1287  —  523. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Þórhall Vilhjálmsson, skrifstofustjóra lagasviðs mennta- og menningarmálaráðuneytis, Jón Vilberg Guðjónsson, lögfræðing hjá mennta og menningarmálaráðuneyti, Þorgeir Ólafsson, sérfræðing hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon fyrir hönd Árvakurs hf./Morgunblaðsins, Flóka Ásgeirsson og Hallgrím Gunnarsson frá Félagi um stafrænt frelsi, Ólöfu Benediktsdóttur og Áslaugu Agnarsdóttur frá Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Hrefnu Róbertsdóttur frá Þjóðskjalasafni, Þóru Ingólfsdóttir frá Blindrabókasafni, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrafnhildi Sigurðardóttur frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Kolbrúnu Halldórsdóttur frá Bandalagi íslenskra listamanna. Nefndinni bárust umsagnir frá Árvakri hf./Morgunblaðinu, Blindrabókasafni Íslands, Bókasafni Reykjanesbæjar, Félagi um skjalastjórn, Félagi um stafrænt frelsi, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Myndstefi, Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna, STEF – Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er um að ræða lið í heildarendurskoðun laganna sem á að ljúka árið 2012. Frumvarpið varðar tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu 2001/29/EB, tilskipun um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB og tilskipun um þjónustu á innri markaðinum 2006/123/EB. Meðal annars eru lagðar til breytingar á takmörkunum höfundaréttar vegna eintakagerðar í öryggis- og varðveisluskyni, söfnum eru veittar heimildir til að veita aðgang að verkum á athafnasvæði sínu með þar til gerðum búnaði, samningsumboðum rétthafasamtaka vegna ljósritunar á þann veg að þau nái jafnt til erlendra höfunda sem íslenskra og rýmkaðar eru takmarkanir á höfundarétti skv. 19. gr. í þágu notenda sem geta ekki nýtt sér venjulegt prentað mál. Þá eru lagðar til breytingar á VII. kafla laganna sem inniheldur refsiákvæði, ákvæði um bætur, ákærureglur o.fl. Er þar fyrst að nefna að viðurkenning mennta- og menningarmálaráðuneytisins á samningsumboði og fyrirsvari höfundaréttarsamtaka skal fara nú fram eftir sérstökum málsmeðferðarreglum. Einnig er sett inn sérstakt hlutdeildarákvæði í 54. gr. laganna. Þá er einnig lagt til að sett verði ákvæði í lögin er varða afhendingu eða eyðileggingu eintaka, tækja og muna sem tengjast broti, sérstaka bótareglu vegna höfundaréttarbrota, upplýsingarétt brotaþola vegna meðferðar máls og rétt brotaþola til opinberrar birtingar dómsniðurstöðu. Enn fremur kveður frumvarpið á um að inn í lögin komi nýjar greinar sem fjalla um málsaðild samtaka vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa og um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem eiga þátt í höfundaréttarbrotum á netinu.
    Í umsögnum komu fram ábendingar þess efnis að ekki væri rétt að takmarka efnisgrein 2. gr. frumvarpsins með þeim hætti sem gert er, þ.e. að skilyrða heimild til að veita aðgang að birtum verkum á þar til gerðum búnaði til notkunar á athafnasvæði þeirra við einstaklinga sem stunda rannsóknir eða nám. Ljóst er að ef fallist verður að framangreind sjónarmið er verið að víkka til muna undanþáguákvæði tilskipunar 2001/29/EB, sbr. n-lið 3. mgr. 5. gr. hennar, sem 2. gr. frumvarpsins byggist á. Yrði þar með gengið á rétt höfunda á grundvelli 2. og 3. gr. tilskipunarinnar. Slík breyting rímar því ekki við ákvæði hennar. Enn fremur var bent á að ákvæði 2. gr. frumvarpsins væri of víðtækt að teknu tilliti til n-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB en samkvæmt liðnum takmarkast heimildin við verk sem ekki eru háð kaup- eða nytjaleyfisskilmálum. Það er álit nefndarinnar að rétt sé að tilgreina slíkt í ákvæðinu til að auka samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Með því sé jafnframt tryggt að kaup- og leyfissamningar við þriðja aðila falli ekki undir undanþáguákvæði 2. gr. frumvarpsins.
    Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að ákvæði 11. gr. frumvarpsins feli í sér of mikið inngrip í eignarrétt manna. Greinin kveður á um að heimilt sé að ákveða í dómi að eintök verka sem brjóta í bága við ákvæði laganna og efni, áhöld og aðrir munir sem varða undirbúning eða framkvæmd brots séu afhent brotaþola, eyðilögð, fjarlægð af markaði eða tekin úr dreifingu varanlega eða tímabundið, eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota, sbr. 1. og 2. mgr. greinarinnar. Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram að dómari skuli við ákvörðun sína á grundvelli 1. og 2. mgr. gæta þess að samræmi sé milli umfangs brots og þeirra ráðstafana sem kveðið er á um og taka skuli hæfilegt tillit til hagsmuna þriðja manns, þar á meðal í þeim tilvikum þegar eigandi munar veit ekki um brot. Meiri hlutinn telur að rík þörf sé fyrir að hafa í lögum ákvæði um aðgerðir til að koma í veg fyrir misnotkun á eintökum verka sem gerð hafa verið með ólögmætum hætti og þeim efnum, áhöldum og öðrum munum sem notuð hafa verið við undirbúning og gerð hins ólöglega. Meiri hlutinn áréttar að þau inngrip sem greinin felur í sér eru ávallt háð ákvörðun dómara sem við beitingu ákvæðisins ber að líta til sjónarmiða um meðalhóf. Það er álit meiri hlutans að greinin feli í sér réttlætanlega takmörkun á eignarrétti manna enda sé því einungis beitt með ákvörðun dómara að teknu tilliti til umfangs brots, hagsmuna þriðja manns og meðalhófs.
    Í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var gerð athugasemd við hlutdeildarákvæði frumvarpsins. Þar kemur fram að samtök rétthafa hafa á tíðum haft uppi kröfur á hendur sveitarfélögum vegna viðburða í húsakynnum þeirra. Enn fremur segir í umsögn þeirra: „Fram kemur í gögnum frá STEF að þáttur hússins sé hlutdeild í refsiverðu broti á rétti höfundar og að þar komi til ákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga.“ Nefndin áréttar að tilkoma sérstaks hlutdeildarákvæðis í lögin ætti í raun ekki að breyta núverandi stöðu gildandi laga enda er ávallt hægt að beita ákvæðum hegningarlaga um hlutdeild með lögjöfnun. Aftur á móti er skýrara að hafa sérstakt hlutdeildarákvæði í sérlögum og tryggir að hægt sé að refsa á grundvelli þess að uppfylltum saknæmisskilyrðum, þ.e. ásetningi eða stórfelldu gáleysi í tilvikum 54. gr. laganna og minni háttar gáleysi þegar um er að ræða bótaábyrgð, sbr. 56. gr. laganna. Hvað varðar athugasemd Sambands íslenskra sveitarfélaga þá áréttar nefndin þann skilning sinn að ekki sé um hlutdeild í broti að ræða í þeim tilvikum þegar sveitarfélög, kirkjur og aðrir opinberir aðilar láta aðstöðu sína í té fyrir samkomur eða listflutning. Það sé á ábyrgð þess sem fær húsnæðið til afnota að það sem þar fer fram sé í samræmi við gildandi löggjöf. Bendir nefndin á að í ákvæðum laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, er það til að mynda leyfishafi tímabundins áfengisleyfis sem telst brotlegur veiti hann eða selji áfengi án tilskilins leyfis, sbr. 18. og 22. gr. laganna.
    Nokkur umræða var innan nefndarinnar um stafrænt frelsi og takmarkanir höfundaréttarins á því. Gildandi löggjöf nær ekki yfir þær öru og miklu breytingar sem hafa orðið á tækniþróun undanfarin ár. Það er álit nefndarinnar að heildarskoðun á höfundalögum sé nauðsynleg og fyrir löngu orðin tímabær. Við endurskoðun löggjafarinnar verði að gæta jafnvægis á milli hagsmuna höfunda, notenda höfundaréttarvarins efnis sem og framþróunar í upplýsingatækni. Það er einnig álit meiri hlutans að endurskoða þurfi lög um bókasöfn og lög um Blindrabókasafn og að við endurskoðun laganna skuli gætt að jöfnu aðgengi allra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir orðunum „birtum verkum“ í 2. gr. komi: sem ekki eru háð kaup- eða leyfissamningum.

    Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Margrét Tryggvadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 9. júní 2010.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Lilja Mósesdóttir.


Óli Björn Kárason.


Skúli Helgason.



Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.