Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1290  —  556. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Persónuvernd, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Önnur breytingin snýr að því að færa 1. mgr. 1. gr. í fyrra horf en við lagabreytingu 2006 virðist seinni hluti málsgreinarinnar hafa fallið brott. Í ljósi þess að með lögum nr. 108/2006 var ekki ætlunin að breyta gildissviði laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum að þessu leyti er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt í fyrra horf. Þá er lögð til breyting á 3. gr. þannig að ákvæðið samræmist betur túlkun Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins á 3. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti.
    Nefndin hefur fjallað um málið en sú breyting sem lögð er til á 3. gr. laganna er tilkomin vegna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 375/2004 sem einnig var tilefni til athugasemda af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA. Málið varðaði vangreidd laun félags til starfsmanns en aðilaskipti höfðu orðið að félaginu. Í dómi sínum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að réttur starfsmanns til ógreiddra launa sem komu til fyrir aðilaskipti yrði ekki byggður á lögunum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þannig lægi ábyrgðin á vangreiddum launum sem komu til fyrir framsalið eingöngu á herðum framseljanda enda þótt sýnt hefði verið fram á að aðilaskipti hefðu orðið að rekstri félagsins í skilningi laganna. Þessi túlkun samrýmist ekki 3. gr. tilskipunarinnar, dómafordæmum Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins eða þeim sjónarmiðum sem viðhöfð voru við innleiðingu tilskipunarinnar þar sem gert var ráð fyrir að réttindi og skyldur á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands færðust yfir til framsalshafa. Ljóst er því að breytingin er nauðsynleg til að tryggja rétt starfsmanna við aðilaskipti að félögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ögmundur Jónasson, Ásmundur Einar Daðason og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. júní 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Margrét Pétursdóttir.



Guðbjartur Hannesson.


Óli Björn Kárason.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.