Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 601. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1328  —  601. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka.

     1.      Hverjir eru 50 stærstu kröfuhafar Glitnis og Kaupþings og þar með 50 stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka miðað við nýjustu stöðu?
    Ráðuneytið sendi fyrirspurn þessa til Fjármálaeftirlitsins. Svar barst 3. júní sl., þar sem fram kom að eftirlitið teldi sig ekki hafa heimildir til að gefa upplýsingar um 50 stærstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings vegna ákvæða laga um þagnarskyldu.
    Þar sem fjármálaráðuneytið er kröfuhafi í ofangreindum bönkum fyrir hönd ríkissjóðs hefur það aðgang að kröfuhafaskránni. Fjármálaráðuneytið veitti efnahags- og viðskiptaráðuneytinu heimild til að taka við upplýsingum um kröfuhafa Glitnis og Kaupþings og sendu slitastjórnir bankanna upplýsingarnar á þeim grunni.
    Í þessu sambandi verður að benda á að kröfuhafar eru ekki beinir eigendur Íslandsbanka og Arion banka og ekki heldur beinir eigendur þrotabúa gömlu bankanna, heldur eiga þeir einungis kröfu í viðkomandi bú.
    Eignarhald nýju bankanna er í höndum sérstakra eignarhaldsfélaga Glitnis annars vegar og Kaupþings hins vegar sem lúta stjórnum sem eru að meiri hluta skipaðar stjórnarmönnum óháðum gömlu bönkunum, stórum kröfuhöfum og Íslandsbanka og Arion banka. Skilanefndum var gefinn kostur á að tilnefna einn fulltrúa sinn í stjórn eignarhaldsfélagsins, en hinir tveir, þ.m.t. stjórnarformaðurinn, skyldu vera óháður. Útnefning allra stjórnarmanna eignarhaldsfélaganna er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og skulu þeir uppfylla kröfur þess, m.a. um þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi.
    Stjórn eignarhaldsfélaganna fer með atkvæðisrétt þann sem Glitnir og Kaupþing öðlast í Íslandsbanka og Arion og útnefnir stjórnarmenn bankans. Skilyrði Fjármálaeftirlitsins kveða einnig á um það að af stjórnarmönnum bankans sjálfs skuli skilanefnd aðeins hafa einn fulltrúa, en aðrir skuli vera óháðir, þ.m.t. stjórnarformaður.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar má lýsa aðkomu kröfuhafa að Arion og Íslandsbanka með eftirfarandi hætti:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Stærstu kröfuhafar Glitnis.
    Í bréfi Glitnis kemur fram eftirfarandi:
    Fjármálaráðuneytið hefur lýst kröfu í Glitni banka hf. fyrir hönd ríkissjóðs og á því lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá aðgang að skjölum búsins. Með vísan til 80 gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, er umbeðinn listi sendur ráðuneytinu. Í ákvæðinu kemur fram að „sá sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta getur krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoðunar og eftirrit af þeim“. Þar sem aðrir en kröfuhafar Glitnis banka hf. hafa ekki aðgang að gögnum búsins er dreifing listans á ábyrgð viðtakanda.
    Meðfylgjandi eru tvær útgáfur af fyrrgreindum lista eins og hann liggur fyrir í dag. Á fyrri síðunni er listi yfir 50 stærstu kröfuhafa miðað við heildarkröfuskrá án nokkurra leiðréttinga. Á síðari síðunni er listi yfir 50 stærstu kröfuhafa þar sem kröfuskráin hefur verið leiðrétt með eftirfarandi liðum:
     *      Þekktar tvílýstar kröfur hafa verið dregnar frá kröfuskránni.
     *      Kröfur frá dótturfélagi Glitnis í Luxembourg og SPV-um í eigu Glitnis, Haf Funding Ltd. og Holt Funding Ltd. hafa verið dregnar frá kröfuskránni, en ekki er talið að þessar kröfur muni koma til greiðslu.
     *      Slitastjórn hefur hafnað víkjandi skuldabréfum í flokki almennra krafna og hefur kröfuskráin verið lækkuð samsvarandi.
     *      Glitnir á kröfur í bú Landsbanka Íslands, Kaupþings, Straums og Sparisjóðabankans. Gerð verður krafa um skuldajöfnun á móti kröfum þessara aðila. Kröfuskráin hefur verið lækkuð sem nemur áætlaðri skuldajöfnunarkröfu Glitnis .
    Í ljósi þess að slitastjórn Glitnis hefur einungis tekið afstöðu til um 50% krafna og jafnframt í ljósi þess að fjölmörg mótmæli hafa borist við afstöðu slitastjórnar verður að líta á meðfylgjandi lista með fyrirvörum. Kröfuskráin getur því breyst í veigamiklum atriðum.
    Þá er rétt að benda á að fjölmörg mál sem ágreiningur er um mun fara til úrskurðar hjá dómstólum. M.a. má benda á að ágreiningur er um kröfur Exista hf., Skipta hf. og Kjalar hf. svo og skaðabótakröfu Íslandsbanka hf., en allar þessar kröfur eru á listanum yfir 50 stærstu kröfuhafa. Því gæti listi 50 stærstu kröfuhafa breyst eftir sáttafundi og/eða meðferð dómstóla.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Stærstu kröfuhafar Kaupþings.
    Í bréfi Kaupþings kemur fram eftirfarandi:
    Vísað er til fyrirspurnar um kröfuhafa Kaupþings banka hf. og hver aðkoma kröfuhafa Kaupþings að Arion banka sé.

Hverjir eru kröfuhafar Kaupþings banka?
    Alls var rúmlega 28.000 kröfum frá 119 löndum lýst í Kaupþing banka. Meðal stærstu kröfuhafa eru innlendar og erlendar bankastofnanir, auk ýmissa erlendra fjárfestingarsjóða.
    Lög um gjaldþrotaskipti nr 21/1991 heimila ekki að skrá yfir lýstar kröfur sé birt opinberlega og því er hún eingöngu aðgengileg á lokuðu vefsvæði fyrir kröfuhafa. Einungis hefur verið tekin afstaða til hluta krafna, flestum þeirra verið hafnað af slitastjórn og ágreiningur ríkir um stærstan hluta krafna. Það er markmið slitastjórna að ljúka yfirferð og taka afstöðu til lýstra krafna á þessu ári og í framhaldinu verður haldið áfram að leysa úr ágreiningsmálum sem upp kunna að koma. Lýstar kröfur samkvæmt kröfuskrá námu rúmlega 7.000 milljörðum kr. en skuldir samkvæmt efnahagsreikningi námu rúmum 4.000 milljörðum kr. Því er ljóst að kröfuskráin á eftir að taka miklum breytingum og þangað til er listi yfir kröfuhafa ekki endanlegur og túlkanir á kröfuskrá geta því verið mjög villandi.
    Fjármálaráðuneytið er fyrir hönd íslenska ríkisins kröfuhafi í Kaupþingi banka og hefur því aðgang að kröfuskránni og öðrum upplýsingum um meðferð krafna á vefsvæði kröfuhafa. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu hefur fjármálaráðuneytið veitt viðskiptaráðuneytinu aðgang að kröfuskrá Kaupþings banka. Að ósk þessara ráðuneyta hefur slitastjórn Kaupþings tekið saman lista yfir 50 stærstu kröfuhafa samkvæmt kröfuhafaskrá bankans flokkaðan eftir afstöðu. Slitastjórn tekur fram að listinn er ekki endanlegur og ljóst er að hann mun taka breytingum bæði vegna afgreiðslu slitastjórnar á kröfum, úrlausnar ágreiningsmála bæði innan og utan dómstóla sem og vegna mögulegra viðskipta með kröfur í Kaupþing banka.
    Þar sem gjaldþrotalög heimila ekki aðgang annarra en kröfuhafa að kröfuskránni er öll frekari dreifing skrárinnar, eða upplýsingar sem á henni eru, alfarið á ábyrgð ráðuneytanna.

Hver er aðkoma kröfuhafa Kaupþings að Arion banka?
    Íslenska ríkið er 13% eigandi að Arion banka og Kaupskil ehf., dótturfélag í 100% eigu Kaupþings banka, á 87% hlut í Arion banka. Meðan á slitameðferð stendur eru kröfuhafar ekki eigendur Arion banka frekar en annara eigna Kaupþings. Það hvort kröfuhafar eignist Arion banka á einhverjum tímapunkti veltur á því hvernig lokum slitameðferðar verður háttað. Aðkoma kröfuhafa að Arion banka í dag er því engin.
    Það er mikilvægt að hafa í huga að eigendur Arion banka, sem og annarra fjármálastofnana á Íslandi, jafnt nú sem í framtíðinni, munu þurfa að standast skoðun fjármálaeftirlits og samkeppniseftirlits og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til eigenda viðskiptabanka á Íslandi. Þegar Kaupþingi var heimilað að eiga 87% hlut í Arion banka í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, var skýrt að bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið líta svo á að komi til þess að kröfuhafar eða aðrir taki við eignarhaldi félagsins þurfi á ný að fara fram mat á hæfi slíkra aðila til að eiga Arion banka, bæði á grundvelli löggjafar á sviði samkeppnismála og fjármálastarfsemi.
    Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fer dótturfélag Kaupþings, Kaupskil ehf., með eignarhlut Kaupþings. Meiri hluti stjórnarmanna í Kaupskilum er óháður skilanefnd og einstökum kröfuhöfum. Stjórn Kaupskila skipar fimm af sex fulltrúum í stjórn Arion banka og Bankasýsla ríkisins einn fulltrúa. Meirihluti stjórnar Arion banka er óháður skilanefnd og einstökum kröfuhöfum, þ.m.t. stjórnarformaðurinn.
    Heimild Kaupskila til að fara með eignarhlut í Arion banka er háð skilyrðum fjármálaeftirlitsins sem og samkeppniseftirlitsins.

Samþykkt Upphæð
Deutsche Bank Trust Company Americas 578.052.048.121
Seðlabanki Íslands 93.076.500.000
Arion Banki hf. 11.787.355.197
Kjalar hf. 7.257.786.121
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) 1.110.773.576
Commerzbank AG 137.402.911
Deutsche Trustee Company Limited 3.413.188
Samtals 691.425.279.114
Afstöðu frestað Upphæð
Seðlabanki Íslands 249.202.039.242
York Global Finance Offshore BDH. C/o York Capital M. 157.114.210.049
Kaupthing Singer & Friedlander Limited (in Administration) 136.940.857.713
Kaupthing Mortages Institutional Investor Fund (KMIIF) 115.773.471.754
Thingvellir Fund, L.L.C 100.473.849.290
ACMO S. á.r.l. 97.373.831.491
Landsbanki Íslands hf 94.211.384.460
Potter Netherlands Coöperatief U.A. 88.734.051.633
BNAP, L.L.C. 86.529.222.422
Burlington Loan Management Limited 79.543.478.976
Bayerische Landesbank 72.696.018.948
Deutsche Trustee Company Limited 67.568.676.100
Arion Banki hf. 52.018.147.340
Deutsche Bank AG, London Branch 48.126.866.534
Highfields Capital lll L.P 47.443.274.245
Sparisjóðabanki Íslands hf. 46.402.370.578
NBI hf 42.991.477.565
Drómi hf. 40.941.828.194
Dekabank Deutsche Girozentrale 36.927.681.517
Credit Suisse International 36.920.702.778
Goldman Sachs International 35.250.336.450
Silver Point Offshore Master Fund, L.P. 34.286.267.091
Kaupthing Capital Partners II K, LP 32.593.541.793
Þb. Baugs Group hf. 32.236.398.042
North Run Master Fund, LP 31.304.053.464
Mutua P. Social del Personal de Renault Espana M.P.S 30.867.248.973
Commerzbank AG. 30.849.957.400
Geysir Advisors, L.L.C. 28.503.316.240
Exista hf. 27.925.852.787
Western Asset Management Company Pty. Ltd 26.070.097.496
Highfields Capital II LP 25.939.405.195
Deutsche Bank AG, London 25.188.106.256
Raiffeisen Zentralbank Österreich AG 21.950.030.454
ARROWGRASS MASTER FUND LTD 19.708.717.242
Silfra Fund, L.L.C 15.455.147.339
Centerbridge Credit Partners Master. L.P. 15.361.503.333


     2.      Liggur fyrir mat á hæfi þessara hluthafa til þess að fara með ráðandi hlut í bönkunum tveimur?
    Ráðuneytinu barst eftirfarandi svar frá Fjármálaeftirlitinu við þessari spurningu:
    „Vakin er athygli á því að þann 30. desember sl. veitti Fjármálaeftirlitið ISB Holding ehf. leyfi til að fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka hf. fyrir hönd Glitnis banka hf. Leyfið var veitt í kjölfar samnings Glitnis banka hf. og fjármálaráðuneytisins, hinn 13. september sl., þess efnis að Glitnir banki hf. gæti eignast 95% hlut í Íslandsbanka hf. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Afstaða Fjármálaeftirlitsins til þess hvort Glitnir banki hf., sem er í greiðslustöðvun og slitameðferð, væri hæfur til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki var neikvæð. Fjármálaeftirlitið tók þó fram að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem leiddu til samkomulagsins, og vegna þess að það felur í sér sátt á milli aðilanna um rekstur Íslandsbanka hf. sem ætla má að stuðli að stöðugleika á fjármálamarkaði, kæmi til álita að kanna hvort umsækjandi gæti gripið til ráðstafana sem dygðu til að takmarka óæskileg áhrif eignarhaldsins, sbr. 43. gr. ffl. Niðurstaðan var sú að veita leyfið með skilyrðum um afgerandi ráðstafanir er lúta að fjárhagslegum styrk umsækjanda, eignarhaldi bankans, eftirlitshagsmunum og stefnumiðum eigenda.
    Sambærileg ákvörðun var tekin þann 8. janúar sl. þegar Fjármálaeftirlitið veitti Kaupskilum ehf. leyfi til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf.
    Nánari upplýsingar um framangreindar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins má finna í fréttatilkynningum á vefsíðu eftirlitsins: www.fme.is.
    Líkt og að framan greinir hafa slitastjórnir Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. ekki tekið endanlega afstöðu til allra krafna sem lýst hefur verið í þrotabú hinna föllnu banka. Þegar slitastjórnirnar hafa tekið endanlega afstöðu til allra krafna sem gerðar hafa verið í búin liggur fyrst fyrir hvernig verðmæti búanna skiptist niður á einstaka kröfueigendur. Geta þá einstakir kröfueigendur mögulega talist eigendur virkra eignarhluta í annaðhvort Arion banka hf. eða Íslandsbanka hf. í skilningi VI. kafla ffl. og hvílir þá sú skylda á þeim aðilum að skila skriflegri umsókn til Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi. Fjármálaeftirlitið mun þá leggja mat á hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis.“