Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 562. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1367  —  562. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um umboðsmann skuldara.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



     1.      Við 1. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Embætti umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem umboðsmaður skuldara veitir forstöðu. Stofnunin, sem heyrir undir félags- og tryggingamálaráðherra, skal gæta hagsmuna og réttinda skuldara svo sem nánar er kveðið á um í lögum.
                  b.      Í stað d- og e-liðar 2. mgr. komi þrír stafliðir, svohljóðandi:
                      d.      útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega,
                      e.      taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds,
                      f.      gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Fyrri málsliður 1. mgr. orðist svo: Ráðherra skipar umboðsmann skuldara til fimm ára í senn sem fer með forstöðu stofnunarinnar og ber faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri hennar.
                  b.      Við 3. mgr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef um vinnslu persónuupplýsinga er að ræða skal vinnslan fullnægja skilyrðum 8. og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig skulu umboðsmaður skuldara og vinnsluaðili gera með sér vinnslusamning í samræmi við 13. gr. sömu laga.
                  c.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 4. mgr. komi: æðra stjórnvalds.
     3.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Upplýsingasöfnun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg og í samræmi við samþykki skuldara fyrir vinnslunni og fylgt sé ákvæðum 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða.
     4.      Við 5. gr.
                  a.      Á undan orðunum „skulu standa straum af“ í 1. mgr. komi: Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir.
                  b.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: og skal umboðsmaður skuldara skal gera gjaldskyldum aðilum grein fyrir álagningunni með bréfi.
                  c.      5. mgr. orðist svo:
                      Fyrir 1. júní ár hvert skal umboðsmaður skuldara gera drög að áætlun um kostnað við starfsemi sína næsta almanaksár. Drög að áætlun skal senda gjaldskyldum aðilum skv. 1. mgr. til umsagnar og skulu þeir hafa mánaðarfrest til að skila inn umsögnum. Að fengnum umsögnum skal umboðsmaður skuldara gera áætlun og leggja hana fyrir ráðherra til samþykktar. Senda skal umsagnir til ráðherra með áætluninni. Samþykki ráðherra áætlunina óbreytta skal miða álagningu gjaldsins við hana. Telji ráðherra að breyta skuli álagningu gjalds frá áætlun skal veita gjaldskyldum aðilum og umboðsmanni skuldara tveggja vikna umsagnarfrest um tillögur ráðherra. Að þeim tíma loknum skal ráðherra taka ákvörðun um álagningu gjalds. Miða skal við að gjaldskyldir aðilar greiði gjaldið í hlutföllum við umfang útlánastarfsemi sinnar.
                  d.      Í stað orðsins „eftirlitskostnaðar“ í 7. mgr. komi: gjaldsins.
     5.      Á eftir 1. málsl. 6. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni skulu vera á samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ekki persónugreinanlegir.
     6.      7. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2010. Þó öðlast ákvæði til bráðabirgða II þegar gildi.
     7.      Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo:
                 Við gildistöku laga þessara skal starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna boðið starf hjá umboðsmanni skuldara. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá umboðsmanni skuldara fer eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.
     8.      Á eftir ákvæði til bráðabirgða I komi nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Félags- og tryggingamálaráðherra skal þegar skipa þriggja manna starfshóp sem undirbúa skal gildistöku laga þessara, m.a. bjóða starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna annað starf hjá umboðsmanni skuldara frá 1. ágúst 2010, sbr. ákvæði til bráðabirgða I. Starfshópurinn skal eftir skipan umboðsmanns skuldara vera honum til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið.