Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1442  —  341. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Borist hafa umsagnir frá Akureyrarbæ, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Háskólanum á Akureyri, Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál, Siglingastofnun Íslands, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun og utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti að vinna ásamt Háskólanum á Akureyri að undirbúningi árlegrar ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Jafnframt verði leitað alþjóðlegs samstarfs og stuðnings við verkefnið.
    Í greinargerð með tillögunni er greint frá heimskautaráðstefnum sem haldnar voru á Akureyri árin 2008 og 2009 og lögð áhersla á að árlegt ráðstefnuhald muni treysta Akureyri í sessi á heimsvísu í umræðunni um stöðu heimskautasvæðanna. Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir gagnvart tillögunni og því að efla Akureyri sem miðstöð norðurslóðasamstarfs hér á landi. Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál bendir á að hafa beri núverandi efnahagsástand í huga við afgreiðslu málsins og í umsögn utanríkisráðuneytis segir að ráðuneytið sé rekið undir ströngustu kröfum um niðurskurð og sparnað en að það sé engu síður reiðubúið að kanna grundvöll árlegrar ráðstefnu um heimskautasvæðin. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og undirstrikar jafnframt að fjárhagslegur stuðningur ráðuneyta og stofnana ríkisins við reglulegt ráðstefnuhald á Akureyri um norðurslóðamál verður að ráðast af fjárhagslegu svigrúmi ráðuneytanna hverju sinni.
    Nefndin leggur áherslu á að norðurslóðamál séu eitt af forgangsverkefnum íslenskrar utanríkisþjónustu eins og kom skýrt fram í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis í maí sl. Nefndin hefur kynnt sér hið metnaðarfulla starf sem unnið er á vegum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri á sviði norðurslóðamála og telur að árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna sé rökrétt framhald þar á og mikilvægur stuðningur við það starf.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 25. ágúst 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Margrét Tryggvadóttir.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Ögmundur Jónasson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.