Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 585. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1469  —  585. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingum (Schengen, framfærsla o.fl.).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlaugu Jónasdóttur og Rósu Dögg Flosadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Kristján Sturluson og Atla Viðar Thorstensen frá Rauða krossi Íslands, Hreiðar Eiríksson og Þorstein Gunnarsson frá Útlendingastofnun og Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Öldu Hrönn Jóhannsdóttur frá lögreglunni á Suðurnesjum.
    Nefndinni bárust umsagnir fá Alþýðusambandi Íslands, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og Útlendingastofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði heimilað að setja nánari reglur um þátttöku Íslands í samstarfi á ytri landamærum Schengen-ríkjanna. Þá er lagt til að einungis fjárhagsaðstoð ríkis eða sveitarfélaga teljist ekki til tryggrar framfærslu við mat á því hvort skilyrði eru til að veita dvalar- eða búsetuleyfi hér á landi. Þar með falla niður ákvæði um að atvinnuleysisbætur og greiðslur frá almannatryggingum komi í veg fyrir að útlendingur teljist hafa trygga framfærslu. Nefndin telur að sú breyting sé sanngjörn þar sem réttur til atvinnuleysisbóta og almannatrygginga er áunninn réttur með þátttöku á vinnumarkaði. Þá tekur nefndin einnig fram að reglan er í samræmi við ákvæði laga um íslenskan ríkisborgararétt.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að ákvörðun um brottvísun EES-borgara sem skráð hefur búsetu sína hér á landi í þjóðskrá og dvalist hefur í landinu í þrjá mánuði eða lengur verði ekki framkvæmanleg fyrr en ákvörðunin er endanleg, með öðrum orðum er réttaráhrifum ákvörðunarinnar frestað.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið samhliða tveimur öðrum frumvörpum sem einnig er ætlað að breyta lögum um útlendinga og eru á þskj. 894, 507. mál, og þskj. 896, 509. mál. Í fyrrgreinda frumvarpinu eru lagðar til réttarbætur fyrir flóttamenn og hælisleitendur en í því síðara eru lagðar til reglur um dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals.
    Nefndin leggur áherslu á að með frumvörpunum er verið að leggja til mikilvægar réttarbætur í þessum málaflokki og samræma lögin alþjóðlegum samningum og skuldbindingum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
         Árni Þór Sigurðsson og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 31. ágúst 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Mörður Árnason.


Birgir Ármannsson.



Ögmundur Jónasson.


Vigdís Hauksdóttir.


Ólöf Nordal.



Þráinn Bertelsson.