Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1503  —  707. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um málshöfðun gegn ráðherrum.

Flm.: Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir.



    Alþingi ályktar skv. 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, sbr. 13. gr. laga um landsdóm, nr. 3/1963, að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn eftirtöldum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslu sinni á árinu 2008:
     a.      Fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Geir Hilmari Haarde, kt. 080451-4749, til heimilis að Granaskjóli 20, Reykjavík.
     b.      Fyrrverandi utanríkisráðherra og oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, kt. 311254-4809, til heimilis að Nesvegi 76, Reykjavík.
     c.      Fyrrverandi fjármálaráðherra, Árna Matthíasi Mathiesen, kt. 021058-4409, til heimilis að Lindarbergi 18, Hafnarfirði.

Kæruatriði.

    A. Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

I.


    Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
    Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
    Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
    Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
    Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.
    Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

II.

    Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
    Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

    B. Málið er höfðað á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til þrautavara fyrir brot gegn 141. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

I.


    Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem utanríkisráðherra og oddviti Samfylkingarinnar í ríkisstjórn andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem henni var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir eða gera tillögur til annarra ráðherra um aðgerðir, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
    Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
    Fyrir að hafa vanrækt að beita sér fyrir virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
    Fyrir að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
    Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til þrautavara við 141. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

II.


    Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hennar, Geirs H. Haarde, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hennar og Geirs H. Haarde með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Utanríkisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hún ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
    Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

    C. Málið er höfðað á hendur Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til þrautavara fyrir brot gegn 141. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

I.


    Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem fjármálaráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
    Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
    Fyrir að hafa ekki beitt sér fyrir virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
    Fyrir að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
    Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til þrautavara við 141. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

II.


    Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Fjármálaráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
    Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

    Alþingi gerir þær kröfur að fyrrnefndir ráðherrar verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar að mati landsdóms, sbr. 46. gr. laga nr. 3/1963.
    Tillögu til þingsályktunar þessarar fylgdi greinargerð og er vísað til hennar og 7. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um nánari skýringar og rök fyrir þingsályktun þessari.

Greinargerð.


    Flutningsmenn taka undir niðurstöður í greinargerð með þingsályktunartillögu Atla Gíslasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Eyglóar Harðardóttur og Birgittu Jónsdóttur að því er varðar málshöfðun gegn framangreindum þremur fyrrverandi ráðherrum. Um rökstuðning með því vísast til þeirrar tillögu til þingsályktunar. Flutningsmenn geta ekki fallist á rökstuðning og niðurstöður, í þeirri tillögu, er varða Björgvin Guðna Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, með eftirfarandi rökstuðningi:

Niðurstaða varðandi fyrrverandi viðskiptaráðherra.
    Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að viðskiptaráðherra hafi sýnt af sér vanrækslu í merkingu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008.
    Flutningsmenn taka undir það mat rannsóknarnefndar Alþingis að refsiábyrgð fyrrverandi ráðherra verði að meta óháð niðurstöðum hennar. Rannsóknarnefnd Alþingis lagði mat á hátterni ráðherra með hliðsjón af verknaðarlýsingum ráðherraábyrgðarlaga en byggði ekki á refsiskilyrðum þeirra. Þarf því nú bæði að taka mið af verknaðarlýsingum og refsiskilyrðum ráðherraábyrgðarlaga.
    Eins og kemur fram í kafla um saknæmi í greinargerð með tillögu Atla Gíslasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Eyglóar Harðardóttur og Birgittu Jónsdóttur er í 2. gr. laga nr. 4/1963 og 141. gr. hegningarlaga lögfest sérstakt lágmarksrefsiskilyrði sem er stórfellt gáleysi. Mörk stórfellds gáleysis og gáleysis eru mjög matskennd og ekki skýr efnisskil á milli þeirra. Leiki vafi á um mörkin ætti við málsmeðferð að láta ráðherra njóta vafans, sbr. til hliðsjónar 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
    Í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde fóru oddvitar stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, inn á valdsvið annarra ráðherra, stýrðu miðlun upplýsinga og höfðu verkstjórn og verkaskiptingu með höndum. Þannig voru samskipti um efnahagsmál og málefni íslensku bankanna takmörkuð við hóp þriggja ráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. 1
    Af þessari skipan leiddi að ekki var samræmi á milli lögboðins valds og raunverulegs valds ráðherra. Þessu til stuðnings skal bent á að viðskiptaráðherra, sem fór með málefni bankanna, tók ekki þátt í fundi með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra 7. febrúar 2008 þar sem formaður bankastjórnar bankans dró upp verulega dökka mynd af stöðu bankanna. Hann fékk ekki heldur upplýsingar um útstreymi af Icesave-reikningum í Bretlandi í lok mars sama ár. 2 Þá hafði hann ekki vitneskju um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl þar sem settar voru fram tillögur um aðgerðir til að minnka bankakerfið. Viðskiptaráðherra undirritaði ekki yfirlýsingu sem fylgdi gjaldeyrisskiptasamningum við norræna seðlabanka 15. maí um minnkun bankakerfisins og aðgerðir í efnahagsmálum og fékk hvorki upplýsingar um tilurð hennar né forsendur. Þessu til viðbótar hafði viðskiptaráðherra ekki vitund um komu erlends sérfræðings, Andrews Gracie, á vegum Seðlabanka Íslands en hann taldi inngrip stjórnvalda nauðsynlegt til draga úr stærð bankakerfisins. Þessar og aðrar upplýsingar frá Gracie voru kynntar samráðshópi um fjármálastöðugleika og forsætisráðherra með beinum hætti án þess að þær bærust viðskiptaráðherra. 3 Þá var viðskiptaráðherra ekki viðstaddur sex fundi um efnahagsmál og málefni bankanna sem nefndir eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu ásamt fulltrúum Seðlabanka Íslands. Loks má þess geta að viðskiptaráðherra vissi hvorki af samtali formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands við bankastjóra Seðlabanka Evrópu né Seðlabanka Bretlands þar sem fram kom að erlendir bankastjórar höfðu áhyggjur af alvarlegri stöðu íslenska bankakerfisins. 4
    Útilokun viðskiptaráðherrans náði hámarki þegar utanríkisráðherra ákvað að honum yrðu ekki kynntar aðgerðir ríkisvaldsins vegna lánabeiðni Glitnis banka sunnudaginn 28. september 2008. Áhrifaleysi viðskiptaráðherra kristallast í því að 12. ágúst lagði hann fram minnisblað fyrir ríkisstjórn sem innihélt tillögur um að efla stöðugleika fjármálakerfisins. Tillaga þessi var ekki afgreidd í ríkisstjórn. Hið sama hafði verið uppi á teningnum þegar viðskiptaráðherra kynnti oddvitum stjórnarflokkanna drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta snemma árs 2008.
    Í ljósi þess sem að framan greinir verður ekki talið að fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu sem ráðherra.

Samantekt og ályktun.
    Með vísan til þess sem að framan greinir telja flutningsmenn þessarar tillögu það sem fram er komið nægilegt og líklegt til sakfellis fyrrverandi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra og því beri þeim skylda til að flytja þingsályktunartillögu þessa.
Neðanmálsgrein: 1
1     Rannsóknarnefnd Alþingis 2010, 7. bindi, bls. 291.
Neðanmálsgrein: 2
2     Sama heimild, 6. bindi, bls. 152.
Neðanmálsgrein: 3
3     Sama heimild, 7. bindi, bls. 306.
Neðanmálsgrein: 4
4     Sama heimild, 7. bindi, bls. 295–296.