Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 705. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1525  —  705. mál.




Breytingartillaga



við till. til þál. um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 [í skýrslu á þskj. 1501].

Frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.



    Eftirfarandi breyting verði á tillögugreininni:
    Við II. lið 8. mgr. bætist fjórir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     4.      Rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. sem fram fór á grundvelli laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum. Þannig verði rannsakað hvernig að undirbúningi og framkvæmd einkavæðingar Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. var staðið, lagt mat á hvort vikið hafi verið frá viðmiðum eða kröfum til kaupenda sem stöfuðu frá ráðherranefnd um einkavæðingu og framkvæmdanefnd um einkavæðingu, skoðað hverjir raunverulegir kaupendur bankanna voru og það gert opinbert, lagt mat á hvort kaupendur hafi í raun og veru uppfyllt viðmið eða kröfur sem fyrir lágu varðandi val á mögulegum kaupendum bankanna, hvort einstökum kaupendum hafi verið veittur afsláttur frá umsömdu kaupverði, og þá hvaða forsendur lágu slíkum afslætti til grundvallar, hverjir hafi staðið að því að verðmeta þær eignir sem inni í bönkunum voru fyrir sölu þeirra, hvernig slíku mat hafi verið háttað og hvort samræmi hafi verið á milli þess mats og þeirra raunverulegu verðmæta sem afhent voru kaupendum bankanna við einkavæðingu þeirra. Samhliða framangreindu verði gert opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf. og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, KBI hf. (síðar Arion banka hf.) og NBI hf., skýrt dregið fram hverjir eru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.
     5.      Rannsókn á sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.) og NBI hf. Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.
     6.      Rannsókn á stofnfjáraukningu sparisjóða frá gildistöku laga nr. 4/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Rannsakað verði hvernig að stofnfjáraukningunni var staðið, hvernig undirbúningi hennar var háttað og hvernig framkvæmd hennar fór fram. Leitt verði í ljós hvaða mat lá til grundvallar vali á nýjum stofnfjáraðilum, hvernig sú stofnfjáraukning var fjármögnuð og hvaða tryggingar voru að baki þeirri fjármögnun.
     7.      Rannsókn á styrkveitingum sparisjóða til stjórnmálamanna frá árinu 2004. Gert verði opinbert hvort einstakir stjórnmálamenn fengu styrki frá sparisjóðunum, beint í eigin nafni eða óbeint í nafni hluta- eða einkahlutafélags.