Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 705. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1527  —  705. mál.




Breytingartillaga



við till. til þál. um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 [í skýrslu á þskj. 1501].

Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni.



    Eftirfarandi breyting verði á tillögugreininni:
    Við II. lið 8. mgr. bætist þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     4.      Sjálfstæð og óháð rannsókn á verklagi og ákvarðanatöku íslenskra fjármálafyrirtækja frá gildistöku laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til loka ársins 2009. Rannsóknin taki til verklags og ákvarðanatöku við afskriftir krafna á hendur fyrirtækjum og hvort og hvernig birta beri afskriftir og aðra fjármálalega fyrirgreiðslu fyrirtækja.
     5.      Sjálfstæð og óháð rannsókn á ákvarðanatöku stjórnenda og stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 125/2008.
     6.      Sjálfstæð og óháð úttekt á stjórnkerfi landsins. Rannsóknin taki til starfsemi og skipulags ráðuneyta og stofnana og hafi það að markmiði að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Greinargerð.


    Lagt er til að stofnuð verði sérstök nefnd á vegum Alþingis sem rannsaki verklag og ákvarðanatöku íslenskra fjármálafyrirtækja frá gildistöku laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og til loka ársins 2009 en þá tók eftirlitsnefnd samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, til starfa. Telur flutningsmaður rétt að nefndin kanni starfsvenjur og verklagsreglur eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja og framkvæmd þeirra með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða ásamt því að kanna hvernig íslensk fjármálafyrirtæki hafa framfylgt tilmælum stjórnvalda frá 2. desember 2008, um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, og áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, um ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum. Þá telur flutningsmaður rétt, m.a. í þeim tilgangi að eyða tortryggni og grunsemdum um óeðlileg vinnubrögð innan fjármálastofnana, að lagt verði mat á hvort mistök, mismunun eða óeðlilegir starfshættir hafi átt sér stað á þessum tíma. Að öðru leyti skal rannsóknin fara fram í samræmi við önnur sjónarmið sem fram koma í frumvarpi til laga um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja á tímabilinu frá október 2008 til ársloka 2009 á þskj. 882, 504. mál.
    Lagt er til að ráðist verði í sérstaka og óháða rannsókn á ákvarðanatöku stjórnenda og stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 125/2008. Skal rannsóknin hafa það markmið að kanna lögmæti téðra ákvarðana. Nánar tiltekið er m.a. átt við ákvarðanir er snerta fjármálafyrirtækin SPRON hf., Sparisjóðabanka Íslands hf., VBS fjárfestingarbanka hf., Byr hf., Saga Capital fjárfestingarbanka hf., Askar Capital hf., Straum Burðarás fjárfestingarbanka hf., aðra sparisjóði og fjármálastofnanir.
    Lagt er til að Alþingi hlutist til um að gerð verði sjálfstæð og óháð úttekt á stjórnkerfi landsins sem taki til starfsemi og skipulags ráðuneyta og stofnana. Í ljósi þeirrar alvarlegu gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á starfshætti íslenskra stjórnvalda telur flutningsmaður eðlilegt að sérfræðingar verði fengnir til þess að leggja mat á og gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á starfrækslu og skipulagi ráðuneyta og undirstofnana. Skal markmið að baki slíkri úttekt vera að færa íslenska stjórnsýslu í átt til þess sem best gerist hvað samkeppnishæfni varðar að teknu tilliti til smæðar íslensku þjóðarinnar. Telur flutningsmaður nauðsynlegt að við framkvæmd téðrar úttektar verði lögð sérstök áhersla á að kortleggja samskipti fjármálaráðuneytisins og annarra fagráðuneyta. Þá telur flutningsmaður rétt að með téðri úttekt fari fram greining og lagt verði mat á starfshætti og skipulag hvers fagráðuneytis hvað varðar innri starfsemi, veitingu þjónustu, almennt og sértækt eftirlit á fagsviði og aðild að stjórnsýslusamningum í víðri merkingu. Skal í slíkri úttekt felast annars vegar mat á mikilvægi einstakra þátta starfseminnar, að teknu tilliti til þarfa fjölda íbúa þar að baki, og hins vegar mat á því hvar raunveruleg ábyrgð á starfseminni liggur. Einnig telur flutningsmaður rétt að ábyrgð ráðuneyta á undirstofnunum verði skýrð og skilgreind ásamt því sem boðleiðir innan stjórnsýslunnar verði kortlagðar. Mikilvægt er að læra ekki aðeins af eigin reynslu heldur einnig, og þá ekki síður, af reynslu annarra þjóða. Eins og bent er á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis virðast Íslendingar hafa á tíðum horft fram hjá þeim takmörkunum sem hljótast af því hve smá þjóðin er. Í því ljósi telur flutningsmaður æskilegt að hin sjálfstæða og óháða rannsókn verði framkvæmd af sérfræðingum sem hafa töluverða reynslu af störfum erlendis en hafi þó jafnframt víðtæka þekkingu og reynslu af því að lifa og starfa á Íslandi. Benda má á að margir Íslendingar hafa á undanförnum árum aflað sér fjölbreytilegrar starfsreynslu og menntunar erlendis og búa þar jafnvel og starfa enn. Má því samandregið segja að flutningsmaður telji þörf á því að stjórnkerfi landsins sé skoðað frá ytra sjónarhorni en slík skoðun byggist þó á forskilningi á íslenskum aðstæðum.