Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1529 —  640. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um sauðfjárveikivarnarlínur.

     1.      Hvernig hyggst ráðherra svara gagnrýni sem fram hefur komið á niðurfellingu sauðfjárveikivarnarlína á landinu með auglýsingu nr. 793/2009 í nóvember 2009?
    Það liggur fyrir að á síðastliðnu ári hefur Matvælastofnun haldið fjölmarga kynningarfundi með hagsmunaaðilum þar sem farið hefur verið yfir forsendur þeirra breytinga sem gerðar voru á sauðfjárveikivarnarlínunum og reynt að gera aðilum grein fyrir að þörf var á breytingum til að ná fram hagræðingu í viðhaldi á varnarlínukerfinu í heild, án þess að það kæmi niður á sjúkdómsástandi sauðfjárstofnsins varðandi þá búfjársjúkdóma sem valdið geta stórfelldu tjóni. Hitt liggur fyrir að nokkur gagnrýni hefur komið fram á þessar breytingar. Þannig hefur til að mynda gagnrýni verið byggð á þeim forsendum að niðurfelling girðinga mundi skapa erfiðleika við smalamennsku, sem ekki getur fallið undir verkefni ríkisins að leysa. Í slíkum tilvikum hefur hlutaðeigandi sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum verið gefinn kostur á að taka við viðhaldi girðinga. Þá ber að halda til haga að það kom sér mjög vel, eftir að gos hófst í Eyjafjallajökli og aska þaðan olli fólki og fénaði miklum erfiðleikum, að fært var að flytja á annað þúsund fjár í hreina haga austur í Skaftafellssýslu og þaðan má nú flytja féð heim aftur, þar sem búið var að leggja niður varnarlínur á þessu svæði. Fyrir ári hefði þetta ekki verið hægt.
    Ráðherra hefur frá upphafi lagt áherslu á að hafa samráð við Landssamtök sauðfjárbænda um frekari vinnslu málsins. Greinargerð samtakanna tilgreinir eftirfarandi áhersluatriði þeirra í ljósi núverandi stöðu.
    Áhersluatriði samtakanna eru skáletruð en viðbrögð ráðuneytisins koma fram að þeim loknum:
     a.      Að Reyðarfjarðarlína verði tekin upp að nýju í ljósi garnaveikitilfellis sem greindist í Fáskrúðsfirði í ársbyrjun 2010. Ráðuneytið vísar hér til svars við 2. tölul.
     b.      Girðingar sem lagðar hafa verið af sem varnarlínur og hagsmunaaðilar vilja ekki taka við verði fjarlægðar en tryggt verði fjármagn til viðhalds þeirra sem eftir standa. Ráðuneytið mun leitast við að verða við þessu eftir því sem fjárveitingar leyfa.
     c.      Gætt verði sérstaklega að verndun líflambasölusvæða í ljósi stækkunar varnarhólfa. Farið verði sérstaklega yfir ákvarðanir um niðurfellingu lína í kringum hólfin svo sem í Hornafirði. Verndun líflambasölusvæða er forgangsatriði í sauðfjárveikivörnum að mati ráðuneytisins. Umrædd niðurfelling á línum hefur verið rædd við Matvælastofnun en stofnunin telur engin fagleg rök vera fyrir því að taka upp á ný varnarlínuna í Hornafirði. Þetta mál er þó ekki enn útrætt.
     d.      Fundnar verði leiðir til þess að gera upplýsingar um sjúkdómastöðu einstakra búa aðgengilegri fyrir kaupendur líflamba, hvort sem er af sölusvæðum eða við viðskipti innan hólfs. Mögulega gæti það verið með gagnagrunni á netinu eða með því að bjóða upp á stöðluð vottorð um sjúkdómastöðu sem kaupendur gætu farið fram á af hendi seljanda. Undir þetta hefur verið tekið að hálfu ráðuneytisins og aðilar munu leggja sig fram um að gera upplýsingarnar eins aðgengilegar og unnt er.

     2.      Hefur ráðherra í hyggju að fella auglýsinguna úr gildi að hluta eða í heild, og þá sérstaklega með tilliti til Hornafjarðarlínu?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. telur Matvælastofnun ekki rök fyrir því að endurreisa Hornafjarðarlínu. Á hinn bóginn hefur verið ákveðið að endurreisa Reyðarfjarðarlínu vegna þess að upp kom garnaveiki í Fáskrúðsfirði í vetur, sunnan línunnar. Því er þörf á að gera þessa línu að aðalvarnarlínu þar sem sauðféð norðan hennar er laust við garnaveiki. Matvælastofnun hefur unnið að gerð tillögu til ráðuneytisins varðandi þessa breytingu og er hún á lokastigi. Það hefur tafið fyrir að upp kom ágreiningur við landeigendur í Reyðarfirði sem telja að upptaka téðrar línu valdi þeim tjóni hvað varðar nýtingu lands síns. Þetta mál þarf að leysa áður en hægt er að gera girðinguna að varnarlínu á ný.