Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.

Þskj. 767  —  446. mál.



Frumvarp til laga

um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.
Umsókn um greiðsluuppgjör.

    Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geta sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011.
    Umsókn skal beint til tollstjóra óháð lögheimili umsækjanda. Tollstjóra er heimilt að samþykkja umsókn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. gr.

2. gr.
Skilyrði greiðsluuppgjörs.

    Skilyrði fyrir fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. eru eftirfarandi:
     1.      Umsækjandi skal vera í skilum með aðra skatta og gjöld en þau sem tilgreind eru í 1. mgr. 1. gr. þegar umsókn er lögð fram.
     2.      Umsækjandi skal vera í skilum með alla skatta og gjöld sem gjaldfalla frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011.
     3.      Umsækjandi skal lýsa því yfir að hann muni skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda.
     4.      Umsækjandi skal við umsókn um greiðsluuppgjör skv. 1. gr. viðurkenna greiðsluskyldu vegna þeirra krafna sem frests njóta.

3. gr.
Réttaráhrif greiðsluuppgjörs.

    Dráttarvextir eru ekki lagðir á kröfur sem njóta frests til greiðsluuppgjörs á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Innheimtumaður ríkissjóðs skal skuldajafna inneignum sem myndast vegna krafna, sem hefur verið frestað skv. 1. gr., upp í þær kröfur.
    Séu fullnustugerðir hafnar vegna krafna sem njóta frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. skal innheimtumaður ríkissjóðs fresta þeim eða afturkalla þær eftir atvikum.

4. gr.
Ógilding greiðsluuppgjörs.

    Standi aðili sem nýtur frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. ekki í skilum með greiðslu skatta og opinberra gjalda sem falla í gjalddaga eftir 1. janúar 2010 fellur frestur til greiðsluuppgjörs niður og dráttarvextir reiknast á vanskil eins og frestur til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veittur.
    Verði bú aðila sem nýtur frests til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr. tekið til gjaldþrotaskipta á tímabili frestsins fellur heimild til greiðsluuppgjörs niður og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild hefði ekki verið veitt.

5. gr.
Umsókn um skuldbreytingu.

    Hafi umsækjandi um greiðsluuppgjör haldið skilyrði 2. gr. fram til 1. júlí 2011 er tollstjóra heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra skatta og gjalda sem voru í fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. gr.
    Skuldabréfið skal vera til fimm ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum og með fyrstu greiðslu 1. október 2011. Skuldabréfið skal vera verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs 1. júlí 2011, en án vaxta.
    Hafi umsækjandi greiðsluuppgjörs ekki fengið álagningar byggðar á áætlunum leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 er ekki heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs skv. 1. mgr. og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og heimild til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veitt.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 31. desember 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með hruni íslensku bankanna í október 2008 var fótunum kippt undan íslensku efnahagslífi og um leið urðu kaflaskipti á nánast öllum sviðum íslensks samfélags. Óhjákvæmilegt reyndist fyrir stjórnvöld að bregðast við því ástandi sem myndaðist með róttækum aðgerðum, m.a. með neyðarlögum. Þrátt fyrir þau varð tjónið af hruninu gífurlegt, jafnt hjá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum sem fyrst og fremst birtist í vaxandi skuldavanda. Þar á gjaldeyriskreppan stóran hlut að máli. Jafnvel þó að halda megi því fram að allir þessir aðilar hafi átt að kunna fótum sínum forráð með meiri aðgætni í fjárfestingum og skuldsetningu verður ekki fram hjá því horft að ákvarðanir þeirra voru teknar við allt aðrar efnahagsaðstæður sem engan óraði fyrir að gætu breyst nánast á einni nóttu. Óvenjulegar aðstæður kalla því oftar en ekki á óvenjulegar tillögur til úrbóta.
    Þegar hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða að hálfu stjórnvalda til að létta undir með skuldsettum heimilum í samráði við fjármálastofnanir landsins. Má þar nefna eftirgjöf krafna við nauðasamninga til greiðsluaðlögunar, almennar skilmálabreytingar á húsnæðis- og bílalánum o.fl. án þess að skattskylda myndist vegna eftirgjafarinnar. Þá var skuldajöfnunarheimild barnabóta og vaxtabóta upp í vangoldna skatta og gjöld afnumin með reglugerðarbreytingu. Jafnframt hafa innheimtumenn ríkissjóðs haldið að sér höndum í hefðbundnum innheimtuaðgerðum vegna vangoldinna skatta, t.d. var lægsta viðmiðunarfjárhæð við útsendingu fjárnámsbeiðna hækkuð um 100%. Einnig stendur einstaklingum það úrræði til boða að gera greiðsluáætlun um skil á vangoldnum sköttum til hálfs árs í senn með möguleika á endurnýjun hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Þá tók fjármálaráðherra þá mikilvægu ákvörðun í lok síðasta árs að breyta greiðsluforgangi skattskulda frá og með 1. janúar 2010 þannig að greiðsla gangi fyrst upp í höfuðstól skuldar áður en kemur að greiðslu dráttarvaxta eins og verið hefur fram til þessa. Þó svo að þessi aðgerð gagnist jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum er ljóst að hún veitir þeim fyrrnefndu nýjan möguleika til þess að koma sínum persónulegu fjármálum, þ.m.t. skattgreiðslum, í eðlileg skil og dregur um leið úr svartri atvinnustarfsemi.
    Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri hafa að mestu leyti verið undanskildir í framangreindum aðgerðum. Þannig hafa innheimtumenn ríkissjóðs takmarkaðar heimildir til að beita ívilnandi innheimtuúrræðum gagnvart rekstraraðila sem ekki stendur skil á þeim sköttum sem honum ber að greiða, hvort heldur um er að ræða vörsluskatta eða skatta af viðkomandi atvinnurekstri. Fyrir liggur að mörg lífvænleg fyrirtæki berjast nú í bökkum vegna vanskila gagnvart fjármálastofnunum, opinberum aðilum og öðrum kröfuhöfum og fátt annað sem blasir við en gjaldþrot. Samkvæmt upplýsingum frá innheimtumönnum ríkissjóðs er nú farið að bera á auknum vanskilum, m.a. á virðisaukaskatti, hjá rekstraraðilum sem alltaf hafa staðið skil á sínu. Þessi þróun er stjórnvöldum sérstakt áhyggjuefni og visst merki þess að grípa þurfi til aðgerða til að sporna við þessari þróun áður en í óefni er komið. Í ljósi þess er þetta frumvarp lagt fram.
    Í frumvarpinu er lagt til að rekstraraðilum sem fyrst og fremst eru í tímabundnum greiðsluvandræðum verði gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum þann 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011 án frekari viðurlaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Standist viðkomandi aðili þau skilyrði verða vanskilin sett á skuldabréf til fimm ára með verðbótum en án vaxta. Vonir standa til að slíkt úrræði geti hjálpað lífvænlegum fyrirtækjum yfir versta hjallann og þar með tryggt þeim ákveðið rekstraröryggi næstu mánuði.

Fjármálaráðuneytið, 16. febr. 2010
tekju- og skattaskrifstofa:
Skattskuldir í atvinnurekstri.
Miðað við 1. janúar 2010.
Í milljónum króna Samtals Gjaldþrota-
meðferð
Mögulegur
greiðslufrestur
%
I.    Einstaklingar í rekstri 28.109 1.538 26.571 100,0
    –    Þinggjöld 14.000 623 13.377 50,3
    –    Virðisaukaskattur 11.228 691 10.537 39,7
    –    Staðgreiðsla tekjuskatts 1.226 70 1.156 4,4
    –    Tryggingagjald 1.257 70 1.187 4,5
    –    Aðrir skattar og gjöld 398 84 314 1,2
II.    Lögaðilar 83.655 38.328 45.327 100,0
    –    Þinggjöld 42.105 15.907 26.198 57,8
    –    Virðisaukaskattur 20.793 10.404 10.389 22,9
    –    Staðgreiðsla tekjuskatts 11.008 6.094 4.914 10,8
    –    Tryggingagjald 6.005 4.138 1.867 4,1
    –    Aðrir skattar og gjöld 3.744 1.785 1.959 4,3
III.    Atvinnurekstur alls 111.764 39.866 71.898 100,0
    –    Þinggjöld, virðisaukaskattur o.fl. 107.622 37.997 69.625 96,8
    –    Aðrir skattar og gjöld 4.142 1.869 2.273 3,2

    Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra námu vanskil skatta og gjalda hjá lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri samtals 111,8 milljörðum króna í byrjun árs 2010 eins og fram kemur í töflunni hér að framan. Tæplega 40 milljarðar króna, eða 35,7%, tilheyra rekstraraðilum sem eru komnir í gjaldþrotameðferð og koma þar með ekki til álita varðandi mögulegan greiðslufrest. Eftir standa um 72 milljarðar króna, en af þeirri fjárhæð eru um 70 milljarðar króna sem taka þarf afstöðu til samkvæmt tillögum frumvarpsins sé gengið út frá því að allir þeir sem voru með einhver vanskil um síðustu áramót sæki um frest til greiðsluuppgjörs. Ljóst er að umtalsverður hluti þeirra fjárhæðar er til kominn vegna áætlunar og muni því lækka þegar til endurálagningar kemur.
    Erfitt er að leggja á það nákvæmt mat hvaða fjárhagslegu hagsmunir eru í húfi fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum. Ljóst er að aðeins hluti fyrrgreindrar fjárhæðar verður innheimtur að óbreyttu, eða 20–30% miðað við reynslutölur síðari ára. Með þessu úrræði er hins vegar verið að gefa eftir vaxtagreiðslur í allt að 18 mánuði til að byrja með, auk vaxta af útgefnu skuldabréfi í allt að fimm ár, en á móti kæmi ef að líkum lætur bætt höfuðstólsinnheimta og sterkari rekstraraðilar sem skila ættu auknum sköttum í framtíðinni.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram annað frumvarp þar sem lagt er til að vanskil á vörslusköttum, þ.e. staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars og virðisaukaskatts, verði gerð að forgangskröfum að nýju við gjaldþrotaskipti. Um leið og ívilnandi innheimtuaðgerðir eru heimilaðar við innheimtu skatta og gjalda til að koma til móts við skuldsetta aðila er ætlunin að tryggja betur kröfur ríkissjóðs við gjaldþrotaskipti. Þannig er lagt til að lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt verði breytt á þann veg að kröfur samkvæmt þeim njóti forgangs við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum og verði skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Innan skamms mun fjármálaráðherra einnig leggja fram frumvarp um úrræði varðandi skattalega meðferð á afskrifuðum skuldum, bæði hjá rekstraraðilum og einstaklingum.
    Allt frá seinni hluta ársins 2008 hafa innheimtumenn ríkissjóðs ekki beitt ítrustu innheimtuúrræðum vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Gengið er út frá því að ef lögfestar verða þær miklu ívilnanir sem felast í þessu frumvarpi þá eigi innheimtumenn ríkissjóðs að beita öllum lögboðnum innheimtuúrræðum vegna vanskila, þ.m.t. að stöðva atvinnurekstur þeirra sem ekki standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda eða virðisaukaskatti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Heimild til að fresta greiðsluuppgjöri er einskorðuð við lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Með einstaklingum í atvinnurekstri er átt við að umfang rekstursins sé það mikið að þeir séu í tveggja mánaða skilum í virðisaukaskatti en ekki í ársskilum. Þegar virðisaukaskattsskyld velta fer yfir 1.400.000 kr. er skattaðila heimilt að vera í tveggja mánaða skilum. Heimildin mun því ekki ná til þeirra einstaklinga sem ná ekki umræddum mörkum enda hafa þeir í fæstum tilvikum lifibrauð sitt af slíkum rekstri. Hingað til hafa ekki verið lögfest sérstök úrræði vegna greiðsluerfiðleika fyrir aðila í atvinnurekstri vegna vanskila á opinberum gjöldum nema að óverulegu leyti, en með þessu frumvarpi er lagt til að úr því verði bætt.
    Lagt er til að greiðsluuppgjörið nái eingöngu til þeirra skatttegunda sem tilgreindar eru í greininni. Ástæðan er sú að þessir skattar vega hvað þyngst í vanskilum aðila í atvinnurekstri eins og fram kemur í almennum athugasemdum. Þá má nefna sérstaklega að vanskilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda fylgir auk dráttarvaxta vanskilaálag sem getur orðið allt að 10% fjárhæðarinnar. Auk þess er innheimtumanni ríkissjóðs heimilt að láta stöðva atvinnurekstur vegna vanskila á þessum sköttum.
    Undir þing- og sveitarsjóðsgjöld falla ýmsir skattar og gjöld sem lögð eru á með vísan til laga nr. 90/2003, um tekjuskatt: Tekjuskattur, útsvar, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjald, fjármagnstekjuskattur, slysatrygging við heimilisstörf, búnaðargjald og iðnaðarmálagjald.
    Tollstjóra er falið að veita frest til greiðsluuppgjörs samkvæmt ákvæðinu, en fjármálaráðuneytið hefur þegar falið tollstjóra sérstakt eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk á sviði innheimtu skatta og gjalda, sbr. erindisbréf hans frá 16. janúar 1998. Mikilvægt er að umsjón þessa úrræðis sé í höndum eins aðila þannig að tryggt sé að framkvæmdin sé samræmd. Við framkvæmd frestsins mun tollstjóri hafa samband við viðkomandi innheimtumann ríkissjóðs og hlutast til um að hann afturkalli og fresti fullnustugerðum eftir atvikum. Tollstjóri mun í samvinnu við Fjársýslu ríkisins sjá um að útbúið verði rafrænt umsóknareyðublað vegna úrræðisins. Ákvarðanir tollstjóra eru kæranlegar til fjármálaráðuneytisins samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar.
    Vanskilainnheimta hjá þeim aðilum sem ekki sækja um frest til greiðsluuppgjörs samkvæmt þessari heimild eða uppfylla ekki skilyrði til að fá slíkan frest verður í samræmi við lög og verklagsreglur tollstjóra.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu koma fram skilyrði fyrir því að unnt sé að fá greiðslufrest.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skilyrði fyrir því að fá frest til greiðsluuppgjörs sé að umsækjandi sé í skilum með greiðslu allra annarra skatta en þeirra sem frestur tekur til skv. 1. gr. þegar fresturinn er veittur.
    Í öðru lagi þarf umsækjandi þarf að standa í skilum með skatta sem gjaldfalla á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Í ákvæðinu er því gerð rík krafa til þeirra sem fá frest til greiðsluuppgjörs um að standa í skilum við ríkissjóð með öll gjöld sem gjaldfalla á fresttímabili. Með sköttum og gjöldum er átt við alla þá skatta og gjöld sem innheimt eru af innheimtumanni ríkissjóðs.
    Í þriðja lagi er lagt til að aðili sem ekki hefur sinnt lögboðnum skýrsluskilum lýsi því yfir að hann muni bæta úr þeim. Skv. 5. gr. frumvarpsins verða skattyfirvöld að hafa lokið álagningu skatta á grundvelli innsendra skýrslna og skilagreina fyrir 1. júlí 2011 til að umsækjandi geti fengið heimild til útgáfu skuldabréfs. Gera má ríkar kröfur til umsækjanda varðandi úrbætur á framtals- og skýrsluskilum þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir mikilli ívilnun honum til handa. Ætla má að skilyrðið stuðli að bættum skýrslu- og framtalsskilum sem leiða til betri skatt- og innheimtuframkvæmdar.
    Í fjórða lagi er lagt til að umsækjandi viðurkenni greiðsluskyldu sína og rjúfi þannig fyrningu krafna. Að öðrum kosti gæti ríkissjóður tapað kröfum meðan á fresti stendur. Slíkt væri óeðlilegt enda felur úrræðið í sér mikla ívilnun umsækjanda til handa.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er um eins konar frystingu að ræða vegna skatta sem gjaldfallnir eru fyrir 1. janúar 2010. Ef umsækjandi heldur skilyrði úrræðisins er lagt til að dráttarvextir falli ekki til á fresttímabili. Haldi umsækjandi ekki skilyrði þá leggjast dráttarvextir á kröfur til greiðsludags eins og aldrei hafi til frestunar komið.
    Komi til inneignar vegna þeirra gjalda sem frests njóta, t.d. vegna skattbreytinga, er lagt til að þeim verði skuldajafnað upp í frestskröfur. Sem dæmi má nefna að inneign myndast á fyrsta tímabili virðisaukaskatts 2009 vegna skattbreytingar og yrði þá ekki heimilt að greiða þá inneign út heldur yrði henni skuldajafnað upp í önnur gjöld sem eru í fresti skv. 1. gr. Inneignir sem myndast vegna tímabila sem gjaldfalla eftir 1. janúar 2010 til 1. júlí 2011 yrði hins vegar ekki skuldajafnað upp í kröfur sem njóta frests. Inneign sem kæmi til t.d. vegna virðisaukaskattstímabilsins janúar–febrúar 2010 yrði þá ekki skuldajafnað upp í kröfur sem frests njóta heldur yrði hún greidd út til gjaldanda ef hann er í skilum með öll önnur gjöld sem gjaldfallið hafa eftir 1. janúar 2010.
    Hafi fullnustugerðir þegar verið hafnar við veitingu frests skv. 1. gr. skal innheimtumaður ríkissjóðs eftir atvikum afturkalla eða fresta þeim. Í flestum tilvikum yrði fyrirtökum aðfararbeiðna frestað hjá sýslumanni þar til sýnt er að umsækjandi fái heimild til útgáfu skuldabréfs skv. 5. gr. Hér eru hagsmunir gjaldanda hafðir að leiðarljósi. Verði fullnustugerðum fram haldið eftir niðurfellingu frests er komist hjá kostnaðarauka þar sem ekki þarf að senda nýja beiðni með tilheyrandi kostnaði.
    Þannig getur háttað til að annar aðili en innheimtumaður ríkissjóðs knýi fram nauðungarsölu á eign sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur látið gera fjárnám í. Í slíku tilviki skal innheimtumaður lýsa kröfu sinni samkvæmt aðfararveði en eingöngu með dráttarvöxtum sem hafa fallið til og með 31. desember 2009.

Um 4. gr.

    Í þessu ákvæði er lagt til að það verði ófrávíkjanlegt skilyrði að aðili sem fær frest skv. 1. gr. standi í skilum með greiðslu allra skatta og gjalda sem gjaldfalla eftir 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Standist umsækjandi ekki þetta skilyrði verður staða hans eins og aldrei hafi til frestunar komið. Fresturinn fellur sjálfkrafa úr gildi við vanskil án sérstakrar tilkynningar til umsækjanda. Dráttarvextir leggjast á vangoldnar kröfur og innheimtuaðgerðum er beitt með hefðbundnum hætti.
    Í 2. mgr. kemur fram að verði bú tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni þriðja aðila eða umsækjanda falla réttaráhrif frestsveitingarinnar niður.

Um 5. gr.

    Haldi aðili skilyrði 2. gr. frumvarpsins getur hann sótt um skuldbreytingu á þeim sköttum og gjöldum sem voru í greiðslufresti. Í skuldbreytingu felst að skattkröfurnar eru greiddar með útgáfu skuldabréfs. Umsókn um útgáfu skuldabréfs skal beina til tollstjóra.
    Samkvæmt greininni ber skuldabréfið ekki vexti. Hins vegar er kveðið á um að það skuli vera verðtryggt miðað við vísitölu neysluverð 1. júlí 2011. Þetta felur í sér að skuldari sem uppfyllir öll skilyrði laganna fær að greiða skuld sína eins og hún stóð 1. janúar 2010 með skuldabréfi til fimm ára sem er vaxtalaust en ber verðtryggingu frá 1. júlí 2011.
    Við útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra krafna sem undir frestsveitingu falla yrðu kröfurnar færðar úr tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs og eftirleiðis greiddar samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Við færslu úr tekjubókhaldskerfi ríkisins breytast kröfurnar úr skattkröfum í almennar kröfur.
    Fái umsækjandi álagningar sem byggðar eru á áætlunum ekki leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 er samkvæmt ákvæðinu óheimilt að breyta skattskuldum í skuld samkvæmt skuldabréfi. Hafa verður í huga að um víðtæka ívilnun er að ræða og miklir hagsmunir í húfi fyrir umsækjanda og ríkissjóð. Því er eðlilegt að gera strangar kröfur til umsækjenda um að þeir sýni í verki ábyrgð í atvinnurekstri og uppfylli lagaboð um skýrsluskil. Uppfylli umsækjandi ekki lagaskilyrðið leggjast dráttarvextir á kröfurnar eins og frestur hafi ekki verið veittur.
    Útgefandi skuldabréfsins, þ.e. umsækjandi, skal skila skuldabréfinu fullbúnu til tollstjóra. Umsækjandi ber allan kostnað af útgáfu þess, þar á meðal gjald fyrir stimplun þess samkvæmt lögum um stimpilgjald.

Um 6. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem eru í vanskilum með tiltekin opinber gjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geti sótt um frest á greiðslu vanskila til 1. júlí 2011. Um er að ræða virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld. Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að dráttarvextir leggist á kröfur meðan á frestun stendur. Gert er ráð fyrir að inneignir sem myndast vegna krafna sem eru í fresti verði skuldajafnaðar upp í kröfurnar. Til að fá slíkan frest þarf að vera í skilum með aðra skatta og gjöld en fresturinn tekur til. Viðkomandi þarf að staðfesta að skilagreinum og framtölum til tryggingar réttri álagningu verði skilað, auk þess sem viðurkenning á greiðsluskyldu þeirra krafna sem frests njóta liggi fyrir.
    Standist skuldari þessi skilyrði verður tollstjóra heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs til 5 ára vegna þeirra opinberu gjalda sem voru í greiðslufresti. Skuldabréfið skal vera verðtryggt en vaxtalaust með jöfnum mánaðarlegum afborgunum og með fyrstu greiðslu 1. október 2011. Standist skuldari hins vegar ekki þau skilyrði á tímabili frestunarinnar sem sett eru samkvæmt frumvarpinu eða bú hans verður tekið til gjaldþrotaskipta fellur fresturinn niður og dráttarvextir leggjast á vanskil eins og greiðslufrestur hefði ekki verið veittur.
    Að mati tollstjórans eru um 70 milljarðar króna sem voru í vanskilum hjá lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri sem gætu komið til skoðunar samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Höfuðstóll þessara krafna er rétt um 50 milljarðar króna og má varlega áætla miðað við reynslu síðustu ára að 20–30% þeirrar fjárhæðar gætu innheimst eða á bilinu 10–15 milljarðar króna. Ástæðan fyrir þetta lágu innheimtuhlutfalli er að kröfurnar byggjast að miklu leyti á áætlunum þar sem skilagreinum og framtölum hefur ekki verið skilað. Verði lögunum ekki breytt má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna dráttarvaxta af innheimtum kröfum gætu orðið um 1,5–2 milljarðar króna til viðbótar á innheimtutímabilinu miðað við stöðuna um síðustu áramót. Með þessu frumvarpi er hins vegar gert ráð fyrir því að lögaðilum og einstaklingum í rekstri sem komnir eru í vanskil verði gert kleift að vinna sig út úr erfiðleikunum til eflingar fyrir atvinnulífið og um leið aukið innheimtuhlutfallið fyrir ríkissjóð. Miðað við sömu forsendu og hér að framan, þ.e. 20–30% innheimtu af útistandandi kröfum um áramót, má reikna með að tapaðar tekjur fyrir ríkissjóð í eftirgefnum dráttarvöxtum og vöxtum af skuldabréfum gætu verið á bilinu 4–6 milljarðar króna. Þessir útreikningar eru þó háðir mikilli óvissu og er allt eins líklegt ef vel tekst til að bætt innheimta vegi upp þær fjárhæðir sem hugsanlega eru gefnar eftir vegna þessara aðgerða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður hins vegar ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.