139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku var haft eftir formanni utanríkismálanefndar í fjölmiðlum að sú staða kynni að koma upp í viðræðunum við Evrópusambandið að vegna skilyrða þess um kröfur gagnvart Íslendingum um lagabreytingar yrði viðræðunum slitið. Þetta vakti athygli mína vegna þess að þegar þingsályktunartillagan kom inn í þingið á síðasta ári, þ.e. á árinu 2009, var lagt upp með það af hálfu Vinstri grænna að þeir mundu leiða samninginn til lykta sama hvernig hann liti út og áskildu sér af þeirri ástæðu rétt til að leggjast gegn samningsniðurstöðunni. Við ræddum þetta talsvert í þingsal á þeim tíma og ég andmælti þessari nálgun, ég taldi ómögulegt að utanríkisráðherra yrði gert að skrifa undir aðildarsamninga við Evrópusambandið án þess að fyrir lægi meirihlutastuðningur á Alþingi. En menn tóku til varna og héldu því fram að þetta væri á misskilningi byggt vegna þess að það væri allt í lagi að ljúka viðræðum við Evrópusambandið svo fremi sem þjóðin hefði síðasta orðið.

Ég tel að þetta sé misskilningur. Ég tel að einstakir ráðherrar geti ekki stutt lok viðræðna um einstaka kafla í aðildarviðræðuferlinu án þess að þeir séu samþykkir því sem þar kemur fram. Þess vegna skil ég vel þá afstöðu sem birtist í þeim ummælum formanns utanríkismálanefndar að þær aðstæður kynnu að skapast að það þyrfti að slíta viðræðum.

Þetta kallar að mínu áliti á frekari skýringar. Hvort er það þannig af hálfu Vinstri grænna að samningarnir verða leiddir til lykta og þeir leggjast síðan gegn þeim eða ætla þeir að slíta viðræðunum ef upp koma atriði sem þeir eru ósáttir við? Það getur ekki verið að það verði stefna annars stjórnarflokksins að gera annaðhvort eða jafnvel hvort tveggja (Forseti hringir.) ef leiðir skilur í miðju ferlinu. Ég kalla eftir frekari skýringu frá formanni utanríkismálanefndar. Telur hann (Forseti hringir.) virkilega að utanríkisráðherra geti skrifað undir án þess að það sé meirihlutastuðningur á þinginu? Er ekki ljóst að ljúki viðræðunum (Utanrrh.: Er það ekki utanríkis…?) hljóti Vinstri grænir (Forseti hringir.) að ætla að standa að baki samningnum?