139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er um margt búið að vera athyglisvert að hlusta á þennan lið, um störf þingsins, en ég er enn að bíða eftir svari frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram. Hann flaut alveg fram hjá spurningu minni um það hvort hann teldi eðlilegt að ekki væri upplýst um söluverðmæti þeirra fyrirtækja sem hafa verið einkavædd fram til þessa. Ég hvet menn til að fylgjast með því hvort þessi ríkisstjórn, sem er að vísu búin að búa til skammaryrði úr orðunum gagnsæi og allt uppi á borðum, ætli ekki að upplýsa um söluverðmæti einkavæddra fyrirtækja.

Það er rétt hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að oftar en ekki hefur hv. þm. Magnús Orri Schram verið talsmaður skynseminnar hjá stjórnarþingmönnunum. Ef hann treystir sér ekki til að vinna því fylgi að það sé upplýst um söluverðmæti einkavæddra fyrirtækja er kannski erfitt að finna einhvern annan hv. þingmann innan stjórnarliðsins til þess.

Þá sitjum við uppi með það, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn hefur farið þá leið að upplýsa ekki um grundvallaratriði þegar kemur að einkavæðingu, þ.e. um söluverðmæti fyrirtækjanna, hvorki meira né minna. Ég ætla ekkert að rifja upp ummæli núverandi hæstv. ráðherra og þingmanna um sambærileg mál, við skulum algjörlega láta það eiga sig. Það hefur, held ég, aldrei skeð áður í Íslandssögunni að ekki hafi verið upplýst um verðmæti einkavæddra fyrirtækja, ég held að það hafi ekki hvarflað að neinum að gera það ekki fyrr en þessi ríkisstjórn kom að völdum.

Virðulegi forseti. Við ræðum þetta á morgun undir öðrum lið. Þar koma kannski skýrari svör, það er aldrei að vita.