139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðssyni, fyrir svörin. Við verðum líklega ekki sammála um þá nálgun sem hann kynnti sem sína persónulegu skoðun á því hvernig að þessu eigi að standa vegna þess að ég tel ómögulegt að samningar við Evrópusambandið verði leiddir til lykta við öll þau ríki sem þar eiga í hlut án þess að meirihlutavilji liggi fyrir á þinginu til að styðja samninginn, án þess að meiri hluti ríkisstjórnarinnar sé fyrir því að leiða slíka samninga til lykta.

Ég tel það algert grundvallaratriði að viðræðurnar og lok þeirra eigi sér ekki stað nema með stuðningi frá meiri hluta þingsins og það sé mikill tvískinnungsháttur að halda því fram að það sé eðlilegt og skynsamlegt og að það sé hægt að bjóða viðmælendum okkar upp á það að ljúka viðræðunum án þess að nokkur skýr stuðningur sé á bak við samninginn héðan frá þinginu. (Gripið fram í: Það var samþykkt.) Menn kalla fram í og segja að það hafi verið samþykkt, en það var samþykkt einmitt undir þeim orðum margra stjórnarliða að á leiðinni kynni að verða hætt við allt saman.

Mig langar síðan að gera að umtalsefni þá undirskriftasöfnun sem forsætisráðherra veitti viðtöku í gær. Ég verð að segja að mér fannst það eiginlega broslegt þegar forsætisráðherra tók við undirskriftunum með þeim orðum að þetta væri mikið fagnaðarefni fyrir hana og ríkisstjórnina vegna þess að þetta væri einmitt stefna ríkisstjórnarinnar. Hvað var verið að fara fram á? Eignarnám á HS Orku. Er það sem sagt hin nýja stefna ríkisstjórnarinnar að það eigi að fara í eignarnám á fyrirtækinu og verja yfir 30 milljörðum kr. af almannafé til að kaupa fyrirtækið? (Gripið fram í.) Ég heyri frá stjórnarliðum í þessari umræðu að sem betur fer eru nokkrir í stjórnarliðinu annarrar skoðunar. Það er auðvitað eina skynsemin í þessu að skoða lengd samninganna sem hafa verið gerðir, vekja athygli almennings á því að auðlindin er ekki (Forseti hringir.) í neinni hættu vegna þess að við höfum með lögum frá Alþingi fyrir löngu tryggt að varanlegt framsal auðlindarinnar kemur ekki til greina. (Gripið fram í.)